11.6.2004

Þátttökukrafa Reykjavíkurborgar

Morgunblaðið 11. júní, 2004.

JÓNATAN Þórmundsson, prófessor í refsirétti, sagði í útvarpsviðtali að viljandi eða óviljandi ætluðu stjórnmálamenn líklega að "ræna" lýðræðislegum rétti af landsmönnum. Tilefnið var, að athygli hafði verið vakin á því, að við atkvæðagreiðslu Reykvíkinga um framtíð flugvallarins var ákveðið að krefjast 75% kosningaþátttöku til að niðurstaða yrði bindandi.

Þegar fundið er að þessum óvarlegu orðum prófessorsins, skrifar hann grein í Morgunblaðið, og segir tilgangi sínum kannski náð, af því að mönnum virðist eitthvað hafa "sviðið" undan ummælum hans! Tilgangurinn helgar með öðrum orðum meðalið, þegar prófessorinn nýtir sér hinn stjórnarskrárvarða rétt til málfrelsis. Stjórnarskráin ver menn á hinn bóginn ekki fyrir gagnrýni á sjónarmið þeirra, jafnvel þótt þeir séu prófessorar.

Stærðfræðingar velta fyrir sér vegna umræðna um 75% regluna, hvers vegna ekki eigi bara að miða við 100% og telja sig þar með skjóta regluna í kaf með pottþéttum rökum. Hvers vegna tóku þeir ekki þennan stóra slag, þegar reglunni var hrundið í framkvæmd með flugvallarkosningunni?

75%-reglusmiðurinn sjálfur, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, vill eins og jafnan sverja af sér eigin ákvarðanir. Flumbrugangur hennar er svo mikill, að hún les ekki einu sinni eigin tillögur og greinargerðir. Hún segir í leiðréttingu við Morgunblaðsgrein sína um málið, að vegna brigðuls minnis hafi hún byggt á vitlausum gögnum frá skjalasafni Ráðhússins.

Í Reykjavík hefur verið sett regla um lágmarksþátttöku í almennri atkvæðagreiðslu. Þeirri ákvörðun hefur ekki verið andmælt. Ákvæði um lágmarksþátttöku hefur um árabil verið í samþykktum um stjórn Reykjavíkurborgar og með vísan til þess var gerð krafa um þátttöku ¾ kjósenda í flugvallarkosningunum í mars 2001. Í ágúst 2001 var ákvæðinu um lágmarksþátttöku hins vegar breytt í samþykktum um stjórn Reykjavíkurborgar og nú er þar gerð krafa um þátttöku 2/3 kjósenda samkvæmt 38. grein samþykktanna, sem fjallar um borgarafundi og almenna atkvæðagreiðslu. Í athugasemd við greinina segir:

"Sbr. 104. gr. sveitarstjórnarlaga og 19. gr. eldri samþykktar. Lagt er til að ákvæði 19. gr. um (svo!) gildandi samþykkt um bindandi atkvæðagreiðslu haldi gildi sínu þar sem segir að atkvæðagreiðsla geti verið skuldbindandi að vissum skilyrðum fullnægðum. Gert er ráð fyrir að atkvæðagreiðsla sé bundin ef kosningaþáttakan nær 2/3 í stað 3/4 áður. Algeng þátttaka í borgarstjórnarkosningum er um 85% og þykir tæpast raunhæft að þátttaka í kosningum um einstök málefni geti náð 75%. Því er lagt til að markið verði settt við 2/3."

Í 5. og 6. mgr. 104. grein sveitarstjórnarlaga segir:

"Sveitarstjórn getur efnt til almennrar atkvæðagreiðslu í sveitarfélagi eða hluta þess til þess að kanna vilja kosningarbærra íbúa um tiltekið málefni. Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar er ekki bindandi um afgreiðslu málsins fyrir sveitarstjórn nema hún hafi fyrir fram ákveðið að svo skuli vera.

Við framkvæmd atkvæðagreiðslu skv. 5. mgr. skal farið eftir meginreglum laga um kosningar til sveitarstjórna eftir því sem við getur átt."

Á grundvelli þessarar lagagreinar stendur nú í samþykktum um stjórn Reykjavíkurborgar, að kosningaþátttaka þurfi að vera 2/3 í almennri atkvæðagreiðslu borgarbúa til að niðurstaðan sé bindandi fyrir borgarstjórn. Þessi samþykkt var gerð í borgarstjóratíð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og tekur mið af því, að algeng þátttaka í borgarstjórnarkosningum er um 85%.

Nafn mitt hefur tengst umræðum um þetta mál eftir að ég sagði, að mér þætti ekki ósanngjarnt að miða við 75% þátttöku í atkvæðagreiðslu um að hafna lögum frá alþingi, þar sem meðaltalsþáttaka í þingkosningum frá 1942 hefur verið um 88%.

Sveitarstjórnarlög skapa sveitarstjórnum starfsramma á svipaðan hátt og stjórnarskráin alþingi og ríkisstjórn. Eftir að synjunarvaldi hefur verið beitt samkvæmt 26. grein stjórnarskrárinnar ræðst framkvæmd málsins af lögum. Þetta er viðtekin skoðun fræðimanna. Ólafur Jóhannesson segir auk þess í fræðiriti sínu um stjórnskipunarrétt, að í lögin um þessa þjóðaratkvæðagreiðslu megi sennilega setja ákvæði um þátttöku í atkvæðagreiðslunni og jafnvel um aukinn meirihluta. Um nauðsyn þessarar lagasetningar er ekki deilt milli stjórnar og stjórnarandstöðu, enda samstaða um að kalla þing saman í byrjun júlí. Ríkisstjórnin hefur þegar skipað nefnd lögfræðinga til að semja frumvarp til laga um þessa framkvæmd.

Við gerð frumvarpsins ber að líta til þess, hvernig staðið hefur verið að framkvæmd lagaákvæða, sem heimila almennar atkvæðagreiðslur íslenskra kjósenda og þá eru sveitarstjórnarlögin nærtæk og samþykktir höfuðborgarinnar, Reykjavíkur.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur staðið að og samþykkt reglur um lágmarksþátttöku í almennri atkvæðagreiðslu um tiltekið mál, sem hér hefur verið lýst. Hún þarf betri ráðgjafa, ef þeir hafa sagt henni, að við ráðgefandi atkvæðagreiðslu um flugvallarmál sé ástæða til að gera strangari kröfur um leikreglur og kosningaþátttöku en þegar tekin er afstaða til þess, hvort hafna beri lögum frá alþingi.

Heilbrigð skynsemi segir, að strangar kröfur þurfi að gera, þegar hnekkja á ákvörðun löggjafans. Slík ákvörðun vegur þungt um framtíðarstörf alþingis og á ekki að ráðast af ímynduðum stundarhagsmunum stjórnarandstöðuþingmanna. Láti þeir slíka hagsmuni ráða afstöðu sinni, bregðast þeir varðstöðu um alþingi.