9.12.2005

Styrking sérsveitar – stækkun lögregluumdæma.

Brautskráning úr Lögregluskóla ríkisins, Bústaðakirkju, 9. desember, 2005.



Ég óska ykkur, sem brautskráist nú úr Lögregluskóla ríkisins, og fjölskyldum ykkar innilega til hamingju með daginn. Megi gæfa og góður árangur fylgja ykkur í mikilvægum framtíðarstörfum.

 

Þið getið örugglega fengið störf í samræmi við nám ykkar, því að nú er svo komið, að lögreglustjórar eiga fullt í fangi með að manna lið sín.

 

Yfirvöld þurfa ávallt að velta fyrir sér, hvernig best er tyggt að menntaðir lögreglumenn sinni löggæslustörfum. Þar ber meðal annars að huga að líðan lögreglumanna í starfi vegna hinnar miklu streitu og gríðarlega álags, sem á þeim hvílir. Landssamband lögreglumanna hefur snúið sér til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins með erindi um þetta mál og er ráðuneytið reiðubúið til samstarfs um það.

 

Að undanförnu hefur ráðuneytið haft forystu um ýmis nýmæli í starfi og skipulagi löggæslu. Hér ætla ég að nefna tvennt: eflingu sérsveitar lögreglunnar og nýskipan lögregluumdæma.

 

Frá því að ég flutti ræðu hér við þessa hátíðlega athöfn 11. desember árið 2003 og skýrði frá því, að þáverandi formenn stjórnarflokkanna og fjármálaráðherra hefðu samþykkt tillögu mína um að efla styrk lögreglunnar með sérstakri áherslu á sérsveit hennar, hefur markvisst verið unnið í þeim anda.

 

Í fjárlögum fyrir árið 2006, sem alþingi samþykkti síðastliðinn miðvikudag, er gert ráð fyrir, að sérsveitarmönnum fjölgi um 15,  níu í Reykjavík og sex í Keflavík – Markmiðinu um að minnsta kosti 52 menn í sérsveit lögreglunnar, verður því náð með fjárveitingum næsta árs.

 

Ég hef heyrt þessu átaki lýst á þann veg, að í því felist einhver mesta einstaka styrking á almennri löggæslu um margra áratuga skeið. Þetta gerist samhliða því sem vel menntaðir menn ráðast til starfa í lögreglunni og fjarskipti, tækja- og bílakostur hennar tekur stakkaskiptum.

 

Um svipað leyti og ég kynnti upphaf þessa átaks með áherslu á sérsveitina, var markvissu starfi hrundið af stað í því skyni að stækka lögregluumdæmin. Stefán Eiríksson, skrifstofustjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, hefur á farsælan og árangursríkan hátt leitt þá vinnu í rúm tvö ár.

 

Verkefnisstjórn um nýskipan lögreglumála skilaði ítarlegri skýrslu í upphafi þessa árs. Þar er að finna upplýsingar um núverandi skipan mála, áhersluatriði í löggæslustefnu næstu ára ásamt tillögum um breytingar á skipulagi löggæslu.  Skýrsla nefndarinnar vakti miklar umræður meðal lögreglumanna og sýslumanna.

 

Undir lok maí fól ég sérstakri framkvæmdanefnd að móta tillögur um fjölda, stærð og stjórn lögregluumdæma. Skilaði hún tillögum í lok október. Þar er gert ráð fyrir að lögregluumdæmi verði 15 í stað 26 og af þeim verði sjö svonefnd lykilembætti.

 

Hlutverk lykilembætta er að annast rannsókn og saksókn stórra og flókinna mála innan umdæmis síns og einnig að samræma eftir því sem kostur er vaktkerfi þeirra lögregluliða, sem  starfa á sama svæði.

 

Í anda góðrar stjórnsýslu fól ég framkvæmdanefndinni að kynna tillögur sínar og kalla eftir sjónarmiðum lögreglumanna, lögreglustjóra og sveitarstjórnarmanna um land allt. Skýrsla nefnarinnar um þessa fundi sýnir, að hún hefur unnið þennan þátt eins og allt starf sitt af mikilli alúð. Hátt á fjórða hundrað manns sóttu kynningarfundi nefndarinnar og þar var margt lagt til mála.

 

Þegar ég ýtti þessu starfi úr vör, skipti miklu í mínum huga, að forystumenn lögreglumanna innan landssambands þeirra og einstakra félaga voru eindregnir málsvarar þess, að lögregluumdæmi yrðu stækkuð. Ég vil þakka málefnalegt framlag lögreglumanna til þessa starfs.

 

Kröfur til lögreglu eru sífellt að aukast á öllum sviðum; hún á að vera sýnileg og snör í snúningum; henni ber að leysa viðfangsefni sín af þekkingu og fagmennsku;  lögreglan á að fækka afbrotum og upplýsa öll mál, stór og smá.  Lögreglan getur að sjálfsögðu ekki staðið undir þessum kröfum nema hvert og eitt lögreglulið hafi burði til þess. Tillögurnar um nýskipan lögreglumála miða að því að auðvelda liðunum að svara kalli tímans.

 

Ég hef í meginatriðum fallist á sjónarmið framkvæmdanefndarinnar um nýskipan lögreglumála. Hún vinnur nú að útfærslu og hugsanlegu endurmati eftir samáðsfundi sína.

 

Ég leyfi mér að fullyrða, að aldrei áður hafi verið efnt til jafnvíðtækra umræðna um skipulag lögreglumála hér á landi með þátttöku jafnmargra.

Ég geri mér grein fyrir því, að mörgum finnst ekki nógu langt gengið við stækkun lögregluliða og fækkun lögreglustjóra í þessum tillögum. Mitt mat er, að með sátt um það skref, sem nú verður stigið og vonandi góða reynslu af því, sé verulegum áfanga náð.

 

Eftir að ég hef fengið lokatillögur nefndarinnar og lagt mat á þær, mun ég kynna niðurstöðu þessa mikla og vandaða starfs á vettvangi ríkisstjórnar og síðan opinberlega.  Endanlega kemst málið ekki í höfn, fyrr en alþingi hefur samþykkt nauðsynlegar breytingar á lögreglulögunum.

 

Góðir nemendur!

 

Ég hef kosið að nota þetta tækifæri til að lýsa, hvernig markvisst hefur verið unnið að því að móta lögreglunni og þar með vonandi ykkur öllum nýtt og betra starfsumhverfi.

 

Ég er sannfærður um, að það tekst að hrinda tillögunum um nýskipan lögreglumála í framkvæmd á jafnfarsælan hátt og hugmyndinni um eflingu sérsveitarinnar.

 

 

Góðir áheyrendur!

 

Ég þakka skólastjóra, skólanefnd, kennurum og öllu starfsliði lögregluskólans vel unnin störf. Ég ítreka heillaóskir til ykkar, sem hafið lokið námi og prófum. Megi gæfa fylgja ykkur í mikilvægum störfum. Gangið fram af stolti og virðingu fyrir starfsheiðri lögreglunnar.