18.12.2004

Átökin um Íraksstríðið.

Grein í Morgunblaðinu laugardaginn 18. desember, 2004.

Fyrir áhugamenn um utanríkis- og öryggismál er undarlegt, þegar látið er í veðri vaka að það hafi komið öllum á óvart, að íslensk stjórnvöld skipuðu sér í sveit með ríkisstjórnum þeirra ríkja, sem töldu nauðsynlegt að beita hervaldi til að koma Saddam Hussein frá völdum í Írak og binda enda á þá ógn við heimsfriðinn, sem stafaði af framgöngu hans, bæði gagnvart þegnum sínum og eftirlitsmönnum Sameinuðu þjóðanna og þar með samtökunum öllum og hugsjónum að baki þeim.

Í aðdraganda innrásarinnar var um fátt meira rætt á stjórnmálavettvangi hér á landi og annars staðar en spennuna í alþjóðamálum, framgöngu Saddams Husseins og viðbrögð á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

Ég ætla ekki að nefna neinar dagsetningar í þeirri atburðarás allri eða hver var framvinda viðræðna milli einstakra ríkisstjórna eða á sameiginlegum fundum fulltrúa þeirra. Ég veit hins vegar, að allir, sem áhuga hafa á þessum málum, minnast þess, þegar Tony Blair, forsætisráðherra Breta, tók af skarið í umræðum í breska þinginu og lýsti því, að með öllu væri óviðunandi að ræða stríðsaðgerðir gegn Saddam Hussein innan öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, eftir að Jacques Chirac Frakklandsforseti hefði sagt, að hann mundi segja nei við öllum tillögum í þá veru.

Þegar þetta lá fyrir, varð ljóst, að Evrópuríki mundu skipa sér í fylkingar vegna þessa máls og mislíkaði Frakklandsforseta til dæmis mjög, þegar umsóknarríkin frá Austur-Evrópu um aðild að Evrópusambandinu snerust á sveif með Bandaríkjastjórn og á móti sjónarmiðum Frakka og Þjóðverja.

Það var í þessu andrúmslofti, sem ákveðið var í ríkisstjórn Íslands að standa með Bandaríkjastjórn. Hefði það í raun orðið miklu meira stílbrot í sögu íslenskra utanríkismála, ef ríkisstjórn Íslands hefði á þessari örlagastundu ákveðið að yfirgefa samstarf þjóðanna við Atlantshaf og lagst á árarnar með ríkisstjórnum Frakklands og Þýskalands.

Að halda því fram, að þessi ákvörðun ríkisstjórnar Íslands hafi ekki verið rædd á pólitískum vettvangi og um hana deilt er alrangt. Við, sem tókum þátt í kosningabaráttu vegna þingkosninga þetta vor, vitum vel, að þetta mál allt og afstaða ríkisstjórnar Íslands var ofarlega í huga margra. Oft var látið í veðri vaka, að hin einarða framganga ríkisstjórnarinnar og þá sérstaklega forsætisráðherra og utanríkisráðherra í málinu, kynni að verða ríkisstjórninni að falli í kosningunum.

Nú í haust var skýrt frá því, að stjórnarandstöðuflokkarnir þrír ætluðu að starfa náið saman á þingi og því til staðfestingar fluttu þeir tillögu til þingsályktunar með gagnrýni á ákvarðanir, sem teknar voru í mars 2003! Athyglisvert er, að tillaga um þetta kemur ekki fram fyrr en hálfu öðru ári eftir að innrásin var gerð í Írak. Og það segir meira en mörg orð um réttmæti þeirra kenninga, að íslensk stjórnvöld hafi á einhvern hátt gengið gegn vilja alþingis.

Frá því að þing kom saman hefur verið hamrað á þessu sameiningartákni flokkanna þriggja og nú síðast með stuðningi svonefndrar þjóðarhreyfingar, sem ætlar að kynna samstöðuna á erlendum vettvangi með auglýsingu í The New York Times.

Lítil framtíð felst í því fyrir okkur Íslendinga, að rífast um ákvarðanir, sem hafa verið teknar og tekist var á um fyrir síðustu kosningar, ákvarðanir, sem skoða verður í ljósi líðandi stundar og þess, sem gerðist í kosningunum og er að gerast í Írak um þessar mundir.

Hvað er að gerast í Írak? Jú, við heyrum þaðan fréttir af því, að til sögunnar séu komnir stjórnmálaflokkar vegna þingskosninga, sem á að efna til í landinu í lok janúar á næsta ári. Við heyrum einnig fréttir af því, að á einstökum stöðum í landinu sé vopnavaldi beitt til að stemma stigu við hryðjuverkamönnum og flokkum öfgamanna, sem vilja spilla fyrir því, að efnt verði til þessara kosninga.

Hvað er að gerast varðandi alþjóðlegt samstarf í þágu endurreisnarinnar í Írak? Jú, það eflist og og styrkist á alla lund og fleiri ríkisstjórnir en áður eru til þess búnar að ljá því krafta sína að treysta öryggi írösku þjóðarinnar. Ríkisstjórnir Frakklands og Þýskalands eru að leita leiða til að komast í hóp hinna staðföstu á vettvangi NATO og annars staðar. Norðmenn voru á báðum áttum en hafa tekið af skarið í þágu endurreisnar í Írak.

Endurreisnarstarfið í Írak er unnið á grundvelli ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna númer 1546, sem felur írösku bráðabirgðastjórninni meðal annars að ákveða hversu lengi sé þörf á aðstoð fjölþjóðlegs herliðs í landinu.

Andstaða er við þessa þróun í Írak í ýmsum ríkjum, sem vilja alls ekki, að lýðræði nái að skjóta þar rótum, af því að einræðisstjórnir þessara ríkja óttast þá sinn eigin hag. Á þetta því miður við um ríkisstjórnir margra arabalanda.

Fráleitt er að skipa sér í hóp með þeim, sem berjast gegn lýðræði í Írak. Að berjast gegn innrásinni, sem gerð var fyrir tæpum tveimur árum, er einfaldlega tímaskekkja. Nú skiptir mestu, hvernig friðsöm og frjáls framtíð Íraks og Íraka verður best tryggð.

Saga okkar geymir mörg dæmi um, að ábyrgir stjórnmálamenn séu sakaðir um að taka ákvarðanir um þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi í bága við vilja alþingis eða á annan ámælisverðan hátt. Deilur nú um aðdraganda Íraksstríðsins og afstöðu ríkisstjórnar Íslands eru að þessu leyti klassískar deilur um íslensk utanríkismál. Sagan segir okkur einnig, að samsæriskenningar eða ásakanir um undirlægjuhátt og jafnvel landráð eru þeim til skammar, sem höfðu þær í frammi, en ekki þeim, sem máttu sitja undir ókvæðisorðunum.