19.10.2004

Ræður um stjórnkerfisbreytingar

Borgarstjórn, 19. október, 2004.

Björn Bjarnason:Forseti, ágætu borgarfulltrúar.  Ég vil taka upp þráðinn þar sem frá var horfið hér í ræðu síðasta ræðumanns, Kjartans Magnússonar borgarfulltrúa, varðandi tillögur um umbætur í stjórnkerfi borgarinnar og hlut okkar sjálfstæðismanna. 

Kjartan Magnússon borgarfulltrúi hrakti með skýrum hætti þær fullyrðingar Dags B. Eggertssonar borgarfulltrúa að við sjálfstæðismenn hefðum staðið gegn öllum breytingum og ekki lagt okkur fram um umbætur í stjórnkerfi borgarinnar.  Ég vil einnig minna á það í þessu sambandi að við lögðum fram við gerð fjárhagsáætlunar á borgarstjórnarfundi 18. desember 2003 tillögur um að rekstrarframlag til Aflvaka yrði lagt af, það yrði skorið niður hjá Höfuðborgarstofu og þróunar- og fjölskyldusvið yrði aflagt.  Þegar við lögðum þessar tillögur fram á sínum tíma þóttu þær alltof róttækar að mati R-listans og borgarstjóri og Dagur B. Eggertsson borgarfulltrúi risu upp á fundinum og töldu að við værum að valda alltof miklum umskiptum í starfsemi borgarinnar og að við værum hér að gera tillögur um eitthvað sem væri með öllu út í bláinn.  Nú er það svo að í þessum tillögum sem við erum að fjalla um núna er einmitt lagt til að Aflvaki hverfi, Höfuðborgarstofa falli undir menningarmála- og ferðasvið, ef ég veit rétt, og að þróunar- og fjölskyldusvið verði lagt niður.  Þannig að með þessum tillögum er að þessu leyti tekið undir þær hugmyndir sem við höfum reifað hér í borgarstjórninni og lagt fram og það er enn til staðfestingar á því að því fer víðs fjarri að við höfum ekki flutt hér tillögur eða staðið að breytingum á stjórnkerfi borgarinnar og komið fram með hugmyndir í því efni.

Ég tel hins vegar í þeim tillögum sem við erum að fjalla um í dag sé of langt gengið að því leyti þegar lagt er til að borgarlögmannsembættið verði lagt af.  Einnig sakna ég þess eða finnst eftirsjá í því ef menn ætla að leggja niður embætti borgarritara.  Ég tel að það eigi að halda í slík embættisheiti sem hafa sérstöðu í borgarkerfinu.  Í sjálfu sér sé það markmið að slík heiti eins og borgarlögmaður og borgarritari séu starfsheiti í Ráðhúsinu en fyrir utan það þá tel ég að með því að leggja niður embætti borgarlögmanns sé vegið að mikilvægum þætti í starfsemi Reykjavíkurborgar og sérstaklega fyrir okkur borgarfulltrúana.  Ég vil í einu og öllu taka undir það sem fram kemur í bréfi sem Gunnar Eydal borgarlögmaður ritaði Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni fulltrúa okkar í stjórnkerfisnefndinni þar sem hann segir með leyfi forseta:  ”Árið 1997 var gerð sú breyting að embætti borgarlögmanns, og jafnframt skrifstofustjóra borgarstjórnar, var breytt á þann veg að það heyrði ekki lengur undir borgarstjóra heldur borgarritara.  Með því var sjálfstæði þessara embætta verulega skert.  Þessi tilhögun reyndist ekki gefast vel og samþykkti borgarráð tveimur árum síðar að stjórnkerfið yrði fært til fyrra horfs. 

Frá upphafi hefur verið lögð áhersla á sjálfstæði embættis borgarlögmanns innan stjórnkerfisins.  Embættið hefur því, með þeirri undantekningu sem að framan greinir, heyrt beint undir borgarstjóra en ekki tengst öðrum sviðum stjórnkerfisins.  Ekki síst hefur þar verið tekið mið af embætti ríkislögmanns sbr. 1. gr. laga nr. 51/1985 þar sem segir: ”Embætti ríkislögmanns er sjálfstæð stofnun og heyrir undir stjórnarráðið”.  Staða borgarlögmanns innan stjórnkerfis Reykjavíkurborgar er þannig hliðstæð því sem gerist hjá ríkinu.  Embætti borgarlögmanns þarf að vera við því búið að geta fjallað á hlutlægan hátt um alla þætti sem varða stjórnkerfi Reykjavíkurborgar, verkefni á sviði stjórnsýslu sem og önnur”.  Ennfremur segir í þessu bréfi með leyfi forseta:  ”Með því fyrirkomulagi sem hér er lagt til, yrði varpað fyrir róða þeirri meginhugsun sem nú er byggt á að embætti borgarlögmanns sé sjálfstæð stofnun og borgarlögmaður heyri beint undir borgarstjóra”.

Ég tel að þessi varnaðarorð og þessi ábending eigi við mjög sterk rök að styðjast.  Ég skil raunar ekki hvernig mönnum dettur í hug í raun og veru á þessum tímum sem við lifum, þar sem menn eru að tala um góða stjórnsýslu og nauðsyn þess að henni sé veitt aðhald og að borgararnir og kjörnir fulltrúar hafi aðgang að mönnum með þekkingu á borð við þá þekkingu sem er hjá embætti borgarlögmanns, að menn leggi þetta starf af á þann veg sem gert er í þessum tillögum og án þess í raun og veru að færa fyrir því nokkur haldbær rök.  Og síðan að tengja inn í stjórnkerfið á einhvern óljósan hátt það verkefni sem borgarlögmaður hefur sinnt og án þess að það sé skilgreint og skýrt á þann veg að við borgarfulltrúar getum sannfærst um að embætti borgarlögmanns eða það starf sem þar hefur verið unnið sé unnið á sambærilegan hátt með þeim vönduðu vinnubrögðum sem við teljum að eigi að gilda um það verkefni.

Það er annað sem einnig hefur vakið undrun mína í þessum umræðum er þetta tal um umboðsmann borgaranna sem virðist hafa komið fram, ég veit ekki hvort það gerðist á blaðamannafundi eða hvar þeirri hugmynd var hreyft, en hana er nú ekki að finna í þessum tillögum sem liggja hér fyrir eða greinargerð með henni.  Þó hefði maður ætlað að jafn mikilvægt embætti og þar væri um að ræða yrði sérstaklega skilgreint í þessum tillögum en það er ekki gert. 

Eins og borgarfulltrúi Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson rakti þá var það svo að árið 1997 var lögum breytt sérstaklega að ósk Reykjavíkurborgar á þann veg að umboðsmaður Alþingis hefði hlutverki að gegna gagnvart stjórnsýslu sveitarfélaganna og að það væri alveg tekið af skarið um það í lögum um umboðsmann Alþingis að hann tæki á málefnum er vörðuðu stjórnsýslu sveitarfélaganna. 

Eins og hér hefur komið fram þá ritaði þáverandi borgarstjóri, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, bréf til borgarráðs 25. nóvember 1997 þar sem segir með leyfi forseta:  ”Með þessari breytingu á starfssviði umboðsmanns Alþingis var að fullu komið til móts við þær hugmyndir sem bjuggu að baki umboðsmanns Reykjavíkur.  Þar að auki er tryggt að stjórnsýsla borgarinnar sætir nú eftirliti af hálfu aðila sem að öllu leyti er óháður stjórnsýslu borgarinnar en vandséð er hvernig hægt hefði verið að tryggja það nægilega vel innan kerfisins.”

Mér finnst vegna þeirra umræðna sem hafa orðið hér út af þessu máli þá sé nauðsynlegt fyrir okkur að fá það skýrt hér betur í borgarstjórninni hvað í raun og veru vakir fyrir mönnum í þessu efni.  Eins og ég segi þá kemur þessi hugmynd ekki fram í þeirri tillögu eða greinargerð sem við höfum hér undir höndum en engu að síður sá Morgunblaðið t.d. ástæðu til þess að skrifa sérstakan leiðara um þetta mál eins og þetta mál væri hér á döfinni og ætti að taka afstöðu til þess í þessari tillögu en svo er ekki eftir því sem ég best veit.

Síðan er það það sem hér hefur komið fram varðandi vinnubrögðin við undirbúning þessa máls.  Það er alveg sérstakt íhugunarefni þegar formaður stjórnkerfisnefndar, Dagur B. Eggertsson, leggur upp með það að hér sé verið að stuðla að opinni stjórnsýslu og hér sé verið að gera hluti til þess að auka aðgang almennings að upplýsingum þá stangast það hins vegar á við það sem hann hefur síðan einnig sagt um meðferð þessara mála og að hann hafi harmað það að upplýsingar bárust um einn þátt málsins meðan það var á undirbúnigsstigi sem leiddi til þess að almenningur og grasrótin, eins og það er orðað, hafi tækifæri til að taka á málinu og eftir að svo varð þá var hopað með þá tillögu eins og við vitum, að sameina íþróttamál og menningarmál á einu sviði.  Ég leyfi mér hér að lesa úr viðtali við formann stjórnkerfisnefndar í Fréttablaðinu sunnudaginn 17. október þar sem segir með leyfi forseta:  ”Þegar þetta lak í fjölmiðla þá vorum við búin að vinna með þessar hugmyndir í rúmt ár í mjög góðri samvinnu og trúnaði.  Það var óheppilegt að fólk sem tengdist íþróttafélögum og listastarfi í borginni fékk fréttir af þessu í gegnum fjölmiðla.  Þannig gátum við ekki komið til skila hvaða hugsun lægi að baki og hvers vegna hugmynd sem þessi hefur skotið upp kollinum aftur og aftur í meira en 10 ár.  Það má kannski segja vegna þess hvernig málið bar að að hafi menn farið í óþarflega mikinn baklás en það er mikilvægt í undirbúningi skipulagsbreytinga að geta kannað allar hugmyndir.  Í þessu tilviki komumst við að þeirri niðurstöðu að hvorki erlend fordæmi né stuðningurinn í grasrótinni væri nægilega sterkur til að þetta væri skynsamlegt”, sagði borgarfulltrúinn. 

Þetta finnst mér nú ekki benda til þess að þetta mál hafi verið unnið á þann veg almennt séð að miðla upplýsingum og láta í té upplýsingar um það hvað til hefur staðið og mér finnst það ljóður á þessu ráði öllu saman að hafa verið að pukrast með þetta á þennan veg og gefa til kynna að það hafi verið sérstaklega óheppilegt að það fréttist af einum þætti málsins og það hafi vegna þess verið nauðsynlegt að sveigja af braut.  En ég tel að í því máli er að sjálfsögðu það eina rétta að þessi hugmynd um að sameina íþróttamálin og menningarmálin undir einum hatti var vitlaus frá upphafi og hefði aldrei átt að koma til að það yrði gert á þann veg sem hugmyndirnar gengu út á ef ég skil málið rétt.

Það er líka þannig þegar við fjöllum um hina opnu stjórnsýslu þá er nauðsynlegt fyrir okkur að rifja það upp á þessum vettvangi að einn af varaborgarfulltrúum R-listans hefur jú látið þau orð falla að stjórn borgarinnar væri öll í höndum einhverrar Ráðhúsklíku.  Við höfum áður spurt um það á þessum fundum hverjir eru í þeirri klíku og hvernig að þeim málum öllum er staðið og ekki fengið nein svör.  En það er mat Helga Hjörvar varaborgarfulltrúa, ef ég veit rétt, og hann hefur ítrekað það að hér starfi einhvers konar klíka í Ráðhúsinu sem hafi öll ráð R-listans í hendi sér og ástæða sé til að varast þá starfsemi alla.  Ég held að það væri náttúrulega fróðlegt fyrir okkur líka þegar við erum að ræða um stjórnkerfi borgarinnar og hvernig að málum er staðið að fá upplýsingar um þetta hér, því það er kannski svolítið langt bil á milli þeirra orða margra sem fallið hafa hjá formanni stjórnkerfisnefndar um þessi mál og raunveruleikans þegar við lítum til þess hvernig á þetta er litið, hvort heldur eru borgarfulltrúar, varaborgarfulltrúar eða aðrir.  Það má geta þess að sl. föstudag var fluttur pistill í útvarpsþættinum Spegillinn sem hefur frekar verið talinn vinstri sinnaður útvarpsþáttur eins og kunnugt er og þar talaði einn stjórnandi þáttarins, Helga Vala Helgadóttir, um stöðuna hér í Ráðhúsinu og sagði að það mætti finna óánægjufnyk úr herbúðum Reykjavíkurlistans og hún sagði með leyfi forseta:  ”Hver stjórnar?  Í hvaða umboði og hvað þá um okkur?, heyrist úr baklandinu.  Þetta er ekki í fyrsta sinn sem fýla af þessu tagi leggst yfir Reykjavíkurtjörn.  Áður hefur heyrst kvak úr horni Vinstri grænna og Samfylkingar um samskiptaleysi við baklandið, samstarfsörðugleika við hina flokkana, valdagræðgi og vandræði almennt”.  Hún segir einnig um hlutverk borgarstjóra í stjórnkerfi borgarinnar eins og nú er málum háttað og vitnar þar í formann Framsóknarfélagsins í Reykjavík sem hafi óskað eftir flokksskírteini borgarstjóra.  Síðan segir orðrétt með leyfi forseta:  ”Borgarstjórinn sem ráðinn var til að vera flaggið á R-listaferjunni.  Allir vita að tilgangur flaggsins á skipinu er eingöngu sá að merkja það, hvaðan það komi og fyrir hvað það standi.  Skipið siglir áfram með eða án flaggsins.  Hraði þess og umfang ræðst ekki af flagginu því Þórólfur Árnason borgarstjóri birtist borgarbúum sem flagg.  Hann er ekki sá sem brýtur öldurnar eða stýrir fleytinu, það eru vinnudýrin, borgarfulltrúarnir, sem koma fram fyrir skjöldu til að svara fyrir hitt og þetta sem upp á kemur.” 

Þannig er nú litið á stjórnarhættina hér í Ráðhúsinu.  Þetta er svolítið langt frá þeim umræðum öllum sem hér fara fram og þegar menn eru að tala um að hér hafi verið staðið þannig að málum á undanförnum 10 árum með umbótum á stjórnkerfinu að öllum sé ljóst hvernig stjórnarhættir hér eru úr garði gerðir.  Þvert á móti blasa við dæmin um það bæði frá fjölmiðlafólki og einnig frá fulltrúum R-listans sjálfs að hér séu stjórnarhættir þannig að það sé full ástæða til að gagnrýna þá og Ráðhúsklíka ráði ferðinni og annað eftir því.

Mér finnst líka mjög athyglisvert að velta því fyrir sér hvað valdi þeirri staðreynd að þrír æðstu embættismenn í Ráðhúsinu hafa í raun látið af störfum hér á undanförnum mánuðum eða lýst yfir vilja til þess að láta af störfum.  Þar á ég við borgarhagfræðing, borgarritara og borgarlögmann.  Mér finnst það til marks um ákveðna stjórnarhætti hér á þessum stað að þessir embættismenn hafa annaðhvort látið af störfum eða látið í ljós vilja til að þess að hverfa til starfa annars staðar að það sé ekki til þess að efla trausts á því hvernig hér er staðið að stjórn mála.  Þetta er sá raunveruleiki sem við erum að fjalla um.  Þetta er sá raunveruleiki sem við blasir og hann er svolítið annars eðlis heldur en fagurgalinn í formanni stjórnkerfisnefndar þegar hann ræður um hið fullkomna stjórnkerfi Reykjavíkurborgar. 

Síðan eins og borgarfulltrúi Kjartan Magnússon benti á  þá hefur þetta ekki verið til þess á undanförnum árum að draga úr kostnaði.  Hann kom með tölur hér sem sýndu að kostnaður við yfirstjórn hefur stórvaxið á undanförnum árum þvert ofan í það sem átti síðan að vera líka meginþáttur í rökum borgarfulltrúa Dags B. Eggertssonar þegar hann rakti ágæti sinna eigin tillagna, að það væri betra að verja fé til verkefna heldur en í yfirstjórn, að borgarfulltrúi Kjartan Magnússon sýndi að annað er uppi á teningnum þegar litið er til þróunar hér undanfarin ár. 

Virðulegi forseti.  Ég tel að það sé að ýmsu leyti í þessum tillögum komið til móts við sjónarmið sem við sjálfstæðismenn höfum flutt hér sem eru skynsamlegar tillögur varðandi breytingar á stjórnkerfinu en að öðru leyti sé hér um hreinar sýndartillögur að ræða og tillögur sem eru fluttar m.a. til að breiða yfir það hvernig stjórninni er í raun og veru háttað hér í Ráðhúsinu í umboði R-listans.

 

 

 

 

 

1. mál.  Tillaga um stjórnkerfisbreytingar, 8. liður fundargerðar borgarráðs frá 14. október

 

Björn Bjarnason svarar andsvari:  Herra forseti, ágætu borgarfulltrúar.  Ég átta mig ekki almennilega á því að ég hafi verið að færa umræðuna niður á eitthvert sérstakt plan því ég ræði hvernig málin eru í raun og veru.  Þetta er nú ekki í fyrsta sinn sem borgarstjóri er að setja mér siðareglur þegar ég stend hér upp og flyt ræður í borgarstjórninni þannig að ég kippi mér ekki upp við það. 

En hitt segi ég að ef það er svo að menn eru að koma hér á laggirnar embætti umboðsmanns Reykjavíkurborgar þá finnst mér að það eigi að segja það beinum orðum í slíkum tillögum.  Ef það er svo að það er verið að hverfa frá því sem borgarstjóri þáverandi fagnaði sérstaklega árið 1997 þegar lögunum um umboðsmann Alþingis var breytt með því að stofna hér nýtt embætti þá finnst mér að það eigi að segja það berum orðum.  Það kemur ekkert fram í þeim orðum sem borgarstjóri las úr þessari greinargerð að það ætti að stofna hér embætti umboðsmanns Reykjavíkurborgar.  Þannig að ég ítreka það sem ég sagði, ef það er svo þá finnst mér að það þurfi að leggja það hér fyrir á formlegan hátt.  Ég vil spyrja formann stjórnkerfisnefndar sem hér er líka, er það svo að stjórnkerfisnefndin er að leggja til að það verði stofnað embætti umboðsmanns Reykjavíkurborgar?

 

1. mál.  Tillaga um stjórnkerfisbreytingar, 8. liður fundargerðar borgarráðs frá 14. október

 

Björn Bjarnason svarar andsvari:  Forseti, ágætu borgarfulltrúar.   Ég ítreka það að þetta sem borgarstjóri las upp úr greinargerðinni um hlutverk lögfræðinga á eigin skrifstofu kemur ekki í stað umboðsmanns Reykjavíkurborgar, getur ekki verið og kemur ekki heldur í stað borgarlögmanns.  Hvorugt embættið er um að ræða í þessari almennu greinargerð sem borgarstjóri las upp.  Þannig að það er verið að svipta borgarbúa með þessari breytingu embætti borgarlögmanns og það er alls ekki verið að stofna neitt embætti sambærilegt við borgarlögmannsembættið með þessari breytingu og því síður verið að stofna eitthvað embætti sem er sambærilegt við umboðsmann Alþingis eða umboðsmann Reykjavíkurborgar.  Það er ekki rétt og það eru beinlínis rangfærslur hjá borgarstjóra þegar hann heldur þessu fram.

Það sem ég vakti athygli á er mjög sérkennilegt í stjórnsýslu eins og þessari að þrír höfuðembættismenn skuli lýsa vilja til þess að hverfa frá störfum í stjórnsýslunni, þ.e.a.s. borgarhagfræðingur, borgarritari og borgarlögmaður.