21.3.2004

Látið karlmennina setjast!

Hugvekja í Seltjarnarneskirkju, 21. mars 2004.

 

 

 

 

Í guðspjalli dagsins, fjórða sunnudag í föstu, heyrðum við frásögn  Jóhannesar af því, þegar Jesús mettaði þúsundirnar með fimm brauðum og tveimur fiskum.

 

Þar er komist þannig að orði: „Jesús sagði: „Látið fólkið setjast niður.“ Þarna var gras mikið. Menn settust nú niður, um fimm þúsund karlmenn að tölu.“ 

 

Lúkas segir sömu dæmisögu í guðspjalli sínu, hann segir karlmennina einnig hafa verið fimm þúsund. Hjá Lúkasi stendur síðan þetta:

 

„Hann sagði þá við lærisveina sína: „Látið þá setjast í hópa, um fimmtíu í hverjum.“

 

Þeir gjörðu svo og létu alla setjast.“

 

Og í Markúsarguðspjalli er sagt frá þessum atburði á þennan hátt:

 

„Þá bauð hann þeim að láta alla setjast í grængresið og skipta sér í hópa. Þeir settust niður í flokkum, hundrað í sumum, en fimmtíu í öðrum.“

 

Frásögn guðspjallamannanna leiðir hugann fyrst að kraftaverkinu, að geta mettað fimm þúsund karlmenn og samt átt afgang af fimm fiskum og tveimur brauðum.

 

Á tímum jafnréttisumræðna ætti athygli einnig að beinast að því, að aðeins er getið um fimm þúsund karlmenn. Spyrja má, hvort hvorki konur né börn hafi verið í hinum fjölmenna hópi, sem fylgdi Jesú.

 

Þá er ekki óeðlilegt, að velt sé vöngum yfir því, að í guðspjöllunum skuli enginn undrast, að brauð og fiskar margfaldist á þennan hátt. Oft erum við minnt á, að viðstaddir hafi borið lof á Jesúm, þegar hann gerði kraftaverk sín, en það er ekki gert í þessum textum. Líklega hefur öllum þótt sjálfsagt og eðlilegt að fá nóg að borða í boði Krists. Það sé sjálfu sér ekkert undrunarefni, að ekki skorti mat, þegar sest sé að borði hans.

 

Allt eru þetta verðug umhugsunarefni en í hugleiðingu um þessi vers guðspjallanna, hefur mér þótt sérstaklega athyglisvert, hvað enski blaðamaðurinn og sagnfræðingurinn A. N. Wilson telur merkilegast í textunum. Hann bendir á þessi fyrirmæli Jesú: „Látið fólkið setjast niður.“ Og segir raunar, að rétt þýðing sé: „Látið karlmennina setjast niður.“

 

Guðspjöllin snúist um vilja frelsarans til að stilla til friðar meðal karlmanna. Jesús hafi lagt mikið á sig til að rétta hlut kvenna og hvetja þær til að rísa upp. Á þeim tíma hafi sú viðleitni gert hann að sérvitringi í augum samtíðarmanna ef ekki byltingarmanni. Í þessum textum sé hann hins vegar að hvetja til friðar meðal karla með því að segja þeim að setjast niður. Ofbeldi og hernaður sé jafnan kenndur við karlmenn. Hér segi hann fjölmennum og sundurleitum hópi þeirra að setjast í friði og neyta saman máltíðar í djúpu, friðsælu grængresinu.

 

Í þessu tilliti verði að hafa í huga, að þá eins og nú hafi stríðandi fylkingar tekist á í Galíleu. Í hinum stóra hópi manna, sem fylgdu honum, hafi verið fulltrúar þeirra afla, sem um ári eftir þessa sögulegu máltíð kröfðust krossfestingarinnar. Hér slái Jesús á hinn bóginn á ófriðarblikur með fyrirmælum sínum.

 

 

*

Á sínum tíma átti ég þess kost að fara um þessar slóðir og standa á þeim stað, þar sem talið er, að atburðurinn í frásögn guðspjallamannanna hafi gerst.

 

Þetta var snemma árs 1996, nokkrum mánuðum eftir að Itsak Rabin, forsætisráðherra Ísraels, hafði verið myrtur og sótti ég þá ásamt Rut, konu minni, og fleirum alþjóðlegan ráðherrafund um kennslu í vísindum og tækni í Jerúsalem.

Síðasta daginn var farið í skipulega skoðunarferð til Galelíu-vatns – einskonar pílagrímsför fyrir okkur hina kristnu þátttakendur í ráðstefnunni.

 

Við sáum, hvar Jesús flutti fjallræðuna. Okkur var einnig bent á staðinn við vatnið, þar sem hann mettaði mannfjöldann.

 

Loks fórum við þangað, þar sem áin Jórdan rennur úr vatninu, en þar getur fólk látið skírast með niðurdýfingu. Allt var þetta áhrifaríkt og eftirminnilegt.

 

Vatnið er nokkur hundruð metra undir sjávarmáli og fjallið, þar sem ræðan var flutt, nær ekki yfir sjávarmál.

 

Ísraelsku gestgjafarnir töldu ógjörlegt að við færum til Betlehem vegna spennunnar við mörkin milli Ísraels og yfirráðasvæðis Palestínumanna. Þeir vildu ekki bera ábyrgð á öryggi okkar þar og ekki heldur, ef við færum í austurhluta Jerúsalem.

 

Okkur þótti ferðin til Ísraels missa marks, ef við gætum ekki skoðað gamla borgarhlutann í Jerúsalem og heimsótt Betlehem. Við ákváðum því að sleppa hádegisverði einn fundardaginn og skjóta okkur auk þess undan eftirliti ísraelsku öryggisvarðanna.

 

Rut hafði samið við leigubílstjóra, um að hann æki okkur til Betlehem fyrir 50 dollara. Gekk það allt eftir. Ferðin frá Jerúsalem tekur um 20 mínútur, þegar komið var til Betlehem og að yfirráðasvæði Palestínumanna skiptum við um bíl og ókum síðasta spölinn að Fæðingarkirkjunni undir leiðsögn Palestínumanns. Hann sýndi okkur kirkjuna eða réttara sagt kirkjurnar, því að þarna hafa Armenar, Orþodoxar og kalþóskir sambyggðar kirkjur eða bænahús utan um hinn helga stað, þar sem fjárhúsið og jatan stóðu forðum daga.

 

Frá Betlehem ókum við beint í gamla borgarhluta Jerúsalem og gengum um hann án fylgdarmanna.  Við fórum í fótspor Krists, þegar hann bar krossinn eftir Via Dolorosa upp á Golgata, þar sem reist hefur verið lítil og þröng kirkja á stað krossfestingarinnar.

 

Loks gengum við að Grátmúrnum og hlýddum á gyðinga lýsa harmi sínum, gráta, yfir því að musteri þeirra var eyðilagt árið 70 eftir Krist og stendur múrinn einn eftir.

 

Góðir áheyrendur!

 

Friðsemdin er meiri yfir frásögn guðspjallamannanna en þessari lýsingu, sem ég skráði á vefsíðu mína eftir heimsókn okkar Rutar til Ísraels.

 

Við sáum ekki karlmenn sitja þúsundum saman að snæðingi í háu grasi. Þvert á móti vorum við stöðugt minnt á spennuna í landinu og deilur gyðinga og Palestínumanna. Friðsæld var raunar mest við ána Jórdan, þegar við urðum vitni að niðurdýfingu og skírn hundruð manna.

Eftirminnilegt er, hve fjarlægðir eru litlar á milli pílagrímastaðanna og í raun auðvelt að skoða þá alla á skömmum tíma, ef friður er til þess og frelsi. Mér þótti þó hvað einkennilegast að fara um þessa frægu staði úr trúarbragðasögu okkar, án þess að verða þess var, að heimamenn sýndu þeim sérstaka virðingu, enda aðhyllast þeir almennt ekki kristna trú, eins og við vitum.

 

Háttsettur embættismaður í ísraelska menntamálaráðuneytinu sagði, þegar ég lýsti þessari upplifun minni, að í sínum augum og annarra gyðinga væri Jesús Kristur einungis einn af mörgum merkum kennimönnum, sem hefðu farið um landið helga. Ástæðulaust væri að gera upp á milli þeirra.

 

Hvað sem þessum viðhorfum heimamanna líður fáum við í Ísrael landfræðilega staðfestingu á þeim atburðum, sem tengjast lífi, starfi og dauða Jesú Krists.

 

Frásögnin af ferð okkar um landið helga fyrir rúmum átta árum lýsir því, sem við blasti þar á þeim tíma, og ástandið hefur síst batnað síðan. Hætta vegna hryðjuverka fyrir almenna borgara setur jafnframt svip sinn á fleiri þjóðlönd en áður.

 

Ágreiningur milli ólíkra menningar- og trúarheima getur tekið á sig margar myndir. Í tilefni af gerð og frumsýningu kvikmyndar eftir stórleikarann Mel Gibson um píslargöngu Krists hafa enn á ný sprottið heitar umræður um gyðingahatur. Áhrifamiklir málsvarar gyðinga saka Gibson um að draga þá mynd af óvinum Krists, að hún hljóti að ýta undir hatur á gyðingum meðal kristinna manna.

 

Ég hef séð myndina og þykir mikið til hennar koma. Þjáningin er þungbær á hvíta tjaldinu og reynir vissulega á þolrif áhorfenda. Á hinn bóginn er erfitt að sjá, hvernig unnt er að sýna raunsanna mynd af ódæðinu, sem þarna var framið, án þess ganga fram af öllum venjulegum mönnum með grimmd.

 

*

 

Gyðingahatur er lifandi vandamál í mörgum ríkjum, án tillits til þessarar kvikmyndar. Nýlega átti ég þess kost, að sækja athöfn í bænahúsi gyðinga í Stokkhólmi á minningardegi um þá, sem týndu lífi í útrýmingarherferð nasista á hendur gyðingum.

 

Bænahúsið var þéttsetið og Göran Pärsson. forsætisráðherra Svía, var meðal ræðumanna. Hann sagðist á sínum tíma hafa ákveðið að boða til átaks heima fyrir og á alþjóðavettvangi til að minna á þjóðarmorð nasista á gyðingum, þegar skoðanakönnun sýndi, að sænskir skólanemendur virtust upp til hópa ekki vita um herðferð nasista gegn gyðingum.

 

Hatursglæpir væru orðnir alvarlegri í Svíþjóð en áður ekki aðeins gagnvart gyðingum heldur einnig múslimum. Það væri hins vegar undir hælinn lagt, hvort sagt væri frá þeim í fjölmiðlum.

 

Alvarleg staða þessara mála í Svíþjóð og annars staðar var enn frekar staðfest í ræðum annarra í bænahúsinu. Sænsk kona af gyðingaættum komst þannig að orði:

 

„Bænahús gyðinga eru brennd í Evrópu. Gyðingahatur fær að þrífast í Evrópu, það birtist í blöðum og útvarpi. Evrópusambandið getur ekki komið sér saman um fordæmingu eða aðgerðir til að tryggja öryggi stofnana gyðinga eða líf borgara af gyðingaættum.“

 

Allt er þetta okkur Íslendingum sem betur fer framandi en er engu að síður hluti af þeim veruleika, sem við getum ekki flúið frekar en aðrir.

 

*

 

Boðskapur guðspjalls þessa sunnudags á jafnmikið erindi við okkur nútímamenn og samtímamenn Krists, þegar hann sagði karlmönnunum að setjast niður og njóta matar og lífs síns í sátt og samlyndi. Þegar hann lagði sig fram um að stilla til friðar og draga úr spennu milli fólks af ólíkum kynþáttum eða með ólíka trú.

 

Ófriðareldar hafa ekki verið slökktir, hvorki fyrir botni Miðjarðarhafs né annars staðar í veröldinni. Nýjar hættur steðja að opnum, friðsömum þjóðfélögum, þegar illmenni búa þar um sig með leynd til að granda saklausum borgurum við dagleg störf sín.

 

Nyti hinn kristni boðskapur um frið og kærleika meiri virðingar meðal þjóða heims og væri í meiri hávegum innan einstakra ríkja væri heimsmyndin önnur og öryggiskenndin meiri.

 

*

 

Ég þakka fyrir samverustundina með ykkur hér í dag með þeim bænarorðum, að á Íslandi megi takast að tryggja öryggi og líf borgaranna andspænis þeim ofbeldisöflum, sem alltof víða ná að stinga niður rótum. Að við megnum að lifa saman í sátt og samlyndi og stuðla að friði milli manna og þjóða.