4.1.2005

Úttekt vegna fjarskiptafyrirtækja OR.

Fundur í borgarstjórn, 4. janúar, 2005.

 


Tillaga okkar sjálfstæðismanna er skýr – þess er farið á leit við stjórn Orkuveitu Reykjavíkur, að hún feli innri endurskoðun Reykjavíkurborgar að gera úttekt á rekstri fjarskiptafyrirtækja orkuveitunnar frá 1998 auk þess sem lagt verði mat á arðsemi þessara fjárfestinga.

 

Ég er þeirrar skoðunar, að samþykkt þessarar tillögu og framkvæmd hennar, hljóti að vera fleirum kappsmál  hér í borgarstjórn en okkar sjálfstæðismanna.

 

Ég ætla að rökstyðja þessa skoðun með tveimur dæmum.

 

Hið fyrra er ritstjórnargrein á vefsíðunni Pólitík.is, en henni er haldið úti af ungum jafnaðarmönnum. Hinn 14. október síðastliðinn birtist þar ritstjórnargrein undir fyrirsögninni: Komum Orkuveitunni á rétta braut.

 

Þar er gagnrýnt, að fyrirtækið hafi ráðist í ræktun á risarækjum og fundið að hinum mikla íburði í höfuðstöðvum fyrirtækisins. Síðan segir orðrétt:

 

„Alvarlegast af öllum gæluverkefnum Orkuveitunnar á undanförnum árum hefur þó verið þátttaka hennar í fjarskiptarekstri – ef rekstur skyldi kalla. Á þessu ævintýri hafa tapast milljarðar króna. Reikningurinn verður sendur notendum veitunnar – fólki og fyrirtækjum í Reykjavík og nágrenni.

 

Nú berast fregnir af því að Orkuveitan hyggist leggja ljósleiðaranet um gervalla borgina. Skemmst er frá því að segja, að þetta er ekki heillavænlegt. Ef yfirvöld í Reykjavík hafa áhuga á því að flýta lagningu ljósleiðara um höfuðborgina ættu þau að sjálfsögðu að fara sömu leið og Seltirningar eru að gera: Einfaldlega auglýsa eftir áhugasömum aðilum til samstarfs.

 

Að mati Pólitík.is er nefnilega kominn tími til að Orkuveitan snúi sér aftur að því sem borgarbúar ætlast til af henni: Að bjóða kalt og heitt vatn og rafmagn á sem vægustu verði.“

 

Þetta var birt 14. október 2004.  Milli jóla og nýárs 2004 var skýrt frá því, að bæjarstjórn Seltjarnarness hefði samið við Orkuveitu Reykjavíkur um ljósleiðaravæðingu bæjarfélagsins og af samningnum má ráða, að Seltirningar þurfi ekki að bera neinn kostnað af þessum framkvæmdum neinn, hann verði allur borinn af neytendum orkuveitunnar. Já, og samskonar samningur hefur verið gerður við Akranes, en orkuveitan telur að, að kostnaður við hann verði 271 m. kr.

 

Allt vekur þetta margar spurningar um fjárhagslegar skuldbindingar orkuveitunnar, sem eðlilegt er að skoðaðar séu af innri endurskoðendum Reykjavíkurborgar, stærsta eiganda fyrirtækisins. Þá er sérstakt athugunarefni, hvers vegna orkuveitan kýs að fara með ljósleiðaragjafir á silfurbakka til nágranna Reykvíkinga, en lætur undir höfuð leggjast að bjóða þeim, höfuðeigendum fyrirtækisins þessi kostakjör.

 

Undan því verður ekki vikist, að borgarstjórn verði upplýst um fjárhagslegar byrðar af því, sem ungir jafnaðarmenn kölluðu alvaralegasta gæluverkefni orkuveitunnar. Með innri endurskoðun borgaryfirvalda með samþykki stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur ætti að vera unnt að leiða hið sanna í ljós og stuðla að því að draga úr áhyggjum af kostnaði við þessar framkvæmdir allar.

 

Síðara dæmi mitt um áhyggjur af fjárhagslegum skuldbindingu orkuveitunnar vegna Línu.nets er á vefsíðunni Múrinn.is en ungir stuðningsmenn vinstri grænna í Reykjavík standa að henni. Þar var sagt frá því 12. júní 2003, að tapið á Línu.neti árið 2002 hefði numið 157 milljónum króna. Það væri vissulega há tala, sérstaklega í ljósi þess að borgin héldi uppi ýmissi mikilvægri starfsemi, sem kostaði ekki nema brot af þessu tapi. Það væri eðlilegt, að spurningar vöknuðu um hversu skynsamleg fjárfesting hér hefði verið á ferðinni. Á Múrnum er spurt: „Mun Lína net skila hagnaði á næsta ári eða verður hún síðar talin mesta axarskaft borgarstjórnar undir lok 20. aldar?“

 

Þannig spurðu vinstri/grænir 12. júní árið 2003. Svarið reyndist á þann veg, að aldrei varð neinn hagnaður af Línu.neti, tapið var 129 m. kr. 2003 og 76 m. kr. 2004 og því má álykta, að Lína.net hafi, að mati vinstri/grænna, verið mesta axarskaft borgarstjórnar undir lok 20. aldarinnar. Með því að fela innri endurskoðun Reykjavíkurborgar að skoða fjárhagslega og rekstrarlega sögu þessa fyrirtækis er verið að leita skýringa á því, hvers vegna svona fór. Varla geta vinstri/grænir hér í borgarstjórn verið að móti því að svör um það séu gefin af hlutlausum aðila?

 

Tilraunin til að tengja almenning við Netið í gegnum rafmagnslínur undir merkjum Línu.nets misheppnaðist hrapallega. Í stað þess að viðurkenna mistökin og pakka saman, var tekið til við að fjárfesta í ljósleiðaranum, sem fyrirtækið ætlaði að gera óþarft með raflínum.

OR hefur eytt milljörðum króna í Línu.net á kostnað áskrifenda að heitu vatni, köldu vatni og raforku. Vinnubrögðin í stjórn Línu.nets og vegna fyrirtækisins innan stjórnar OR hafa einkennst af afneitun á staðreyndum, leyndarhyggju og hroka.

 

Það hefur verið með ólíkindum erfitt að afla upplýsinga um Línu.net og allan rekstur fjarskiptafyrirtækja orkuveitunnar. Með samþykkt þessarar tillögu yrði tryggt, að hlutlaus trúnaðaraðili borgarstjórnar mundi draga allar staðreyndir fram í dagsljósið.

 

Tillagan stenst fyllilega allar reglur Reykjavíkurborgar. Með henni er ákveðið, að borgarstjórn feli innri endurskoðunardeild sinni að sinna mikilvægu verkefni til að upplýsa mál í þágu borgarstjórnar, enda fallist stjórn Orkuveitu Reykjavíkur á, að gengið sé til verks á þennan veg.

 

Svonefnd breytingartillaga R-listans við tillögu okkar sjálfstæðismanna stenst hins vegar ekki fundarsköp, hún er ekki nein breytingartillaga heldur ný tillaga, sem ekki hefur verið lögð fram með lögmætum fyrirvara, auk þess sem hún snýst um mál, sem ekki er unnt að fela borgarstjóra að sinna, hann hefur ekkert umboð til þess að hnýsast um málefni fyrirtækja utan eignarhalds borgarinnar. R-listinn vill bara enn og aftur drepa máli á dreif, sem er óþægilegt fyrir hann og honum til skammar.

 

Ég krefst þess að fundarstjóri úrskurði tillögu R-listans sem óhæfa til atkvæðagreiðslu á þessum fundi.