26.5.2005

Náttúruverndarsinni fyrir borð.

Grein í Morgunblaðinu, fimmtudaginn 26. maí 2005.

KATRÍN Jakobsdóttir, varaformaður vinstri/grænna og formaður umhverfisráðs Reykjavíkurborgar, fagnar því í Morgunblaðsgrein 20. maí sl., að íslenskum náttúruverndarsinnum hafi bæst liðsauki, þar sem ég telji, að sýna beri umhverfi og náttúru á svæðinu milli Öskjuhlíðar og Nauthólsvíkur virðingu.

Í grein hér í blaðinu hinn 11. maí sl. lýsti ég áhyggjum mínum vegna þess, að umhverfisráð Reykjavíkurborgar var ekki haft með í ráðum, þegar Háskólanum í Reykjavík var gert tilboð um lóð á þessum stað.

Í grein sinni 20. maí 2005 leitast Katrín Jakobsdóttir við að gera sem minnst úr ágæti lóðarinnar undir háskólann. Þar sé ekki "ósnortin náttúra", herinn hafi raskað henni í síðari heimsstyrjöldinni auk þess sé svæðið "framræst mýri", þar sé "fullt af braggabrotum" og jafnvel kunni jarðvegur enn að vera "mengaður" af olíu síðan í stríðinu - það sé því engin leið að kalla þessa væntanlegu háskólalóð "sérstakt útivistarsvæði". Fuglalífið á svæðinu þurfi hins vegar að kanna. Vegna alls þessa sé varla hægt að kalla svæðið "náttúruperlu". Katrín hafnar því, að framkvæmdir vegna Háskólans í Reykjavík við Nauthólsvík fari í umhverfismat.

Í kynningarriti Reykjavíkurborgar: Staðarval Háskólans í Reykjavík, samningsgrundvöllur, sem dagsett er í mars 2005 segir meðal annars: "Öskjuhlíð og Nauthólsvík eru ótvíræð tákn um það besta sem Reykjavíkurborg hefur upp á að bjóða, einstök náttúrufegurð og aðstaða til útivistar í nánum tengslum við iðandi mannlíf borgarumhverfisins." Í grein sinni 20. maí hafnar Katrín Jakobsdóttir þessu sjónarmiði.

Hinn 25. apríl 2005 ritaði Katrín Jakobsdóttir grein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni: Náttúruvernd í þéttbýli. Þar segir hún, að náttúruvernd eigi ekki aðeins við um "ósnortin svæði", því að í þéttbýli séu ýmis náttúruvætti, sem full ástæða sé til að vernda, enda geri náttúran borgarsamfélagið enn betri stað til að búa á. Hún minnir á friðuð svæði eins og Fossvogsbakka og segir síðan: "Ennfremur eru nokkur svæði í Reykjavík á náttúruminjaskrá og teljast hafa sérstakt gildi. Sem dæmi má nefna Öskjuhlíðina en þar eru minjar um hæstu sjávarstöðu frá ísaldarlokum." Katrín nefnir einnig Vatnsmýrina, þar sé fuglalíf mikið og einstakt varpland í miðri borg og mikilvægt sé, að uppbygging í Vatnsmýrinni "verði í eins mikilli sátt við varplandið og mögulegt er". Og enn segir Katrín Jakobsdóttir: "Það er metnaðarmál allra náttúruverndarsinna að standa vörð um náttúruna í Reykjavík og hlúa sem best að þeim svæðum sem hafa óvenjulegt gildi."

Eins og áður sagði hóf Katrín Jakobsdóttir grein sína í Morgunblaðinu 20. maí með því að fagna mér sem nýjum liðsmanni við náttúruvernd. Þegar ég ber saman hinar tvær Morgunblaðsgreinar Katrínar, sem hér eru nefndar til sögunnar, kemst ég að þeirri niðurstöðu, að með grein hennar 20. maí hafi náttúruverndarsinninn, sem ritaði í blaðið 25. apríl, farið fyrir borð - sjálfur formaður umhverfisráðs Reykjavíkurborgar og varaformaður vinstri/grænna hafi sagt skilið við náttúruvernd í þéttbýli. Katrín sé hætt að telja Öskjuhlíðina hafa sérstakt gildi og vilji ekki neina sátt við varplandið í Vatnsmýrinni.

Um mig er það að segja, að ég hef í marga áratugi verið þeirrar skoðunar, að vernda beri Fossvogsbakka, svæðið milli Nauthólsvíkur og Öskjuhlíðar og mófuglalíf í Vatnsmýrinni. Ég óttast, að mörg þúsund manna vinnustaður með tvö þúsund jeppum á stæðum við Nauthólsvík kalli hættu yfir þessa staði.