17.8.2004

Minningargrein um Sigurjón Sigurðsson

Morgunblaðið 17. ágúst, 2004.

Sigurjón Sigurðsson var farsæll lögreglustjóri í Reykjavík í tæp 40 ár. Þegar hann gegndi því ábyrgðarmikla starfi, hvíldu einnig á honum önnur störf eins og yfirumsjón með Bifreiðaeftirliti ríkisins og stjórn Lögregluskóla ríkisins. Hann var um árabil formaður heilbrigðisnefndar Reykjavíkur og umferðarnefndar Reykjavíkur. Öll lögreglustjóraár hans voru útlendingamál einnig á verksviði embættis hans. Í þessu tilliti einu var hann margra manna maki, en hitt skipti þó mestu, að hann vann viðkvæm trúnaðarstörf sín af kostgæfni.

Nýlega var birt Gallup-könnun um viðhorf almennings til einstakra starfsstétta og enn á ný eru lögreglumenn þar fremstir í fylkingu með læknum og kennurum. Ekki er sjálfgefið, að lögregla njóti svo mikils álits meðal borgaranna, árum og áratugum saman. Hitt er ekki heldur tilviljun, að sjö umsækjendur skuli nú vera um hvert nemendasæti í lögregluskólanum. Virðinguna og áhugann má að verulegu leyti rekja til leiðsagnar manna með forystuhæfileika Sigurjóns Sigurðssonar.

Í tíð Sigurjóns lögreglustjóra var lagður traustur grunnur að þeim metnaði, sem einkennir allt lögreglustarf í landinu um þessar mundir. Hann gerði skýrar og strangar kröfur en jafnframt treysti hann "sínum mönnum" til að leysa hin erfiðustu verkefni á farsælan hátt með öryggi borgaranna að leiðarljósi.

Í ár eru 60 ár liðin frá því að Sigurjón réðst til starfa hjá lögreglunni í Reykjavík sem löglærður fulltrúi, hann var settur lögreglustjóri 1. ágúst 1947 en skipaður lögreglustjóri 13. febrúar 1948 aðeins 32 ára að aldri. Rúmu ári eftir skipun hans þurfti lögreglan að snúast gegn árásinni á Alþingishúsið 30. mars 1949, þegar þingmenn ræddu aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu, NATO. Æstur múgur reyndi að hindra störf þingsins og varð lögregla að beita táragasi til að fæla óeirðaseggina frá Austurvelli. Þessi einstæði atburður varð ekki til þess að draga úr trausti almennings á hinum unga lögreglustjóra, þótt hann sætti svæsnum árásum frá þeim, sem tóku málstað uppþotsmannanna. Ég kynntist því þegar í foreldrahúsum, hve mikið traust ráðherrar báru til Sigurjóns lögreglustjóra, dómgreindar hans og viðleitni til að leysa hvert mál í krafti laga og réttar. Við embættisstörf í forsætisráðuneytinu síðari helming áttunda áratugarins sá ég einnig úr þeirri átt, hve mikla alúð Sigurjón og menn hans lögðu við öll sín fjölbreyttu verk.

Mér er ljúft að minnast og þakka ánægjuleg persónuleg kynni við Sigurjón lögreglustjóra. Ég átti samleið með honum í Rotaryklúbbi Reykjavíkur, þar sem hann var með lengstan félagsaldur eða síðan 1949. Þar sem annars staðar naut hann virðingar og trausts og er eftirminnilegt að hafa fengið tækifæri til að hitta hann og kynnast honum á þeim vettvangi. Ég færi Sigríði Kjaran, eiginkonu Sigurjóns, börnum þeirra hjóna og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning Sigurjóns Sigurðssonar.