23.4.2004

Minningarorð um Harald Blöndal

Við frændur Haraldur Blöndal vorum á svipuðum aldri en þó var sá áramunur, sem oft ræður miklu milli þeirra, sem eru eldri og yngri, auk þess sem hann átti systur, Kristínu, sem var jafngömul mér. Á yngri árum dugði slíkt oft til þess, að aldursbilið varð enn þá meira, en ella hefði orðið. Og þegar hugsað er um aldurinn var Haraldur kallaður alltof snemma frá okkur eins Kristín, systir hans, og Benedikt, bróðir þeirra, svo að ég minnist ekki á Kristjönu, móður þeirra systkina. Hitt er víst, að minning þeirra allra lifir sterkt, vegna þess hve ljúf þau voru og skildu eftir sig sterk spor góðmennsku og frændrækni.

 

Í áranna rás hittumst við Haraldur oft á förnum vegi og var alltaf vel til vina og þótt hann hefði ásamt Þorsteini Davíðssyni fengið landsfund Sjálfstæðisflokksins til að samþykkja fremur neikvæða tillögu um rafrænar kosningar og ætla mætti af framtakinu, að Haraldur væri fremur andvígur hinni rafrænu þróun í mannlegum samskiptum, áttum við oft orðastað fyrir tilstyrk þeirrar tækni hin síðari ár. Haraldur var á þeim vettvangi ekki síður en öðrum næmur á það, sem var skýrt og rökrétt. Hann lét hvorki ný málefni né tækni fipa sig í leitinni að hinni réttu niðurstöðu.

 

Síðustu tölvusamskiptin fóru á milli okkar um síðustu áramót, þegar hann sendi mér athugasemd vegna einhvers, sem ég hafði skrifað á vefsíðu mína, og sagði að gefnu tilefni um mann, sem ég nefndi til sögunnar: „Hitt man ég, að hann ráðgaðist eitt sinn við mig um „Engeyjarætt“, og varð hálf kindarlegur þegar ég spurði hann af hverju hann sleppti öllum konum úr einu ætt landsins, sem talin væri frá konu og hefði átt fjórar dætur en engan son!“

 

Ég kveð góðan frænda minn með söknuði og veit, að fleirum en mér þykir miður, að eiga ekki oftar von á skörpum og hugmyndaríkum ábendingum hans, sem byggðust á fágætum næmleika og réttlætiskennd.

 

Blessuð sé minning Haralds Blöndals og styrkur veitist afkomendum hans, systkinum og ástvinum öllum.

 

Björn Bjarnason