27.3.1999

Samfylking án stefnu - Morgunblaðsgrein

Morgunblaðsgrein
27. mars 1999

Samfylking án utanríkisstefnu - sporgöngumenn í menntamálum

Kynning á stefnu samfylkingar vinstrisinna leiðir í ljós, að þeir hafa gefist upp við að marka sér utanríkisstefnu. Leggst lítið fyrir þá kappa, sem helst sneiddu að okkur sjálfstæðismönnum fyrir kosningarnar 1995 vegna þess að utanríkisstefna okkar væri meingölluð og vildu sannfæra kjósendur um að nær væri að kjósa Alþýðuflokkinn til að ná árangri í utanríkismálum. Nú skila þeir auðu vegna þess að stofnað hefur verið til pólitísks samstarfs við hefðbundna andstæðinga farsællar utanríkisstefnu þjóðarinnar.

Til að draga athygli frá stefnuleysi í utanríkismálum hafa samfylkingarmenn lagt þeim mun meiri áherslu á aðra málaflokka. Þar má sérstaklega nefna menntamál. Mætti ætla, að þessi nýja pólitíska fylking væri að boða nýja stefnu í menntamálum. Svo er þó alls ekki eins og hér skal skýrt.


Sporgöngumenn
Þegar litið er fram hjá almennum slagorðum í stefnu samfylkingarinnar eins og hún er auglýst í Morgunblaðinu fimmtudaginn 25. mars kemur eftirfarandi fram, þegar kaflinn um fjárfestingu í mannauði er skoðaður:

Námsárangur í grunnskólum á að jafnast á við það sem best gerist annars staðar.
Bjóða verður skemmri námsbrautir á framhalds- og háskólastigi.
Efla þarf vísindarannsóknir og þróunarvinnu.
Styrkja þarf starfsemi Háskóla Íslands og annarra háskóla.
Auka verður tölvukennslu og beita nýrri upplýsingatækni.
Tryggja ber aðgang allra að upplýsingahraðbrautinni.
Veita á öllum möguleika á símenntun og starfsmenntun.
Ég fullyrði, að í þessum stefnuatriðum komi ekkert nýtt fram. Þvert á móti er í þeim verið að árétta þá stefnu, sem fylgt hefur verið undanfarin ár og hrundið í framkvæmd með markvissum hætti. Þessa fullyrðingu er auðvelt að rökstyðja:

Gripið hefur verið til margvíslegra úrræða til að bæta námsárangur í skólum í samræmi við þá stefnu, að skólar hér jafnist á við þá, sem bestir eru. Ný skólastefna undir kjörorðinu: Enn betri skóli hefur hlotið brautargengi og er verið að framkvæma hana með nýjum námskrám fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Einfalt úrræði eins og að birta niðurstöður í samræmdum grunnskólaprófum hefur skilað góðum árangri. Nýjar stuttar starfsnámsbrautir eru að mótast í framhaldsskólum. Háskóli Íslands hefur lagt áherslu á að skilgreina nýjar stuttar námsbrautir. Umsvif í vísindum og þróun hafa stóraukist og þar hefur verið forgangsraðað í þágu upplýsingatækni og umhverfismála. Sóknarfæri háskóla hafa verið stórefld með nýjum lögum um þá og fjárveitingar til skólanna hafa aukist. Tveir nýir, einkareknir háskólar, Viðskiptaháskólinn í Reykjavík og Listaháskóli Íslands, hafa tekið til starfa. Með nýjum námskrám er upplýsingatækni útfærð í öllum námsgreinum og allir, sem útskrifast úr grunnskólum eiga að kunna á lyklaborðið og geta nýtt sér tölvur. Upplýsingahraðbrautin hefur verið opnuð öllum skólum og mikil áhersla lögð á að þar sé unnt að nýta íslensku og nálgast íslenskt efni. Stefna hefur verið mótuð um símenntun og sérstök verkefnisstjórn er að hrinda henni í framkvæmd.

Hvern einstakan þátt í stefnu síðustu ára og framkvæmd hennar er unnt rekja nánar. Hins vegar er ástæða til að efast um, að samfylking vinstrisinna viti, hvernig hún ætlar að framkvæma stefnu sína í menntamálum, verði hún ekki sporgöngumenn okkar, sem höfum unnið að því að gera góða skóla enn betri á undanförnum árum.


Úttekt á menningarmálum
Fyrir utan þau atriði, sem hér hafa verið nefnd, vill samfylkingin hefja undanþágustefnu í skattamálum. Samhliða því sem þeir verða að þyngja hina almennu skattbyrði til að efna loforð sín boða vinstrisinna ívilninanir vegna einstakra verkefna. Sá loforðalisti er orðinn langur og ósannfærandi. Stefnan varðandi Lánasjóð íslenskra námsmanna er ekki heldur trúverðug, því að hún miðar að því að raska öllum rekstrarforsendum sjóðsins og stefna starfsgrundvelli hans í hættu.
Samfylkingarstefnan í menningarmálum minnir á stefnuleysið í utanríkismálum. Samfylkingin vill gera ítarlega úttekt á stöðu menningarlífs í landinu og síðan ætlar hún að huga að því að móta markvissa menningarstefnu, sem fylgja ber eftir með framkvæmaáætlun. Tómahljóðið í þessum orðum er mikið og ber ekki vott mikinn metnað.


Skilað auðu
Samfylkingin viðurkenndi sundurlyndi sitt með því að skila auðu í utanríkismálum. Hún hefði svo sem alveg eins getað gert það í mennta- og menningarmálum. Textinn frá samfylkingunni sýnir, að í menntamálunum hefði hún einfaldlega getað vísað til hins mikla átaks okkar við endurnýjun á öllum skólastigum og viðurkennt, að hún hefði ekkert nýtt fram að færa. Stjórmálaöfl, sem álykta um nauðsyn úttektar, hafa hvorki þrek né vilja til að taka afstöðu - þannig er svonefnd stefna vinstrsinna í menningarmálum.