24.7.2004

Lærdómsrík aðför þríeykis

Morgunblaðið, 24. 07. 04.

Þorkell Sigurlaugsson viðskiptafræðingur sagði í Morgunblaðsgrein hinn 19. júlí síðastliðinn að aldrei áður hefði verið gerð jafnyfirgripsmikil aðför að ríkisstjórn, þar sem stjórnarandstaðan, yfirgnæfandi meirihluti fjölmiðla og forseti lýðveldisins spiluðu saman. Hann sagði að ekki ætti að gera embætti forseta Íslands að eftirlitsstofnun með lagasetningu frá Alþingi og forsetann að pólitískum dómara um það hvort lög ættu almennt að fara undir þjóðaratkvæði.

Þorkell mælti fyrir munn margra, sem hafa fylgst undrandi og áhyggjufullir með deilum síðustu vikna, þegar hann sagði öll rök mæla með því að fjölmiðlalögin yrðu felld úr gildi og þegar yrði hafinn undirbúningur að nýju frumvarpi um fjölmiðla og um þjóðaratkvæðagreiðslur. Í haust ætti síðan að láta reyna á það hvort stjórnarandstaðan væri tilbúin að ræða þetta mál efnislega og huga einnig að breytingum á stjórnarskránni.

Fjölmiðlalögin hafa nú verið felld úr gildi, draga þarf lærdóm af aðför þríeykisins og líta til nýrra viðfangsefna í ljósi reynslunnar.

Hinn 28. febrúar síðastliðinn ritaði ég grein hér í Morgunblaðið undir fyrirsögninni: Forseti, ríkisstjórn og hið netvædda lýðræði. Er auðvelt að nálgast hana á vefsíðu minni bjorn.is en í greininni sagði meðal annars:

"Séu menn þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að hafa þann öryggisventil vegna samþykkta Alþingis, að skjóta megi ákvörðunum þess til þjóðaratkvæðagreiðslu, ættu þeir að hefjast handa við að lögfesta ákvæði um hann á skýran og ótvíræðan hátt. Óljós öryggisventill er verri en enginn en með stjórnarskrá og lögum er unnt að ákveða að við vissar aðstæður sé skylt að bera löggjafarmálefni undir atkvæði þjóðarinnar. Inntak slíkra ákvæða á að ræða frekar en að velta vöngum um hvort forseti Íslands megi ganga í berhögg við meirihluta á Alþingi.

Ef það er meginröksemd fyrir tilvist embættis forseta Íslands að hann geti stuðlað að þjóðaratkvæðagreiðslu um einstök lög er sú röksemd gerð að engu með hugmyndum um hið milliliðalausa lýðræði og þjóðaratkvæðagreiðslur."

Atburðir síðustu vikna sýna að undan því verður ekki vikist að ræða þetta mál til hlítar á pólitískum vettvangi. Örlög fjölmiðlalaganna frá því að Ólafur Ragnar Grímsson synjaði þeim 2. júní 2004 er aðeins til marks um að til ófagnaðar er að búa við réttaróvissu og hættu á stjórnskipunarkreppu vegna þess einstæða kerfis að sá, sem skipar embætti forseta Íslands hverju sinni, einstaklingur utan Alþingis, geti staðið eins að verki og raun hefur orðið.

Í skýrslu fyrir ríkisstjórnina um tilhögun þjóðaratkvæðagreiðslu segir að hvarvetna, þar sem unnt er að skjóta ákvörðun þjóðþings til þjóðaratkvæðagreiðslu, séu skilyrði þess fest í stjórnarskrá og lög. Hvergi lýtur slík ákvörðun vilja eins manns, sem telur sig svo ekki einu sinni þurfa að skýra eigin afstöðu til álitaefnis þegar hann hafnar vilja meirihluta Alþingis. Slík tilhögun er tímaskekkja enda arfur frá liðinni tíð.

Upplýst er að formenn Samfylkingar, vinstri/grænna og frjálslyndra telja ekki unnt án heimildar í stjórnarskrá að setja svipuð skilyrði og víða gilda um lágmarksþátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslu. Nú hljóta þeir Össur Skarphéðinsson og Steingrímur J. Sigfússonar að benda samflokksfólki sínu við stjórn Reykjavíkurborgar á nauðsyn þess að ákvæði um lágmarksþátttöku í almennri kosningu um málefni borgarinnar verði þurrkuð úr samþykktum borgarstjórnar þar sem þau brjóti í bága við stjórnarskrárvarin mannréttindi að þeirra dómi.

Undir lok funda Alþingis fimmtudaginn 22. júlí máttu sumir málsvarar stjórnarandstöðunnar vart mæla af reiði yfir því að synjun Ólafs Ragnars hefði ekki leitt til þjóðaratkvæðagreiðslu. Þeir sátu að vísu svo hjá við atkvæðagreiðslu um málið! Þeir reyndu ekki einu sinni að fella frumvarpið sem þeir töldu aðför að þjóðræðinu. Þessi tvískinnungur segir allt um framgöngu stjórnarandstöðunnar. Þótt hún hrópi hástöfum um eigið ágæti og illsku annarra eru efndirnar oft allt aðrar.

Innan Sjálfstæðisflokksins hefur ekki verið fylgi við að lögfesta eða stjórnarskrárbinda ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur. Þar hafa menn haldið fast í stuðning við fulltrúalýðræði, bestu stjórnarhættina. Sterk rök eru á móti þjóðaratkvæðagreiðslu, meðal annars þau að sjaldnar snúist hún um ágreiningsmálið en eitthvað allt annað. Fjölmiðlalagadeilan hefur fært heim sanninn um hve erfitt er að ræða efni málsins. Stjórnarandstaðan var að minnsta kosti aldrei til þess búin að gera það í neinni alvöru.

Ég er þess fullviss að Sjálfstæðisflokkurinn einn er fær um að leiða ný og skynsamleg úrræði um málskot til þjóðarinnar til lykta á stjórnmálavettvangi. Þegar lærdómur af fjölmiðlamálinu hefur verið ræddur meðal flokksmanna og sameiginleg niðurstaða hefur fengist er hálfur sigur unninn.

Réttur til þjóðaratkvæðagreiðslu á ekki að ráðast af tillitssemi við forsetaembættið. Minnumst þess að hvergi eru þjóðaratkvæðagreiðslur áhrifameira stjórntæki en í Sviss, þar sem enginn kjörinn forseti situr, heldur flyst verkefni þjóðhöfðingja á milli ráðherra.