6.9.2004

Vélamiðstöðina á frjálsan markað

Morgunblaðið, 6. september, 2004.

Gámaþjónustan hf. sendi borgarfulltrúum í Reykjavík bréf hinn 31. ágúst, þar sem hún lýsti samskiptum sínum við Sorpu bs. – en byggðasamlagið Sorpa er að meirihluta í eign Reykjavíkurborgar. Undrast Benóný Ólafsson, framkvæmdastjóri Gámaþjónustunnar, að fyrirtækið skuli hafa þurft að keppa við fyrirtæki í eigu Reykjavíkurborgar og Orkuveitu Reykjavíkur, Vélamiðstöðina ehf., við útboð vegna þjónustu við þrjár endurvinnslustöðvar Sorpu bs.  Tilboði Vélamiðstöðvarinnar var tekið en Gámaþjónustunni hafnað.

Í bréfinu er minnt á, að hinn 10. september 2002 hafi verið samþykkt í borgarráði Reykjavíkur að breyta Vélamiðstöð Reykjavíkurborgar í einkahlutafélagið Vélamiðstöð ehf með stofnfé frá Reykjavíkurborg. Fundargerð borgarráðs beri með sér, að ekki hafi verið ætlunin, að Vélamiðstöðin ætti að fara í harða samkeppni við aðila á almenna markaðinum.

Þegar samþykkt var að breyta Vélamiðstöðinni í hlutafélag 10. september 2002 bókuðum við sjálfstæðismenn í borgarráði: „Að gefnu tilefni árétta borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks nauðsyn þess að tafarlaust verði mótaðar reglur um innkaup á vegum fyrirtækja og byggðasamlaga í eigu eða með aðild Reykjavíkurborgar.  Jafnframt er nauðsynlegt að móta með skýrum hætti hvort Vélamiðstöð ehf. skuli keppa um verkefni á almennum markaði.“

Af bréfi Gámaþjónustunnar hf. er augljóst, að ekki hefur verið tekið á málum á þann veg, sem við sjálfstæðismenn vildum fyrir tveimur árum, að með skýrum hætti lægi fyrir, hvort Vélamiðstöðin ehf. ætti að keppa um verkefni á almennum markaði. Það hafði að minnsta kosti ekki verið kynnt á þann veg, að Gámaþjónustan vissi um þennan væntanlega keppinaut sinn.

Auðvelt er að rökstyðja breytingu borgarfyrirtækja í hlutafélög í því skyni að laga rekstrarfyrirkomulag þeirra að breyttu starfsumhverfi. Ber að sjálfsögðu að stefna að því, að fyrirtæki í opinberri eigu fái að njóta besta stjórn- og ábyrgðarkerfis við rekstur, en þar er hlutafélagaformið best. Hitt er annað mál, að borgarfyrirtæki nýti sér slíkar breytingar til að hefja samkeppni á almennum markaði við fyrirtæki í einkaeigu. Borgarráð veitti  Vélamiðstöðinni ehf.  enga slíka heimild 10. september 2002 eins og bókun okkar borgarráðsfulltrúa sjálfstæðismanna sýnir.

Í umræðum um Vélamiðstöðina og starfsemi hennar vegna réttmætrar kvörtunar Gámaþjónustunnar, hefur Hersir Oddsson, framkvæmdastjóri Vélamiðstöðvarinnar, sagt, að fyrirtækið hafi leitað tilboða hjá bönkum um lánaviðskipti og það hafi aldrei verið „upp á neina peninga frá borgarsjóði“ komið. Jafnframt hefur komið fram, að Vélamiðstöðin hafi árið 2003 átt 300 til 350 milljón króna viðskipti við Reykjavíkurborg án útboðs.

Þegar hugað er að þessum viðskiptum Vélamiðstöðvarinnar og Sorpu bs. er óhjákvæmilegt að líta til þess, að Alfreð Þorsteinsson er stjórnarformaður Sorpu bs. og jafnframt formaður borgarráðs og stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur, eigenda Vélamiðstöðvarinnar.  Þessi samþjöppun við stjórnarformennsku þessara aðila hlýtur að koma til sérstakrar skoðunar hjá Ásgerði Thoroddsen, lögfræðingi, sem hefur verið falið að vinna lögfræðiálit fyrir stjórn Sorpu bs. vegna þessa  sérkennilega máls.

Það hefur færst í vöxt, að rekstur á vegum sveitarfélaga færist í hendur byggðasamlaga, það er fyrirtækja í eigu fleiri en eins sveitarfélags, eða hlutafélaga í eigu eins sveitarfélags eða fleiri. Um leið og þetta hefur gerst, hefur ekki verið gengið nógu tryggilega frá því, hvernig kjörnir sveitarstjórnarmenn og sveitarstjórnir koma að eftirliti með fjármálum og rekstri þessara fyrirtækja.

Við blasir, að það er tímaskekkja, að Vélamiðstöðin skuli rekin sem opinbert fyrirtæki. Í stað þess, að hún sé í samkeppni við einkafyrirtæki að bjóða í verk fyrir önnur opinber fyrirtæki, ætti að bjóða Vélamiðstöðina til sölu. R-listinn hefur ekki pólitíska burði til að standa þannig að málum. Hann hefur meira að segja ekki burði til að breyta Orkuveitu Reykjavíkur í hlutafélag, þótt sérstök nefnd á hans vegum undir merkjum Reykjavíkurborgar hafi lagt til slíka breytingu á orkuveitunni.

Ástæða er til að fagna því, hve skipulega stjórnendur Gámaþjónustunnar hf. hafa gengið til þess verks að vekja athygli á óeðlilegri samkeppni af hálfu Vélamiðstöðvarinnar. Þeir búa við óeðlilega samkeppnisstöðu og hún verður bnest leiðrétt með því að breyta Vélamiðstöðinni í einkafyrirtæki.

.