13.9.2005

Guðmundur Kjærnested - minningarorð.

 

Jafnan þegar ég hitti Guðmund Kjærnested á förnum vegi var honum velferð Landhelgisgæslu Íslands ofarlega í huga. Hann bar góðan hug til þeirra, sem þar störfuðu og vildi veg þeirra og stofnunarinnar sem mestan.  Þess vegna er það sérstakt harmsefni, þegar Guðmundar er minnst, að hann skyldi ekki hafa lifað nægilega lengi til að sjá langþráðan draum sinn um stóráták í þágu landhelgisgæslunnar rætast. Um þær sömu mundir, sem ríkisstjórnin var að leggja á ráðin um að verja þremur milljörðum króna til efla skipa- og flugvélakost Landhelgisgæslu Íslands, barst fréttin um andlát Guðmundar.

 

Hvað eftir annað hefur sannast á undanförnum áratugum, hve Íslendingum er mikið í mun að vel sé búið að Landhelgisgæslu Íslands og þeim, sem þar starfa. Í þessu felst mikil viðurkenning á þeim, sem haldið hafa merki gæslunnar hæst á loft. Guðmundur Kjærnested var þar í fararbroddi að Eiríki Kristóferssyni skipherra gengnum.

 

Guðmundur var 17 ára að aldri, þegar hann varð háseti árið 1940, fyrst á millilandaskipum en síðan á varðskipinu Ægi, en hann varð stýrimaður hjá landhelgisgæslunni 1949 og skipherra 1954 til 1984 eða í 30 ár. Landgrunnslögin um útfærslu landhelginnar voru sett 1948 og síðan var hún færð út í áföngum frá þeim tíma og til 200 mílnanna 1975. Við hverja útfærslu reyndi á áhafnir varðskipanna og í öll skiptin var Guðmundur Kjærnested við stjórnvölinn fyrst sem stýrimaður og síðan sem skipherra.

 

Guðmundur varð þjóðfrægur fyrir skipstjórn sína og ávann sér mikla virðingu og vinsældir fyrir framgöngu á hættu- og spennutímum.

Hann var fylginn sér af hógværð og festu og farsæll skipherra.

 

Mér er ljúft að votta minningu Guðmundar virðingu og færa honum þakkir fyrir ómetanleg störf í þágu íslensku þjóðarinnar. Fyrir framgöngu manna á borð við hann nýtur Landhelgisgæsla Íslands óskoraðs trausts.

 

Ég færi Margréti Önnu Símonardóttur, ekkju Guðmundar, börnum þeirra hjóna og ástvinum öllum innilegar samúðarkveðjur.

 

Blessuð sé minning Guðmundar Kjærnested.

 

Björn Bjarnason.