15.2.2006

Svör um sameiginlega forsjá.

Grein í Morgunblaðinu 15. febrúar 2006.

Frumvarp til laga um sameiginlega forsjá barna, þrátt fyrir sambúðarslit foreldra, er nú til meðferðar í allsherjarnefnd alþingis. Frumvarpið byggist á þeirri meginhugmynd að almennt sé það barni fyrir bestu, að báðir foreldrar haldi áfram að hafa rétt og skyldu til að ráða málefnum barns síns, þótt þeir kjósi að hætta að búa saman. Í 18. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins segir, að aðildarríki skuli gera það, sem í þeirra valdi stendur, til að tryggja, að sú meginregla sé virt, að foreldrar beri sameiginlega ábyrgð á að ala upp barn og koma því til þroska.

Þegar ég lagði frumvarpið fram á þingi sagði ég meðal annars:

"Greinilegt er að nefndarmenn í háttvirtri allsherjarnefnd hafa mikinn áhuga á að fara rækilega ofan í þessi mál í tilefni af frumvarpinu. Af minni hálfu var einmitt einn þátturinn í því að flytja þetta frumvarp að gefið yrði tækifæri til þess í nefndinni að ræða þessi mál og fara yfir einstaka þætti þeirra og menn gætu kynnt sér þau sjónarmið sem eru uppi. Ég tel að í þessum efnum eigi menn ekki að hika við að leggja fram tillögur og koma fram með sjónarmið og sjá síðan hver viðhorfin eru þegar upp verður staðið að lokum. Í þessu efni hef ég lagt fram ákveðnar tillögur. Ég tel að fram hafi komið stuðningur við þau meginsjónarmið sem að baki frumvarpinu búa þó að menn vilji síðan skoða einstaka þætti eins og gefur að skilja."

Í þessu ljósi fagna ég því, að sunnudaginn 12. febrúar skyldi Morgunblaðið taka þetta mál til umræðu og kalla eftir sjónarmiðum fólks með ólíkar skoðanir. Í tilefni af því, sem sagt var, er nauðsynlegt að svara nokkrum spurningum.

Er frumvarpið foreldramiðað?

Frumvarpið byggist á þeirri grunnhugmynd, að foreldri, sem telur það barni sínu ekki fyrir bestu, að forsjá sé sameiginleg, geri ráðstafanir til þess að svo verði ekki, þ.e. lýsi yfir því við fyrirtöku skilnaðar- eða sambúðarslitamáls hjá sýslumanni, að það telji þetta fyrirkomulag ekki þjóna hagsmunum barnsins. Ef hitt foreldrið er ósammála þeirri fullyrðingu og vill ekki gera samning um, að annað þeirra fari með forsjá barnsins, er foreldrum boðin ráðgjöf sálfræðings, þar sem markmiðið er að hjálpa foreldrunum að finna lausn á málinu. Takist ekki þrátt fyrir sáttaumleitan að komast að samkomulagi, er unnt að bera úrlausnarefnið undir dómstóla, þar sem dómari ákveður, að undangenginni rannsókn á því, hvað barninu er fyrir bestu, hvort foreldri skuli fara með forsjá.

Er vernd barns gegn ofbeldi tryggð?

Auðvitað er réttur sérhvers barns að þurfa ekki að þola ofbeldi á heimili sínu. Ástæða er til að spyrja: Hvað er það við þessa tilteknu tillögu, sem kallar á lögfestingu sérstakra úrræða vegna ofbeldis? Í Svíþjóð hefur verið gerð umfangsmikil könnun á því, hvernig dómstólar fara með það vald að dæma sameiginlega forsjá. Þar kom í ljós, að í um helmingi tilvika, þar sem voru uppi ásakanir um ofbeldi, dæmdu dómarar sameiginlega forsjá. Frumvarpið fyrir alþingi gerir ekki ráð fyrir, að hægt verði að dæma sameiginlega forsjá og verður ekki séð að nú frekar en áður þurfi að huga sérstaklega að þessum þætti.

Verður réttarfarsslys?

Hvers vegna ríkir þessi skipan mála annars staðar á Norðurlöndunum en hún yrði réttarfarsslys hér á landi? Fullyrðing þessa efnis í Morgunblaðinu er á engan hátt rökstudd. Viðmælandinn segir "það að lögbinda þá meginreglu að forsjá barns skuli vera sameiginleg þar sem liggur fyrir að foreldrar geta ekki og muni ekki geta sameinast um uppeldi og velferð barnsins, leiðir langlíklegast af sér að barnið verður þolandi í málinu". Kjarni málsins er, að í frumvarpinu er ekki verið að leggja til, að forsjá barns verði sameiginleg, þegar liggur fyrir, að foreldrar geta ekki og muni ekki geta sameinast um uppeldi og velferð barnsins. Ef foreldrar geta ekki unnið saman að málefnum barns, fara þeir fram á, að forsjáin verði í höndum annars.

Þvinguð sameiginleg forsjá?

Viðmælandi Morgunblaðsins segir "...þvinguð sameiginleg forsjá er að mínu viti ekki börnunum fyrir bestu". Frumvarpið byggist einmitt á því sjónarmiði og þess vegna er ekki lagt til, að heimilt verði að ákveða sameiginlega forsjá gegn vilja foreldis.

Er sameiginleg forsjá valdboð?

Sagt er: "sameiginleg forsjá er hvergi valdboð í nágrannalöndunum." Á öllum Norðurlöndunum helst forsjá sameiginlega í höndum beggja eftir skilnað nema annað sé ákveðið. Foreldrar geta sem sagt samið um annað fyrirkomulag. Frumvarpið byggist á sömu sjónarmiðum. Í Noregi, Finnlandi og Svíþjóð getur sameiginleg forsjá á hinn bóginn einmitt komist á með "valdboði" dómara gegn vilja foreldris. Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir slíku valdboði dómara.

Meginforsenda frumvarpsins er skýr: Forsjá verður ekki sameiginleg, ef foreldri er ósátt við það.