10.4.1999

Menntaþing frjálsra félagasamtaka

Menntaþing frjálsra félagasamtaka,
Hótel Loftleiðum, 10. apríl 1999.


Menntaþing frjálsra félagasamtaka


Í lýðræðisþjóðfélagi er starfsemi frjálsra félagasamtaka mikilvægur þáttur stjórnskipulagsins. Raunar má segja, að slík félög séu forsendur þess, að um lýðræðislega stjórnarhætti sé að ræða. Í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins er einnig mælt fyrir um rétt manna til að stofna og starfa í félögum. Í þessu ljósi skiptir ekki síst miklu, að stjórnendur félaga og almennir félagsmenn átti sig á réttindum sínum og skyldum. Einnig er brýnt, að hlutverkaskipting milli frjálsra félagasamtaka og ríkisvaldsins sé vel skilgreind. Nauðsynlegt er að menn átti sig á hlutverki ríkisvaldsins annars vegar og frjálsra félagasamtaka hins vegar. Menntaþingið hér í dag stuðlar að því, að styrkja innviði frjálsra félagasamtaka með því að huga sérstaklega að hinu mikla fræðslustarfi, sem fer fram hjá frjálsum félögum. Í starfi félaga er ekki síður mikilvægt en á öðrum vettvangi að tileinka sér hið besta í stjórnun til að ná góðum árangri. Velgengni félagasamtaka ræðst mjög af því, hvernig þau haga samskiptum sínum við ríkisvaldið. Hið sama á við um þessi samtök og fyrirtæki, að því háðari, sem þau eru ríkisvaldinu, þeim mun minni líkur eru á því, að þau nái að þróast og dafna á eigin forsendum. Með þessum orðum er ég ekki að hafna því, að ríkisvaldið komi með einum eða öðrum hætti að því að styðja við bakið á starfsemi frjálsra félagasamtaka, ég tel hins vegar, að slíkur stuðningur megi ekki verða til þess að draga úr frumkvæðisvilja þeirra, sem stýra félögunum eða gera þá háða opinberum fjárstuðningi. Félögin verða að hafa frelsi og svigrúm til að berjast fyrir málstað sínum og félagsmanna sinna án tillits til opinberra sjónarmiða á hverjum tíma. Menntamálaráðuneytið á mikil og góð samskipti við mörg frjáls félög. Þau eru mikilvægir samstarfsaðilar og viðmælendur ráðuneytisins, þegar lagt er á ráðin um nýja löggjöf eða hugað ákvörðunum um framkvæmd laga. Einnig hefur ráðuneytið staðið að baki félögum, þegar þau hafa tekið að sér að sinna verkefnum, sem ekki væri á færi annarra að leysa af hendi. Nefni ég þar til dæmis Jafningjafræðslu framhaldsskólanema. Markmið þeirrar starfsemi er að virkja ungt fólk í framhaldsskólum til að berjast gegn fíkniefnum á eigin forsendum. Þegar stuðningi ráðuneytisins við jafningjafræðsluna var hrundið af stað, var tekið mið af reynslu víða um lönd. Hún sýndi, að unnt var að ná mun betri árangri með því að styrkja ungt fólk til að hafa áhrif á jafnaldra sína en að kalla til aðila utan hópsins. Starf af þessu tagi tekst ekki og skilar ekki árangri nema unga fólkið sjálft leggi því lið. Ef ekki er áhugi meðal þess, er ástæðulaust fyrir aðra að treysta á úrræði af þessu tagi. Mikilvægi þess að börn og ungmenni eigi þess kost að taka þátt í félags- og tómstundastarfi verður seint metið. Þroskinn sem einstaklingurinn öðlast í félagsstarfi og færnin sem hann nær með virkri þátttöku nýtist alla tíð. Kannanir benda til þess að með þátttöku í skipulögðu félagsstarfi verði unglingurinn hæfari til að takast á við ný verkefni í þjóðfélagi, þar sem vaxandi kröfur eru gerðar til einstaklingsins. Á þeim tæpu þremur áratugum, sem eru liðnir frá því að núgildandi æskulýðslög voru sett hafa miklar breytingar orðið á högum íslenskra barna. Tilboðum um félags- og tómstundastarf hefur fjölgað og fleiri standa að slíku starfi fyrir börn en áður hefur þekkst. Á sama tíma hafa réttindi barna hlotið aukna umfjöllun og lög hafa verið sett um ýmis hagsmuna- og réttindamál barna. Æskulýðslöggjöfin hefur ekki verið löguð að þessum nýju kröfum, þótt margar atrennur hafi verið gerðar að endurskoðun hennar. Hef ég beitt mér fyrir ýmsum athugunum á löggjöf annarra landa til að unnt sé að átta sig á því, hvernig tekið hefur verið á æskulýðsmálum í lögum þeirra. Aðalatriðið er að leggja ekki stein í götu þeirra, sem vinna gott starf, en gæta þess um leið að gerðar séu hæfilegar kröfur, svo að ekki sé gengið á rétt barna og ungmenna. Þar skiptir menntun og reynsla leiðtoga æskulýðsstarfsins ekki síst máli. Við Íslendingar þekkjum það vel úr okkar eigin sögu, að margt af því besta, sem setur svip sinn á æskulýðsstarf okkar má rekja til öflugra leiðtoga, stefnu þeirra og starfa. Á mínum vegum hafa verið samin drög að frumvarpi til laga um tómstundir barna og unglinga. Hafa drögin verið til ýtarlegrar athugunar á vegum ráðuneytisins. Er það markmið mitt að senda þau til umsagnar og athugunar hjá viðmælendum ráðuneytisins í æskulýðsmálum, áður en þau verða kynnt á vettvangi ríkisstjórnar eða annars staðar. Í frumvarpinu er lögð áhersla á rétt barna og unglinga til félags- og tómstundastarfs, sem hafi skilgreint inntak; formlega umgjörð um atbeina opinberra aðila til þess að efla skipulagt félags- og tómstundastarf barna og ungmenna og kröfur til þeirra sem vinna með börnum í skipulögðu félags- og tómstundastarfi. Innan skólakerfisins ber að leggja grunn að áhuga ungs fólks á því að sinna frjálsu félagasstarfi. Í grunnskóla hefur ný námsgrein, lífsleikni, verið skilgreind. Henni er ætlað að efla alhliða þroska nemandans. Í því felst að nemandinn læri að rækta með sér andleg verðmæti, líkamlegt heilbrigði og sálrænan styrk. Hann efli félagsþroska sinn, siðvit og virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum. Auk þess verður leitast við að styrkja áræði hans, frumkvæði, eðlislæga sköpunargáfu og aðlögunarhæfni til að takast á við kröfur og áskoranir í daglegu lífi. Allt eru þetta þættir sem ýta undir hæfni til þátttöku í tómstunda- og félagsstarfi en ekki síður en í samfélaginu sjálfu. Áherslur í lífsleikni undirstrika þá staðreynd að skólinn er vinnustaður nemenda þar sem verðmætt uppeldi fer fram. Frumábyrgð á uppeldi barna hlýtur þó ávallt að vera í höndum foreldra eða forráðamanna þeirra. Skólinn og aðrir aðilar aðstoða foreldra í uppeldishlutverkinu og er menntun og velferð nemenda því sameiginlegt verkefni heimila og skóla. Samstarfið þarf að byggjast á gagnkvæmri virðingu, trausti og samábyrgð. Með því að gera lífsleikni að sérstakri námsgrein er verið að svara kalli tímans um að búa nemandann betur undir að takast á við lífið. Til þess þarf hann að læra að þekkja sjálfan sig, bera virðingu fyrir sjálfum sér og þekkja styrkleika sinn og veikleika. Lífsleikni veitir einnig dýrmæt tækifæri til þess að efla félagsþroska nemenda. Fengist er við þætti sem tengjast því að vera þátttakandi í lýðræðislegu þjóðfélagi, tilheyra fjölskyldu, eiga vini og félaga, vinna með öðrum og setja sig í spor annarra. Í námsgreininni er horft á nemandann í heild, færni til samskipta, tjáningar og þess að færa rök fyrir máli sínu, setja sér markmið, sýna frumkvæði, rata um umhverfi sitt, varast hættur og geta bjargað sér. Nemendur, sem koma þannig úr grunnskóla, eiga að vera færir um að meta betur eigin stöðu, þegar þeir fara í framhaldsskóla, þar sem lögð er áhersla á að nemandinn velji sér námsbrautir við hæfi og eftir áhuga sínum. Markmiðið er að framhaldsskólinn verði sveigjanlegur og nemendur lokist ekki í blindgötum heldur geti sniðið námið að eigin þörfum. Taka nýjar námskrár fyrir framhaldsskólann mið af þessu. Eitt af meginmarkmiðum framhaldsskólalaganna er að efla hvers kyns starfsnám. Lögð er áhersla á að auka framboð á starfstengdu námi, hvort sem það veitir lögvernduð réttindi eða ekki, og er sérstaklega hugað að stuttu starfsnámi í tengslum við þarfir vinnumarkaðarins. Til þess að vinna að þessum þætti málsins hafa verið skipuð fjórtán starfsgreinaráð fyrir skilgreinda starfsgreinaflokka. Gera þau meðal annars tillögur um námskrá hvert á sínu sviði. Menntamálaráðuneytið samdi við öll starfsgreinaráðin síðasliðið haust um það, hvernig þau skyldu sinna verkefnum sínum og hafa þau nú þegar hafið störf. Eitt starfsgreinaráðanna fer með uppeldis- og tómstundagreinar. Ráðið hefur skipt þeim í þrjá flokka, þ.e. íþróttastörf, félags- og tómstundastörf og störf aðstoðarfólks í skólum og leikskólum auk skyldra starfa Starfsgreinaráðið hefur þegar lagt fram drög að starfsáætlun og er þess vænst að hún verði fullbúin innan tíðar. Nokkurt framboð náms hefur verið á þessu sviði á framhaldsskólastigi á undanförnum árum og má þar nefna íþróttabraut og uppeldisbraut. Íþróttabraut hefur verið starfrækt í nokkrum framhaldsskólum og hefur henni lokið með stúdentsprófi. Starfsgreinaráð uppeldis- og tómstundagreina mun endurskilgreina þetta nám, hluti af því verður starfstengt, sem ætti að greiða fyrir því að nemendur verði gjaldgengir sem leiðbeinendur eða umsjónarmenn með unglinga- og tómstundastarfi. Hér ríður þá á að atvinnulífið viðurkenni þessi réttindi og meti þau til fjár. Hluta þessa náms verður að líkindum unnt að meta sem hluta kjörsviðis á bóknámsbrautum. Auk þess verður viðbótarnám sérstaklega skilgreint með hliðsjón af frekara námi í sérskólum eða skólum á háskólastigi. Hinn 1. janúar 1998 færðist menntun íþróttakennara á háskólastig og síðan hefur verið unnið að því að endurskilgreina kröfur í því námi. Er mikilvægt, að send verði rétt skilaboð úr Kennaraháskóla Íslands í framhaldsskólana til að laða nemendur þar inn á þær brautir, sem veita besta menntun til undirbúnings háskólanáms í íþróttafræðum, því að þar er verið að móta leiðtoga í mikilvægum þætti æskulýðsstarfs. Góðir áheyrendur Ég hef hér nefnt þau atriði, sem nauðsynlegt er að hafa í huga, þegar litið er til samskipta ríkisins og frjálsra félagasamtaka. Ég er þeirrar skoðunar, að þetta samstarf skipti mjög miklu máli og eigi að þróast á samningsbundnum forsendum, þar sem þess er kostur, svo að báðir aðilar átti sig sem best á réttindum sínum og skyldum. Frjáls félagasamtök standa ekki undir nafni nema þau séu það frjáls undan forsjá ríkisvaldsins, að það geti ekki sett starfsemi þeirra stólinn fyrir dyrnar með einhliða aðgerðum. Þessi félög eiga að veita ríkisvaldinu eðlilegt aðhald, koma með hugmyndir og vinna að framgangi mála í þágu félagsmanna sinna. Ríkisvaldið hefur sínum sérstöku skyldum að gegna. Þær koma meðal annars fram í því að búa þannig um hnúta innan skólakerfisins, að ýtt sé undir þátttöku einstaklinga í frjálsum félögum. Tel ég, að nýjar námskrár taki mið af þessu. Einnig bind ég miklar vonir við væntanlegar tillögur starfsgreinaráðs um uppeldis- og tómstundagreinar. Þær geta skipt sköpum um það, hvernig til tekst á vettvangi framhaldsskólanna. Háskólar setja sjálfir sínar námskrár og þar er vaxandi áhugi á því að bjóða stuttar og hagnýtar starfsnámsbrautir. Leiðtogastarf í frjálsum félagasamtökum skiptir sköpum fyrir velgengni viðkomandi félaga. Ég fagna því, að til þessa menntaþings skuli efnt í því skyni að skerpa áhersluna á góða þekkingu þeirra, sem veljast til forystu í einstökum félögum. Með því er ekki aðeins verið að efla félögin heldur einnig lýðræðislegt starf almennt í landinu. Við erum rækilega minnt á það um þessar mundir, hve miklar hörmungar geta hlotist af því, ef menn sýna ekki umburðarlyndi í samskiptum hver við aðra og láta undir höfuð leggjast að virða lýðræðisleg grundvallarviðhorf. Styrkur íslenska þjóðfélagsins felst ekki síst í virðingu okkar fyrir rétti einstaklingsins og frelsi hans til að stofna og starfa í þeim félögum, sem hann kýs.