Foringjaefni kynnir utanríkisstefnu
Grein í Morgunblaðinu, 24. ágúst, 1999
Á vefsíðu minni vakti ég hinn 8. ágúst athygli á því, að Guðmundur Árni Stefánsson alþingismaður boðaði frekar léttvæga utanríkisstefnu í viðtali við dagblaðið Dag, þar sem hann gaf til kynna, að hann vildi verða formaður Samfylkingarinnar, fylkingar vinstrisinna. Þessar hugleiðingar mínar á síðunni birtust í Staksteinum Morgunblaðsins. Í framhaldi af þvi skrifar Guðmundur Árni grein hér í blaðið hinn 19. ágúst undir fyrirsögninni: Menntamálaráðherra í miðju "kalda stríðinu".
Í upphafi greinarinnar segir Guðmundur Árni, að ég sé "ókrýndur persónugervingur "kalda stríðsins"" hér á landi. Líklega gefur Guðmundur Árni þessa nafnbót í háðungarskyni og lýsir hún hug hans til þeirra, sem létu að sér kveða opinberlega í andstöðu við heimskommúnismann. Þar voru ekki síður ýmsir forystumenn jafnaðarmanna framarlega í fylkingarbrjósti, þeir áttu hins vegar löngum í baráttu við ungsósíalista, sem snerust gegn NATO og dvöl varnarliðsins. Var Guðmundur Árni í þeim flokki, ef rétt er munað.
Guðmundur Árni gerir mér upp skoðanir og hefur greinilega ekki kynnt sér neitt af því, sem ég hef ritað um utanríkis- og öryggismál frá lyktum kalda stríðsins. Á eigin tilbúnum forsendum um skoðanir mínar skrifar hann Morgunblaðsgrein sína. Þannig nálgast Guðmundur Árni einnig utanríkismálin í fyrrnefndu viðtali við Dag. Þar gefur hann sér þrjár eigin forsendur: Í fyrsta lagi að Sameinuðu þjóðirnar (SÞ) taki við hlutverki NATO. Í öðru lagi að Bandaríkjastjórn vilji rifta varnarsamningnum við Íslendinga. Í þriðja lagi að söguleg nauðsyn leiði til aðildar Íslands að Evrópusambandinu.
Álitaefnin
Í Morgunblaðsgreininni segir Guðmundur Árni stóra spurningu, hvort það sé markmið í sjálfu sér að viðhalda Atlantshafsbandalaginu (NATO). Hann rökstyður þessa skoðun ekkert frekar. Raunar er stærri spurning, hvaðan hún er komin, hverjir séu málsvarar þessarar skoðunar í NATO-ríkjunum. Hún er ekki í samræmi við neitt, sem samþykkt var í Washington 23. og 24. apríl 1999, þegar leiðtogar NATO-ríkjanna komu saman til að minnast 50 ára afmælis bandalagsins. Á þessum fundi var framtíðarstefna Atlantshafsbandalagsins mótuð. Þar er hvergi minnst á, að Sameinuðu þjóðirnar geti komið í staðinn fyrir NATO en lögð á ráðin um það, hvernig NATO geti sem best starfað með SÞ og öðrum alþjóðasamtökum. Allar ályktanir leiðtoganna miðast við, að NATO verði áfram öflugur samstarfsvettvangur þjóðanna beggja vegna Atlantshafs í öryggismálum, enda hafi ekkert bandalag þjóða áorkað jafn miklu í þágu friðar og stöðugleika.
Guðmundur Árni víkur í Morgunblaðsgreininni að því, sem gerðist í samskiptum íslenskra og bandarískra stjórnvalda um varnarmál á fyrstu árum þessa áratugar eftir hrun Sovétríkjanna. Ég fylgdist náið með þeirri þróun bæði með beinni þátttöku í viðræðum við Bandaríkjamenn og sem formaður utanríkismálanefndar alþingis. Bandaríkjamenn hreyfðu því aldrei, að þeir hefðu áhuga á að rifta varnarsamstarfinu við Íslendinga. Viðræðurnar snerust um fyrirkomulag varnanna við breyttar aðstæður, einkum loftvarna með orrustuþotum. Niðurstaðan varð sú, að Bandaríkjamenn hafa áfram þotur á Keflavíkurflugvelli. Losaraleg ummæli Guðmundar Árna um ráðstafanir til að gæta öryggishagmuna Íslands benda því miður ekki til þess, að hann hafi leitt hugann mikið að þessum málum. Má helst ætla, að hann vilji geta ýtt þeim út af borðinu með gamaldags tuggum um kalda stríðið.
Í Morgunblaðsgreininni kemst Guðmundur Árni að þeirri niðurstöðu, að óhjákvæmilega verði Evrópusambandsmálin fyrirferðarmikil í hinni pólitísku umræðu hér á landi og annars staðar í Evrópu á næstu árum. Þarf ekki mikinn speking eða sérstaklega framsýnan stjórnmálamann til að benda á þetta. Guðmundur hefur sem sagt skipt um skoðun síðan hann lýsti yfir því í Degi, að einskonar náttúrulögmál leiddu til ESB-aðildar Íslands á næstu fimm árum.
Gagnslítil umræða
Morgunblaðsgrein Guðmundar Árna Stefánssonar gefur því miður ekki til kynna, að mikið gagn sé að viðræðum við hann um utanríkis- og varnarmál. Tómahljóðið í málatilbúnaði hans er hið sama og einkenndi stefnuleysi fylkingar vinstrisinna í utanríkismálum fyrir þingkosningarnar. Fylkingunni hefur mistekist að móta stefnu í þessum mikilvæga málaflokki. Er líklega einsdæmi, að stjórnmálaafl, sem vill vera marktækt, gangi fram með þessum hætti.