Séra Tómas Sæmundsson, sjálfstæði og saga.
Þjóðhátíðarræða fyrir Fljótshlíðinga, 17. júní, 2005.
Í dag, þegar 61 ár er liðið frá því að lýðveldi var stofnað á Íslandi, er mér fagnaðarefni að fá tækifæri til að ávarpa ykkur, góðir áheyrendur. Vil ég þakka séra Önundi Björnssyni fyrir að bjóða mér að minnast ættjarðarinnar og sjálfstæðis þjóðarinnar hér á þessum stað.
Frá blautu barnsbeini ólst ég upp við það eins og allir jafnaldrar mínir, að hér væri hvað fegurst á landinu og dugði að vitna til orða Gunnars á Hlíðarenda því til staðfestingar. Nokkur undanfarin ár hef ég og fjölskylda mín notið þess að eiga griðastað í Fljótshlíðinni og lært að meta fegurðina af eigin raun og jafnframt notið þess að komast í kynni við mannlífið og fá að taka þátt í því eins og tíminn leyfir.
Það hefur vissulega stækkað sjóndeildarhring okkar að hafa flutt að nokkru hingað austur - ekki aðeins í orðsins fyllstu merkingu, þegar litið er yfir til jöklanna og Eyjanna heldur einnig vegna þess, hve margir hafa verið áhugasamir um að miðla okkur hvers kyns fróðleik um söguna og fólkið.
Já, söguna - hún er hér á hverju strái og ætla ég þó ekki að hverfa aftur til tíma Njáls og Berþóru eða Gunnars og Hallgerðar.
Steingrímur Thorsteinsson skáld ritaði ævisögu séra Tómasar Sæmundssonar, sem var prestur á Breiðabólstað, í Andvara 1888 og hófst hún á þessum orðum:
„Það eru þrír menn á þessari öld, sem öllum öðrum fremur hafa vakið þjóðaranda Íslendinga og markað stefnu vors þjóðlega lífs. Þessir menn eru Baldvin Einarsson, Tómas Sæmundsson og Jón Sigurðsson, hver fram af öðrum. Eftir stjórnar-byltinguna í Frakklandi (1830) gekk frelsishreyfing mikil yfir mestalla Norðurálfuna, og leiddi hún til þess, að konungarnir urðu víða að veita þegnum sínum meiri hluttekt í stjórnmálum og gefa þeim ráðgjafarþing, og svo var einnig í Danmörk. Þá kom Baldvin fram og ritaði um þetta efni, að því leyti Ísland snerti, fyrst á dönsku, en síðan á íslenzku í tímariti sínu: Ármann á alþingi, og sýndi fram á, að hlutdeild Íslands í ráðgjafarþingunum gæti ekki orðið landinu að notum, nema það fengi þing sér. En Baldvins, sem bæði var hinn mesti föðurlandsvinur og hafði framúrskarandi hæfilegleika til að bera, naut því miður ekki lengi við. Hann andaðist á unga aldri 1833 og var þá skarð fyrir skildi, en fyrsta brautin var lögð og það var mikilsvert. Þá kemur Tómas Sæmundsson til sögunnar tveimur árum síðar og stofnar tímaritið Fjölni 1835 með þeim Brynjólfi Péturssyni, Konráði Gíslasyni og Jónasi Hallgrímssyni. Var það tilgangur tímaritsins að vernda íslenzkt þjóðerni og móðurmálið, og er kunnugra en frá þurfi að segja, hversu ómetandi áhrif það hafi haft í bráð og lengd. Í þessu fyrirtæki var Tómas lífið og sálin, og hversu ágætir sem liðsmenn hans voru, þá kveður þó langmest að honum og var mestur kraftur í ritinu, meðan hann stóð uppi. Er Tómas á hinum næstu sex árum forvígismaður í aðalmálefnum lands vors, að því leyti sem þá gat verið, meðan allt var í gamla einveldishorfinu, en er hann hnígur í valinn, tekur Jón Sigurðsson við og heldur áfram hinu byrjaða verki, að vinna að viðreisn Íslands; má því Tómas með réttu nefnast fyrirrennari Jóns, þar sem hann með sínum áhrifamiklu ritum hafði vakið áhuga manna og mest gjört til að undirbúa jarðveginn, þar sem hinum var ætlað að gróðursetja svo mikið, sem síðan hefir borið ávöxt.“
Þessa lýsingu á þremur hetjum sjálfstæðisbaráttunnar á 19. öld skrifaði Steingrímur Thorsteinsson 30 árum áður en Ísland varð fullvalda og tæpri hálfri öld, áður Íslendingar stofnuðu lýðveldi 17. júní 1944, á afmælisdegi Jóns Sigurðssonar.
Steingrímur gerði sér glögga grein fyrir því, hve miklu þessir menn höfðu fengið áorkað til að efla vitund þjóðarinnar um sögu sína, tungu og rétt - það er kveikju þrárinnar eftir sjálfstæði. Steingrím gat hins vegar ekki órað fyrir, að ávöxtur starfs þeirra yrði jafnmikill og góður og við, sem nú lifum, höfum fengið að kynnast.
Tómas Sæmundsson fæddist á Kúhól í Austur-Landeyjum árið 1807, hann var sendur í skóla í Odda, til Bessastaða og Kaupmannahafnar. Í júní 1832, 25 ára að aldri, hélt hann einn síns liðs í ferðalag frá Kaupmannahöfn, um Berlín, Prag og Vín til Rómaborgar og Napólí en þaðan með skipi austur Miðjarðarhaf til Aþenu og Konstantínópel. Seint á árinu 1833 kom hann til Parísar, þar sem hann fékk brjóstveiki, sem síðar varð banamein hans, en frá París hélt hann til London og síðan til Kaupmannahafnar eftir tæplega tveggja ára ferð.
Í ferðasögu sinni segir Tómas, „að mér á ferðinni varð með degi hverjum kærara og merkilegra mitt föðurland...En ekki síður en mig langaði heim, girntist eg jafnframt að koma föðurlandi mínu nokkru því til vegar, sem eg hafði séð í hinum siðuðu löndum og þóttist eg sannfærður um, að líka gæti þrifizt á Íslandi. Ísland tapar aldrei gildi sínu hjá manni sem það þekkir rétt, þó hann svo færi um allan heim.“
Vorið 1835, eftir að hafa farið norður í Aðalreykjadal um veturinn til að kvænast Sigríði Þórðardóttur, hlaut Tómas prestvígslu og settist að á Breiðabólstað, hér í sveitinni. Sama ár er Fjölnir stofnaður og héðan úr Fljótshlíðinni berst krafturinn í útgáfu þessa rits, sem hefur haft mikil og varanleg áhrif, vegna þess að það glæddi svo mjög þjóðernisvitund Íslendinga og virðingu þeirra fyrir tungu sinni.
Sigurður Nordal hefur komist svo að orði, að í raun réttri hefði ekki verið óeðlilegt, þótt nafn og störf Tómasar hefðu verið lítt kunn Íslendingum eftir hans dag. „Sveitaprestur, sem situr aðeins sex ár í embætti og deyr tæpra 34 ára að aldri, virðist ekki hafa mikil skilyrði til þess að vinna afrek, sem haldi hróðri hans á lofti um langan tíma,“ segir Nordal og telur, að útgáfa á bókinni Bréf Tómasar Sæmundssonar á aldarafmæli hans 1907 hafi auk Fjölnis stuðlað að endurreisn séra Tómasar í minningu þjóðarinnar. Bréfin hafi gagntekið Íslendinga, enda hafi þeir komist í náin kynni við höfundinn, rödd hans hafi ekki látið í eyrum eins og daufur ómur frá fjarlægri fortíð, heldur eins og lúðurhljómur, sem brýndi til nýrrar sóknar.
Góðir áheyrendur!
Þetta er merkileg saga um framtak ungs manns, sem ólst upp á þessum slóðum og lauk sínum ævidegi á Breiðabólstað. Þegar ég leiði hugann að æfi og áhrifum séra Tómasar Sæmundssonar finnst mér eins ég skynji blæ af helgisögu - lýsingu á einhverju, sem er þess eðlis, að það eigi í raun ekki að geta gerst nema með augljósum stuðningi handans hins venjulega.
Til er heimild um mannlífið hér í Fljótshlíðinni á dögum Tómasar. Hún er skráð árið 1844 af séra Jóni Halldórssyni frá Barkarstöðum, sem tók við Breiðabólstað eftir andlát Tómasar 1841.
Prestur segir engar íþróttir stundaðar hér um slóðir svo teljandi sé, ekki séu til nein hljóðfæri og enginn nótnasöngur, skemmtanir fólks felist í því að lesa sögu eða fróðlegar bækur, spila og að finna og tala við kunningjana.
Nálægt 90 séu skrifandi, þó ekki megi allir heita vel, það séu helst konur, börn og sum gamalmenni, sem ekki kunni að skrifa.
Siðferðið sé yfirhöfuð gott og enginn sérlegur löstur ríkjandi meðal almennings og fari heldur fram til hins betra. Trúrækni sé um það bil hin sama og verið hafi, trúarbragðaþekking á framfaravegi.
Kvefsótt sé algengasti sjúkdómurinn, en læknir sé á Móeiðarhvoli auk blóðtökumanns í sókninni. Ekki séu tíðkanleg nein innlend meðöl við sjúkdómum.
Menn byrji túnrækt á vorin, eldiviðarföngum og svo sauðfjárhirðingu, hleðslum, byggingum og aðflutningum fram að slætti, sem vanur sé að byrja í 13. viku sumars eða 12. af (það er í annarri eða fyrstu viku júlí) og enda í 22. viku ( það er undir miðjan september). Innivinna á vetrum sé tóvinna öll, saum, útivinna, heyskömmtun og kvikfénaðarhirðing.
Til eldsneytis hafi menn mestmegnis kúamykju, hrossatöð og skán, nema í þeim fáu stöðum, sem mór sé fundinn, þar sé hann brúkaður.
Við þessa lýsingu séra Jóns Halldórssonar má bæta, að við komu séra Tómasar að Breiðabólstað voru tún þar komin í fulla órækt, þar sem vetrarmykju var brennt, en kýr byrgðar inni á sumrum en þeir prestarnir Tómas og Jón gripu til þess ráðs að kaupa mó langt að fluttan, til þess að halda áburði betur til túnsins, eins og segir í brauðmati frá 1864.
Prestakallið á Breiðabólstað var eitt hið tekjumesta eftir því sem gerðist á þeim tíma og vildi séra Tómas „að Breiðabólstaður sæi, að ég hefi verið hér og í það minsta næstu sveitirnar löguðust dálítið útvortis og innvortis meðan ég er hérna,“ eins og hann skrifaði í bréfi til Konráðs Gíslasonar snemma árs 1836. Hann segir hins vegar, að plan sitt sé í ýmsu afbrugðið vitleysunni, sem viðgangist í landinu og fái hann því marga mótstöðumenn, sem ekki kunni nýungum. Síðan huggar hann sig við, að þeim fari fækkandi, „því Íslendingar okkar eru þó skynsamir og taka sönsum,“ eins og hann orðar það.
Hér læt ég staðar numið við sögulega upprifjun, þótt enn sé af mörgu af taka um séra Tómas Sæmundsson, æfi hans og áhrif á sjálfstæðisbaráttuna. Krafturinn í henni byggðist á því, að Íslendingar öðluðust kjark til að móta sér eigin stöðu innan danska ríkisins og gagnvart konungi. Án þess sjálfstrausts hefði 17. júní 1944 aldrei orðið að stofndegi lýðveldis á Íslandi.
Sagan endutekur sig sífellt og þó viðfangsefni séu tekin öðrum tökum vegna breyttra aðstæðna eru þau þó enn hin sömu nú og þau voru fyrir 150 árum, þegar hugað er að því, hvernig Íslendingar ætla að haga ferð sinni í samfélagi þjóðanna. Ég ætla að færa fyrir þessu þrenn meginrök í ljósi sögu Tómasar Sæmundssonar.
Í fyrsta lagi þurfum við nú eins og þeir gerðu á 19. öld Baldvin Einarsson, Tómas Sæmundsson og Jón Sigurðsson að skynja strauma samtímans rétt og virkja á þann veg, að best nýtist landi og þjóð til langrar framtíðar. Við verðum sífellt að spyrja, hvort þeir atburðir séu að gerast á okkar dögum, sem jafnist að áhrifum á við byltinguna í Frakklandi 1830 og valdi því, að nýir stjórnmálavindar veiti ný tækifæri eða krefjist nýrrar stefnu.
Slík stórtíðindi hafa vissulega gerst í samtímanum og ber þar hæst umbyltinguna í heimsmálum við upplausn og hrun Sovétríkjanna og þar með heimskommúnismans. Áhrifin er auðvelt að greina í öllum samskiptum Evrópuríkja og hér birtast þau í gjörbreyttri stöðu í öryggismálum, uppstokkun stjórnmálaflokka og í viðbrögðum við sókn ódýrs vinnuafls á íslenskan vinnumarkað, svo að þrjú dæmi séu tekin.
Í öðru lagi þörfnumst við enn þann dag í dag þeirra hér á landi, sem leggja hart að sér við að kynnast hinu besta meðal annarra þjóða og snúa síðan heim með þekkingu sína í því skyni að verða föðurlandi sínu að gagni.
Íslensk menning, menntun, rannsóknir og vísindi standa með miklum blóma um þessar mundir. Í þeim efnum þurfum við ekki að bera kinnroða gagnvart nokkurri þjóð. Stafar þetta meðal annars af því, að tekist hefur að virkja alþjóðlega strauma með styrkum íslenskum höndum og breyta þeim í ný og spennandi viðfangsefni á sviði mennta og menningar hér heima og í samstarfi við aðrar þjóðir.
Í þriðja lagi eigum við jafnmikið og áður undir framtaki einstaklingsins, dugnaði hans og áræði. Að menn láti ekki hugfallast, þótt vegurinn framundan virðist grýttur og torsóttur, heldur hafi kraft og vilja til að takast á við verkefni og sigrast á vandanum.
Tómas Sæmundsson og félagar hans risu gegn tíðarandum og börðust af eldmóði fyrir hugsjónum sínum, hvort sem þær snerust um vöxt og viðgang íslenskrar tungu eða umbætur í landbúnaði. Hvarvetna þar sem þeim þótti nauðsyn umbóta létu þeir að sér kveða í þeirri trú og vissu, að söguleg lögmál ráða ekki framvindunni heldur framtak og frumkvæði einstaklingsins.
Á Íslandi hefur sem betur fer tekist að leggja grunn að og þróa á farsælan hátt þjóðfélag frelsis, þjóðfélag, þar einstaklingurinn fær að njóta sín en býr jafnframt við öryggisnet velferðar í þágu allra. Ef við leggjum áfram rækt við þessa þjóðfélagsgerð mun þjóðinni farnast vel.
Við megum hins vegar ekki gleyma aganum, án hans getur frelsið hæglega snúist í andhverfu sína. Agi er ekki skerðing á einstaklingsfrelsi heldur auðveldar hann að ná árangri. Þýska skáldið Johan Wolfgang von Göthe sagði réttilega: Fullkomið frelsi fæst með því að hlýða öllum reglum.
Góðir áheyrendur!
Með því að líta til séra Tómasar Sæmundssonar og samtímamanna hans og huga jafnframt að okkar næsta nágrenni leggjum við rækt við söguna, treystum tengsl okkar við sjálfstæðisbaráttuna og stækkum sjóndeildarhringinn.
Við lifum nú mikla breytingatíma og allt gerist mun hraðar en fyrir 150 árum. Á þeim fáu árum, sem liðin eru síðan við Rut festum hér rætur, höfum við skynjað vaxandi áhuga sífellt fleiri á því að geta notið þess, sem Fljótshlíðin og nágrenni hennar hefur að bjóða.
Tímarnir eru vissulega aðrir heldur en þegar búskaparhætti og líf manna mátti auðveldlega tengja aftur til miðalda og stórhuga framfaramenn áttu fullt í fangi með að hnika við aldagömlum hefðum, hvort heldur í vinnubrögðum eða viðhorfum.
Um leið og við nýtum ný tækifæri og virkjum nýja strauma má ekki slíta tengslin við hið gamla og góða eða gera lítið úr afrekum forfeðranna. Þeim má þakka, að við stöndum á traustum menningarlegum og sögulegum grunni, þegar við metum stöðu Íslendinga í samfélagi þjóðanna. Við efnum til þjóðhátíðar til að treysta þennan grunn - til að minnast hinna framsýnu hugsjónamanna, sem sáu tækifæri til sóknar fyrir þjóð sína og nýttu þau.
Við komum einnig saman 17. júní til þess að horfa ótrauð fram á veginn í krafti vissunnar um, að tekist hefur að skapa hér samfélag og þjóðríki, sem stenst fyllilega samanburð við hið besta á heimsvísu.
Að lokum þetta:
Heimamenn hafa af stórhug unnið að því að nýta tækifærin, sem felast í því að búa á Njáluslóð. Ég sé ekki síður tækifæri fólgin í því að halda á lofti minningunni um séra Tómas Sæmundsson og kynna forystu hans frá Breiðabólstað við útgáfu Fjölnis.
Árið 2007 verða 200 ár liðin frá fæðingu séra Tómasar. Hann eignaðist hug og hjörtu þjóðarinnar fyrir 100 árum, þegar hún kynntist bréfum hans. Nú 100 árum síðar er enn þörf á að minna Íslendinga á gildi þess starfs, sem hann vann á Breiðabólstað. Að minnast Fjölnismanna á verðugan hátt mundi enn auðga hér mannlífið og efla tengsl hins besta úr fortíð, samtíð og framtíð.
Gleðilega þjóðhátíð!