27.8.1999

Kvikmyndahátíð í Reykjavík

Kvikmyndahátíð í Reykjavík
27. ágúst 1999

Hnattvæðing er hugtak, sem lýsir því, að heimurinn er allur að verða ein heild. Mannkynið sitji við sömu uppsprettu og fjölbreytni sé á undanhaldi. Hættan sé sú, að allir menningarstraumar renni í sama farveg. Hafa verið gerðar ýmsar ráðstafanir til að sporna við þessari þróun. UNESCO, menningar- og framfarastofnun Sameinuðu þjóðanna, hefur til dæmis sent frá sér mikið rit um hina skapandi fjölbreytni og haldið alþjóðaráðstefnu til að árétta mikilvægi hennar. Í kjölfarið hafa siglt ýmsar aðgerðir og menn af ólíku þjóðerni eru kallaðir saman til að ræða vandann. Sótti ég til dæmis ráðherrafund um málið í Kanada fyrir rúmu ári og túlkuðu margir hann á þann veg, að við ráðherrarnir værum einskonar andófsmenn gegn bandarískum menningaráhrifum.

Í grein, sem vikuritið Economist skrifaði um fundinn, var lýst efasemdum um, að rétt væri að draga upp þá mynd af hnattvæðingunni í menningarmálum, að þar yrðu allir að lúta í lægra haldi fyrir Bandaríkjamönnum. Þvert á móti mætti skilgreina ástandið þannig, að miklu fleiri hefðu miklu meiri tækifæri en nokkru sinni fyrr til að láta til sín heyra í öllum heiminum. Áhrifin byggðust ekki á því, hve þjóðir væru fjölmennar, heldur hvað þær eða einstaklingar hefðu fram að færa Var hin íslenska Björk og heimsfrægð hennar nefnd þessu til staðfestingar.

Ég tek undir þetta sjónarmið. Hnattvæðingin felst ekki í því, að einn nái yfirhöndinni heldur að fleiri geta látið að sér kveða en áður. Sumir staðir á jarðarkringlunni hafa svo meira aðdráttarafl en aðrir fyrir skapandi listamenn. Þannig hefur Hollywood orðið miðstöð kvikmyndaiðnaðarins og síðan deila menn endalaust á það, sem þaðan kemur. Stjörnurnar eru þó skærar og tekjurnar stjarnfræðilega háar, þegar vel gengur.

Víst er, að tölfræði um myndir í íslenskum kvikmyndahúsum sýnir, að hingað koma flestar myndir frá Bandaríkjunum. Frumsýningar eru auk þess fleiri hér en í mörgum miklu fjölmennari löndum og hlutfallslega fleiri fara hér í bíó en almennt í Evrópu. Af þessu má draga þá ályktun, að bandarísk áhrif hljóti að móta íslenska kvikmyndagerð og þá, sem við hana starfa.

Íslenskar kvikmyndir eru þó alls ekki eftirgerð bandarískra mynda. Þvert á móti hefur tekist að þróa í fámennu þjóðfélagi okkar sérstæðan kvikmyndastíl, sem byggist meira á evrópskum áhrifum en bandarískum. Starfsumhverfi íslenskra kvikmyndagerðarmanna er á hinn bóginn að sumu leyti líkara hinu bandaríska en evrópska. Hér hafa menn ekki sett traust sitt jafn mikið á opinberan fjárstuðning, boð og bönn og víða í Evrópulöndum. Samt hefur tekist samkomulag um það, hvernig staðið verður að opinberum fjárveitingum til kvikmyndagerðar næstu árin. Þá hafa verið skapaðar nýjar forsendur til að laða hingað erlenda kvikmyndagerðarmenn með skattaívilnun.

Fyrir lok þessa árs eigum við eftir að sjá margar íslenskar kvikmyndir frumsýndar. Er það fagnaðarefni, því að markaður fyrir kvikmyndir og annað myndefni eykst jafnt og þétt með sífellt betri tækni til að miðla þessu efni í sjónvarpi og tölvum. Nauðsynlegt er, að fjölbreytni verði þar sem mest og opinber afskipti sem minnst.

Kvikmyndahátíð í Reykjavík er kærkominn vettvangur til að kynnast hinni miklu fjölbreytni. Hún staðfestir enn, að hnattvæðing felur það ekki í sér, að einn nær sjálfkrafa undirtökum. Við getum öll látið rödd okkar heyrast, ef við höfum hæfileika, áræði og dugnað.

Á kvikmyndahátíðinni að þessu sinni sýna margir framúrskarandi listamenn, hverju þeir hafa fengið áorkað. Sumir sýna okkur þann heiður að sitja hátíðina, sem gefur henni enn meira gildi. Í kvöld fögnum við því sérstaklega að hafa Emir Kusturica og tónlistarmennina í „No Smoking Band" hér með okkur.

Ég óska aðstandendum Kvikmyndahátíðar í Reykjavík til hamingju með framtakið og vona, að sem flestir nýti sér þetta góða tækifæri til auðga anda sinn og stækka sjóndeildarhringinn.

Kvikmyndahátíð í Reykjavík árið 1999 er sett.