31.12.2006

Traust í garð lögreglumanna.

Grein í Lögreglumanninum 3. tbl. 2006.

Um næstu áramót verða miklar breytingar á skipan

lögreglumála. Stækkun lögregluumdæma hefur lengi

verið á döfinni, en það var ekki fyrr en 2. júní 2006,

sem Alþingi samþykkti lög um að hrinda henni í

framkvæmd.

 

Ég hef haft mikla ánægju af því að vinna að þessu

máli síðan ég tók við embætti dóms- og kirkjumálaráðherra

vorið 2003. Ég hafði ekki verið lengi við

störf, þegar fulltrúar Landssambands lögreglumanna

komu á minni fund og lýstu áhuga sínum á breytingum

í því skyni að stækka lögregluumdæmin. Haustið

2003 kynnti ég hugmyndir mínar um þetta efni á fundi

sýslumanna og sagði jafnframt, að markmið mitt væri

ekki að leggja niður sýslumannsembætti.

Ég átti þess einnig kost að ræða málið á fundi með

forystumönnum lögreglumanna all staðar af landinu

og fékk þar enn staðfestingu á víðtækum stuðningi í

þeim hópi við það.

 

Reynsla mín af því að hrinda breytingum af þessu

tagi í framkvæmd hafði kennt mér, að það tækist aðeins,

ef hið hæfasta fólk kæmi að því. Tvær nefndir

unnu að málinu og voru báðar undir formennsku

Stefáns Eiríkssonar, skrifstofustjóra í dóms- og

kirkjumálaráðuneytinu, en ég skipaði hann síðan lögreglustjóra

á höfuðborgarsvæðinu sumarið 2006, eftir

að Alþingi hafði samþykkt tillögurnar um breytingar.

Þau Skúli Magnússon héraðsdómari og Ragnheiður

Ríkharðsdóttir bæjarstjóri voru með Stefáni í fyrri

nefndinni, verkefnisstjórn, sem skrifaði gagnmerka

skýrslu um málið. Síðan komu þeir Óskar Bjartmarz,

þáverandi formaður Landssambands lögreglumanna,

og Kjartan Þorkelsson, sýslumaður á Hvolsvelli, að

verkinu með Stefáni í framkvæmdanefnd, sem ég

skipaði til að vinna úr tillögum verkefnisstjórnarinnar.

Þeir fóru um land allt og efndu til funda til að

kynna málið og kynnast viðhorfum lögreglumanna,

sveitarstjórnarmanna og annarra, sem létu sig breytingarnar

varða. Við svo búið tók ég ákvörðun mína

snemma árs 2006, lagði hana fyrir ríkisstjórn og síðan

Alþingi sem frumvarp til laga.

 

Lögregluskóli ríkisins gaf mér tækifæri til að ræða

viðfangsefnið og lýsa breytingaferlinu í fyrirlestri

í stjórnunarnámi skólans. Í raun er ómetanlegt fyrir

þá, sem eru að vinna að breytingum, hvort sem er

innan stjórnsýslunnar eða á öðrum vettvangi, að eiga

þess kost að varpa hugmyndum fram til fræðilegrar

umræðu og átta sig á viðbrögðum, áður en teknar eru

ákvarðanir. Það leiðir meðal annars í ljós yfir hvaða

þröskulda er nauðsynlegt að komast, svo að unnt sé

að ná takmarkinu. Í ferlinu sannfærðist ég um, að

rétt var að skilja á milli þess að fækka sýslumönnum

og stækka lögregluumdæmin. Ég vann einnig að því

á sama tíma að finna leiðir til að fjölga verkefnum

sýslumanna og kynnti hugmyndir um það efni og er

þær meðal annars að finna í frumvarpi til laga, sem nú

er til meðferðar á Alþingi. Stærsta einstaka verkefnið

hefur verið að stofna Innheimtumiðstöð sekta og sakarkostnaðar

hjá sýslumannsembættinu á Blönduósi

og er það nú í höfn.

 

Hér er ekki ætlun mín að rekja einstaka þætti þessara

breytinga. Ég minnist þess af fundi mínum með forystumönnum

lögreglumanna, að einn fundarmanna

utan af landi hafði á orði, að þar teldu menn ekki

ástæðu til að vinna að stækkun umdæma, ef ekkert

ætti að gera á höfuðborgarsvæðinu. Eins og kunnugt

er verður eitt lögreglulið á höfuðborgarsvæðinu og

hefur markvisst verið unnið að því að undirbúa sameininguna

undanfarna mánuði. Skipan yfirstjórnar

hefur verið ákveðin og skipurit hefur verið kynnt.

Í lögunum, sem samþykkt voru 2. júní 2006, er að

finna ákvæði um fleiri breytingar en á lögregluumdæmunum.

Sú grein frumvarpsins, sem vakti mestar

umræður, snerist um greiningardeild ríkislögreglustjóra

og þá auknu áherslu, sem lögð er á greiningu og

mat á áhættu með lögunum. Eftir að frumvarpið varð

að lögum og eftir að ég kynnti skýrslu sérfræðinga

ráðherraráðs Evrópusambandsins í hryðjuverkavörnum

um slíkar varnir hér á landi, hefur verið unnið að

því undir forystu ríkislögreglustjóra að endurskipuleggja

embætti hans með þessar nýju áherslur á greiningu

og áhættumat að leiðarljósi.

 

Skýrsla með tillögum nefndar undir formennsku

ríkislögreglustjóra um þetta efni var kynnt snemma

í október og fellur hún í senn að framkvæmd laganna

frá 2. júní, skýrslu sérfræðinga Evrópusambandsins

og yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 26. september

2006 í tilefni af brottför varnarliðsins, en þar var lögð

áhersla á samstarf íslenskra stofnana við erlendar

stofnanir um skipti á trúnaðarupplýsingum um öryggismál.

 

Hjá ríkislögreglustjóra hefur verið unnið að skipulagsbreytingum

í samræmi við nýju lögin, auk þess

sem tekið er mið af nýrri úttekt ríkisendurskoðunar á

embættinu. Tillögur að þessum breytingum hafa verið

kynntar mér og embættismönnum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.

Þær munu ekki síður setja svip á

framtíðarstarf lögreglunnar en stækkun umdæmanna.

Tillögurnar snúast meðal annars um að færa aukin

verkefni frá ráðuneytinu til embættis ríkislögreglustjóra.

Í því sambandi skiptir miklu, að gerður

verði árangursstjórnunarsamningur við embættið, auk

þess sem kynnt verði löggæsluáætlun en um hana var

meðal annars fjallað í skýrslu verkefnisstjórnarinnar

um nýskipan lögreglumála. Að þessum málum er nú

unnið.

 

Landssamband lögreglumanna hefur lagt ríka

áherslu á það undanfarið, að unnið verði að öryggi

lögreglumanna. Um þetta mál var rætt utan dagskrár á

Alþingi hinn 1. nóvember, þegar Þórunn Sveinbjarnardóttir,

þingmaður Samfylkingarinnar, vakti máls

á umræðum um vopnaburð lögreglumanna. Í ræðu

minni af þessu tilefni sagði ég:

 

„Landssamband lögreglumanna vakti athygli dómsmálaráðuneytisins

á því í lok síðasta árs að meðferð

og úrvinnsla mála er varðar hótanir og ofbeldi gegn

lögreglumönnum væri ekki í nógu góðum farvegi og

var m.a. vísað til þess að ákveðins þekkingarleysis og

áhugaleysis gætti við meðferð slíkra mála.

Þá hefur embætti ríkislögreglustjóra komið að vinnu

vegna starfsumhverfis lögreglumanna. Þar á meðal

unnið að úttekt á rannsóknum lögreglu vegna meintra

brota gegn 106. gr. almennra hegningarlaga, unnið að

gerð tillagna um skipuleg viðbrögð við alvarlegum

áföllum sem lögreglumenn verða fyrir í starfi og lýst

viðhorfum sínum til 106. gr. almennra hegningarlaga

og mála er varða mótþróa við handtökuaðgerðir.

 

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefur á undanförnum

mánuðum unnið að samantekt um lagaumhverfi

þessara brota og litið m.a. til réttarumhverfis í Danmörku

og Noregi í vinnu sinni. Hefur samantekt ráðuneytisins

þar sem lýst er tillögum til úrbóta verið send

refsiréttarnefnd sem nú fjallar um 106. gr. almennra

hegningarlaga með það að markmiði að vinna að gerð

frumvarps til breytinga á ákvæðinu.

 

Helstu tillögur til úrbóta að því er varðar lögreglumenn

sérstaklega felast í því að hækka refsiramma

1. mgr. 106. gr. ef brot gegn greininni beinist að opinberum

starfsmanni sem að lögum hefur heimild til

líkamlegrar valdbeitingar. Í slíkum tilfellum megi

beita fangelsi allt að átta árum í stað sex ára hámarks

eins og ákvæðið er nú úr garði gert. Þá felast tillögur

til úrbóta jafnframt í því að skýra nánar framsetningu

2. mgr. 106. gr. á þann veg að sá sem tálmar því á annan

hátt að lögreglumaður gegni skyldustörfum sínum

skuli sæta sektum eða fangelsi allt að einu ári.

 

Þá tel ég einnig koma til greina að skipaður verði

starfshópur fulltrúa ráðuneytisins, ákæruvaldsins, ríkislögreglustjóra,

Landssambands lögreglumanna og

eftir atvikum fulltrúa úr röðum tollvarða og fangavarða

sem vinna að gerð tillagna að verklagsreglum

um rannsókn og meðferð mála þar sem grunur leikur

á að opinber starfsmaður sem heimild hefur að lögum

til líkamlegrar valdbeitingar hafi sætt broti gegn 106.

gr. almennra hegningarlaga.

 

Það hefur lengi verið ríkjandi stefna íslensku lögreglunnar

að lögreglumenn séu óvopnaðir við almenn löggæslustörf

og hefur engin breyting orðið á þeirri stefnu

þrátt fyrir vaxandi fjölmiðlaumræðu um alvarleg mál

þar sem lögregla hefur þurft að yfirbuga vopnaða einstaklinga.

Það er skoðun mín að ekki sé ástæða til að

hverfa frá þeirri meginstefnu að hin almenna lögregla

í landinu sé óvopnuð við dagleg störf. Þessi mál eru

reglulega til umræðu hjá lögregluyfirvöldum enda

mikilvægt að lögreglan sé sjálf lykilþátttakandi í umræðunni

þar sem um starfsöryggi lögreglumanna er að

ræða.

 

Ég tel það mun betri kost að leggja áfram auknar

áherslur á uppbyggingu sérsveitar lögreglunnar, en

á undanförnum árum hefur sérsveitarmönnum verið

fjölgað ásamt því sem markvisst hefur verið hugað að

þjálfun sérsveitarmanna. Hefur verið unnið að uppbyggingu

sérsveitarinnar í góðri sátt við helstu hagsmunaaðila.

Sérsveitin hefur verið efld á síðustu þremur

árum. Frá 1. nóvember eru um 45 menn í henni, þar af

36 á höfuðborgarsvæðinu, fjórir á Akureyri og fimm á

Suðurnesjum. Sérsveitin hefur frá 1992 haft vopnabúnað

með í útkallsbifreið.

 

Vegna fámennis í sérsveitinni var áður fyrr ekki alltaf

unnt að tryggja að sérsveitarmenn væru á vakt en nú

hefur verið bætt úr því þannig að ávallt eru að lágmarki

tveir sérsveitarmenn á vakt allan sólarhringinn.

Sérsveitin var stofnuð árið 1982 og fram til 1992 kom

iðulega til þess að ræsa þurfti út alla sveitina vegna

vopnamála. Árið 1992 var því fyrirkomulagi breytt í

þá veru að sérsveitin mannaði útkallsbifreið á vöktum

sem leiddi til þess að oft tókst að leysa mál á frumstigi

án þess að kæmi til allsherjarútkalls sveitarinnar.

Engin breyting hefur orðið á eðli starfa sérsveitarinnar

frá 1992.

 

Með fjölgun sérsveitarmanna hefur hins vegar verið

tryggt að ávallt séu sérsveitarmenn til staðar. Auk þess

tryggir fjölgunin viðbúnað sérsveitarinnar til að takast

á við stærstu verkefni. Vegna fjölgunarinnar geta verið

allt að 12 sérsveitarmenn á vakt á næturvöktum um

helgar.

 

Sérsveitin gerir út útkallsbifreiðir frá höfuðborgarsvæðinu

og nær eftirlitssvæðið til Keflavíkur, Selfoss

og Borgarness. Þá eru gerðar út útkallsbifreiðir frá

Akureyri og Keflavíkurflugvelli. Fjarskiptamiðstöð

lögreglu stýrir útkallsliðinu til starfa þar sem þörfin er

mest hverju sinni. Sérsveitin er þannig hreyfanlegur

liðsstyrkur lögreglunnar sem er óbundin af umdæmamörkum.

Þá er fyrirvaralaust hægt að senda sérsveitarmenn

um allt land þegar á þarf að halda.“

 

Umræður á Alþingi um lögreglumálin þennan dag

voru á allt annan veg en til dæmis í mars árið 2004,

þegar rætt var um eflingu sérsveitar lögreglunnar og

menn töldu þær ráðstafanir greinlega staðfestingu á

einhverri þráhyggju hjá mér, sem miðaði að því að

koma á laggirnar íslenskum her eða vegna þess að ég

hefði horft á of margar kvikmyndir með Bruce Willis!

 

Þingmenn eru ekki lengur að fjargviðrast yfir því, að

sérsveitin hafi verið efld. Í hópi ræðumanna 1. nóvember

var að vísu einn ungur varaþingmaður, sem taldi

það til marks um óþarfa vígvæðingu lögreglunnar, að

hún hefði aðgang að vopnum. Af því tilefni minnti ég

á það í seinni ræðu minni, að alveg frá fyrstu tíð hefðu

íslenskir lögreglumenn haft aðgang að vopnum. Þeir

hefðu æft skotfimi og verið þjálfaðir í meðferð skotvopna.

Í lögreglustöðvum ættu menn að hafa aðgang

að vopnum og þeim búnaði, sem nauðsynlegur væri

til að gæta síns öryggis. Það væri algjör misskilningur

og fáfræði að láta eins og Alþingi hefði ekki áður rætt

um vopnabúnað lögreglumanna. Það væri ekki verið

að vígvæða lögregluna. Það væri verið að tryggja öryggi

lögreglunnar og tryggja öryggi borgaranna.

 

Það gæti orðið forvitnilegt rannsóknarefni að kanna

breytingar á viðhorfum þingmanna til lögreglumála

undanfarin ár og ekki síst til greiningardeildarinnar

á vorþinginu 2006. Þar geta menn áttað sig á því,

hvernig fordómar breytast í skilning með umræðum

og fræðslu. Ég er viss um, að hið sama gerist í umræðum

um öryggis- og greiningarþjónustu innan

embættis ríkislögreglustjóra. Það er sjálfstæða deild,

sem lúti eftirliti nefndar alþingismanna, eins og lagt

er til í nefndarskýrslu ríkislögreglustjóra og kynnt

hefur verið.

 

Þegar öryggis- og greiningarþjónustan hefur verið

stofnuð, verður hér til sambærilegt opinbert öryggiskerfi

á vegum lögreglu og yfirvalda hennar og er við

lýði í öðrum löndum. Þá verður einnig búið þannig

um hnúta, að íslenska ríkið ræður yfir þeim tækjum,

sem nauðsynleg eru til að tryggja öryggi borgaranna.

 

Ég er stoltur yfir að hafa sætt gagnrýni fyrir að vinna

því pólitískt brautargengi, að greiningarþátturinn í

starfi lögreglunnar sé efldur. Þegar fram líða stundir,

munu menn undrast, að þetta hafi ekki verið gert fyrr.

Nú virðist andstaðan á pólitískum vettvangi byggjast

á því, að ekki hafi verið sagt nægilega mikið um hleranir

lögreglu fyrr á árum. Ég skil ekki þessa andstöðu

í ljósi þess, að með þeim hugmyndum, sem hafa verið

kynntar, er tekið af skarið um lýðræðislegt eftirit.

Eiga sagnfræðileg úrlausnarefni að koma í veg fyrir,

að búið sé í haginn fyrir framtíðina? Er það ekki einmitt

lærdómurinn, sem unnt er að draga af fortíðinni

í þessu efni, að lýðræðislegt eftirlit sé nauðsynlegt

samhliða því, sem allar lögheimildir séu skýrar?

 

Ég vil að lokum nota þetta tækifæri til að þakka

Landssambandi lögreglumanna, stjórn þess, framkvæmdastjóra

og félagsmönnum öllum gott samstarf

á liðnum árum og þá virðingu, sem mér var sýnd með

því að vera sæmdur gullmerki landssambandsins. Ég

met gullmerkið mikils og lít á það sem viðurkenningu

á því, að lögreglumönnum hafi þótt tímabært að

rætt yrði um ábyrgðarmikil störf þeirra af virðingu og

festu á stjórnmálavettvangi og ekki látið undan þeim,

sem vilja frekar ala á tortryggni en trausti í slíkum

umræðum.