Hnigna tekr heims magn?
Hólahátíð, 15. ágúst, 2004.
Mér er heiður að standa hér í Hóladómkirkju í dag.
Fyrir þremur vikum hafði ég ekki hið minnsta hugboð um, að ég yrði hér í þessum sporum og ávarpaði ykkur.
Davíð Oddsson forsætisráðherra hafði heitið að koma hingað í þessu augnamiði en án minnsta fyrirvara veiktist hann hastarlega, eins og kunnugt er.
Biðjum við þess, að sá, sem öllu ræður veiti honum styrk til að ná fullri heilsu að nýju. Batahorfur hans eru betri með hverjum degi, sem líður, og hann hefur fullan vilja til að láta enn frekar að sér kveða til heilla fyrir land og þjóð.
Enginn kemur til Hóla, án þess að leiða hugann að herra Jóni Arasyni og örlögum hans. Nú er rúm hálf öld síðan minnisvarðinn um hann, turninn hér við kirkjuna var vígður. Hann er aðeins eitt af mörgu, sem við Íslendingar höfum gert til að heiðra minningu Jóns.
Þorkell heitinn Jóhannesson, prófessor og rektor Háskóla Íslands, segir í Skírnisgrein um Jón biskup Arason frá 1950, að aftaka Jóns og sona hans hafi verið stórkostlegasti atburður siðaskiptasögunnar. Enn í dag bregði ljóma á þessa sögu, þessa minningu, meir en flest eða öll atvik önnur í þúsund ára ævi þjóðarinnar. En á því þingi, þar sem böðulsöxin sé látin skera úr málum, sé hvorki að vænta hófsamra málflytjenda né réttlátra dómara. Og á fárra manna minningu hafi verið freistað að hlaða þyngri sakargiftum, lasti og óhróðri. En hafi Jón Arason látið lífið sem réttur óbótamaður fyrir dómstóli óvina sinna og andstæðinga, hafi því dómsorði löngu verið hrundið fyrir dómstóli tímans í meðvitund þjóðarinnar. Enginn Íslendingur hafi komist nær því að mega kallast þjóðhetja en Jón biskup Arason. Sjálfur Jón Sigurðsson, sem manna best þekkti og skildi sögu þjóðarinnar, hafi kallað hann hinn síðasta Íslending.
Hér er vel að orði komist 400 árum eftir dauða Jóns Arasonar en hann leit samtíð sína ekki alltaf björtum augum eins og hið fræga kvæði hans um heimsósómann sýnir:
Hnigna tekr heims magn.
Hvar finnur vin sinn?
Fær margur falsbjörg,
forsómar manndóm.
Tryggðin er trylld sögð.
Trúin gerist veik nú.
Drepinn held eg drengskap.
Dygð er rekin í óbyggð.
Kirkjuvaldinu, eins og það var orðið um daga Jóns Arasonar, hefur verið lýst á þann veg, að það hafi verið vaxið þjóðinni yfir höfuð og henni mjög ofviða, ekki síst um fjárefni. Við siðaskiptin hafi linnt að mestu eða öllu hinni áköfu sókn kirkjuvaldsins til þess að svæla undir sig með öllum ráðum jarðeignir bænda.
Konungsvaldið hafði aðhald af kirkjuvaldinu. Á þann hátt skapaðist nokkurt jafnvægi, óstöðugt að vísu. Með hinum nýja sið raskaðist þetta jafnvægi og brátt mátti alþingi sín lítils gagnvart konungi og umboðsmönnum hans.
*
Hin miklu þáttaskil í sögu þjóðarinnar með siðaskiptunum snerust um trú og stjórnmálavald. Þau eru óumdeild og öllum skýr. Hitt er einnig ljóst, að það var ekki fyrr en um miðja 19. öld undir forystu Jóns Sigurðssonar, að Íslendingum tókst að ná hlut sínum í viðskiptum við konung og umboðsmenn hans með endurreisn alþingis.
Okkur Íslendingum er lýðræðishefðin svo í blóð borin, að á 19. öld urðu aldrei sambærilegar umræður hér og víða annars staðar um réttmæti þess, að valdið væri þjóðarinnar en ekki konungs. Þjóðveldið byggði á skipulagi í krafti laga, samráðs og samtala án framkvæmdavalds.
Þráðurinn til hinna fornu stjórnarhátta hefur aldrei slitnað og barnaleg einföldun að láta að því liggja, að á okkar dögum sé verið að virkja lýðræðiskrafta meðal þjóðarinnar í fyrsta sinn. Alþingi hefur í meira en 1000 ár verið þungamiðja og höfuðás hins íslenska lýðræðis.
Siðaskiptin mörkuðu skýr skil í þjóðarsögunni.
Fyrr á þessu ári minntumst við annarra merkra og ótvíræðra þáttaskila í þjóðarsögunni, þegar fagnað var aldarafmæli heimastjórnar og þingræðis.
Í hátíðarræðu á því afmæli, hinn 4. febrúar sagði Davíð Oddsson, að heimastjórnin 1. febrúar 1904 hefði verið mikilvægasti atburður sjálfstæðisbaráttunnar og reyndar hefði farsæl framkvæmd á heimastjórninni orðið forsenda fullveldisins. „Þá tókst tvennt í senn,“ sagði Davíð. „Umheiminum, og þá einkum Dönum, var sýnt fram á að Íslendingar væru fullfærir um að fara með eigin mál, þrátt fyrir fámenni, fátækt og harðbýlt lítt numið land. Og Íslendingum sjálfum óx ásmegin. Ísland, þessi hjari í norðurhöfum, var orðið land tækifæranna. Mjög snögglega dró úr vesturförum Íslendinga um þessar mundir, meðan straumurinn til Ameríku annars staðar frá jókst. Það undirstrikar vel hið breytta hugarfar. Væntingar og bjartsýni höfðu bægt burtu vonleysi og uppgjöf. Heimastjórnin 1. febrúar 1904 var því happafengur fyrir íslenska þjóð á þeim degi og ætíð síðar.“
*
Davíð Oddsson hefur leitt ríkisstjórnir á tímum mikilla breytinga en um leið einstaks stöðugleika. Af sögu stjórnarráðsins, sem kemur út í heild nú í tilefni 100 ára afmælis þess, má glöggt ráða, að síðasti áratugur tuttugustu aldarinnar og það, sem af er fyrsta áratug nýrrar aldar, skipa sérstöðu í íslenskri stjórnmálasögu. Aðeins einu sinni fyrr á þessu 100 ára tímabili hefur ríkt sambærileg festa í stjórnmálalífinu, það er á sjöunda tug síðustu aldar, viðreisnarárunum.
Í skjóli þessa stöðugleika hafa orðið stærri breytingar á þjóðfélagi okkar og meiri efnhagsframfarir en á nokkru öðru skeiði í þjóðarsögunni. Þótt skeiðið frá 1991 sé ekki á enda runnið, er það orðið svo langt, að líta má á margt, sem áunnist hefur úr nokkurri fjarlægð.
Alþjóðlegir kvarðar sem mæla afkomu og hæfni þjóða og stjórnkerfa sýna Ísland hvarvetna í fremstu röð.
Þegar íslenskir stjórnmálamenn lýsa hagþróun undanfarinna ára, eiga annarra þjóða menn oft erfitt með að trúa sínum eigin eyrum. Þeim finnst undarlegt, að unnt hafi verið að virkja efnahagslega krafta á jafn farsælan hátt til stöðugs vaxtar í svo langan tíma.
Hið sama á við, þegar sagt er frá stórauknu fjárstreymi til rannsókna og þróunar eða fjölgun þeirra, sem leggja stund á almennt háskólanám og framhalds- eða rannsóknanám í háskólum.
Íslenska heilbrigðiskerfið stenst fyllilega samanburð við hið besta á heimsvísu og þjónusta við þá, sem eru sjúkir eða minna mega sín, er meiri og betri hér en víðast annars staðar.
Gróskan í íslensku menningarlífi er meiri en nokkru sinni.
Þjóðin hefur á undraskömmum tíma tileinkað sér hina nýju upplýsinga- og fjarskiptatækni á almennari hátt en flestar aðrar þjóðir.
Þessir fimm grunnþættir: markviss hagstjórn, öflugt vísinda- og menntakerfi, góð heilbrigðisþjónusta, blómstrandi menningarlíf og almenn nýting upplýsingatækni eru besta trygging fyrir því, að þjóðfélagi farnist vel á líðandi stundu og til frambúðar.
*
Ekkert af þessu er sjálfgefið. Ef svo væri, stæðu fleiri þjóðir heims í þessum sömu sporum. Það liggur síður en svo í hlutarins eðli, að íslenska þjóðin skipi sér á þennan hátt í fremstu röð á heimsmælikvarða.
Þegar ég ferðaðist með föður mínum á stjórnmálafundi fyrir hálfri öld eða svo, voru ræður oft fluttar til varnar Íslandi; að þrátt fyrir, að landið væri sagt á mörkum hins byggilega heims, væri samt unnt að búa þannig í haginn fyrir mannlífið, að hér yrði samkeppnisfært þjóðfélag. Víst mætti skapa verðug viðfangsefni fyrir fleiri vinnufúsar hendur og ekki væri óumflýjanlegt, að vel menntað fólk yrði að leita sér starfa í útlöndum.
Þá hafði síður en svo runnið upp fyrir öllum, að Ísland væri land tækifæranna.
Á þessum árum var tekist á um leiðir við landstjórnina á allt öðrum grunni en nú er gert. Þá töldu margir, að í hinum guðlausu Sovétríkjum væri að finna framtíðarvonina. Ríkisvaldið þyrfti ekki annað en gera áætlun til fimm ára og hún myndi rætast með blóm í haga.
Og það þurfti stundum sterk bein gagnvart álitsgjöfum þeirra tíma, til að andmæla lofi um kommúnismann sem áróðri og blekkingu. Undir niðri blundaði sú hugmynd hjá mörgum, að skynsamlegast væri að segja ekki of mikið, aldrei væri að vita, nema allt væri betra handan járntjaldsins, sem skipti Evrópu frá Stettín til Triest.
Sagan hefur fellt sinn dóm um þetta efni. Ein af sérkennilegustu pólitísku þverstæðum samtímans er, að í Kína, fjölmennasta ríki heims, reynir mest á krafta kapítalismans við endurfæðingu þjóðfélagsins, þótt enn ríki sósíalismi á æðstu stigum. Hið eina, sem enn lifir af sósíalisma þar, er einræði flokksins og tök hans á allri skoðanamyndun.
*
Hinn kristni arfur og frelsi einstaklingsins eiga með sjálfstæði þjóðarinnar ríkastan þátt í því, að Íslendingum hefur vegnað jafnvel og raun sýnir. Hinn forni kristni þráður er enn líftaug, sem vert er að lofa hér á helgum stað, þar sem minning lifir um einstakt framtak í þágu kirkju, skóla og stöðugrar viðleitni til að efla þjóðina til dáða.
Í merkri ræðu sinni á heimastjórnarafmælinu andmælti Davíð Oddsson þeim, sem töluðu á þann veg, að þrjúhundruð þúsund „hræður" byggðu þetta land, eins og væri stundum orðað. Hann átaldi einnig ósið sumra stjórnmálamanna að tala um Ísland heima og erlendis sem „örríki". Við værum að sönnu hvorki mörg né mikilvæg á heimsvísu, en svona volæðistal væri óþarft með öllu og meðan aðrir töluðu ekki svona til okkar gætum við sleppt því að gera það sjálf.
Ég tek heilshugar undir þessi orð. Vissulega erum við fámenn þjóð. Okkur er það hins vegar kannski betur ljóst en þeim, sem í mun meira margmenni búa, hve hver einstaklingur skiptir miklu.
Bestu lausnina eða fyrirmyndina er ekki endilega að finna hjá hinum volduga og fjölmenna, enda sjáum við það af hinum alþjóðlegu kvörðum, að mannlífið er síður en svo dæmt best hjá þeim, þar sem margmennið er mest.
Galdurinn við leitina að bestu lausninni felst í því að skilgreina stöðu sína rétt, greina af skynsemi milli þess, sem máli skiptir og hins, sem er sókn eftir vindi. Minnast orðanna úr Prédikaranum, að orð viturra manna, sem hlustað er á í ró, séu betri en óp valdhafans meðal heimskingjanna.
*
Jón Ólafsson ritstjóri benti á, að ritið Frelsið eftir John Stuart Mill væri nefnt guðspjall hinnar 19. aldar, þegar hann kynnti þýðingu sína á því árið 1886. Í ritinu, en hér styðst ég við útgáfu Hins íslenska bókmenntafélags frá 1970 og þýðingu þeirra Jóns Hnefils Aðalsteinssonar og Þorsteins Gylfasonar, er því velt fyrir sér, hver séu réttu hlutföllin milli einstaklingsfrelsis og félagslegs aðhalds. Mill segir:
„Allt, sem gefur lífi einstaklings gildi, veltur á því að athafnafrelsi annarra hafi verið takmörk sett. Því verður að setja ýmsar siðareglur, annaðhvort með lögum eða með almenningsáliti, þegar aðstæður henta ekki til lagasetningar. Mesta spurning mannlífsins er, hverjar þessar reglur skuli vera. En þessi spurning er í hópi þeirra, sem hvað örðugast hefur reynst að svara. Engir tvennir tímar hafa svarað henni á sama veg og tæpast nokkur tvö lönd.“
John Stuart Mill sagði hið eina frelsi, sem ætti nafnið skilið, væri frelsi til að freista gæfunnar að eigin vild, svo lengi sem menn reyndu ekki að svipta aðra gæfunni eða varna þeim vegar í leit sinni að lífshamingju. Hver maður væri sjálfur best til þess fallinn að vaka yfir velferð sinni til líkama eða sálar, þessa heims eða annars. Mannkyninu væri meiri akkur í að leyfa mönnum að lifa eins og þeim best þætti en að þröngva þeim til að lifa eins og allir aðrir teldu þeim fyrir bestu.
Hann birti rit sitt á tímum, þegar hann sagði allar breytingar miða að því að styrkja þjóðfélagið, en veikja afl einstaklingsins. Þessi frelsisskerðing myndi ekki hverfa af sjálfri sér heldur gerast æ háskalegri, allir menn, jafnt yfirvöld sem almenningur, hefðu tilhneigingu til að þröngva eigin skoðunum og tilfinningum að öðrum mönnum.
Þetta eru orð viturs manns, sem eiga erindi til okkar enn þann dag í dag, því að stjórnmálalíf samtímans snýst að verulegu leyti um þessi mörk milli frelsis og hins félagslega aðhalds, sem veitt er með lögum eða almenningsáliti. Það er sígilt viðfangsefni að gæta þess, að frelsi eins gangi ekki á rétt annars.
Mat á atburðum líðandi stundar mótast mjög af því hvaða litum mynd er dregin í fjölmiðlum. Ef heiðarleiki og réttsýni víkja fyrir þröngri hagsmunagæslu, er auðvelt að haga áherslum þannig, að rangar ályktanir verði dregnar. Spunameistarar í þjónustu þeirra, sem vilja slá ryki í augu fólks með áróðri, leitast við að færa fréttnæman viðburð í gott ljós fyrir umbjóðanda sinn og í óhag andstæðingi hans.
Umræður um hið félagslega aðhald samtímans snúast í vaxandi mæli um starfsemi fjölmiðla. Þá er ekki síður rætt um tölvur og netið en blöð og útvarp. Sótt er að einstaklingnum úr fleiri áttum en áður og haldið að honum hvers kyns efni, án þess að hann æski þess. Síur og varnarmúrar eru settir í tölvur og önnur rafeindatæki, sumir setja viðvörun gegn óboðnum pósti eða blöðum á bréfalúguna og enn aðrir merki í símaskrá eða halda sér alveg utan hennar.
Gripið er til þessara viðbragða til að vernda sig gegn óhæfilegri ásókn og átroðningi. Við eigum að hafa frelsi til slíkra gagnráðstafana. Á sama hátt er löggjafanum fært að setja því hæfilegar skorður, að öll fjölmiðlun færist á fárra hendur og óheilbrigð tengsl séu milli þeirra, sem eiga tæki til að stýra almenningsálitinu og hafa undirtökin í verslun og viðskiptum landsmanna.
Ástæðulaust er að gefa mikið fyrir þá skoðun, að önnur stjórnarfarsleg eða stjórnskipuleg sjónarmið gildi um rekstur fjölmiðla en aðra atvinnustarfsemi.
*
Jón Arason skildi gildi þess að nýta nýja tækni til að breiða út hið ritaða orð. Hér á Hólum var vagga íslenskrar prentlistar og nú í sumar hafa fornleifafræðingar rakið sögu prentstofunnar hér aftur til 16. aldar, en Jón biskup setti niður fyrstu prentvélina á Íslandi árið 1530. Þá voru um 85 ár liðin frá því að Jóhann Gutenberg hóf að prenta bækur með lausaletri í pressu. Elsta rit, sem vitað er, að hafi verið prentað hérlendis er Brevarium Holense frá árinu 1534, en aðeins eru varðveitt tvö blöð úr þeirri bók.
Grimmileg örlög Jóns Arasonar voru ráðin, þegar boðskapur Marteins Lúthers barst til landsins, en Lúther nýtti sér prenttæknina af miklum krafti til að breiða út boðskap sinn gegn páfanum. Og á grunni hins nýja siðar var Biblían síðan þýdd á íslensku, sem tryggði varðveislu tungunnar, en nú eru 420 ár liðin síðan Guðbrandur Hólabiskup Þorláksson prentaði fyrstu íslensku Biblíuna hér á staðnum.
Prentlistin markaði þáttaskil, bókum fjölgaði strax mikið. Talið er, að um árið 1500 hafi verið til um 6 milljónir prentaðra bóka í Evrópu. Þannig hafi á um það bil hálfri öld fleiri bækur komið til sögunnar í Vestur-Evrópu en áður höfðu verið þar frá örófi alda.
Svipuð umskipti hafa orðið undanfarinn áratug með innreið hinnar nýju upplýsingatækni og höfum við Íslendingar skipað okkur þar í fremstu röð. Er með ólíkindum að kynnast því, hve mikil gróska er í notkun þessarar tækni til samskipta og miðlunar á upplýsingum. Aldrei fyrr í sögu mannkyns hefur verið jafnauðvelt að koma skoðunum sínum og frásögnum á framfæri við aðra.
Málfrelsi og ritfrelsi eru undirstaða þess stjórnskipulags, sem við njótum og viljum efla og styrkja. Enn er of snemmt að segja, hvaða varanleg áhrif þessi umskipti í miðlun upplýsinga hafa á samfélag okkar eða þjóða heims. Einu má þó slá föstu, þau ýta undir fjölbreytni í skoðunum og eru litin hornauga af þeim, sem einir vilja ráða yfir almenningsálitinu til að halda í völd sín.
*
John Stuart Mill segir viðkvæðið, að sannleikurinn sigrist ætíð á ofsóknum, sé í rauninni ein hinna hentugu lyga, sem hver eti eftir öðrum, uns hún sé orðin hversdagsleg, þótt öll reynsla mæli gegn henni. Gervöll sagan úi og grúi af dæmum sanninda, sem kveðin hafi verið niður í ofsóknum. Og hafi þau ekki verið upprætt til fulls, hafi þeim verið haldið í skefjum svo öldum skipti. Hér nægi að nefna trúarskoðanir. Siðbótar hafi verið freistað að minnsta kosti tugum sinnum fyrir daga Lúthers, en hún hafi jafnan verið kveðin niður.
Hvarvetna í lýðræðislöndum eykst mikilvægi þess, að haldið sé uppi gagnrýnu aðhaldi til að upplýsa almenning um það, hvenær verið er að miðla til hans lygi, hálfsannleika eða sannleika. Yfir okkur flæða dæmi um blygðunarlausa misnotkun á trausti fólks og opnum huga þess gagnvart því, sem það les eða sér.
Dæmi eru um, að fjölmiðlar leggi þá í einelti, sem þeim eru öndverðir eða eigendum þeirra. Nýlega mátti lesa um það, að í dagblaði hefði verið ráðist harkalega og persónulega á einstakling, eftir að hann nefndi í sjónvarpsþætti, að hillurými fyrir varning í stórverslun færi eftir því, hve mikið framleiðandi vörunnar auglýsti í fjölmiðlum dagblaðs- og verslunareigandans.
Þetta dæmi er nefnt hér vegna þess, að það snertir ekki stjórnmál. En það þarf ekki mikla glöggskyggni þeirra, sem fylgjast með stjórnmálaumræðu samtímans, til að sjá hvernig stjórnmálamenn eru dregnir í dilka – ekki vegna skoðana sinna eða verka heldur eftir því, hvað þjónar hagsmunum viðkomandi fjölmiðils.
Svo virðist sem styrkur í umræðum ráðist ekki af því, hvaða rök eru notuð til að halda málstaðnum fram heldur af aðferðunum, sem er beitt til sverta andstæðinginn og gera lítið úr honum. Ekki er spurt um, hvað sagt er og lagt mat á það, heldur hver sagði hvað. Deilur snúast ekki um meginsjónarmið og skoðanir heldur hvað hentar best þá stundina, til að koma ár sinni betur fyrir borð eða höggi á andstæðinginn.
*
Við aðstæður sem þessar er ekki auðvelt að rökræða eða skýra flókin og vandmeðfarin viðfangsefni, sem varða þjóðarheill. Síst af öllu er skynsamlegt að breyta þeim í átök milli þeirra, sem bera sameiginlega ábyrgð á því, að stjórnarhættir séu þjóðinni til heilla. Í því efni liggur þungamiðjan eins og áður hjá alþingi og þeim, sem þar sitja hverju sinni.
Allra flokka þingmenn hafa sammælst um, að kæmi til þess, að skynsamlegt væri talið, að Ísland gerðist aðili að Evrópusambandinu myndi ákvörðun um það borin undir þjóðina. Þar sé um að ræða mál af þeirri stærðargráðu, að ekki sé eðlilegt, að þingmenn einir beri ábyrgð á afgreiðslu þess.
Um þessar mundir eru 10 ár liðin frá því að Ísland gerðist aðili að evrópska efnahagssvæðinu. Þessi ákvörðun alþingis var umdeild en nú er svo komið, að margir, sem treystu sér ekki til að styðja aðild eða voru henni jafnvel andvígir, vilja, að Ísland afsali sér mikilvægum þáttum fullveldis með inngöngu í Evrópusambandið.
Evrópumálið er alls ekki einfalt, hvorki fyrir okkur Íslendinga né aðra. Brýnt er að átta sig á aðalatriðum þess og í því skyni skipaði Davíð Oddsson forsætisráðherra nefnd með fulltrúum allra þingflokka, en hún hefur nýlega hafið störf.
Hlutverk nefndarinnar er ekki að komast að sameiginlegri niðurstöðu um hver stefnan í Evrópumálum skuli vera, heldur að skerpa og skýra um hvaða atriði þarf að ræða og hver ekki. Evrópunefndinni er auk upplýsingaöflunar ætlað að greina aðalatriði mála og helstu staðreyndir, til að auðvelda umræður á réttum eða skynsamlegum forsendum um Evrópumálin.
Ákvörðun um stöðu okkar gagnvart Evrópusambandinu er aðeins sambærileg við stærstu viðburði Íslandssögunnar. Fátt er þjóðum mikilvægara en að átta sig á upplýstan hátt á eigin stöðu í samfélagi þjóðanna og draga rétta ályktun af matinu.
Þetta gerðu Íslendingar á fyrstu árum lýðveldisins, þegar þeir skipuðu sér í fylkingu með Norður-Atlantshafsþjóðunum innan NATO. Þetta var gert, þegar samið var um varnir landsins við Bandaríkjamenn á grundvelli NATO-aðildarinnar. Þetta var gert, þegar aðgangur þjóðarinnar að lífsbjörg hennar var tryggður með baráttunni fyrir fullum yfirráðum yfir fiskveiðilögsögunni. Og þetta var gert með aðildinni að evrópska efnahagssvæðinu.
Allar hafa þessar sögulegu ákvarðanir reynst þjóðinni heilladrjúgar. Sterkra skynsemisraka er þörf, ef raska á þeirri stöðu, sem farsæl utanríkisstefna hefur fært okkur undanfarna áratugi. Í því efni má ekki leggja stund á nokkra tilraunastarfsemi. Þrýstingur annarra þjóða manna byggist á hagsmunagæslu þeirra en ekki þekkingu á íslenskum aðstæðum. Evrópumálið verður að ræða fyrir opnum tjöldum og kynna þjóðinni rök með og á móti, án þess að einstaklingar séu dregnir í dilka við gæslu þröngra sérhagsmuna.
*
Aðstæður ættu nú að vera betri fyrir okkur til að skoða svo afdrifaríkt mál og önnur af meiri ró og þekkingu en áður, þegar litið er til þeirrar gjörbreytingar, sem orðið hefur á menntunarstigi þjóðarinnar og á íslenska menntakerfinu, stöðu rannsókna- og vísinda heima fyrir og í samanburði við aðrar þjóðir.
Í því efni hefur athygli helst beinst að frábærum árangri íslenskra afreksmanna í heilbrigðisvísindum en einnig á sviði jarðvísinda. Þar er auðvelt að beita alþjóðlegum kvörðum til að meta árangur. Í ýmsum greinum hugvísinda er ekki jafnauðvelt að beita slíkum kvörðum, enda oft tekist á við staðbundin viðfangsefni líðandi stundar.
Í nýlegri skýrslu ríkisendurskoðunar um háskólamenntun segir, að framboð á háskólanámi hafi aukist mikið hér á undanförnum árum og mest hafi fjölgunin orðið í framhaldsnámi. Af lestri skýrslunnar má draga þá meginályktun, að ríkisendurskoðun telji að beita verði meira aðhaldi gagnvart starfi háskóla með því að gera meiri kröfur til inntaks í háskólanámi og til gæða háskólamenntunar. Með því mætti stuðla að betri nýtingu fjármuna og raunhæfari samanburði milli skóla.
Hina miklu grósku í háskólamenntun hér á landi má rekja til aukins frelsis og nú er einnig á því sviði hvatt til þess, að sannreynt sé með auknu félagslegu aðhaldi, að þetta frelsi sé ekki misnotað.
Embætti, fræðititlar eða tengsl við háskóla og rannsóknastofnanir gera meiri en ekki minni kröfur til þess, að efnisleg rök séu að baki skoðunum fræðimanna, sem settar eru fram um álitamál líðandi stundar. Álitsgjafar eru þó bara menn af holdi og blóði, menn með eigin skoðanir á mönnum og málefnum. Þeir hafa oft eins og aðrir hagsmuni af niðurstöðum mála eða því hverjir fara með völd í landinu, eða finnst þeir jafnvel beittir órétti. Stundum er álit fræðimanna líka næsta hrátt, þegar fjölmiðlar leita til þeirra í hita leiksins.
*
Fyrir rúmum áratug var ýtt úr vör til að skapa meira frelsi á öllum sviðum þjóðlífsins en áður hafði verið. Bakhjarl þessara umskipta hefur verið einstæður stöðugleiki í stjórnmálum og markviss festa við framkvæmd breytinganna. Það hefur verið tekist málefnalega á um marga þætti, sum mál leyst í sátt en önnur ekki.
Hin síðari ár hafa birst vísbendingar um, að þjóðfélags-jafnvægið sé óstöðugra en áður. Við því er nauðsynlegt að bregðast og grípa til aðhalds, þar sem þess er talin þörf. Harðar deilur undanfarna mánuði, hafa einmitt snúist um slíkt aðhald. Margir hafa fengið sinn skammt af lasti og óhróðri.
Við getum enn leitað í smiðju hjá John Stuart Mill eftir líkingu, þegar hann segir, að kristnum mönnum hafi verið kastað fyrir ljón, en kirkja þeirra orðið veglegur meiður, sem vaxið hafi yfir eldri og kraftminni teinunga og kæft þá í skugganum. Félagslegur ofstopi drepi engan og uppræti engar skoðanir, en hann komi mönnum til að leyna þeim eða varni þeim að vinna að útbreiðslu þeirra.
Það er ekki endilega allt, sem sýnist á líðandi stundu. Hér eiga við orð Þorkels Jóhannessonar, sem vitnað var til í upphafi þessa máls, að hafi Jón Arason látið lífið sem réttur óbótamaður fyrir dómstóli óvina sinna og andstæðinga, hafi því dómsorði löngu verið hrundið fyrir dómstóli tímans í meðvitund þjóðarinnar.
Enginn Íslendingur kemst nær því að mega kallast þjóðhetja en Jón biskup Arason.
*
Við komum saman hér í dag í vissu þess, að heimsósómi hefur ekki ráðið þjóðargöngunni, að tryggðin sé ekki tryllt né trúin veik, drengskapur hafi ekki verið drepinn eða dygðin rekin í óbyggð. Hitt er sönnu nær, að játa því, að fleira hafi orðið þjóð okkar til framdráttar en nokkur gat vænst.
Við erum með dýran arf í höndum og höfum axlað þá ábyrgð, að skila honum enn verðmætari til afkomenda okkar.
Þótt oft skorti hófsama málflytjendur og réttláta dómara í samtímanum, er ég þess fullviss, að litið verði til okkar tíma sem hinna bestu í sögu þjóðarinnar.
Megi sú trú rætast með sanngirni og hófsemi að leiðarljósi.