Skipulagsmál í Vatnsmýrinni.
Borgarstjórn 15. mars, 2005.
Þegar rætt er um Vatnsmýrina beinist athygli að sjálfsögðu að Reykjavíkurflugvelli og framtíð hans. Þetta mál var ágreiningsmál fyrir borgarstjórnarkosningar vorið 2002. Þá létu talsmenn R-listans í veðri vaka, að þeir fylgdu róttækri stefnu gegn Reykjavíkurflugvelli - en við sjálfstæðismenn vildum þæfa málið og tefja.
Ég leit þannig, að með þessu væri R-listinn að þyrla upp moldviðri í því skyni að blekkja hóp kjósenda til fylgis við sig - háværan hóp, sem átti og á enn greiðan aðgang að fjölmiðlum.
Nú blasir við, að varnaðarorð um blekkingar R-listans áttu við rök að styðjast. Talsmenn flokksins fluttu falskan boðskap og vildu ekki horfast í augu við staðreyndir málsins.
Þegar gengið var til kosninganna hafði verið um það samið milli ríkis og borgar, að Reykjavíkurvöllur yrði fram til 2016 með þeim meginsvip, sem hann hefur núna. R-listinn samþykkti aðalskipulag, sem byggist á því, að milli 2016 og 2024 verði einni braut - austur/vesturbraut - haldið úti og standi hún undir öllu flugi á vellinum.
Flugráð og sérfræðingar þess höfðu þá bent á, að ein braut dygði ekki frá öryggissjónarmiði.
Fyrir kosningar var ágreiningur innan R-listans um það, hvort flugvöllurinn ætti að fara eða vera eftir 2016 eins og kom skýrt fram í hinni sérkennilegu atkvæðagreiðslu um Vatnsmýrina, eftir að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þáverandi borgarstjóri, hafði ritað undir samning um, að flugvöllurinn yrði hér til 2016.
Í kosningastefnu okkar sjálfstæðismanna um flugvallarmálið sagði: „Við ætlum að beita okkur fyrir varanlegri niðurstöðu um flugvallarmálið með viðræðum við ríkisvaldið og aðra hagsmunaaðila um skipulag í Vatnsmýrinni og fá þar aukið landrými undir blandaða byggð, án þess að vegið verði að flugöryggi eða gengið gegn hagsmunum Reykjavíkur og landsbyggðarinnar í samgöngumálum."
Í þessum orðum fólst fyrirheit um að koma flugvallarmálinu og skipulagsmálum Vatnsmýrarinnar út úr pólitískri sjálfheldu R-listans. Annaðhvort yrði hér flugvöllur, sem stæðist öryggiskröfur, eða flugvöllurinn hyrfi úr Vatnsmýrinni.
Ég taldi þá og tel enn skynsamlegt, að Reykjavíkurborg stofni til viðræðna við ríkisvaldið um flugvöllinn og framtíð Vatnsmýrarinnar með þau efnisatriði að leiðarljósi sem við sjálfstæðismenn nefnum í stefnu okkar.
Í kosningabaráttunni sætti ég mikilli gagnrýni fyrir þessar skoðanir af hálfu frambjóðenda R-listans, sem sögðust ætla að taka málið allt öðrum tökum. En hvað hefur komið í ljós?
Jú, Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri R-listans ritaði hinn 11. febrúar síðastliðinn undir minnisblað með Sturlu Böðvarssyni samgönguráðherra um samgöngumiðstöð í Vatnsmýrinni. Í 6. lið þessa minnisblaðs segir, að í því skyni að leggja grundvöll að sameiginlegri niðurstöðu um framtíð flugstarfsemi í Vatnsmýri skuli samgönguráðherra og Reykjavíkurborg láta fara fram flugtæknilega, rekstrarlega og skipulagslega úttekt á Reykjavíkurflugvelli, þar sem meðal annars skuli skoðuð einnar-brautarlausn, tveggja-brautalausn og sá kostur, að öll flugstarfsemi hverfi af svæðinu. Tilgangur úttektarinnar er meðal annars sá, að ná fram mati á lágmarksstærð flugbrauta og athafnasvæðis sem þörf er talin á, eigi flugvöllurinn að þjóna núverandi hlutverki sínu með miðstöð innanlandsflugsins. Að niðurstöðu fenginni fari fram formlegar viðræður aðila um framtíð flugstarfsemi í Vatnsmýrinni.
Þessi liður minnisblaðs ráðherrans og borgarstjórans fellur nákvæmlega að þeirri stefnu, sem við sjálfstæðismenn boðuðum fyrir kosningar.
Í umræðum á alþingi hinn 7. mars síðastliðinn svaraði samgönguráðherra spurningu um það, hvort hann gæti fallist á, að norður/suður braut Reykjavíkurflugvallar yrði lögð af. Ráðherrann taldi að standa yrði þannig að rekstri vallarins að ýtrasta öryggis væri gætt og þá yrðu að sjálfsögðu að vera þær flugbrautir til staðar, sem til þyrfti. Hann ætti mjög erfitt með að ímynda mér að hægt væri að reka Reykjavíkurflugvöll með einni braut.
Forseti!
Ég ítreka þá skoðun, að stefnumörkun í 6. lið í minnisblaði samgönguráðherra og borgarstjóra fellur að þeim markmiðum, sem fólust í stefnu okkar sjálfstæðismanna í flugvallarmálinu fyrir kosningar. Við vildum að ríki og borg færu sameiginlega yfir alla þætti málsins í leit að sameiginlegri niðurstöðu, sem byggðist á skýrum og ótvíræðum rökum. Þess vegna sé ég ekki ástæðu til að gagnrýna það, að borgarstjóri skuli hafa ritað undir yfirlýsinguna, sem felst í þessu minnisblaði.
Ég sé hins vegar víða, að þeir, sem trúðu R-listanum, þegar hann gagnrýndi okkur sjálfstæðismenn fyrir kosningar, og héldu, að hann ætlaði að leggja niður Reykjavíkurflugvöll, hvað sem á gengi, eru undrandi og vonsviknir vegna þessa samkomulags ráðherrans og borgarstjórans.
Egill Helgason ræðir undirskrift borgarstjóra í DV-grein laugardaginn 12. mars, hann telur borgarstjóra gera of lítið úr undirskrift sinni með því að kalla skjalið „minnisblað“ og segir, að þeir sem hafi lesið plaggið fái ekki betur séð en það sé bona fide samningur. Ég tek undir þennan skilning viðmælenda Egils, en hann spyr síðan:
„Hvað á maður svo að kalla þetta: Skipulagt undanhald? Stórsóknarfórn? Flótta sem er brostinn í liðið? Það virðist vera að borgin láti hérumbil allt en fái ekkert í staðinn.“
Raunar þarf ég ekki að segja meira um þennan þátt málsins, það er framtíð Reykjavíkuflugvallar - samgönguráðherra og borgarstjóri hafa sett málið í ákveðinn farveg og borgarstjórn hlýtur að bíða niðurstöðu þeirrar sameiginlegu úttektar, sem ákveðin hefur verið.
Þetta er ekki fyrsta samkomulagið, sem borgarstjóri R-listans gerir við samgönguráðherra um flugvöllinn. Vorið 1999 gerði ríkið sérstakt samkomulag við borgaryfirvöld vegna endurbyggingar flugvallarins og með því samkomulagi hófust framkvæmdir við endurnýjun vallarins fyrir hundruð milljóna króna. Framkvæmdaleyfi var veitt af til þess bærum aðilum, skipulagsyfirvöld Reykjavíkurborgar fjölluðu um það, borgarráð og borgarstjórn, að heimila endurbyggingu Reykjavíkurflugvallar á grundvelli þess skipulags sem þá var í gildi.
Allt hefur þetta gengið eftir - það er hins vegar eitt, sem ekki hefur gengið eftir og það er gerð heildarskipulags fyrir Vatnsmýrarsvæðið. Um það mál var meðal annars fjallað í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins síðastliðinn sunnudag. En þar sagði meðal annars:
„Á sínum tíma tók Morgunblaðið þá eindregnu afstöðu að rétt væri að flugvöllurinn hyrfi alfarið. Sú afstaða var ekki síst tekin með það í huga að hægt væri að skipuleggja Vatnsmýrarsvæðið sem eina heild er síðan yrði lyftistöng fyrir öflugan miðborgarkjarna íbúðarbyggðar, mennta og menningar í Reykjavík. Áhersla var lögð á heildrænt skipulag svæðisins til þess að uppbyggingin sjálf yrði einnig heilsteypt á þessu mikilvæga byggingarlandi og endanleg markmið öllum borgarbúum ljós sem fyrst. Strax í október árið 2001 komst skipulagsnefnd Reykjavíkur að þeirri niðurstöðu að efna skyldi til alþjóðlegrar hugmyndasamkeppni um rammaskipulag fyrir svæðið, en sú samkeppni hefur ekki enn farið fram. Síðastliðinn mánudag [það er 7. mars] viðraði Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri í Kastljósi Ríkissjónvarpsins aftur fyrirætlanir um að efna til samkeppni um skipulag svæðisins, en trúverðugleiki slíkra hugmynda virðist því miður lítill miðað við fyrri efndir. Það er ófært að ekki skuli hafa orðið til hreinn og klár átakaöxull meðal borgarfulltrúa úr öllum flokkum um afstöðu til þessa mikilvæga máls. Borgarbúar hljóta að eiga rétt á því að fá hrein og klár svör; fyrst um markmið og síðan um leiðir til að framfylgja þeim.“
Ég tek undir þessi orð blaðsins, þegar vikið er að trúverðugleika yfirlýsinga borgarstjóra um gerð heildarskipulags fyrir Vatnsmýrarsvæðið. Ekkert slíkt er á döfinni, hvað sem líður orðum borgarstjóra í þessum Kastljósþætti.
Borgarstjóri ritaði undir minnisblaðið með samgönguráðherra vegna skipulags á einum bletti, það er fyrir samgöngumiðstöð. R-listinn ræðir aðeins um uppbyggingu á litlum dreifðum blettum í Vatnsmýri án þess að að heildarmyndin sé kynnt og skipulögð. Valssvæðið hefur verið skipulagt eitt og sér og nú hafa verið kynntar hugmyndir undir lóð fyrir Háskólann í Reykjavík á enn einum bletti á þessu svæði.
Forseti.
Enginn þarf að efast um áhuga minn á velgengni Háskólans í Reykjavík, ég hef fylgst með vexti hans og viðgangi allt frá því ég flutti á alþingi frumvarp til laga, sem lagði grunn að samstarfi ríkisins við einkaaðila um rekstur háskóla. Ég naut einnig þess heiðurs á sínum tíma að fá að taka fyrstu skóflustungu að húsi Háskólans í Reykjavík í Kringlunni. Mér er að sjálfsögðu kappsmál, að háskóli kenndur við höfuðborgina eigi þar aðsetur og geti eflst þar og styrkst.
Þegar gengið var til þess að stofna og reisa hús fyrir Háskólann í Reykjavík held ég, að engum hafi boðið í grun, hve ör vöxtur skólans yrði og ekki liði lengri tími en raun er, þar til hann þyrfti stórt land undir starfsemi sína. Nú er sú stund hins vegar komin, að eigendur skólans og stjórnendur þurfa að taka ákvarðanir um framtíðarstað undir hann, stað, sem skapar skólanum færi á að vaxa enn og dafna.
Ég kýs að sjálfsögðu, að af hálfu Reykjavíkurborgar sé markvisst unnið að því, að skólinn fái viðunandi starfsaðstöðu innan marka höfuðborgarinnar. Borgin keppir hins vegar um þetta eins og svo margt annað við nágrannasveitarfélögin og fyrir liggur, að í Garðabæ hafa bæjaryfirvöld unnið að því hörðum höndum í nokkur misseri að þróa háskólaþorp í Urriðaholti og hafa Garðbæingar gert áætlanir um, að Háskólinn í Reykjavík geti hafið starfsemi þar árið 2007, kjósi hann að flytja starfsemi sína þangað.
Því miður hefur ekkert sambærilegt skipulags- og undirbúningsstarf verið unnið á vegum Reykjavíkurborgar til að búa sig undir stækkun Háskólans í Reykjavík, en eins og kunnugt hefur alþingi samþykkt að Tækniháskóli Íslands, sem einnig starfar í Reykjavík verði hluti Háskólans í Reykjavík. Hér er því í raun um tvær menntastofnanir, sem verið hafa í Reykjavík, að ræða og er Garðabær að bjóða þeim báðum land innan sinna bæjarmarka.
Við þessar aðstæður gerist það svo, að á síðasta fundi borgarráðs er lagður fram litprentaður kynningarbæklingur, þar sem hugsað er um það, að Háskólinn í Reykjavík verði í Vatnsmýrinni, nánar tiltekið austan við flugvöllinn í Nauthólsvíkinni. Í þessum bæklingi er í senn hugsað um háskólann í miðri borg og háskóla við ströndina, hvernig sem það má nú vera.
Ég ætla ekki að rifja hér upp, enda með öllu óþarft, hve hástemmd orð hafa fallið um það í þessum ræðustól, hvílíkt afrek var unnið með gerð ylstrandarinnar og sjóbaðsins við Nauthólsvík og hve oft hefur verið rætt um að varðveita svæðið í kringum víkina sem sérstakan kyrrlátan unaðsreit borgarbúa. Nú er hugmyndin hins vegar sú að breyta þessum reit í athafnasvæði mörg þúsund manna háskóla með öllum þeim umsvifum, sem slíkri starfsemi fylgi.
Margt bendir því miður til þess, að hér séu menn í fljótræði á síðustu stundu að reyna að bjarga sér út úr vanda. Málið hafi í raun ekki verið hugsað til enda fyrir utan að alla almenna kynningu á því skortir, þótt mér skiljist, að tillagan um þetta svæði verði kynnt Háskólanum í Reykjavík í dag með einhvers konar fyrirheiti, sem ég veit ekki hvers eðlis er.
Hugmyndir um Háskólann í Reykjavík á flugvallarsvæðinu ganga gegn nýlegu svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins og gera þarf verulegar og tímafrekar breytingar á því í samvinnu allra sveitarfélaga til að hugmyndin nái fram að ganga. Slíkar breytingar þurfa jafnframt að hljóta staðfestingu skipulagsstofnunar.
Núgildandi svæðisskipulag gerir ráð fyrir að lóðin, sem lýst er í bæklingum, sé ekki til uppbyggingar fyrr en eftir 2024. Hugmyndin virðist þar að auki í algjöru ósamræmi við stefnu svæðisskipulagsins en í greinargerðinni á bls. 51 segir orðrétt:
,,Rétt er að undirstrika það að við gerð aðalskipulags og deiliskipulags á þessum einstöku svæðum verður stuðst við rammaskipulag, en borgaryfirvöld áforma að efna til samkeppni um rammaskipulag Vatnsmýrarinnar á kjörtímabilinu 2002-2006 til að tryggja að svæðið verði skipulagt sem heild...”
Eins og áður sagði var rammaskipulaginu lofað þegar árið 2001 en bútasaumurinn og blettavalið hefur engu að síður ráðið ferð til þessa og vinnubrögðin, sem hér er lýst, stangast auðvitað alveg á við allar hugmyndir um rammaskipulag.
Engin formleg skipulagsvinna hefur verið hafin á þessu svæði og veruleg hætta er á töfum á framkvæmdum vegna óvissu um skipulagið. Ekki er ólíklegt, að margir mótmæli því að leggja Nauthólsvíkursvæðið undir byggð. Við þekkjum það, að skipulagsvinna í Reykjavík er almennt mjög sein og tímafrek. Mál eru lengi í óvissu.
Þegar þetta svæði er kynnt Háskólanum í Reykjavík hljóta borgaryfirvöld að hafa marga fyrirvara, til dæmis að ekki er hægt að hanna hús fyrr en deiliskipulag hefur verið samþykkt; ekki er hægt að hefja deiliskipulagsvinnu fyrr en aðalskipulag er til; ekki er hægt að breyta aðalskipulagi fyrr en svæðisskipulagi hefur verið breytt. Þetta verk er allt óunnið á þessum viðkvæma stað í Vatnsmýrinni.
Í Fréttablaðinu í gær viðurkennir Dagur B. Eggertsson, formaður skipulagsráðs, að skipulag svæðisins í Vatnsmýrinni, sem boðið er Háskólanum í Reykjavík, sé ekki eins langt komið og skipulag Garðbæinga fyrir skólann. Formaður skipulagsráðs telur það þó ekki koma að sök, þar sem enn eigi eftir að hanna húsnæðið og ætti það að haldast í hendur við skipulagsferlið.
Ég hef aldrei heyrt áður um það rætt af forystumanni í skipulagsmálum, að skynsamlegt sé að standa að málum á þennan veg, að menn eigi bara að hanna og teikna hús í samræmi við skipulagsferlið. Mér er spurn: Er ekki nauðsynlegt fyrir Háskólann í Reykjavík og aðra, að ákvörðun um deiliskipulag á þessum viðkvæma stað liggi samþykkt fyrir í samræmi við skipulagslög, áður en skólinn hefst handa við hanna og teikna mannvirki sín?
Þessi orð formanns skipulagsráðs staðfesta enn, að hér er um dæmalaust óðagot í skipulagsmálum að ræða.
Hvað sem líður umhyggju fyrir þessu svæði frá sjónarhóli umhverfis, er ástæða til spyrja, hvort það sé heppilegt fyrir háskóla.
Ég tel, að umferð til og frá háskólanum yrði mjög hæg, enda stæði hann eins og í botnlanga frá þungum umferðaræðum. Að hugsa þennan háskóla í miðri borg á þessum stað er fráleitt. Eigendur hótels Loftleiða vilja hætta þar hótelrekstri, vegna þess að gestum finnst þeir of langt frá miðborginni, skólinn yrði þó enn fjær.
Ég sé ekki, að þarna sé unnt að bjóða háskóla alla þá þjónustu, sem er æskileg hverju háskólasamfélagi, þar má nefna sundlaug, íþróttamannvirki, heilsugæslu, grunnskóla, leikskóla, matvöruverslun, kaffihús, svo að eitthvað sé nefnt.
Af kynnum mínum af markmiðum Háskólans í Reykjavík hef ég talið, að fyrir stjórnendum hans vekti að búa til alþjóðlegan rannsóknaháskóla í tengslum við íslenskt atvinnulíf. Hvernig sjá menn slík tengsl fyrir sér á þessu svæði? Hvar eiga sprotafyrirtækin að rísa?
Forseti.
Ég ætla ekki að fara fleiri orðum þetta en vil þó ekki láta hjá líða að vitna til samtals við Pál Skúlason, fráfarandi rektor Háskóla Íslands, sem sagði í fréttum sjónvarpsins á sunnudag, að valið á lóð fyrir Háskólann í Reykjavík hefði komið sér á óvart enda lóðin í miðju vinsælasta útivistarsvæði borgarinnar. Rektor sagðist helst vilja sjá Háskólann í Reykjavík enn nær Háskóla Íslands en við Öskjuhlíðarrætur bæði vegna samstarfsmöguleika og einnig vegna samkeppni milli skólanna. Páll sagði, að Reykjavíkurborg hefði þegar gefið Háskóla Íslands fyrirheit um stóra lóð í Vatnsmýrinni en hún væri vestan norður brautarinnar, þar sem flugskýli væru nú.
Páll Skúlason nefnir þarna kost, sem sjálfsagt er að skoða. Ég hef á hinn bóginn lengi verið þeirrar skoðunar, að æskilegt sé að ætla háskólastarfsemi stað á Keldnaholti og kynnt hafa verið áform um háskóla- og vísindabyggð á þeim stað. Ég er undrandi á því, að ekki skuli hafa verið litið á þann kost með hagsmuni Háskólans í Reykjavík í huga - þar væri unnt að bjóða aðstöðu, sem væri meiri og betri en á blettinum í Vatnsmýrinni, aðstöðu, sem gæti fyllilega keppt við þau áform, sem Garðabær hefur kynnt í Urriðaholti.
Í þessu efni hefur R-listinn hins vegar sofið á verðinum og þegar hann vaknar upp með andfælum leitar hugur hans enn og aftur í Vatnsmýrina, þar sem alla heildarsýn skortir og keppst er við að ráðstafa einstaka blettum - slíkt er ekki boðlegt, þegar framtíð innanlandsflugs og háskóla er í húfi.
Ég vona svo sannarlega, að sleifarlag og síðan fljótfærni R-listans verði ekki til þess, að Háskólinn í Reykjavík sjái sér þann eina kost að flytja úr Reykjavíkurborg. Það hlýtur að vera metnaðarmál okkar allra, að háskólinn eigi áfram aðsetur í Reykjavík.