7.3.2004

Minningarorð um Franziscu Gunnarsdóttur

Ég man eftir því, þegar ég sá Franziscu Gunnarsdóttur, unga og glæsilega, með Gunnari afa sínum Gunnarssyni skáldi við frumsýningu í Þjóðleikhúsinu eða á öðrum hátíðarstundum fyrir mörgum áratugum. Geislandi framkoma hennar heillaði nærstadda.

 

Ég kynntist Franziscu á hinn bóginn ekki, fyrr en ég hóf bein afskipti af stjórnmálum. Þá lagði hún mér lið vegna áhuga hennar á stefnu og störfum Sjálfstæðisflokksins en veg hans vildi hún sem mestan. Í samtölum okkar sagði hún mér oftar en einu sinni, að á yngri árum hefði sér verið ómetanlegt, þegar hún tók þátt í opinberum mannamótum með Gunnari, afa sínum, að eiga foreldra mína að, ráðgjöf þeirra og vinsemd. Naut ég þakklætis hennar vegna þess á margvíslegan hátt.

 

Fyrir utan að vera sömu skoðunar í stjórnmálum áttum við Franzisca það sameiginlega áhugamál, að standa vel að minningunni um Gunnar skáld Gunnarsson. Franzisca sýndi verki og snilld Gunnars afa síns mikla ræktarsemi og virðingu. Fyrir tilstilli hennar rofnaði til dæmis aldrei þráðurinn milli afkomenda Gunnars og hins mikla húss að Skriðuklaustri.


Á fyrstu misserum mínum í starfi menntamálaráðherra, þegar einstök
úrlausnarefni tóku að skýrast, varð mér ljóst, að það yrði ekki einfalt
verkefni að greiða úr málefnum Skriðuklausturs á þann hátt, að gjafabréf þeirra hjóna Gunnars skálds Gunnarssonar og Franziscu frá árinu 1948 kæmist til framkvæmda á þann veg, að íslenska ríkið sýndi í verki virðingu sína fyrir gefendunum og hinni einstæðu og miklu gjöf.

 

Í nánu samstarfi við Franziscu og heimamenn í Fljótsdalnum og á Héraði tókst að snúa vörn í sókn að Skriðuklaustri. Stjórn Gunnarshúss að Skriðuklaustri var skipuð 1. apríl 1997 og í desember sama ár kom Stofnun Gunnars Gunnarssonar að Skriðuklaustri til sögunnar. Hinn 18. júní 2000 opnaði Gunnarsstofnun húsið að Skriðuklaustri fyrir almenning til sýnis og fyrir menningarstarfsemi hvers konar, sem fellur að markmiðum stofnunarinnar.

 

Var ánægjulegt, hve mikinn áhuga Franzisca sýndi öllu þessu starfi en án stuðnings hennar hefði aldrei verið unnt að gera Gunnarshús að Skriðuklaustri jafnglæsilega úr garði og raun ber nú vitni. Hún vildi, að ánægja sín og þakklæti væri staðfest með því, að einkasonur hennar, Gunnar Björn, skipaði sæti í stjórn Gunnarsstofnunar. Einnig lagði hún til muni og listaverk, sem prýða húsið.

 

Af jafnmiklum áhuga og einurð beitti hún sér fyrir menningarlegri varðveislu húss afa síns og ömmu við Dyngjuveg í Reykjavík, þar sem nú er aðsetur Rithöfundasambands Íslands.

 

Franzisca átti við vanheilsu að stríða hin síðari ár og stundum leið nokkur tími á milli þess, að ég heyrði frá henni. Hún sendi mér tölvupóst og lét í ljós skoðanir sínar á mönnum og málefnum, auk þess sem hún vann að því til hinstu stundar að tryggja grunnflokkun og skráningu á bréfasafni Gunnars skálds Gunnarssonar og vildi, að það yrði gert samkvæmt staðli Skúla Björns Gunnarssonar, forstöðumanns að Skriðuklaustri. Leit hún á það sem mikið ábyrgðarhlutverk að  gæta þessara menningarlegu og sögulegu verðmæta.

 

Franzisca fellur frá langt um aldur fram og skilur eftir djúpan söknuð í huga þeirra, sem nutu vináttu hennar og tryggðar. Tryggust var hún virðingu fjölskyldu sinnar og með hefðarfullum, aristókratískum þokka hélt hún málstað sínum fast fram. Því miður entist Franziscu ekki aldur til að búa um gögn afa síns á þann veg, sem hún vildi, en mikilvægur leiðarvísir um vilja hennar í því efni felst í traustinu, sem hún sýndi forstöðumanni og stjórn Gunnarsstofnunar.

 

Ég færi móður Franziscu, syni, bróður og öðrum vandamönnum djúpar samúðarkveðjur.

 

Blessuð sé minning Franziscu Gunnarsdóttur.