1.4.2004

Orkuveitan og Síminn

Borgarstjórn Reykjavíkur,1. apríl, 2004.

 

 

Í 22. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. mars er þessi bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

„Komið hefur fram í fjölmiðlaviðtölum við Alfreð Þorsteinsson, stjórnarformann Orkuveitunnar, að fyrirtækið skoði í samstarfi við aðra aðila kaup á Símanum þegar fyrirtækið verður boðið til sölu. Um leið og borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýsa andstöðu sinni við slík áform, er óskað upplýsinga um það hvar mál þetta sé nú statt, hvort einhverjar formlegar viðræður við hugsanlega samstarfsaðila hafa farið fram og hverjir þeir samstarfsaðilar séu?“

Ég vil taka undir þessa spurningu. Það er mikilvægt, að borgarstjórn og Reykvíkingar allir fái afdráttarlausar upplýsingar um það, hver er staða þessa máls.

Það dugar ekki, að Alfreð Þorsteinsson borgarfulltrúi komi hér upp og segi, að engin ákvörðun hafi verið tekin. Í þeim orðum felst, að málið sé á döfinni. Þess vegna er enn brýnna en ella að fá úr því skorið, hvort Alfreð Þorsteinsson  gefi yfirlýsingar sínar í nafni meirihluta borgarstjórnar.

Vegna þessarar spurningar er eðlilegt að rifja upp það, sem formaður borgarráðs og stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur sagði á Pressukvöldi sjónvarpsins hinn 24. mars síðastliðinn. Þar urðu meðal annars þessi orðaskipti með leyfi forseta:

Óðinn Jónsson fréttamaður: Eitt enn Alfreð, samgönguráðherra gerir ráð fyrir að Síminn verði seldur næsta vetur má ekki búast við tilboði frá ykkur vegna áhuga ykkar á fjarskiptamálum?

 

Alfreð Þorsteinsson: Ja, ég nefndi það fyrir nokkrum árum þegar Síminn var fyrst til sölu að Orkuveita Reykjavíkur kynni að hafa áhuga á því að kaupa Símann. Ég vil ekkert neita því að það eru aðilar sem eru að ræða við okkur núna um það hvort að Orkuveitan í samvinnu við aðra fjárfesta ætti að bjóða í Símann.

 

Óðinn: Eru það innlendir aðilar?

 

Alfreð: Það eru innlendir og þess vegna erlendir aðilar. Það hefur engin ákvörðun verið tekin um það.

Kristinn Hrafnsson fréttamaður: Hvernig líst þér á?

 

Alfreð: Ja, ég hef nú bara ekki haft tíma til þess að skoða það neitt alvarlega.

--------

Erna Indriðadóttir fréttamaður: Er það þín hugmynd um samkeppni Alfreð að eitt opinbert fyrirtæki keppi við annað á markaðnum?

 

Alfreð: Að eitt opinbert fyrirtæki keppi við annað?

 

Erna: Já, eins og Síminn sem að er í eigu ríkisins ennþá og fyrirtæki í eigu sveitarfélaganna?

 

Alfreð: Nú er það þannig að það eru fjölmargir Íslendingar og kannski meirihluti Íslendinga sem telur heppilegt að Síminn ætti að vera í eigu fyrirtækis sem er í almannaeigu og það er Orkuveita Reykjavíkur, Orkuveita Reykjavíkur er í eigu Reykvíkinga að langmestu leyti og annarra sveitarfélaga sem eru eigendur að Orkuveitunni. Og ég teldi að Síminn væri ekkert illa kominn í höndum slíks fyrirtækis.

Herra forseti!

Í þessum orðaskiptum kemur fram, að innlendir og erlendir aðilar séu að leita eftir því við Orkuveitu Reykjavíkur, að fyrirtækið búi sig undir að kaupa Símann, þegar ríkið býður hann til sölu. Einnig lýsti Alfreð Þorsteinsson borgarfulltrúi yfir því, að hann teldi Símann ekki illa kominn í höndum fyrirtækis í almannaeigu, það er Orkuveitu Reykjavíkur, ef hann yrði einkavæddur. Hvernig það má verða er að vísu sérstakt athugunarefni – en hitt er brýnna, að fá að hreint hér í borgarstjórn, hvort formaður borgarráðs og stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur er hér að kynna stefnu R-listans og þar með meiri hluta borgarstjórnar.

Þetta þarf að liggja skýrt fyrir og ber að kynna hér á vettvangi borgarstjórnar.

Alfreð Þorsteinsson borgarfulltrúi hefur að vísu áður rætt um kaup og sölu eigna í nafni Orkuveitu Reykjavíkur án þess að mál gangi eftir eins og kunnugt er.  Muna vafalaust allir borgarfulltrúar eftir talinu um söluna á Perlunni, sem virtist byggjast meira á óskhyggju og óvild í garð þeirra, sem Perluna reistu, en raunsæju mati á staðreyndum.

Í fyrrnefndum sjónvarpsþætti gerði stjórnarformaður Orkuveitunnar því skóna, að unnt væri að selja nýreistar höfuðstöðvar hennar fyrir fimm milljarði króna, en sagðist því andvígur. Hér á þessum vettvangi hefur oft verið óskað eftir tölulegum upplýsingum um það, hvað þessi mannvirkjagerð hefur kostað. Þegar um það er spurt, fer Alfreð Þorsteinsson borgarfulltrúi alltaf undan í flæmingi og grípur gjarnan til þess ráðs að ræða kostnað við aðra mannvirkjagerð og helst á vegum ríkisins.

Nú er komin ný og hærri tala en áður inn í umræðurnar um kostnað við höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur, það er fimm milljarðir króna. Ólíklegt er, að félag, sem sérhæfir sig í fjárfestingum í fasteignum nefni svo háa tölu nema vegna þess, að það telur eigandann ekki fúsan til að láta hina nýju eign sína af hendi nema að fá að minnsta kosti það verð fyrir hana, sem hann hefur sjálfur greitt.

Hin nýja tala 5 milljarðir króna vegna höfuðstöðva Orkuveitunnar, knýr enn á um það, að borgarstjórn sé gerð grein fyrir hinum raunverulega kostnaði við þetta mikla mannvirki.

Þegar Alfreð Þorsteinsson borgarfulltrúi sat fyrir svörum í sjónvarpssal varð fréttamönnum eðlilega tíðrætt um það, hve illa Orkuveitu Reykjavíkur hefur gengið á fjarskiptamarkaðnum. Fyrirtækið hefur orðið að axla hvert fjárhagslega tapið eftir annað vegna óskynsamlegra ráðstafana á þessu sviði og sér ekki fyrir endann á því öllu saman enn.

Í 2. grein laga um Orkuveitu Reykjavíkur frá því í desember 2001 segir um tilgang fyrirtækisins, að hann sé vinnsla og framleiðsla raforku, varma og vatns, dreifing og sala afurða fyrirtækisins ásamt hverri þeirri starfsemi annarri sem nýtt getur rannsóknir, þekkingu eða búnað fyrirtækisins, sem og iðnþróun og nýsköpun af hverju tagi, ásamt annarri viðskipta- og fjármálastarfsemi samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni. Þá er orkuveitunni heimilt að reka dótturfélög og eiga hlut í öðrum félögum.

Þarna er hvergi minnst á síma- eða fjarskiptastarfsemi og þess er að minnast, að lögum um Landsvirkjun var breytt á sínum tíma, til að það fyrirtæki gæti látið að sér kveða á fjarskiptasviðinu. Nú liggur fyrir, að hvorki Landsvirkjun né Orkuveitu Reykjavíkur hefur vegnað vel í  fjarskiptaviðskiptum eins og best sést á stöðu hins sameiginlega fyrirtækis þeirra, Tetra- Ísland.

Ég hef áður lýst þeirri skoðun, að ég tel allt fjarskiptabrölt Orkuveitu Reykjavíkur á gráu svæði, þegar litið er á lögmæltan  tilgang fyrirtækisins og hitt er með öllu fráleitt, að orkuveitan geti keypt Símann að óbreyttum lögum.

Í ljósi yfirlýsinga formanns stjórnar orkuveitunnar er í raun nauðsynlegt að nýráðinn borgarlögmaður gefi borgarstjórn álit á því, hvort lög Orkuveitu Reykjavíkur heimili kaup fyrirtækisins á Símanum.

Herra forseti!

Þegar þetta er rætt má hins vegar spyrja, hvort hugur hafi fylgt máli hjá Alfreð Þorsteinssyni borgarfulltrúa, þegar hann lét fyrrgreind orð falla á Pressukvöldinu um áhuga sinn á því að kaupa Símann. Að baki þeim kann að hafa búið svipað hugarfar og þegar hann sagðist ætla að selja Perluna – hann hafi verið að skeyta skapi sínu á Símanum – en allt frá því að fjáraustur orkuveitunnar hófst í Línu. net hefur stjórnarformaðurinn verið í stríði við Símann.

Þegar Alfreð Þorsteinsson borgarfulltrúi svaraði fréttamönnunum 24. mars síðastliðinn sagði hann, að Orkuveita Reykjavíkur hefði ekki í hyggju að kæra Símann fyrir samkeppnisyfirvöldum, en eins og kunnugt er hefur Síminn óskað eftir að rannsakað sé, hvort innan orkuveitunnar sé verið að greiða niður samkeppnisrekstur, tekjur af sölu vatns eða raforku séu notaðar til að greiða niður fjarskiptaþjónustu.

Lína. net kærði Símann í janúar árið 2002 fyrir samkeppnisyfirvöldum. Taldi Lína.net að Síminn hefði undirverðlagt gagnaflutningsþjónustu sína, en í október skömmu eftir að Lína.net hóf rekstur af fullum krafti lækkaði Síminn  þessi gjöld um 40%. Taldi Lína.net þetta eingöngu gert í því skyni að hindra samkeppni af hálfu Línu.nets.

Hinn 15. nóvember 2002 komst samkeppnisráð að þeirri niðurstöðu, að Síminn hefði ekki brotið gegn samkeppnislögum, þar sem gagnaflutningsdeild hans væri rekin sem sjálfstæð hagnaðareining innan fyrirtækisins og að uppbygging gagnaflutningsþjónustunnar og kynning hennar væri ekki niðurgreidd með annarri þjónustu fyrirtækisins.

Nú er þess sem sagt beðið, hvort Orkuveita Reykjavíkur stenst sambærilega skoðun samkeppnisyfirvalda vegna kæru Símans og mátti ráða það af fyrrnefndum sjónvarpsþætti, að stjórnarformanni orkuveitunnar stæði síður en svo á sama – lokaskrefið að hans mati til að komast hjá þessu áreiti af hálfu Símans væri bara að eignast fyrirtækið – eða kannski taldi hann, að hótunin ein í yfirlýsingu sinni dygði til að Síminn drægi kvörtun sína til samkeppnisyfirvalda til baka?

Herra forseti!

Að lokum vil ég minna á, að á sama tíma og þessi kæra Línu.nets lá fyrir samkeppnisyfirvöldum um að Síminn hefði á ólögmætan hátt lækkað gjöld á gagnaflutningum um 40% - töldu talsmenn Línu.nets út á við, það fyrirtækinu helst til framdráttar, að því hefði tekist að knýja fram lækkun á þessum gjöldum í þágu neytenda!

Tvískinnungurinn í öllu þessu máli í kringum fjarskiptarekstur í nafni Orkuveitu Reykjavíkur er með miklum ólíkindum og nauðsynlegt að taka af skarið um það hér á þessum vettvangi, að ekki eigi að nota fé fyrirtækisins og þar með Reykvíkinga, eigenda þess, til að fjárfesta milljarða í Símanum.

Á sínum tíma var sagt, að það mundi kosta rúmar 200 milljónir króna, að gera Línu. net að einstaklega arðbæru, nýtískulegu þjónustufyrirtæki – nú þegar að minnsta kosti þremur milljörðum hefur verið varið í kostnað er það talið fyrirtækinu helst til ágætis, að fleiri ljósleiðarar en áður hafi verið lagðir hér í jörðu, þeir séu þó einhvers virði.

Á sínum tíma var sagt, að það mundi skila hundruðum milljóna í tekjur að festa fé Orkuveitu Reykjavíkur í Tetra-Ísland – nú þegar hundruð milljóna króna hafa tapast á því fyrirtæki er spurt, hvort unnt sé að koma í veg fyrir gjaldþrot þess.

Góðir borgarfulltrúar!

Er ekki tímabært að taka af skarið nú þegar hér á þessum vettvangi til að hindra ævintýramennsku með tugi milljarði króna í nafni Orkuveitu Reykjavíkur vegna kaupa á Símanum?

Ég skora á borgarfulltrúa R-listans að svara þessari spurningu afdráttarlaust hér á þessum fundi.