1.5.1999

Aldarafmæli Jóns Leifs

Jón Leifs
Þjóðleikhúsinu 1. maí 1999.


Við komum hér saman í dag til að minnast Jóns Leifs. Við viljum þakka ómetanlegt framlag hans til íslenskrar menningar og hylla frábæra listsköpun hans. Jón Leifs náði árangri, sem stækkar Ísland og dregur að sér athygli langt út fyrir landsteinana.

Íslendingum er í blóð borið, að hluti menningarfs þeirra sé alheimseign. Fornbókmenntir okkar eru viðurkenndur hluti af heimsmenningunni. Auðveldar vitneskjan um gildi handritanna alla framgöngu þjóðarinnar.

Sjálfsmynd þjóðfélaga mótast ekki aðeins af efnahagslegum stærðum heldur miklu frekar andlegum gæðum. Þótt okkur hætti til að meta allt til fjár, dugar sú mælistika alls ekki á öll verðmæti.

Hróður og vegur einstaklinga, sem ná alheimsathygli, er mjög haldgóð vísbending um framgang einstakra þjóða. Eignist þjóð marga slíka afreksmenn styrkist sjálfsvitund hennar og jafnframt staða í samfélagi þjóðanna. Einstaklingar setja sterkasta svipmótið á söguna, en ekki nafnlaus fjöldi, hópar eða stéttir.

Jón Leifs var sterkur og skapandi einstaklingur. Hann var brautryðjandi og landnámsmaður í íslensku menningarlífi á fyrri helmingi aldarinnar. Stofnaði samtök til að gæta hagsmuna listamanna og kynnti Íslendingum tónlist með magnaðri hætti en nokkur annar hafði áður gert. Hann lét ungur verulega að sér kveða og var til dæmis aðeins 29 ára að aldri, þegar hann stofnaði Bandalag íslenskra listamanna.

Jón Leifs kallaði menn til samstarfs undir merkjum þessara félaga á tímum, þegar fáum var ljóst, hvað fólst í slíkum samtakamætti. Almennt var þá litið á listamenn sem sérvitringa ef ekki ónytjunga. Jón þurfti ekki aðeins að vekja áhuga meðal samherja heldur gerðist hann svo ötull talsmaður þeirra út á við, að stundum lék allt þjóðfélagið á reiðiskjálfi. Hann stofnaði til tengsla við erlenda starfsbræður og samtök og rauf þannig bæði einangrun inn á við og út á við.

Þessi þáttur í merku ævistarfi Jóns Leifs verður aldrei metin til fulls. Við vitum ekki, hve mjög það hefur flýtt fyrir þróun gróskumikils menningarlífs í landi okkar, að Jón efldi listamönnum sjálfstraust. Nú setur hinn skapandi og listræni þáttur æ meiri svip á allt þjóðlífið. Hann er í raun hin mikli vaxtarbroddur í öllum greinum.

Jón Leifs var aðalhvatamaður að listamannaklúbbi í Reykjavík Vildi Jón, að þar gætu listamenn og skáld komist í kynni við peningamenn og fengið þá til að framfleyta sér á sama hátt og auðugir furstar liðinna alda höfðu kostað skáld og listamenn. Við vitum nú, að með samstarfi og stuðningi við listamenn eru peningamenn ekki að veita bónbjargir heldur að efla gagnkvæman hag.

Í gömlu viðtali Valtýs Stefánssonar, ritstjóra Morgunblaðsins, komst dr. Páll Ísólfsson þannig að orði, að íslensku þjóðlögin væru séreign okkar og sérkenni á sviði tónmenntar. Þangað sæktu tónskáld yrkisefni. Síðan segir Páll: „Ég er viss um, að ekki líður á löngu, unz við eignumst tónskáld, sem vekja á sér alheims athygli með því að taka upp anda og kjarna hinna fornu laga, íklæða þau formi og háttum, sem gera þau að heimsborgurum á sviði tónlistar."

Þessi spásögn rætist í Jóni Leifs. Hann sótti styrk sinn í hina íslensku séreign okkar, íslensku þjóðlögin. Raunar samdi Jón tónverk sín með þeim hætti, að um hans daga áttu Íslendingar fullt í fangi með að flytja þau og enn í dag hefur aðeins lítill hluti þeirra verið kynntur.

Ríkisstjórnin vill leggja sitt af mörkum til að gefa sem flestum tækifæri til að kynnast tónlist Jóns Leifs. Að tillögu hennar samþykkti alþingi, að í tilefni af 100 ára afmæli tónskáldsins skyldi fé veitt á fjárlögum til að tölvusetja tónhandrit Jóns. Hefur það verk gengið eftir með skipulegum hætti undir forystu Íslenskrar tónverkamiðstöðvar.

Afrakstur þessarar miklu vinnu heyrum við meðal annars á afmælishátíðinni í dag, því að hér eru frumflutt verk af þessum tónhandritum. Með tölvutækninni er unnt að gera þau miklu aðgengilegri en Jón hefði nokkru sinni grunað, þótt framsýnn væri.

Íslenskir tónlistarmenn geta nú með glæsibrag tekist á við þessa mögnuðu tónlist. Sannast það enn á þessum hátíðartónleikum. Á 25 ára ferli sínum hefur Kammersveit Reykjavíkur unnið marga tónlistarsigra. Færi ég kammersveitinni innilegar hamingjuóskir með þökk fyrir mikilvægan hlut hennar í íslensku menningarlífi.

Það eru síður en svo aðeins Íslendingar, sem glíma við að flytja tónlist Jóns. Vegur hans á alþjóðavettvangi verður sífellt meiri. Hann er í hópi þeirra Íslendinga, sem við getum nefnt til að árétta, að þjóð okkar hafi alþjóðlega skírskotun vegna afreksmanna í listum.

Fornbókmenntirnar eru ekki einungis bakhjarl þeirra íslensku rithöfunda, sem ná alþjóðafrægð. Tónskáldin sækja einnig styrk til þeirra eins við kynnumst í svo mörgum verka Jóns Leifs.

Nú erum við einnig æ betur að kynnast því, að íslenskur tónlistararfur er ekki síður merkur og mikils virði en bókmenntaarfurinn. Fyrir nokkrum árum fundust vaxhólkar í Berlín með hljóðritum, sem Jón Leifs safnaði á árunum 1926 og 1928. Þar eru íslenskur söngur og rímnakveðskapur, sem Jón hljóðritaði eftir heimildarfólki sínu af listrænum og vísindalegum áhuga. Í þessum merku heimildum fann hann uppsprettu sinna miklu verka og þau urðu heimsborgarar á sviði tónlistar.


Góðir áheyrendur!

Um þessar mundir ræðum við stjórnmálamennirnir mjög um árangur og strengjum þess heit að gera enn betur. Umræðurnar taka einkum mið af efnahags- og fjárhagslegum stærðum. Aðrar mælistikur eru ekki síðri. Gróskan í menningarlífi, fjöldi leiksýninga, tónleika og nýrra bóka segir mikla sögu. Einnig í þessu efni stöndum við Íslendingar vel að vígi.

Fámennið ræður ekki hlut þjóðar í heimsmenningunni heldur framlag einstakra listamanna. Jón Leifs er listamaður, sem tryggir góðan og vaxandi hlut Íslands. Þess vegna komum við saman hér í dag og minnumst aldarafmælis Jóns Leifs með þökk og virðingu.