Varnarmálin: Einhliða áform verða að engu
Verulegar umræður hafa verið um, að Bandaríkjastjórn hafi tilkynnt hinni íslensku skömmu fyrir alþingiskosningarnar hinn 10. maí síðastliðinn, að bandarískar herþotur og björgunarþyrlur yrðu horfnar af landi brott í byrjun júní 2003. Telja stjórnarandstöðuþingmenn fréttina sýna, að um trúnaðarbrest sé að ræða af hálfu ríkisstjórnar gagnvart utanríkismálanefnd, málið eigi að ræða þar.
Hafi Bandaríkjastjórn tilkynnt einhliða rétt fyrir alþingiskosningar, að fáeinum vikum eftir kosningarnar yrði gjörbreyting á fyrirkomulagi varna landsins og tvíhliða varnarsamningi þjóðanna, er það til marks um litla pólitíska dómgreind.
Töldu Bandaríkjamenn, að úrslit kosninganna yrðu önnur en varð? Ræddu fulltrúar bandaríska sendiráðsins við talsmenn stjórnarandstöðunnar fyrir kosningar um þetta mál?
Tvíhliða viðræður
Tíminn einn dugar til að sanna, að einhliða áform Bandaríkjastjórnar um aðgerðir í júní hafa ekki náð fram að ganga. Júnímánuður er liðinn og bandarísku orrustuþoturnar eru hér enn. Forætisráðherra og utanríkisráðherra hittu sendimenn Bandaríkjastjórnar hinn 5. júní. Tók forsætisráðherra þá við bréfi frá Bandaríkjaforseta. Enginn ábyrgur aðili hefur túlkað bréfið á þann veg, að í því felist úrslitakostir.
Sendiherra Íslands í Washington afhenti hinn 11. júní Daniel Fried, sem fer með málefni Evrópu í þjóðaröryggisráði Bandaríkjaforseta, svar forsætisráðherra við forsetabréfinu.
Bæði þessi bréf hafa verið kynnt utanríkismálanefnd alþingis. Þau eru nú lögð til grundvallar í viðræðum embættismanna þjóðanna. Fyrsta lota þeirra var í Reykjavík mánudaginn 23. júní. Var þar ákveðið, að viðræðunum yrði haldið áfram.
Forysta Davíðs Oddssonar og eindregin viðleitni hans til að beina viðræðum um varnarmálin frá tæknilegum úrlausnarefnum til pólitískra álitaefna hefur borið árangur. Viðræðurnar byggjast nú á því, að um tvíhliða samning sé að ræða, sem ekki verði breytt á einhliða hátt. Viðræðurnar eru því í fari, sem er viðunandi frá sjónarhóli málsvara varnarsamningsins á innlendum stjórnmálavettvangi.
Gamalkunn afstaða vinstrisinna
Fá mál hafa jafnlengi verið ágreiningsefni á íslenskum stjórnmálavettvangi og varnarsamstarf okkar við Bandaríkjamenn. Stjórnmálaflokkar, aðrir en Sjálfstæðisflokkurinn, hafa einhvern tíma í áranna rás snúist gegn dvöl varnarliðsins, þótt krafa um brottflutning þess hafi ekki sett svip á stjórnarmyndanir síðan árið 1978.
Enn er grunnt á stuðningi við varnarsamstarfið hjá mörgum vinstri sinnuðum stjórnmálamönnum. Vinstri/grænir eru á móti því og einnig aðild Íslands að NATO. Forystumenn Samfylkingarinnar eins og Össur Skarphéðinsson, Margrét Frímannsdóttir, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Guðmundur Árni Stefánsson hafa öll lagt málstað herstöðvaandstæðinga lið einhvern tíma í stjórnmálastarfi sínu.
Hverjar eru tillögur vinstri/grænna og Samfylkingarinnar í öryggismálum þjóðarinnar? Vinstri/grænir eru andvígir sérstökum öryggisráðstöfunum, sérstaklega þeim, sem byggjast á samvinnu við Bandaríkjamenn. Fyrir þingkosningar talaði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir á þann veg á stjórnmálafundi í Reykjanesbæ, að varnarsamningurinn væri ekki í gildi og innan tíðar flytti öll starfsemi frá Reykjavíkurflugvelli til Keflavíkur enda yrðu Bandaríkjamenn ekki á flugvallarsvæðinu þar.
Langt viðræðuferli
Eftir gjörbreytingu öryggismála í okkar heimshluta við upphaf lokaáratugar 20. aldarinnar var samið um bókun við varnarsamninginn árið 1994 og að nýju árið 1996. Bókunina átti enn að endurskoða árið 2000. Var það ekki gert. Hafa stjórnvöld Íslands og Bandaríkjanna skipst á skoðunum um fyrirkomulag varna Íslnds samhliða því sem Bandaríkjamenn hafa mótað nýja stefnu fyrir herafla sinn undir forystu þeirra George W. Bush, Dick Cheney, varaforseta hans, og Donalds Rumsfelds varnarmálaráðherra.
Víða um heim ræða fulltrúar Bandaríkjastjórnar við fullrúa ríkisstjórna annarra landa um breytingar á inntaki og framkvæmd varnarsamstarfs. Í nágrenni okkar hafa til dæmis Bretar, Danir og Grænlendingar samþykkt þátttöku í bandaríska eldflaugavarnakerfinu, en það er ekki lengur sama ágreiningsefni og áður.
Markmið varnamála viðræðna ríkisstjórna Íslands og Bandaríkjanna nú er ekki að rifta samningnum frá 1951 heldur laga framkvæmd hans að breyttum aðstæðum eins og gert hefur verið hvað eftir annað. Nú eins og oft áður er til umræðu, hve mikinn viðbúnað bandaríski flugherinn skuli hafa á Keflavíkurflugvelli. Sé hann enginn að staðaldri, kann það að draga svo úr inntaki varnarsamningsins, að hann verði ekki annað en orð á blaði.