4.9.2004

Þjóðmenningarátakið mikla

Morgunblaðið, 4. september, 2004.

Í sumar kynnti Ragnheiður Traustadóttir fornleifafræðingur mér rannsóknir undir hennar stjórn á Hólum í Hjaltadal og við Kolkuós í Skagafirði. Hún lýsti góðum árangri bæði í rannsóknunum og í alþjóðlegu samstarfi, hvernig tekist hefði að sameina krafta fjölmargra ólíkra vísindamanna frá mörgum löndum og hve frábærar aðstæður væru til að stunda slík störf undir handarjaðri Hólaskóla.

Fornleifarannsóknir hluti átaksins

Þetta er aðeins eitt dæmi um hinar víðtæku fornleifarannsóknir um allt land, sem stofnað hefur verið til í krafti fjármagns úr Kristnihátíðarsjóði, en alþingi ákvað að stofna sjóðinn árið 2000 í tilefni 1.000 ára afmælis kristnitökunnar.

Ég hef einnig kynnst því á Þingvöllum, hve miklu rannsóknir þar hafa skilað. Ætti að nýta þær sem sprota að rannsóknum víðar í landinu á fornum þingstöðum, svo að unnt yrði að afla sem mestrar þekkingar um þá. Slíkar rannsóknir mundu ýta undir framkvæmd hugmyndar, sem hefur verið óformlega reifuð vegna skráningar Þingvalla á heimsminjaskrá menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO), að Þingvellir verði í fararbroddi við heildarskráningu fornra germanskra þingstaða á heimsminjaskrána.

Fornleifarannsóknir fyrir tilstuðlan Kristnihátíðarsjóðs og skráning Þingvalla á heimsminjaskrána eru þættir í miklu þjóðmenningarátaki fyrir frumkvæði ríkisstjórnar og alþingis á undanförnum árum.

Safnhús og Þjóðmenningarhús

Miðvikudaginn 1. september var endurreist og endurnýjað Þjóðminjasafn opnað við hátíðlega athöfn og á þeim skamma tíma, sem síðan er liðinn, hafa gestir þess látið í ljós mikla ánægju með breytinguna á umgjörð safnsins og kynningu á dýrgripum þess. Safnhúsið og sýningarnar í því eru þó aðeins toppurinn á því mikla starfi sem unnið hefur verið síðustu sex ár til að tryggja frambúðar-varðveislu þjóðminja okkar.

Á undanförnum árum hefur oft verið ástæða til að undrast þröngt sjónarhorn þeirra sem hafa einblínt á framkvæmdirnar við Suðurgötu og jafnvel talið að allt starfslið Þjóðminjasafns sæti og biði þess eins að safnhúsið þar yrði opnað. Á sama tíma og iðnaðarmenn hafa unnið að endurgerð hússins hefur innra starf Þjóðminjasafns verið endurskoðað frá grunni, ný lög hafa verið sett um safnið og starfsemi undir merkjum þess hefur tekið stakkaskiptum auk þess sem til hliðar við safnhúsið hefur verið endurgert hús í þágu safnsins í Vesturvör í Kópavogi þar sem er að finna geymslur og forvörsluaðstöðu sem standast samanburð við hið besta á heimsmælikvarða.

Safnhús Þjóðminjasafns hefur vissulega verið lokað í sex ár en á sama tíma hefur verið unnið að því í öllum landshlutum að efla söfn og skapa þeim meira rými og betri aðstöðu. Má þar til dæmis nefna allt starfið í Byggðasafninu á Skógum, en þar hefur samgöngusafn nú komið til sögunnar.

Þá er ástæðulaust að gleyma því að ríkisstjórnin ákvað að breyta Safnahúsinu við Hverfisgötu í Þjóðmenningarhús með aðstöðu til sýninga. Þar hefur nú í fyrsta sinn í sögu þjóðarinnar verið gengið þannig til verks að unnt er að sýna sjálf handritin á þann hátt sem þessum einstæðu þjóðargersemum sæmir.

Fyrirheit um fleiri hús

Í ár eru síðan 10 ár liðin frá því að Þjóðarbókhlaðan var tekin í notkun á 50 ára afmæli lýðveldisins. Upphaflega var ráðgert að það hús yrði gjöf þjóðarinnar til sjálfrar sín á 1.100 ára afmæli Íslands byggðar árið 1974, en það var þó ekki fyrr en 20 árum síðar, sem gjöfin var afhent.

Þjóðarbókhlaðan og ný aðstaða fyrir Þjóðskjalasafn Íslands voru forsenda þess að unnt var að ákveða nýtt hlutverk fyrir Safnahúsið og stofna þar til Þjóðmenningarhúss.

Með vísan til alls þessa er auðvelt að færa rök fyrir því sem ég kalla þjóðmenningarátakið mikla á lokaáratugi 20. aldar og fyrsta áratugi 21. aldarinnar. Og enn eigum við eftir að sjá þau hús rísa sem fyrirheit voru gefin um fyrir lok síðustu aldar, en eru nú að fæðast á teikniborðinu, tónlistarhús í Reykjavík og menningarhús víðsvegar um landið.

Rannsóknir á Hólum og á öðrum sögufrægum stöðum staðfesta margt sem við höfum talið okkur vita af lestri fornra bóka. Þær minna á gildi þess að leggja rækt við menningu okkar og skapa slíku ræktunarstarfi sem besta umgjörð. Undan því hefur vissulega ekki verið skorast hin síðustu ár eins og þjóðmenningarátakið mikla sannar.

.

Prentvæn útgáfa