17.2.2005

Trú og stjórnmál

Fundur á vegum KFUM, 17. febrúar, 2005.

Þegar ég var beðinn um að tala hér í ykkar hópi, taldi ég víst, að áhugi væri á því að heyra eitthvað um afstöðu mína til kristinnar trúar. Síðar fékk ég svo senda dagskrá þessara ágætu fræðslukvölda ykkar og sá þá, að ræðumenn binda efni sitt ekki endilega við eitthvað trúarlegs eðlis. Ég ætla samt að halda mig á þeim miðum og ræða málið frá sjónarhóli stjórnmálanna.

Ég árétta þetta með stjórnmálin, því að hvað sem guðfræði líður og gildi hennar til að skýra, hvað í ritningunum felst, er hitt staðreynd, að í samtímanum eru stjórnmálaviðburðir eða heimsöguleg atvik af einhverjum toga kveikja að umræðum um gildi trúarinnar. Ég minni á fall Berlínarmúrsins árið 1989, árásina 11. september árið 2001 og flóðbylgjuna miklu á Indlandshafi annan dag jóla árið 2004.

Í þann mund, sem hinn guðlausi kommúnismi var að syngja sitt síðasta í Austur-Evrópu og Rússlandi braust þar fram mikil þörf almennings til að játa trú sína á Krist og láta hana í ljós, oft á dramatískan hátt. Eftir hin sögulegu pólitísku umskipti í álfunni meta þjóðir eða þjóðarbrot styrk sinn og stöðu með pólitískri skírskotun, sem oftar en ekki á rætur í ólíkum trúarbrögðum eða ólíkum kirkjudeildum.

Eftir hamfarirnar miklu við Indlandshaf hefur verið spurt: Gerðist þetta með Guðs vilja? Sömu spurningar vakna, þegar rætt er um stríð og frið, vígbúnað og kapphlaup milli herja.

Þegar Vesturlönd ákváðu að svara kjarnorkuógn Sovétríkjanna í Evrópu undir lok áttunda áratugar síðustu aldar með því að vígvæðast með meðaldrægum, bandarískum kjarnorkueldflaugum, var ályktað gegn því í nafni kirkjunnar í mörgum löndum. Í Vestur-Þýskalandi létu biskupar og prestar mjög að sér kveða gegn þessum ráðstöfunum og ýttu undir svonefndar friðarhreyfingar.

Ég og margir fleiri þátttakendur í oft miskunnarlausum deilum kalda stríðsáranna erum sammála um, að ákvörðun NATO um eldflaugarnar og staðfesta Ronalds Reagans Bandaríkjaforseta hafi ráðið mestu um, að Sovétríkin og valdakerfi kommúnismans í Evrópu leið undir lok.

Spyrja má: Stöndum við í svipuðum sporum nú og þá, þegar rætt er um stöðu heimsmála á líðandi stundu? Er sú kenning rétt, sem sett var fram snemma á síðasta áratug, að eftir fall kommúnismans og brotthvarf hinna hugmyndafræðilegu átaka á milli talsmanna hans og kapítalismans, yrðu átök milli ólíkra menningarheima það er einkum milli ólíkra trúarbragða? Ber að líta á árásina 11. september 2001 og eftirleikinn í því ljósi?

Við þessum spurningum er ekkert einhlítt svar, en þær eru vissulega áleitnar og nauðsynlegt að velta þeim fyrir sér bæði frá pólitískum og trúarlegum sjónarhóli. Enginn hér inni efast um yfirburði lýðræðis andspænis einræði. Enginn hér inni efast heldur um yfirburði kristinnar trúar gagnvart öðrum trúarbrögðum. Enginn krefst þess, að við séum umburðarlyndir gagnvart einræðisherrum en samkvæmt íslenskum stjórnlögum ber okkur hins vegar að virða önnur trúarbrögð eins og okkar eigin.

Á pólitískum vettvangi í hinum opnu lýðræðisríkjum er fremur sótt að þeim, sem játa kristna trú en hitt. Eitt af því fyrsta, sem ég var spurður um, þegar ég varð kirkjumálaráðherra, var, hvort ég ætlaði að beita mér fyrir því, að þjóðkirkjuskipulagið yrði afnumið. Ég er eindregið andvígur því, bæði af trúarlegum og menningarlegum ástæðum, auk þess sem ég tel stjórnarskrá okkar tryggja trúfrelsi, þótt hún mæli jafnframt fyrir um það, að hér skuli vera evangelísk-lúthersk þjóðkirkja.

Á menntamálaráðherraárum mínum lagði ég áherslu á, að við gerð nýrra námskráa yrði byggt á hinum kristna arfi og trú. Nú heyri ég, að þær kröfur séu að verða æ háværari, að hlutur kristni verður þurrkaður út úr skólastarfi, eða hann að minnsta kosti lagður að jöfnu við hlut annarra trúarbragða.

Eins og eðlilegt er tengdi ég fund á vegum KFUM reynslu minni af félagsskapnum. Ungur að árum fór ég oft á samkomur að Amtmannsstíg og á ég þaðan margar góðar minningar og raunar einnig úr Vatnaskógi, þar sem ég var eitt sinn og þótti mér þá skrýtið að geta varið sumartíma til íþrótta og leikja, því að öllum öðrum æskusumrum mínum eyddi ég frá upphafi til enda við sveitastörf norður í Skagafirði.

Ég man vel eftir séra Magnúsi Runólfssyni og öðrum, sem stjórnuðu samkomunum að Amtmannsstíg. Ég heyri aldrei sálminn Áfram kristmenn, krossmenn sunginn, án þess að hugur minn leiti til KFUM. Minnisstæðast er að hafa verið boðið inn til séra Friðriks. Á þeim tíma áttaði ég mig þó varla á því, hve miklu hann hafði áorkað fyrir íslensku þjóðina. Hugurinn var frekar við vindlareykinn, sem umlukti hann, þar sem hann sat gráskeggjaður við kaffibollann.

Séra Friðrik var brennandi í andanum og virkjaði unga menn til dáða undir merkjum kristinnar trúar. Í aðfararorðum að viðtalsbók Valtýs Stefánssonar við séra Friðrik segir séra Bjarni Jónsson dómkirkjuprestur meðal annars:

„Margt var breytilegt í lífi hans. En eitt var óhagganlegt, hin lifandi trú. Menn muna hinn skýra vitnisburð. Hér var sá þjónn Drottins, sem gat sagt: „Ég trúi, þegar ég tala.“ Þetta var auðheyrt. Honum var ómögulegt að þegja. Það var honum lífsnauðsynlegt að leiða menn að sjálfri uppsprettunni. Sjálfur sótti hann nýja krafta í nægtabrunn þekkingar og trúar. En honum varð það áhugamál, að aðrir ásamt honum mættu verða samferða að lindinni. Oft benti hann á þessi orð: „Á leiðinni drekkur hann úr læknum, þess vegna ber hann höfuðið hátt.“ Séra Friðrik var ekki hálfvolgur í áhuganum, en hann var brennandi í andanum. Stórríkur var hann af heillandi gleði, og var ævi alla fræðimaður um leið og hann var lærisveinn himnaríkis. En sá lærisveinn er líkur húsráðanda, sem ber nýtt og gamalt úr fjársjóði sínum.“ [1]

Já, góðir áheyrendur, það var mikil gæfa fyrir íslensku þjóðina að eignast séra Friðrik, og þegar ég minnist þess að hafa hitt hann, átta ég mig einnig á því, að með því er ég að bregða ljósi á tæplega 150 ára samfellu í Íslandssögunni, því að séra Friðrik fæddist árið 1868.

Áhrif séra Friðriks á þjóðlífið voru og eru mikil, því að honum var einstaklega lagið að veita æskunni leiðsögn og hvatningu á kristnum grunni, svo að eftir var tekið og í hávegum haft. Í mínum huga er enginn vafi á því, að þessi áhrif hafa mótað afstöðu margra til stjórnmála og stjórnmálaflokka auk þess sem þau voru mjög mótandi fyrir ýmsa stjórnmálamenn.

Við eigum engan kvarða til að mæla árangurinn af starfi brautryðjenda á borð við séra Friðrik. Andleg verðmæti og gildi kristinna lífsskoðana verða ekki mæld á stikum – þau móta hins vegar samfélagið og framvindu þess. Á þeim tíma, sem Íslendingar hafa sótt fram, síðan séra Friðrik lét fyrst að sér kveða til uppeldis íslensku þjóðinni, hefur þeim sannarlega miðað vel.

Hinn kristni arfur og endurnýjun hans í samtímanum hefur skipt miklu um þessa þróun og haft sitt að segja. Við tökum því þó, eins og of mörgu, sem svo sjálfsögðum hlut, að við hættum að huga að uppsprettunni, þróuninni, sem að baki býr.

Þegar þess er krafist, að allt sé afstætt og helst lagt að jöfnu, og gjarnan látið eins og kristin trú sé frekar afgangsstærð í þjóðfélagsþróuninni en þungamiðja hennar, getur verið gagnlegt að rifja upp eftirfarandi skýringu á upphafi kapítalismans, hinni ráðandi pólitísku hugsjón samtímans.

Lögfræðingurinn og samfélagsfræðingurinn Max Weber ritaði í upphafi síðustu aldar fræga ritgerð um siðfræði mótmælenda og kapítalismann eða auðhyggjuna. Hugmynd Webers er í stuttu máli sú, að uppruna þess hagkerfis megi að verulegu leyti rekja til siðgæðis og trúarhugmynda mótmælenda og þá sérstaklega þeirra, sem birtast í kenningum Kalvíns og fylgismanna hans.

Samkvæmt þessari kenningu stendur hver maður aleinn frammi fyrir guði, Jesús dó fyrir hina útvöldu eina. Trúin veitir ekkert yfirnáttúrulegt samband við guð. Í ritgerð um Weber kemst Sigurður Líndal prófessor emeritus þannig að orði um þennan trúarboðskap:

„Kalvínstrúarmaðurinn hefur engin úrræði til að bæta fyrir þær syndir, sem honum verður á að drýgja. Þetta felur í sér, að hann verður að þrautskipuleggja líf sitt í þjónustu guðs og hverfa umsvifalaust frá öllu fálmi og stefnuleysi, sem aðrar kirkjudeildir umbera með því að veita endurtekin tækifæri.” [2]

Fyrir kalvinista er syndsamlegt að velta fyrir sér, hvort hann sé meðal hinna útvöldu eða ekki. Aðeins eitt kemur honum að gagni: sleitulaust starf. Þetta er með öðrum orðum guðsótti, sem tengir saman kröfur kalvinisima og kapitalisma um góða siði.

Og Sigurður Líndal segir einnig:

„Varanlegustu áhrif Kalvínstrúar á hagþróunina voru þau að veita sálarlausri, vélrænni vinnu og kaldri reikningslist í viðskiptum trúarlega réttlætingu. Líklegast er, að þetta hafi ráðið úrslitum um, að fjármagnskerfi Vesturlanda varð til. Hliðstætt hafði reyndar gerzt áður. Skipulegt meinlætalíf í munkareglum miðalda hafði leitt til auðsöfnunar, og andi hennar vikið brott hinum fornu hugsjónum. Þá risu upp siðbótarhreyfingarnar hver eftir aðra, til dæmis betlimunkareglan, og þegar sama gerðist innan Kalvínstrúarinnar, reis einnig upp siðbótarhreyfing: meþódisminn á 18. öld. Í báðum tilvikum var stefnt að því að hefja meinlætalífið til vegs á ný.“ [3]

Með þessum orðum líkur þessari tilvitnun um áhrif kristinna gilda á stjórnmálastefnur og mótun samfélags okkar, en um skoðanir af þessu tagi er ekki mikið rætt í stjórnmálabaráttu samtímans. Víða er rík tilhneiging til að gera lítið úr þeim, sem sýna staðfestu, hvort heldur er á vettvangi stjórnmála eða trúmála. Stjórnmálamenn, sem unnt er að kenna við hvort tveggja trú og stjórnmál, eiga undir högg að sækja á vettvangi hinna talandi stétta, þótt kjósendur séu oft annarrar skoðunar en þær.

Hér á landi hafa kristilegir stjórnmálaflokkar aldrei náð neinni fótfestu. Hugmyndin um þá hefur oft verið rædd, ég man til dæmis eftir fundi um málið með fulltrúum kristilegra norrænna flokka í tengslum við þing Norðurlandaráðs fyrir tveimur áratugum eða svo. Að mínu mati er miklu nær fyrir þá, sem vilja að kristin gildi móti stjórnmálastarf, að láta að sér kveða innan almennra stjórnmálaflokka, ef ég má orða það svo, en kristilegra flokka.

Stjórnmálamenn og aðrir áhugamenn um þjóðmál eru ekki þeir einu, sem ræða tengsl kirkju og stjórnmála. Meðal guðfræðinga er einnig fjallað um stöðu kirkjunnar í þjóðfélagsumræðum. Í tímaritinu Glíman, sem fyrst kom út sem vefrit á Kistan.is árið 2003, en hefur nú einnig verið gefið út á prenti segir Hjalti Hugason prófessor í guðfræðideild Háskóla Íslands meðal annars:

„Hér skal mjög tekið undir efasemdir um að predikunin eða guðsþjónustan yfir höfuð sé viðeigandi vettvangur fyrir þjóðmálaumræðu af kirkjunnar hálfu. Þungvægustu rökin í því efni eru að mínum dómi að predikunin er í eðli sínu einstefnumiðlun. Þá er predikarinn og predikunin mjög varin af umhverfi sínu. Vörnin felst í því að predikunin er haldin á tíma sem enn nýtur sterkrar friðhelgi lögum samkvæmt. Þá er hún einnig flutt í rými sem nýtur mikillar helgi í hugum flestra og veldur því að allur fjöldi kirkjugesta gengur næstum því ósjálfrátt inn í óvirkt hlutverk hlustandans eða þolandans þegar stigið er yfir þröskuld kirkjunnar og verða því „varnarlausari“ en ella. Einnig er til að taka að predikunin er nær undantekningarlaust flutt ofanfrá og niður þar sem predikarinn stendur og er þar með hafinn yfir söfnuðinn sem situr. Loks má benda á að predikunin er varin af lítúrgískum ramma helgisiðanna, listrænum ramma tónlistarinnar, arkítektónískum ramma kirkjubyggingarinnar og þannig mætti lengi telja. Allt veldur þetta því að presti í stól verður ekki mótmælt né aðrar athugasemdir gerðar við málflutning hans hversu mjög sem hann kann að ganga á skjön við skoðanir áheyrenda. Vissulega er prestum fengið víðtækt frelsi til predikunar. Í krafti menntunar sinnar, köllunar og vígslu eiga þeir einnig hlutdeild í kennivaldi kirkjunnar. Það er þó vandmeðfarið í evangelísk-lútherskri kirkju og því sleppir þar sem boðunarefni (kerygma) hennar í þrengsta skilningi lýkur. Í almennri þjóðmálumræðu er því að þessu leyti til enginn munur á Jóni og séra Jóni.“ [4]

Ég tek undir þetta sjónarmið Hjalta. Mér er misboðið sitji ég í messu og prestur kýs að nýta helgistundina og predika þannig, að ég telji hann kynna flokkspólitískan boðskap. Í þessari afstöðu felst ekki vandlæting á því, að prestar hafi stjórnmálaskoðanir eða séu þátttakendur í stjórnmálastarfi og umræðum um málefni samtímans, þar sem taka þarf pólitíska afstöðu. Í því efni get ég einnig tekið undir með prófessor Hjalta, þegar hann segir:

„Þeim [prestum] ber því að láta til sín heyra í blöðum, tímaritum, ljósvakamiðlum, á málþingum og fundum eða á hverjum þeim stað öðrum þar sem þjóðmálaumræða fer fram á lýðræðislegum nótum. Kirkjufólk og guðfræðingar þurfa ekki annan vettvang en þeir aðrir er þátt taka í þjóðmálaumræðunni.“

Hjalti Hugason gengur lengra en þetta í grein sinni, því að hann veltir einnig fyrir sér, hvaða skoðun prestar eigi að hafa, þegar þeir blanda sér í opinberar umræður. Honum finnst til dæmis eðlilegt, að þeir ræði rangláta skiptingu efnalegra, félagslegra og menningarlegra gæða - gjafa Guðs. Líkamlegt, andlegt eða félagslegt ofbeldi, kúgun og niðurlæging sem einstaklingar eða heilar þjóðir - þ.e. maðurinn skapaður í Guðs mynd - er beittur. Eða að rányrkja og spilling á náttúrulegum auðlindum og umhverfi - sköpunarverki Guðs samræmist ekki kristinni trú.

Honum finnst umræða um málefni af þessu tagi ekki geta verið þjóðmálaumræða í neinum skilningi, heldur sé um að ræða baráttu gegn hinu illa í heiminum, sem kirkjunni beri vissulega að taka þátt í, meðal annars prestar í predikun sinni. Láti kirkjan það ógert hljómi fagnaðarerindi hennar um vonina og kærleikann líkt og hljómandi málmur eða hvellandi bjalla.

Hér er ég ósammála prófessor Hjalta og tel hann ætla kirkjunni um of í þjóðfélagsumræðunum. Ég var til dæmis þeirrar skoðunar á tímum kalda stríðsins, að herfræðingar væru mun betur til þess fallnir að meta skynsamleg svör við sovéskum vígbúnaði en guðfræðingar. Mér fannst það alls ekki stangast á við kristið lífsviðhorf mitt að hafa þá skoðun og styðja hina herfræðilegu niðurstöðu.

Í tilefni af orðum prófessors Hjalta má spyrja: Hvenær er skipting veraldlegra gæða ranglát? Hvernig á að skilgreina fátækt? Hvernig á að bregðast við líkamlegu eða andlegu ofbeldi gegn kynþáttum eða þjóðum? Hvað um valdbeitingu gegn harðstjórum? Hvar eru mörkin milli hóflegrar nýtingar náttúruauðlinda og rányrkju eða spillingar á þessum auðlindum?

Biblían veitir ekkert einhlítt svar við þessum spurningum. Vegna slíkra álitamála skiptast menn í stjórnmálaflokka og blandi prestar sér í deilur um þau úr predikunarstólnum er hætt við, að ekki aðeins þeir heldur kirkjan sé talin vilja hlutast til um lausn pólitískra ágreiningsmála.

Í grein sinni segir prófessor Hjalti, að sá hópur manna, sem hafi í seinni tíð oftast látið í ljósi efasemdir um að kirkjan eigi að taka þátt í þjóðmálaumræðu og snúist til gagnrýni, þegar hún hafi gert það séu atvinnustjórnmálamenn á hægri kanti hins pólitíska litrófs ekki síst höfundar Reykjavíkurbréfa og forystugreina í Morgunblaðinu. Hann skýrir mál sitt því miður ekki með dæmum, en ég held, að hvorki við stjórnmálamenn á hægri kanti né forystugreinahöfundar Morgunblaðsins viljum láta draga okkur saman í dilk á þennan veg.

Satt að segja verð ég almennt mjög lítið við það var, að stjórnmálamenn séu að ræða um það, sem prestar eru að segja í predikunum sínum. Mér finnst það hins vegar oft skrýtið, að þá helst þykja predikanir fréttnæmar, ef prestar stíga beinlínis inn á hinn pólitíska völl.

Prófessor Hjalti telur fljótt á litið, að andóf okkar atvinnustjórnmálamanna á hægri kantinum kunni að eiga sér einhverja af þremur eftirfarandi skýringum:

Okkur yfirsjáist munur á beinum félagslegum afleiðingum fagnaðarerindisins og þar með boðunarefni kirkjunnar annars vegar og almennum þjóðmálum hins vegar.

Við höfnum því, að lýðræðið nærist af fjölradda orðræðu eða hyllumst af öðrum ástæðum til þess að loka sem mest af þjóðmálaumræðunni inni í þröngum hópi atvinnustjórnmálamanna og standa þar með vörð um eigin völd og áhrif.

Kirkjunnar menn greini ekki nægilega skýrt á milli almennra þjóðmála og félagslegra afleiðinga fagnaðarerindisins og skilgreini þar með „sérsvið“ sitt of vítt en það orki að minnsta kosti tvímælis út frá lýðræðislegu sjónarhorni.

Hjalti áréttar sérstaklega mikilvægi þriðju skýringarinnar, að glöggur greinarmunur sé gerður á kenningu kirkjunnar og félagslegum afleiðingum hennar annars vegar og almennum þjóðmálum sem valda ágreiningi innan og utan kirkju hins vegar.

Ég spyr um réttmæti þessarar skýringar. Byggist hún kannski á því, að menn efist um trú áheyrenda sinna á Guð og vilji bæta sér upp trúarmissinn með því að höfða til þeirra mála, sem ber hæst í þjóðmálum hverju sinni?

Í nýlegri bók sinni Kristin siðfræði í sögu og samtíð skýrir séra Sigurjón Árni Eyjólfsson innreið frjálslyndrar guðfræði inn í íslenskt samfélag á þann veg, að þar hafi menn tekið upp kenningar frá háskólabæjum og borgum Evrópu. Þar hafi merkir heimspekingar deilt innan upplýsingarstefnunnar, þýsku hughyggjunnar, marxismans og með vísan til gagnrýni Nietzsche. Frjálslynda guðfræðin þýska hafi komið fram sem andsvar við þessari gagnrýni og reynt að deila með gagnrýnendum sínum ákveðinni trú á getu mannsins til að skilja veröldina og stuðla að framförum mannkyni til hagsbóta og tengja kristindóminn við sameiginlegan siðagrundvöll, sem allir geti staðið á. Frjálslynda guðfræðin hafi síðan verið gagnrýnd fyrir að setja manninn og menninguna í það sæti, sem Kristur, Guð og trúin eiga að hafa innan guðfræðinnar. [5]

Eins og fyrr sagði ætla ég ekki að ræða viðfangsefni mitt með vísan til guðfræðilegra raka. Hitt treysti ég mér til að fullyrða, að í opnu nútímasamfélagi er það dauðadæmd afstaða stjórnmálamanns, að ætla sér og sínum einkarétt á einhverjum umræðuefnum og snúast öndverður gegn því, ef aðrir taka þar til máls og lýsa skoðun sinni. Það ræðst síðan af lífsskoðun og trúarlegu viðhorfi stjórnmálamanns eins og annarra, hve ríkt þeim er í huga, að fagnaðarerindið hafi félagslegar afleiðingar.

Milli kirkju og stjórnmála þarf að ríkja gagnkvæmt traust til að hæfilegt jafnvægi ríki í þjóðmálaumræðum. Ef prestar nýta predikunarstólinn til að leggja út af guðspjöllunum á félagslegum grundvelli er ekki endilega tryggt að þeir stækki söfnuðinn eða fjölgi kirkjugestum. Stjórnmálaflokkar án róta í kristilegum siðferðisboðskap eru lítils virði, og meðan menn þorðu að játa marxismanum hollustu sína opinberlega, þótti mér alltaf lítið til þess koma, þegar látið var í veðri vaka jafnvel af prestum, að hann stæði boðskap Krists nær en önnur pólitísk sjónarmið.

Nú sækja aðrir ismar en marxisminn að kristnum viðhorfum og gildum, ekki síst í Evrópu. Með engum rökum er unnt að segja þann isma, sem mest lætur að sér kveða, standa nálægt kristni, miklu nær er að líta á hann sem andstæðing hennar. Líklegt er, að nú verði meira en áður hlustað eftir leiðsögn kristinna forystumanna og meira muni reyna á afstöðu til kirkjunnar en í átökum um önnur mál á stjórnmálavettvangi.

Kosið var til danska þingsins þriðjudaginn 8. febrúar og héldu stjórnarflokkarnir velli. Staðfesta þeirra gegn óheftum straumi innflytjenda til Danmerkur og skýr stefna í þeim viðkvæmu málum, var flokkunum til framdráttar.

Sagt var frá því á forsíðu Morgunblaðsins, að í dönsku kosningabaráttunni hefði Anders Fogh Rasmussen forsætisráðherra hvatt islamska klerka til að halda sér til hlés, þeir ættu ekki að beita sér í flokkspólitískum átökum. Forsætisráðherranum var svarað á þann veg, að víst gætu klerkarnir gert það – sætu ekki tveir prestar á þingi? Hvers vegna mættu þeir blanda sér í stjórnmálin?

Þessi kosningasaga frá Danmörku endurspeglar spennu, sem er alls staðar í Evrópu og raunar um allan hinn vestræna heim. Eftir að árásin var gerð á New York og Washington 11. september árið 2001, ræða menn ekki lengur um það sem óhugsandi atburð, að í nafni islam sé framið fjöldamorð á Vesturlöndum. Sprengjuárás hryðjuverkasamtakanna al-Qaeda í Madrid hinn 11. mars á síðasta ári réð úrslitum um þingkosningar á Spáni. Enn skemmra er liðið síðan hollenskur kvikmyndagerðarmaður var myrtur á götu úti fyrir að hafa gert heimildarmynd um niðurlægingu kvenna meðal múslíma.

Nýlega var um það spurt í bandaríska tímaritinu Commentary [6], hvort þessir atburðir og mörg teikn önnur væru til marks um, að Evrópa væri að verða islam að bráð. Höfundurinn David Pryce-Jones spyr, hvort skýra eigi þetta sem átök milli ólíkra menningar- eða trúarheima. Hvort sem menn noti þetta hugtak til að skýra stöðuna í Írak eða stríðið við hryðjuverkamenn sé ljóst, að margt mæli með, að það sé notað til að lýsa því, sem sé að gerast í Evrópu um þessar mundir. Hinn heimskunni sagnfræðingur Bernard Lewis hafi sagt, að þessi átök verði líklega um garð gengin um næstu aldamót, því að haldi þróunin áfram á sama hátt og undanfarið verði Evrópa þá orðin múslímsk.

Pryce-Jones segir, að lýsa megi nútíma islamisma sem átaki til að endurheimta það, sem múslímar töpuðu fyrir löngu í stríðinu við evrópska menningu, það er kristni. Hann segir, að hnignun evrópska þjóðríkisins hafi skapað islamistum einstak tækifæri, en islam byggist á alheims-samfélagi yfir landamæri og mótist frá upphafi af trú og hefðum, þar sem engin skil séu milli andlegs og veraldlegs valds. Um 20 milljónir múslíma séu búsettir í Evrópu og þeim fjölgi hraðar en öðrum Evrópubúum, meðal annars vegna meiri barnafjölda í þeirra hópi en hjá öðrum.

Flestir múslímskir innflytjendur komi til Evrópu í leit að betra lífi. Þeir séu ekki lengur bundnir af hinu gamla boðorði, að þeir geti aðeins lifað í löndum, sem stjórnað sé af trúbræðrum þeirra. Margir þeirra hafi lagað sig að nýju þjóðlífi. Trúarlíf þeirra blómstri hins vegar einnig. Fyrir hálfri öld hafi aðeins verið fáeinar moskur í Evrópu en þær skipti nú þúsundum í öllum stærstu löndum álfunnar, í Frakklandi og Þýskalandi séu milli fimm og sex þúsund moskur í hvoru landi.

Einræði og islam fara um of saman, hvergi í 22 arabalöndum eru lýðræðislegir stjórnarhættir. Í þessu ljósi er það, sem er að gerast í Írak heimssögulegt. Hvaða skoðun, sem menn hafa á innrásinni í Írak, tókst þar að hrinda af þjóðinni einræðisherranum Saddam Hussein og nú hefur verið efnt til kosninga í landinu. Þetta er stórpólitískt verkefni og að sama skapi um deilt.

Á Íraksstríðinu er einnig önnur hlið, það er hvort takist að stofna til samstarfs við hófsama og friðsama múslima og sameiginlega verði unnt að brjóta öfgasinnaða múslima á bak aftur, þá sem ala á hatri á kristnum mönnum og skipuleggja hryðjuverk. Þetta er stærsta verkefni heimsmála um þessar mundir og til að finna þar farsæla lausn þarf að sameina krafta forystumanna stjórnmála og trúmála.

Góðir áheyrendur!

Í upphafi máls míns sagðist ég frekar hafa treyst á ráð herfræðinga en guðfræðinga, þegar ég tók afstöðu til viðbragða gegn sovésku ógninni á tímum kalda stríðsins. Nú þarf að gera ráðstafnir til að tryggja öryggi borgaranna gegn hættu af alþjóðlegum hryðjuverkamönnum, sem margir berjast undir merkjum íslam.

Ég er þeirrar skoðunar að leggja beri höfuðkapp á að vinna að samstarfi milli þjóða og manna án tillits til trúarbragða, kynþáttar eða þjóðernis. Ég tel einnig, að frelsi sé betra en ófrelsi og lýðræði betra en einræði. Fyrir þessu vil ég berjast sem stjórnmálamaður. Vilji ég leggja þeim sérstaklega lið, sem vilja efla hlut kristni, er unnt að saka mig um að gera upp á milli trúarbragða, enda ber mér eins og öðrum að gera öllum jafn hátt undir höfði án tillits til trúarbragða.

Jóhannes Páll páfi II. sagði skömmu áður en hann var lagður inn á sjúkrahús hinn 1. febrúar síðastliðinn, að Evrópusambandið mundi taka á móti nýjum þjóðum, sem vildu fallast á skilyrði aðildar. Með þessum orðum var hann ekki að vísa til okkar Íslendinga eða Norðmanna heldur til Tyrkja og í þeim fólst, að vildu þeir fara inn í Evrópusambandið yrði að tryggja trúfrelsi í Tyrklandi.

Í síðasta tölublaði vikuritsins The Economist er haft eftir sérfræðingi páfagarðs í málefnum múslíma, að kristnir menn í Evrópu eigi að verja múslíma gegn mismunun – en að evrópskir múslímar eigi einnig að verja málstað kristinna manna í íslömskum ríkjum. Hins vegar hafi þeir prestar, sem standi næstir múslímum og hafi helst lagt sig fram um samtöl við þá, mestar áhyggjur af samskiptum múslíma og kristinna í Evrópu, islamskir vimælendur sýni ekki mikið umburðarlyndi.

Spyrja má: er þetta ekki kjarni vandans? Hin umburðarlynda stjórnunarhefð kristinna lýðræðisríkja stendur enn á ný frammi fyrir andstæðingi, sem hafnar umburðarlyndi og sáttfýsi.

Stjórnmálamönnum ber að fara að stjórnlögum. Í Evrópusambandinu er unnið að því að samþykkja stjórnarskrá, þar sem fundin er málamiðlun milli kristni og annarra trúarbragða. Fyrir alþingi Íslendinga liggja tillögur um að þjóðkirkjan verði lögð niður og framvegis aðeins hluti af sögulegum arfi okkar.

Þá er spurningin: Hve langt mun kirkjan teygja sig? Hvað ætlar hún að stíga stórt skref? Eða ætlar kirkjan að segja hingað og ekki lengra og spyrna við fótum?

Ég ætla mér ekki að svara fyrir kirkjunnar hönd en segi að lokum:

Ef við verjum ekki, hvert og eitt, þau gildi, stjórnmálaleg og trúarleg, sem við teljum einhvers virði, gerir það enginn. Við þurfum enn leiðtoga, sem ekki eru hálfvolgir í áhuganum, heldur brennandi í andanum - stórríka af heillandi gleði og lærisveina himnaríkis.[1]Séra Friðrik segir frá, samtalsþættir Valtýs Stefánssonar við séra Friðrik Friðriksson, Bókfellsútgáfan, Rvk. bls. 8.

[2]Mennt og máttur, Max Weber, Lærdómsrit bókmenntafélagsins, Reykjavík 1978, inngangur eftir Sigurð Líndal, bls. 28.

[3] Ibid, bls. 30 til 31.

[4] Kirkjan og þjóðmálaumræðan, Glíman1, Hjalti Hugason, útg. Grettisakademían og Háskólaútgáfan Rvk., 1. árgangur 2003, bls. 17 til 33.

[5] Kristin siðfræði í sögu og samtíð, Sigurjón Árni Eyjólfsson, Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík, 2004, bls. 324 til 326.

[6] The Islamization of Europe?, David Pryce-Jones, Commentary desember 2004, bls. 29.