28.8.1999

Dagur símenntunar

Dagur símenntunar
28. ágúst 1999

Símenntun er ein veigamesta stoð þekkingarþjóðfélagsins. Í þjóðfélagi samtímans fær enginn notið sín til fulls nema afla sér menntunar og leggja rækt við hana alla ævi. Hugtakið sjálft minnir okkur á þá staðreynd, að menntun er æviverk en ekki bundin við skyldunám, framhaldsskóla eða háskóla. Símenntun byggist á nýju viðhorfi til menntunar. Einstaklingar ljúka ekki námi í eitt skipti fyrir öll heldur líta á menntun sem hluta af allri lífsgöngu sinni – frá vöggu til grafar.

Hugmyndin um dag símenntunar fæddist að þessu sinni í tillögum nefndar, sem ég skipaði á sínum tíma undir formennsku Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og skilaði skýrslu með heitinu Símenntun – afl á nýrri öld í júní 1998. Í samræmi við tillögurnar ákvað ríkisstjórnin fyrir ári, að menntamálaráðuneytið færi með yfirumsjón með símenntun í landinu. Á verksviði ráðuneytisins er að móta heildarstefnu, safna og skrá upplýsingar og hafa eftirlit, en einstök ráðuneyti hafa áfram umsjón með þeirri símenntun, sem undir þau heyra.

Undanfarin ár hefur öllum skólastigum verið skapaður nýr starfsgrundvöllur. Ný lög hafa verið sett og nýjar námskrár fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla hafa tekið gildi. Tryggð hefur verið samfella og stígandi í námi þeirra, sem fara í gegnum þessa skóla. Samkvæmt nýjum lögum hafa háskólar fengið stjórn eigin mála meira í sínar hendur en áður var.

Við gerð námskránna var sjálfstæði og ábyrgð nemenda höfð að leiðarljósi. Í leik-, grunn- og framhaldsskólum er lagður grunnur að símenntun með því að þjálfa vinnubrögð og rækta viðhorf til þess, að nám er æviverk. Mikilvægt er, að kennarar og foreldrar leggist á eitt og móti jákvæða afstöðu nemenda til þess, að námi lýkur ekki í eitt skipti fyrir öll með útskrift úr skóla. Ástæðulaust er að gleyma þeirri staðreynd, að hinir betur menntuðu sækja frekar eftir endurmenntun en hinir, sem hætta skólagöngu snemma.

Hvorki alþingi né yfirvöld skólamála taka ákvarðanir um hvaða nám menn velja sér að loknum grunnskóla. Mestu skiptir, að þessir aðilar skapi almennt góðar aðstæður til náms á öllum skólastigum og leggi síðan sitt af mörkum til að auðvelda símenntun.

Við skilgreiningu á námi vísar hugtakið símenntun ekki til neins eins þáttar skipulagðs fræðslustarfs heldur þátttöku fólks í margvíslegu skóla- og fræðslustarfi. Þegar rætt er um símenntun er ekki verið að lýsa menntakerfinu heldur þjóðfélaginu, hvort þar sé almennur áhugi á menntun eftir skóla. Ábyrgðin á símenntun skiptist á stjórnvöld, atvinnulífið og einstaklinga. Stjórnvöld bera allan eða meginþunga kostnaðar við nám í skólum en hin fjárhagslega byrði vegna símenntunar hvílir að mestu á öðrum.

Vaxandi hlutur símenntunar hlýtur að hafa áhrif á skipulag náms í skólum. Við úttekt á kennaranámi hér á landi töldu erlendir sérfræðingar til dæmis ekki skynsamlegt að það yrði almennt lengra en þrjú ár. Skipuleggja ætti þriggja ára námstíma í háskóla sem best og leggja síðan mikla áherslu á endurmenntun eða símenntun kennara.

Þessi ráð eiga við um fleiri svið. Við sjáum það einnig, að háskólar eru í vaxandi mæli að bjóða stutt starfstengt nám, sem síðan er unnt að dýpka með endurmenntun og símenntun.

Inntak starfa breytist í tímans rás, þótt heiti starfsgreina sé hið sama. Blaðamennska krefst til dæmis allt annarrar kunnáttu núna en þegar prentarar settu allt í blý, sem blaðamenn höfðu áður fest á pappír. Nú gefa menn út blöð án þess að sjá nokkurt orð á pappír, fyrr en blaðið kemur úr prentvélinni. Líklegt er, að kröfur á þekkingaröldinni hafi meiri áhrif á inntak kennarastarfsins en flest önnur, sem hafa haldist lítið breytt um langan aldur. Ástæðurnar fyrir því eru margar. Upplýsingatæknin vegur þó þyngst.

Þeir, sem hafa kynnt sér hinar nýju námskrár, sjá, að þar skipta tölvur og kennsluhugbúnaður miklu í öllum námsgreinum. Jafnframt er sett fram það markmið, að enginn útskrifist úr grunnskóla án þess að kunna á lyklaborðið og þekki helstu forrit til að geta nýtt sér tölvur til nokkurs gagns.

Áhugi á tölvum og útbreiðsla þeirra er meiri hér en í flestum löndum. Meira en 80% þjóðarinnar hefur aðgang að netinu, sem er langtum hærra hlutfall en almennt gerist. Íslenska skólakerfið er einnig í fararbroddi að þessu leyti og hingað sækja margir hugmyndir um tölvuvæðingu skóla.

Ég er þeirrar skoðunar, að tímabært sé að stíga nýtt skref á þessu sviði. Það beri að setja sér það markmið, að allir framhaldsskólanemar eignist fartölvu, með opinberum stuðningi, ef nauðsyn krefst. Þeir noti tölvuna jafnt í skólum og heima hjá sér. Tölvurnar verði með öðrum orðum hluti af hinum venjulega skólabúnaði nemandans eins og pennastokkurinn eða skólataskan. Raunar má sjá það fyrir sér, að tölvan komi í stað hvoru tveggja.

Mörg rök hníga að því að skynsamlegt sé að setja sér þetta markmið, bæði þegar litið er til kennsluhátta og útgjalda til skólamála. Hér ætti ekki endilega að vera um útgjaldaauka að ræða, heldur nýja og árangursríkari nýtingu á opinberu fé. Hitt skiptir þó meiru, að með því að auka þannig hlut tölvunnar enn frekar í öllu námi og starfi er nemendum auðveldað að stunda nám alla ævi sína.

Fólk lærir ekki á tölvu, af því að það veitir hverjum og einum ánægju og lífsfyllingu, heldur vegna þess að enginn kemst lengur sæmilega af í nútímasamfélagi án tölvukunnáttu. Hið sama má segja um tungumálanám. Menn stunda það ekki lengur til að geta lesið erlendar bókmenntir á frummálinu eða ferðast til fjarlægra landa og talað mál innfæddra. Tungumálakunnátta er núna forsenda þess, að menn geti notið sífellt meiri fjölmiðlunar á öllum tungum, sinnt æ fleiri störfum og skapað sér það frjálsræði, sem þeir kjósa við val á starfi eða búsetu.

Við lifum á tímum örra breytinga. Þess er krafist af okkur að skynja og skilja þessar breytingar í alþjóðlegu samhengi. Upplýsingatæknin auðveldar þetta. Hún veldur því, að menn þurfa ekki að fara í skólahúsnæði til að afla sér menntunar. Hvar sem er geta þeir sest niður við síma og tölvu og tengst upplýsingalind eða menntastofnun. Öll landamæri hverfa, heimurinn er ekki aðeins orðinn að þorpi heldur einum skóla.

Símenntun og fjarkennsla með tölvum falla í sama farveg hjá öllum, sem sinna báðum þessum verkefnum. Þetta á ekki síður við um menntamálaráðuneytið en skóla eða hinar nýju, sjálfsprottnu menntastofnanir, símenntunar- og fræðslumiðstöðvarnar, sem hafa komið til sögunnar undanfarin misseri.

Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum reið á vaðið í ársbyrjun 1998 síðan kom Fræðslunet Austurlands til sögunnar, í febrúar á þessu ári miðstöð á Vesturlandi, sömu sögu er að segja um samstarfsvettvang um fjarkennslu og símenntun á Norðurlandi vestra. Í dag verða þrjár fræðslumiðstöðvar stofnaðar það er á Vestfjörðum, í Þingeyjarsýslum og á Suðurlandi. Framhaldsskólar og háskólar koma að starfi þessara miðstöðva með sveitarfélögum og aðilum vinnumarkaðarins. Alþingi samþykkti fjáveitingar til þessa nýmælis í fyrsta sinn á þessu ári og er ástæða til að binda vonir við, að framhald verði á fjárhagslegum stuðningi ríkisvaldsins við miðstöðvarnar.

Menntamálaráðuneytið hefur eftirlit með starfi miðstöðvanna og er eðlilegt, að opinbert fé renni til þeirra á grundvelli samninga, sem ráðuneytið gerir við hvern aðila fyrir sig. Af hálfu ríkisvaldsins virðist skynsamlegt að auglýsa eftir umsóknum um styrki á grundvelli verkefnaáætlana miðstöðvanna, því að umsvif þeirra verða óhjákvæmilega mismunandi eftir mannfjölda, aðstæðum og áhuga á hverjum stað. Markmiðið er, að stöðvarnar verði aðeins að nokkrum hluta kostaðar af skattfé almennings á grundvelli samninga. Miklu skiptir, að sveitarfélög, fyrirtæki á viðkomandi svæði og launþegasamtök skapi miðstöðvunum tekjur með því að láta þær sjá um endurmenntun starfsmanna sinna og styrki þannig rekstrargrundvöll þeirra. Miðstöðvunum hefur verið lýst þannig, að þær séu umboðsaðilar fyrir menntun, sem fengin er frá öðrum auk þess sem þær sérhanna námskeið fyrir þá, sem þess þurfa. Þannig veita þær bæði einstaklingum og fyrirtækjum þjónustu. Námskeiðagjöld og þóknum fyrir þessa þjónustu skapa stöðvunum sértekjur. Marka þarf stefnu um hvernig sinna á fjarnemendum af hálfu stjórnvalda.

Miðstöðvarnar hafa stofnað til samstarfs sín á milli. Er ástæða til að fagna þeim krafti og áhuga, sem birtist í starfi þeirra. Við erum að stíga fyrstu skref á nýrri menntabraut þjóðarinnar og skiptir miklu að þar setji menn sér skýr markmið og kröfur. Öllum spurningum, sem vakna vegna þessara nýjunga í menntamálum, verður ekki svarað á svipstundu. Verður áfram unnið að því að þróa þessi spennandi verkefni og fagnar menntamálaráðuneytið frekari viðræðum og tengslum við þessa nýju samstarfsaðila.

Hinar nýju símenntunar- og fræðslumiðstöðvar koma til viðbótar við fjölmargt annað, sem er í boði á þessu sviði. Fjarkennsla á framhaldsskólastigi hefur verið að þróast hratt á undanförnum árum undir forystu Verkmenntaskólans á Akureyri. Endurmenntun hefur löngum sett svip sinn á starf margra stéttarfélaga og samstarf hefur myndast milli þeirra og skóla. Háskóli Íslands hefur staðið fyrir fjölsóttum endurmenntunarnámskeiðum. Allir háskólar í landinu bjóða nú fjarnám í einni eða annarri mynd. Kennaraháskóli Íslands ruddi brautina með fjarnámi fyrir kennara. Háskólinn á Akureyri steig næsta skref með fjarfundabúnaði og þannig má áfram telja. Einkaháskólarnir þrír, Samvinnuháskólinn í Bifröst, Visðksiptaháskólinn í Reykjavík og Listaháskóli Íslands, láta ekki heldur sitt eftir liggja á þessum sviðum. Síðast en ekki síst hafa mörg fyrirtæki séð hag sinn batna með því að fjárfesta í endurmenntun og símenntun starfsmanna sinna. Má fullyrða, að hluti hins mikla hagvaxtar í landi okkar undanfarin ár stafi beinlínis af því að einkafyrirtæki hafa styrkst verulega með betur menntuðu starfsfólki.

Reynslan sýnir, að meiri hætta er á atvinnuleysi meðal þeirra, sem hafa litla menntun en annarra. Atvinnuleysi er nú með allra minnsta móti. Eitt besta úrræðið til að koma í veg fyrir, að það vaxi að nýju er að auðvelda sem flestum að tileinka sér ný vinnubrögð með endurmenntun og símenntun. Skortur á sjálfstrausti veldur því hjá mörgum, að þeir treysta sér ekki til þess að sækjast eftir meiri menntun, eftir að hefðbundinni skólagöngu lýkur. Ég er þeirrar skoðunar, að hér sé verk að vinna. Meðal þeirra hugmynda, sem hafa verið ræddar til að koma til móts við þennan hóp er að hafa opin samræmd grunnskólapróf, sem allir gætu tekið til að kanna stöðu sína og þekkingu. Með breytingu á skipan samræmdra prófa, sem er á döfinni, verður hugað sérstaklega að þessum þætti.

Góðir áheyrendur!

Gróska í símenntun á Íslandi er mjög mikil um þessar mundir. Dagur símenntunar er haldinn til að auðvelda öllum að fá nokkra sýn yfir allt það, sem í boði er. Mikilvægt er að tryggja sem besta miðlun á haldgóðum upplýsingum og vandaða ráðgjöf til einstaklinga og fyrirtækja á þessu sviði.

Fjölmargir hafa komið að því að skipuleggja þennan dag. Menntamálaráðuneytið hefur falið sérstakri verkefnisstjórn undir formennsku Þóris Hrafnssonar að vinna að framgangi tillagna í skýrslu nefndarinnar frá 1998. Skipulag á degi símenntunar hefur hins vegar verið í höndum Hrannar Pétursdóttur framkvæmdastjóra og annarra starfsmanna MENNTAR, sem er nýstofnaður samstarfsvettvangur atvinnulífs og skóla.

Er sérstakt fagnaðarefni, hve margir koma að því að gera þennan dag eftirminnilegan bæði hér á höfuðborgarsvæðinu og um land allt. Allur undirbúningur að deginum ber vott um mikinn áhuga á þessum þætti menntamálanna. Mér finnst einnig öll kynning á deginum hafa verið fagleg og hún hefur stuðlað að málefnalegum umræðum um gildi símenntunar. Eru öllum, sem hafa lagt hönd á plóginn, færðar innilegar þakkir.

Ég vil að lokum árétta, að símenntun er ein veigamesta stoð þekkingarþjóðfélagsins. Við búum í slíku þjóðfélagi. Undanfarin ár hefur íslenska skólakerfið tekið miklum breytingum, sem mótast af nýjum kröfum. Þannig hefur verið lagður góður grunnur að enn betri menntun í upphafi nýrrar aldar. Öflug grunnmenntun í nútímalegu skólakerfi, þar sem upplýsingatækni er nýtt til hins ýtrasta, er mikilvægt framlag til að styrkja almennar forsendur símenntunar. Árangurinn ræðst af viðbrögðum hvers og eins og þjóðfélagsins alls. Þar skiptir máli, að símenntunin sé metin að verðleikum á hinum almenna vinnumarkaði bæði þegar ráðið er í störf og litið í launaumslagið. Afrakstur menntunar, rannsókna og vísinda bætir hag einstaklinga, fyrirtækja og þjóðarbúsins í heild. Aukin áhersla á þessa þætti er forsenda þess, að íslensku þjóðinni vegni vel á 21. öldinni.

Megi dagur símenntunar verða okkur hvatning til að gera enn betur á öllum sviðum menntamála og vekja enn fleiri til vitundar um þá staðreynd, að menntun er auður, sem aldrei verður frá neinum tekin.