16.8.2003

Endursköpum varnarsamstarfið

Morgunblaðið, 16. ágúst, 2003.

.


 

EINÖRÐ andstaða Davíðs Oddssonar forsætisráðherra gegn tæknilegum hugmyndum varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna hefur dugað til að leggja grunn að nýjum áfanga í varnarsamskiptum Íslands og Bandaríkjanna. Eftir að bréf höfðu gengið á milli hans og George W. Bush, forseta Bandaríkjanna, og embættismenn komið saman til viðræðna á grundvelli þeirra, neitaði Davíð jafnfast og áður að málið yrði rætt áfram nema merki sæjust um ný viðhorf Bandaríkjamanna.
 

Í stað viðræðna embættismanna hófust tvíhliða samtöl Davíðs og dr. Condoleezzu Rice, þjóðaröryggisráðgjafa Bandaríkjaforseta, í síma. Í hinu síðara þeirra, miðvikudaginn 13. ágúst, skýrði dr. Rice frá því að Bandaríkjaforseti hefði að sinni afturkallað öll fyrirmæli um brottflutning F-15 þotna frá Íslandi. Lýsti Davíð yfir ánægju með þá niðurstöðu og síðar þennan sama dag tilkynnti Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Halldóri Ásgrímssyni utanríkisráðherra þetta á formlegan hátt.

Varnarviðræðunum er ekki lokið. Umgjörð þeirra hefur hins vegar verið gjörbreytt frá því sem var 2. maí sl. þegar ákvörðun um einhliða brottflutning þotnanna mánuði síðar var tilkynnt. Nú er ekki lengur rætt um málið milli ríkisstjórnanna með dagsetningar yfir höfði sér og fallist hefur verið á það meginsjónarmið Davíðs að Bandaríkjastjórn geri ekkert einhliða, þvert á móti verði málin rædd frá öllum hliðum.

Þræðir í Hvíta húsið

Þeir, sem hafa sýslað lengi við varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna, vita að meginmáli skiptir á hvaða stigi innan bandaríska stjórnkerfisins er rætt um álitamál. Í raun er það aðeins innan þjóðaröryggisráðsins og undir handarjaðri Bandaríkjaforseta, þar sem allir þræðir tengjast og litið er á mál úr þeirri hæð, að sést yfir það allt.

Í ljósi þessa var það hárrétt ákvörðun hjá Davíð Oddssyni að taka málið í eigin hendur og óska á móti eftir því að fá bein tengsl við Bandaríkjaforseta. Í því fólst hvorki vantraust á utanríkisráðuneyti Íslands né Bandaríkjanna heldur var byggt á sögulegri reynslu.

Davíð náði að skapa þráð inn í Hvíta húsið meðal annars með aðstoð Robertsons lávarðar, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins (NATO). Robertson varð fyrstur til þess að vekja máls á því við Bandaríkjaforseta í vikunni fyrir þingkosningarnar 10. maí að ríkisstjórn Íslands væri misboðið vegna framgöngu bandarískra stjórnvalda í málinu. Varð forsetinn undrandi og hafði á orði að hann þekkti Davíð Oddsson og vildi ekki að neitt yrði gert á hans hlut.

Eftir þessa yfirlýsingu forsetans fóru hjólin að snúast á annan hátt.

Nýr grundvöllur

Nú hafa skapast nýjar forsendur til viðræðna við Bandaríkjastjórn. Forsetinn hefur gefið embættismönnum sínum nýtt og víðtækara umboð sem miðar að því að varnarsamstarfið við Ísland þróist áfram á grundvelli sameiginlegra hagsmuna. Einhliða tæknilegar lausnir víkja fyrir niðurstöðu sem á að taka mið af stórpólitískum hagsmunum.

Er mikilvægt að hið nýja tækifæri, sem skapast hefur vegna trausts milli ríkisstjórna landanna og sögulegra, góðra tengsla í meira en sex áratugi, verði nýtt til að marka samstarfinu öflugan grundvöll enn til langrar framtíðar.

Til að nýta þetta tækifæri sem best er óhjákvæmilegt að mótuð verði skýr stefna um hlut okkar Íslendinga sjálfra með sterkri lögreglu, landshelgisgæslu og almannavörnum. Verður ekki undan því vikist að laga starfsemi þessara meginstoða öryggis okkar að breyttum kröfum.

Hinn mikla árangur Davíðs Oddssonar í viðræðunum við Bandaríkjastjórn á að nýta bæði til að endurskapa varnarsamstarfið við þá og teysta okkar eigin innviði í öryggismálum.