26.8.2005

Guðmundur Benediktsson, minningarorð.

Morgunblaðið, 26. 08. 05.

 

Guðmundur Benediktsson kallaði mig alltaf frænda þegar við hittumst og rifjaði gjarnan upp sögur af forfeðrum okkar í Þingeyjasýslu. Guðmundi voru æskustöðvar sínar hugleiknar og af honum fræddist ég um margt sem gerðist á Húsavík fyrr á árum.

Guðmundur var embættismaður í stjórnarráðinu í þrjátíu ár, frá 1962 til 1992. Hann hóf störf í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu árið 1962 og fór þar með málefni kirkjunnar, undirbjó meðal annars hina glæsilegu Skálholtshátíð árið 1963. Árið 1964 flutti hann sig um set í forsætisráðuneytið og starfaði þar til 1. janúar 1992, en hann varð ráðuneytisstjóri og ríkisráðsritari 1. janúar 1970, þegar lögin um stjórnarráð Íslands tóku gildi.

Guðmundur var fyrstu ár sín í forsætisráðuneytinu í lítilli skrifstofu fyrir framan skrifstofu forsætisráðherra, sem þá var einnig fundarherbergi ríkisstjórnarinnar, austanvert í stjórnarráðshúsinu þar sem nú er biðstofa og skrifstofa aðstoðarmanns forsætisráðherra. Enginn gekk því á fund forsætisráðherra án þess að hitta Guðmund og þar kynntumst við fyrst þegar hann starfaði fyrir föður minn, en með foreldrum mínum og þeim Kristínu og Guðmundi var góð vinátta.

Þá og endranær var ljúft að hitta Guðmund. Hann sagði skemmtilega frá og var glaður og reifur. Guðmundi var sýnt mikið traust í störfum og brást því ekki. Hann sinnti störfum sínum af samviskusemi hins varkára embættismanns. Hann varð fyrsti reglulegi ritarinn á fundum ríkisstjórnarinnar og ávann því starfi trúnað sem dugað hefur til þessa dags.

Fyrir gildistöku stjórnarráðslaganna var forsætisráðuneyti sameiginlegt með menntamálaráðuneyti og einn ráðuneytisstjóri yfir þeim báðum, Birgir Thorlacíus. Þetta breyttist eins og áður sagði 1. janúar 1970 og síðan stjórnaði Guðmundur forsætisráðuneytinu sem ráðuneytisstjóri til ársins 1992. Eðli máls samkvæmt er ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins fremstur meðal jafningja auk þess að gegna störfum ríkisráðsritara. Á starfsárum Guðmundar sem ríkisráðsritari fóru miklu fleiri skjöl um hendur hans til forseta en nú, eftir að þáttur forseta Íslands í skipun manna í embætti var takmarkaður með lagabreytingum á síðasta áratug. Auk þessara starfa var Guðmundur jafnframt í embættismannanefnd norrænu ráðherranefndarinnar frá 1971 til 1985, sem krafðist mikilla ferðalaga allan ársins hring.

Þegar ég kom til starfa í forsætisráðuneytinu haustið 1974 var orðið rýmra um ráðuneytið í stjórnarráðshúsinu en 10 árum fyrr og var ráðuneytið í góðu sambýli við forsetaskrifstofuna. Þetta voru tveir fámennir vinnustaðir þar sem valinn maður var í hverju rúmi og yfir vötnum sveif góðsemi og gestrisni Guðmundar og Kristínar, en þau opnuðu okkur reglulega sitt fagra heimili að Reynistað á ógleymanlegum stundum. Bundumst við starfsfólkið í húsinu þá vináttuböndum sem ekki hafa rofnað. Síðast skiptumst við Guðmundur á vinsemdar- og kveðjuorðum fyrr í þessum mánuði þegar Anna Fríða Björgvinsdóttir efndi til mannfagnaðar í tilefni af því að hún var að láta af störfum í forsætisráðuneytinu eftir 33 ára starf þar. Þá var mínum góða frænda nokkuð brugðið, þótt enn væri hann glaður og reifur.

Við Guðmundur eigum ekki eftir að hittast oftar í þessu lífi en ég minnist hans með gleði og söknuði, gleði yfir þeim góðu stundum, sem við áttum saman, og söknuði yfir að þær verða ekki fleiri.

Við Rut sendum frú Kristínu, börnum þeirra hjóna og ástvinum öllum innilegar samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning Guðmundar Benediktssonar.