6.3.1999

Hlutur kvenna í skólastarfi - ráðstefna KRFÍ

Hlutur kvenna í skólastarfi
Ráðstefna KRFÍ
Ráðhúsinu, 6. mars 1999

Ráðstefna KRFÍ
Í upphafi máls míns vil ég fagna því, að Kvenréttindafélag Íslands skuli ræða menntamál sérstaklega í tilefni af landsfundi sínum. Er það í góðu samræmi við þær áherslur, sem hafa einkennt starf félagsins alla tíð. Raunar kennir sagan okkur, að kvenréttindahreyfingar um heim allan hafi jafnan gert kröfu um að réttur kvenna til menntunar og æðri skólagöngu væri í hávegum hafður. Menntamál verða ekki skilin frá kvenréttindabaráttunni hér á landi frekar en annars staðar.

Í ræðu minni ætla ég að víkja að því, hve í raun er skammt síðan réttur íslenskra kvenna til menntunar var viðurkenndur. Þá fer ég orðum um þá miklu breytingu, sem orðið hefur á stöðu kvenna í skólastarfi á þessari öld. Í þriðja lagi vík ég orðum að megináherslum í skyldum skólans gagnvart hverjum einstaklingi. Loks lít ég til áhuga kvenna á námi og hvernig þær nýta menntun sína.

Tvö fyrstu kvenfélögin hér á landi beittu sér fyrir því árið 1870, að stúlkum yrði kennt að skrifa og reikna. Í fyrstu opinberu kröfugerð íslenskra kvenna frá árinu 1871 er almenningur hvattur til þess að hefja fjársöfnun til að byggja skóla handa stúlkum í Reykjavík. Var Kvennaskólinn í Reykjavík síðan stofnaður 1874 og skömmu síðar þrír aðrir kvennaskólar á Norðurlandi. Nú lifir ekkert eftir af Kvennaskólanum í Reykjavík sem kvennaskóla annað en virðulegt nafnið, því að hann er blandaður skóli eins og allir framhaldsskólar.

Konur lögðu í fyrstu áherslu á að kenna hússtjórn og heimilsfræði. Þróunin hefur orðið sú, að húsmæðra- eða hússtjórnarskólar eru ekki lengur í hávegum hafðir. Kenna sumir brotthvarf þeirra við 68-kynslóðina eða breytingarnar, sem urðu á framhaldsskólastiginu á áttunda áratugnum. Frá 1984 hafa þessir skólar verið lagðir niður hver af öðrum. Var svo komið, þegar ég varð ráðherra fyrir tæpum fjórum árum, að framtíð hinna tveggja hússtjórnarskóla, sem þá störfuðu, var í hættu og áform um að fella þá undir aðra skóla. Fyrir frumkvæði ráðuneytisins og í góðri samvinnu við Bandalag kvenna í Reykjavík og sveitarstjórnir og heimamenn á Austfjörðum hefur þessum tveimur skólum í Reykjavík og á Hallormsstað verið breytt í einkaskóla, sem starfa á grundvelli samnings við menntamálaráðuneytið. Eru skólarnir í góðum höndum og eiga vonandi eftir að sinna mikilvægu hlutverki sínu um langan aldur. Finnst mér raunar líklegt, að vegur þessa náms eigi eftir að aukast að nýju, þegar fram líða stundir.

Ég minnist þess úr sögutíma hjá Ólafi Hanssyni í Menntaskólanum í Reykjavík, að hann fræddi okkur um þá sögulegu staðreynd, að Laufey Valdimarsdóttir var fyrsta konan, sem tók stúdentspróf á Íslandi og gerðist það árið 1910. Er talið, að þar hafi gætt áhrifa móður hennar Bríetar Bjarnhéðinsdóttur á Hannes Hafstein, fyrsta íslenska ráðherrann. Hann setti Lærða skólanum nýja reglugerð árið 1904, nefndi hann Hinn almenna menntaskóla og ákvað, að að skólinn skyldi vera samskóli, jafnt fyrir stúlkur sem pilta, þegar því yrði við komið. Varð það strax um haustið 1904, þegar Laufey Valdimarsdóttir inritaðist. Þarf ég ekki að minna á það hér, að Laufey og móðir hennar Bríet voru í forystu fyrir Kvenréttindafélagi Íslands um áratugaskeið á upphafsárum þess.

Fyrstu lög um háskóla á Íslandi voru sett fyrir réttum níutíu árum, 1909. Í þeim var tekið fram, að hver sá, sem lokið hefði stúdentsprófi, karl eða kona, skyldi eiga rétt á að gerast háskólaborgari. Kristín Ólafsdóttir læknir var fyrsta konan, sem lauk embættisprófi frá Háskóla Íslands, en það gerði hún árið 1917.

Fleiri nöfn kvenna gæti ég tíundað til að árétta þáttaskil í íslenskri skólasögu. Með því að minna á þessa brautryðjendur vil ég leggja áherslu á hin miklu umskipti, sem hafa orðið í íslensku skólakerfi á þessari öld. Við upphaf hennar var hlutur kvenna í skólum nær enginn. Við aldahvörf stæði íslenska menntakerfið á brauðfótum, ef kvenna nyti ekki við innan þess. Skólastarf væri aðeins svipur hjá sjón eins og nú skal rakið.

Ef við lítum á fyrsta skólastigið, leikskólana, má segja, að þar starfi nær eingöngu konur.

Af starfsliði grunnskóla haustið 1998 voru 78% konur, þar af 74% kennara. Í framhaldsskólum eru tæplega 45% kennara konur.

Hlutfall kvenna í kennarastöðum lækkar eftir því sem ofar dregur í skólakerfinu og þær aðeins taldar vera um 4% í prófessorsstöðum.

Í framhaldsskólum eru konur í meirihluta á málabrautum, listabrautum, uppeldisbrautum, félagsfræðibrautum og heilsubrautum. Undanfarin ár hafa um 60% þeirra, sem ljúka stúdentsprófi verið konur. Tölur um brautskráða stúdenta á rúmum 150 árum, frá árinu 1847 sýna, að í hópi stúdenta eru konur um eitt þúsund fleiri en karlar, þótt karlarnir hafi um hálfrar aldar forskot. Nýjasta leiðin til að stunda nám felst í að nýta sér fjarkennslu, í því námi eru konur einnig fleiri en karlar.

Í Háskóla Íslands eru konur um 60% nemenda, þær eru einnig í meirihluta í kennaranámi, hvort heldur við Háskólann á Akureyri eða Kennaraháskóla Íslands. Innan Kennaraháskólans eru konur 86% nemenda á þessu skólaári, þar er meirihluti fastráðinna kennara einnig konur, 55 af 92.

Niðurstöður samræmdra prófa og staðlaðra kunnáttuprófa ásamt niðurstöðum nýlegra rannsókna sýna umtalsverðan kynjamun í skólum. Námsárangur stúlkna er yfirleitt meiri en pilta auk þess sem piltar eru líklegri en stúlkur til að hverfa frá námi og lenda í erfiðleikum á skólagöngu sinni. Þeir ná ekki eins góðum árangri og stúlkur, þeir skynja ekki mikilvægi námsins með sama hætti, þeim semur verr við kennara sína, þeim er oftar vísað út og þeim líður verr í skólum. Á hinn bóginn sýna þessar niðurstöður, að sjálfsmat stúlkna er almennt lægra en pilta þrátt fyrir betri námsárangur.

Staðreyndir af þessu tagi blöstu við, þegar tekin var ákvörðun um að ráðast í það stórvirki að semja nýjar námskrár fyrir þrjú fyrstu skólastigin, leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Vinnunni við námskrár grunnskólans og framhaldsskólans er lokið og unnið að prentun þeirra, enda taka þær báðar gildi á þessu ári.

Grunnskólar og skólakerfið í heild á nú á tímum að taka við öllum börnum hvernig sem á stendur um atgervi þeirra til líkama og sálar, félagslegt og tilfinningalegt ásigkomulag eða málþroska. Þetta á við um fötluð börn og ófötluð, afburðagreind og greindarskert og allt þar á milli, börn úr afskekktum byggðarlögum, börn úr minnihlutahópum sem skera sig úr hvað varðar mál, þjóðerni eða menningu. Grunnskólum er skylt að mennta öll börn á árangursríkan hátt. Á grunnskólastigi eiga allir nemendur rétt á að stunda skyldunám í heimaskóla nema foreldrar og sérfræðingar skóla meti aðstæður nemandans þannig að honum sé fyrir bestu að vera í sérskóla eða heilsu hans sé þannig farið að ekki verði komist hjá vistun fjarri heimili.

Almenn menntun er ein meginstoð lýðræðis. Hún er undirstaða menningar og almennrar velferðrar og á að efla gagnrýna, sjálfstæða hugsun hjá einstaklingum og hæfileika þeirra til þess að bregðast við nýjum aðstæðum, takast á við og tileinka sér nýjungar og framfarir á öllum sviðum. Í skólum ber að efla með nemendum sjálfstraust og metnað, þjálfa þá til heilbrigðs samstarfs og samkeppni við aðra. Nemendur þurfa að fá tækifæri til þess að tjá skoðanir sínar í rituðu og mæltu máli í námi. Þeir þurfa að geta látið skoðanir sínar í ljós, vera óhræddir við breytingar og geta borið ábyrgð á gerðum sínum.

Eitt grundvallarviðmið í skólastarfi er jafnrétti til náms sem er fólgið í því að bjóða nemendum nám og kennslu við hæfi og gefa þeim tækifæri til að spreyta sig á viðfangsefnum að eigin vali. Í þessu felast ekki endilega sömu úrræði fyrir alla heldur sambærileg og jafngild tækifæri. Verkefnin skulu höfða jafnt til drengja og stúlkna, nemenda í dreifbýli sem þéttbýli og fatlaðra og ófatlaðra óháð uppruna, trú og litarhætti. Skólar eiga að búa bæði kynin undir þátttöku í atvinnulífi, fjölskyldulífi og í samfélaginu. Eitt mikilvægasta úrlausnarefni skóla og skólayfirvalda í þessu sambandi er að finna leiðir til að koma til móts við ólíka getu og ólík áhugamál nemenda, þ.e. að veita nemendum menntun við hæfi hvers og eins.

Skólinn þarf að búa nemendur undir ævilangt nám og síbreytilegar kröfur með því að leggja áherslu á vinnubrögð sem þroska félagslega færni og skipulags- og samskiptahæfni. Einnig er mikilvægt að nemendum lærist að þekkja og tjá eigin tilfinningar og kunni jafnframt að virða tilfinningar annarra og tjáningu þeirra.

Forsenda lýðræðis er meðvitaður og ábyrgur einstaklingur sem er fær um þátttöku í opnu og frjálsu þjóðfélagi. Hin siðferðilegu gildi samfélagsins verða að endurspeglast í öllu skólastarfi. Umfjöllun um siðfræðileg gildi og forsendur þeirra á heima í öllum námsgreinum.

Starfshættir í skólum skulu mótast af gildum lýðræðislegs samstarfs, kristins siðgæðis og umburðarlyndis, umhyggju og sáttfýsi.

Í samvinnu við heimilin ber að leggja áherslu á það á öllum skólastigum að efla siðferðisvitund og ábyrga hegðun nemenda. Á sama hátt ber kennurum og öðrum starfsmönnum skóla að vera nemendum fyrirmynd um þessi atriði.

Góðir áheyrendur!

Þetta eru háleit markmið og við setjum mikið traust á skólana og þá, sem í þeim starfa, til að ná þeim. Allt frá leikskóla til tvítugs gegna skólarnir lykilhlutverki við mótun hvers einstaklings. Fari fram sem horfir á hlutur kvenna í skólastarfi enn eftir að aukast. Konur setja ekki aðeins æ meiri svip á allt skólastarf heldur hafa einlægan áhuga á menntun.

Nýlega voru birtar niðurstöður könnunar Stefáns Sigurðssonar hagfræðings, sem sýndu, að stúdentar leggja ekki stund á háskólanám af hugsjón heldur af hagsýni. Nýnemar búast auk fjárhagslegs ábata við öðrum fjölbreytilegum hagnaði. Karlar vænta hærri launa að loknu námi en konur, hins vegar er ekki mikill munur á væntingum um fjárhagslega arðsemi háskólanáms milli kynjanna. Konur virðast hins vegar hefja háskólanám af fjölbreyttari ástæðum en karlar, sem bent getur til þess, að þær sækist í meira mæli eftir því að fá ýmsan persónulegan ábata frá námi sínu. Stærra hlutfall kvenna en karla telur “áhugavert starf" eftir háskólanám mikilvægara en góð “laun" auk þess sem þær búast fremur við að vinna hjá hinu opinbera, þar sem rannsóknir sýna, að lægri laun eru almennt í boði.

Í þessari könnun mátti sjá töluverðan mun á áherslum milli kynja þegar spurt var um ástæðu þess að háskólanám var hafið. 75% kvenna sögðu til dæmis, að þeim þætti gaman að vera í námi og þetta hefði ráðið miklu um ákvörðun þeirra um að hefja nám, sömu viðhorf komu fram hjá 48% karla.

Í könnun, sem Stefán Ólafsson prófessor gerði á þátttöku háskólamenntaðs fólks í atvinnulífinu, kom í ljós, að meirihluti þess vinnur að öllu jöfnu hjá hinu opinbera en í miklum minnihluta í framleiðslu- og útflutningsgreinum.

Niðurstöður Stefáns sýna, að 58,7% háskólamenntaðra Íslendinga vinna hjá hinu opinbera, það er 44,4% karla og 73,3% kvenna. Í samtali við Morgunblaðið í desember 1996 segir Stefán skuggalegt, að hjá þremur af hverjum fjórum konum með háskólamenntun sé hið opinbera eini vinnumarkaðurinn. Hann bendir á, að konur séu í meirihluta í háskólanámi en þær ljúki fremur BA-prófi en BS-prófi. Telur hann það mikilvæga skýringu á því, hvers vegna háskólamenntun skilar konum lægri tekjum en körlum. Enn vitna ég til Stefáns þegar hann segir: „Ég held að það ætti að vera stærri hluti af jafnréttisbaráttunni að opna meira hug ungra kvenna um að velja sér fjölbreyttara nám. Þetta þarf að gerast strax í grunnskóla- og á framhaldsskólaárunum.”

Tryggvi Gíslason, skólameistari Menntaskólans á Akureyri, sagði í samtali við Dag í fyrradag (4. mars), þegar hann var spurður um ástæðuna fyrir því, að stúlkur væru orðnar fleiri en piltar í skólakerfinu: „Stúlkurnar virðast enn þá sætta sig við lægri laun og fara í þetta hefðbundna menntaskólanám og síðan háskólanám sem bundið er þjónustu við fólk; kennslu, lækningar, hjúkrun, sjúkraþjálfun og svo framvegis. Þannig að launavonin er sjálfsagt meginástæðan að piltarnir velja aðra leið.”

Góðir áheyrendur!

Það er komið að lokum máls míns. Niðurstaða mín er þessi:

Á þessari öld hafa konur skipað sér í forystu í skólakerfinu bæði sem kennarar og nemendur. Án kvenna og mikilvægs framlags þeirra væri skólakerfið óstarfhæft.

Á meðan konur velja ekki fjölbreyttari námsbrautir verður erfitt að ná þeim markmiðum að auka hlut starfsnáms á framhaldsskólastigi. Konur vilja að meirihluta ná stúdentsprófi.

Til að efla stöðu raungreina í skólakerfinu, stærðfræði og náttúrfræði, er nauðsynlegt að vekja áhuga kvenna á þessum greinum. Einnig ber að efla áhuga karla á greinum, sem margir álíta nú kvennagreinar.

Rannsóknir sýna, að fólk með góða almenna grunnmenntun sækist eftir endurmenntun og símenntun. Konur eru í þessu efni að ná forskoti gagnvart körlum. Þær verða því fjölhæfari í þjóðfélagi, þar sem menntun er æviverk.

Í stuttu máli eru konum allir vegir færir í skólakerfinu. Þær hafa mikinn áhuga á menntun og ná góðum árangri í námi. Hvetja þarf konur til að velja sér fjölbreyttari námsbrautir.

Í ár eru 90 ár liðin frá því að glæsilegt steinsteypuhús var reist yfir Kvennaskólann í Reykjavík, hér hinum megin við Tjörnina, í hjarta bæjarins. Skólinn skipti miklu til að efla sjálfstraust kvenna gagnvart námi og menntun. Barátta kvenna fyrir stöðu sinni í skólakerfinu hefur borið mjög góðan árangur. Það er undir konum sjálfum komið, hvort menntunin eykur mátt þeirra og dýrð.