Staðan í samskiptum ríkis og kirkju
Ræða við setningu kirkjuþings í Grensáskirkju, 22. október, 2005.
Ég vil þakka gott og ánægjulegt samstarf við biskup Íslands og vígslubiskupa og aðra þjóna kirkjunnar á liðnu ári.
Það er ánægjulegt að vera hér enn á ný á kirkjuþingi - mikilvægum vettvangi fyrir þjóðkirkjuna til að ræða eigin málefni og nauðsynlegum samráðsvettvangi ríkis og kirkju.
Í öllum löndum, þar sem þjóðkirkjuskipan ríkir eru umræður um hana og menn velta því fyrir sér, hvort ástæða sé til að skilja á milli ríkis og kirkju.
Nýlega kom til dæmis út gagnrýnin bók um þetta efni í Danmörku, þar mun til dæmis fundið að því, að kirkjumálaráðherrann þar sé að skipta sér af efni í sálmabókinni eða hverju prestar trúa. Og fyrir nokkrum árum komst Hæstiréttur Danmerkur að þeirri niðurstöðu, að kirkjumálaráðherrann væri ekki vanhæfur til þess að veita presti áminningu fyrir að taka þátt í mótmælum gegn fóstureyðingum í prestshempu sinni, enda þótt ráðherran hefði áður í dagblaði almennt gagnrýnt, að prestar tækju þátt í mótmælum í hempu sinni.
Deilur af þessum toga setja ekki svip á almennar umræður hér á landi og rétti kirkjumálaráðherra til afskipta af innri málefnum kirkjunnar eru mikil takmörk sett og fyrir mér vakir ekki, að hann skuli aukinn.
Við Bertel Haarder, núverandi kirkjumálaráðherra Danmerkur, ræddum það hins vegar, þegar við hittumst síðastliðið sumar í Kaupmannahöfn, að kannski væri hver að verða síðastur að hitta starfsbróður úr hópi kirkjumálaráðherra, því að þeim færi svo ört fækkandi.
Þetta endurspeglar sívaxandi sjálfstæði kirkjunnar í öllum málum sínum. Hlutverk kirkjumálaráðherra innan þjóðkirkjunnar hefur jafnt og þétt minnkað, en ég vil þó fullvissa ykkur um, að dóms- og kirkjumálaráðuneytið lítur af heilum hug á sig sem kirkjumálaráðuneyti og á vettvangi þess er enginn efi um gildi þess ákvæðis stjórnarskrár lýðveldisins, að hin lútersk evangelíska kirkja skuli vera þjóðkirkja á Íslandi og skuli íslenska ríkið að því leyti styðja hana og styrkja.
Ég leyfi mér að ítreka hér, það sem ég hef áður sagt meðal annars á kirkjuþingi, að það er fráleit hugmynd, að með þjóðkirkjufyrirkomulagi okkar sé á nokkurn hátt brotið á trúfrelsi þeirra Íslendinga, sem af einhverjum ástæðum vilja standa utan þjóðkirkjunnar.
Ástæða er til þess að halda vöku sinni um stjórnarskrárbundna stöðu þjóðkirkjunnar, þar sem stjórnarskrárnefnd er nú enn einu sinni að störfum. Er enginn vafi á því, að talsmenn aðskilnaðar ríkis og kirkju og afnáms ákvæðisins í 62. gr. stjórnarskrárinnar munu láta að sér kveða gagnvart nefndinni.
Þeir, sem vilja vernda viðurkenningu á stöðu hinnar evangelísku lútersku kirkju í stjórnarskránni, hljóta að standa vaktina gagnvart stjórnarskrárnefnd og því, sem þar kann að gerast.
Í kirkjuþingsræðu minni á síðasta ári ræddi ég um frostið í samningaviðræðum ríkis og kirkju um eignarréttarstöðu kirkjujarða og prestssetra. Lýsti ég undrun og vonbrigðum yfir því, að sú gjá skyldi hafa myndast milli viðmælenda, sem lýsti sér í muninum á 150 milljóna króna boði af hálfu ríkisins annars vegar og þriggja milljarða króna hámarkskröfu af hálfu kirkjunnar hins vegar.
Nokkur þíða hefur orðið í þessum samskiptum síðan og sýnist mér, að hugmyndir hafi komið fram um leið út úr ágreiningnum, þótt enn snúist hann um krónur og aura. Við megum ekki láta Mammon breyta þessari þrætu í óleysanlegan vanda, þótt sagan geymi auðvitað mörg dæmi um mál, sem hann hefur gert ókleift að leysa í góðri sátt.
Frá því að við hittumst hér síðast hefur framvindan í samskiptum ráðuneytisins og kirkjulegra yfirvalda verið með ágætum.
Undir mig var borið, hvort unnt væri að breyta aðferð við greiðslur fyrir fermingarfræðslu. Ég lýsti þeirri skoðun, að ekki væri unnt að fella þær greiðslur inn í föst laun presta, án þess að samningur ríkis og kirkju frá 1997 kæmi til endurskoðunar. Ég sé að innan kirkjunnar eru fleiri hugmyndir um breytingu á innheimtu þessa gjalds til umræðu, en eins og við vitum er umboðsmaður alþingis með réttinn til þessarar gjaldtöku til meðferðar.
Mig langar að þessu sinni að vekja máls á þremur úrlausnarefnum, sem snerta dóms- og kirkjumálaráðuneytið og samskipti þess við þjóðkirkjuna.
Í fyrsta lagi hvernig brugðist skuli við, þegar sú staða myndast innan söfnuðar, að sóknarnefnd sættir sig ekki við sóknarprest.
Þegar ágreiningsefni af þessum toga nú í sumar, kom til minna kasta, vöknuðu ýmsar stjórnsýslulegar spurningar. Afstaða mín og ákvörðun byggðist á heimild í stjórnarskránni um að flytja embættismann úr einu starfi í annað, en reglan er nánar útfærð í lögunum um starfsmenn ríkisins.
Hvorki stjórnarskrá né lög svara spurningunni um það, hvað felst í hugtakinu „lögmælt eftirlaun“ í 20. gr. stjórnarskrárinnar, þegar embættismaður stendur frammi fyrir vali á því að flytjast í annað embætti eða þiggja hin „lögmæltu eftirlaun“. Ríkisstjórnin tók ákvörðun um þetta efni og taldi eðlilegt að miða við eftirlaun frá því tíma, þegar skipunartími viðkomandi embættismanns yrði á enda runninn.
Um ákvörðun mína í málinu hefur í sjálfu sér ekki verið deilt, enda eru heimildir til hennar ótvíræðar. Á hinn bóginn liggja stefnur nú fyrir dómstólum vegna málsins, þar sem tekist er á um túlkun á lagaákvæðum, sem væntanlega þykja óljós, auk þess sem lögmæti funda og ákvarðana á vegum safnaðarins er dregið í efa.
Ég tel eðlilegt, að innan kirkjunnar sé hugað að lögunum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar. Margt bendir til þess, að nauðsynlegt sé að fara yfir lögin að nýju og meta, hvort einstök ákvæði hafa gefið þá raun, sem að var stefnt. Ég mun þó ekki hafa frumkvæði í þessu máli nema fram komi ósk um það frá kirkjuþingi eða kirkjuráði.
Í öðru lagi nefni ég umræður um sóknargjöld og einnig rétt kristinna safnaða utan þjóðkirkjunnar til tekjuöflunar.
Ég ætla ekki að ræða fortíðina varðandi sóknargjöldin. Það er miklu nær að líta fram á veginn. Ef kirkjuþing eða kirkjuráð telur ástæðu til þess að endurskoða reglur um sóknargjöld, er ég til þess búinn að beita mér fyrir því, að fulltrúar dóms- og kirkjumálaráðuneytis og fjármálaráðuneytis komi að því verki með fulltrúum kirkjunnar og safnaða utan þjóðkirkjunnar.
Reynslan af nýju reiknilíkani vegna kirkjugarðsgjalds er að því er ég best veit góð. Gjaldalíkan vegna sóknargjalda kann að vera framtíðarleið til að ná sátt í þessu máli.
Í sömu andrá og ég ræði ég þetta vil ég minna á óánægju kristinna safnaða utan þjóðkirkjunnar vegna skorts á fjárhagslegum stuðningi úr sjóðum, sem ætlað er að styðja við kristilegt starf. Ef unnt væri að finna leið til að koma til móts við þessa gagnrýni, þegar rætt er um fjárhagsleg samskipti ríkis og kirkju, yrði ávinningurinn af því meiri en fjárhagslegur.
Í þriðja lagi vil ég minna á, að á undanförnum árum hefur með breytingum á lögum og reglugerðum um kirkjugarða verið unnið að góðum umbótum á þessu sviði.
Nú síðast setti ég reglugerð um kistur, duftker, greftrun og líkbrennslu, sem vakti nokkrar umræður síðsumar. Fyrir gildistöku reglugerðarinnar var leyst úr ágreiningi vegna hennar.
Í ljósi þess, að nú er liðinn áratugur frá því að reglur um útfararþjónustur voru settar í fyrsta sinn hér á landi, þótti mér tilefni til að huga að því, hver reynslan af þeim hefur verið og hvort nauðsynlegt væri að breyta þeim á einn eða annan hátt. Jafnframt vil ég beita mér fyrir því, að settar séu siðareglur um þessa viðkvæmu starfsemi og unnt sé að fylgja því eftir, að þeim sé framfylgt.
Hinn 29. júní skipaði ég þriggja manna nefnd undir formennsku Þórsteins Ragnarssonar til að fara yfir lög um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu og endurskoða reglugerð um útfararþjónustu meðal annars með hliðsjón af nauðsyn siðareglna, en nefndin á einnig að semja þær. Þá óskaði ég einnig eftir því, að nefndin semdi tillögur um sameiginlegan vettvang fyrir útfararstofur á Íslandi.
Ég bind góðar vonir við störf nefndarinnar, en hún mun skila tillögum sínum í næsta mánuði.
Hér á þinginu kunna að verða samþykktar tillögur, sem ekki ná fram að ganga nema með samþykki alþingis, og mun ég ljá atbeina minn til að þingmönnum verði kynnt þau mál.
Góðir þingfulltrúar!
Öll finnum við og vitum, að miklar breytingar setja svip sinn á íslenskt þjóðlíf. Á tímum sem þessum verða þeir að standa fastir fyrir, sem vilja halda í hið besta úr fortíðinni og færa það til framtíðar.
Fyrir okkur kristna menn skiptir þar sköpum, að hinn kristni þráður slitni ekki - að engum takist að rjúfa tengslin við sjálfa uppsprettuna. Þjóðfélagsgerðin er best og virðingin fyrir manninum mest, þar sem kristin viðhorf hafa náð að dafna.
Ef í því er talið felast yfirlæti eða andstaða við einhvern óskilgreindan pólitískan rétttrúnað að halda hlut kristni fram í vestrænum þjóðfélögum, er mikil hætta á ferðum.
Megi blessun fylgja störfum kirkjuþings.