30.1.1999

Staða og hlutverk Sjálfstæðisflokksins - Mývatn

Staða og hlutverk Sjálfstæðisflokksins
Mývatn 30. janúar 1999.


Staða og hlutverk Sjálfstæðisflokksins
Sjálfstæðisflokkurinn gengur nú til kosninga í annað sinn á þessum áratug, eftir að hafa haft forystu í ríkisstjórn í heilt kjörtímabil. Um þessar mundir eru einnig um átta ár liðin frá því, að Davíð Oddsson var kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins. Með kjöri hans, góðum árangri í þingkosningunum vorið 1991 og öruggri forystu í ríkisstjórninni, sem þá var mynduð, hófst einstakt tímabil í stjórnmálasögu þjóðarinnar. Er ástæða fyrir sjálfstæðismenn að vekja rækilega athygli á hinum glæsilega árangri, sem hefur náðst.

Þetta framfaratímabil er ekki á enda runnið. Markmið okkar sjálfstæðismanna í komandi kosningum er að fá endurnýjað umboð til að leiða ríkisstjórn, alþingi og þjóðina til enn frekari framfara. Saga þessa áratugar staðfestir, að einörð stjórnmálaleg forysta og samheldni innan Sjálfstæðisflokksins er besta forsenda fyrir velgengni Íslendinga.

Stefnulausir andstæðingar

Nýlega hitti ég sendimann erlends ríkis, sem víða hefur starfað og nú síðast um nokkurt árabil hér á landi. Þjálfun utanríkisþjónustumanna og sérþekking felst meðal annars í því að meta stjórnmálaaðstæður í þeim ríkjum, þar sem þeir dveljast, leggja dóm á þær, bera saman við það, sem gerist í öðrum löndum og meðal eigin þjóðar, og síðan gefa skýrslur til ríkisstjórna sinna. Þessi ágæti sendimaður sagðist á meira en tuttugu ára ferli sínum aldrei hafa kynnst annarri eins upplausn í stjórnmálum jafnskömmu fyrir kosningar og hjá þeim, sem mynda nú stjórnarandstöðu hér á landi. Væri hreint með ólíkindum að fylgjast með því brölti öllu, sem væri án stefnu og markmiða auk þess að lúta ekki neinni forystu. Taldi hann ólíklegt, að á fáum vikum fram að kosningum tækist þessu sundraða og stefnulausa liði að afla sér trausts meðal kjósenda.

Ég sagði, að allt gæti gerst í íslenskum stjórnmálum. Minnti á, að fjölmiðlar væru frekar hallir undir vinstrisinna hér eins og víða annars staðar. Auk þess ætti hið sama við í stjórnmálum og á öðrum sviðum, að menn þyrftu verðuga andstæðinga til að herðast og ná góðum árangri.

Við sjálfstæðismenn verðum einkum að gæta okkar á þrennu við núverandi aðstæður, þegar stjórnarandstaðan hefur í raun orðið að engu fyrir framan okkur. Í fyrsta lagi megum við ekki fyllast af sjálfsánægju og því kæruleysi, sem er oft fylgisfiskur hennar. Í öðru lagi megum við ekki fara þeim orðum um andstæðinga okkar, að kjósendur aumkist yfir þá og styðji með göfugu hugarfari miskunnsama Samverjans. Í þriðja lagi ber okkur að halda þannig á innri málum Sjálfstæðisflokksins, að við færum ekki andstæðingunum vopn.

Í stjórnmálum eru menn fljótir að gleyma. Raunar eru margir stjórnmálamenn, sem kunna því best, að fljótt fenni í spor þeirra, svo að ekki sé unnt að sjá hvert þeir stefndu eða hvað þeir gerðu.

Er skemmst að minnast þess, að Steingrímur Hermannsson, þáverandi formaður Framsóknarflokksins, leiddi næstu ríkisstjórn á undan þeirri, sem Davíð Oddsson myndaði vorið 1991. Steingrímur gekk til þessa síðasta stjórnarsamstarfs síns með þau orð á vörunum, að á Íslandi þyrfti að taka á stjórn atvinnu- og efnahagsmála með öðrum hætti en annars staðar á Vesturlöndum. Voru þessi orð ekki skilin á annan veg en þann að hér ætti að fylgja einhverju sérhönnuðu vinstra módeli. Raunar féllu þessu einkennilegu orð um svipað leyti og hugsandi mönnum hvarvetna var orðið ljóst, að öll þessi módel vinstrisinna juku frekar á erfiðleika en leystu þá.

Í tíð þessarar ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar gerðist það síðan, að aðilar vinnumarkaðarins tóku höndum saman um að skapa stöðugleika í efnahagslífinu undir merkjum þjóðarsáttar. Trúnaðurinn, sem þar skapaðist milli fulltrúa atvinnurekenda annars vegar og talsmanna launþega hins vegar, byggðist ekki á sérhönnuðu vinstrisinnuðu efnahagsmódeli heldur á virðingu fyrir efnahagslegum staðreyndum.

Öflugur Sjálfstæðisflokkur - árangur í landstjórninni

Varð það gæfa íslensku þjóðarinnar, að Sjálfstæðisflokkurinn undir forystu Davíðs Oddssonar hlaut gott brautargengi meðal kjósenda og myndaði ríkisstjórn vorið 1991, sem hafnaði vinstri patentlausnum í efnahagsmálum, tók á sjóðasukkinu og krafðist raunsæis við stjórn efnahagsmála og fjármála ríkisins. Þar með hófst vorið í íslenskum stjórnmálum á síðasta áratug aldarinnar. Án þess værum við ekki að ganga inn í nýja öld í góðæri.

Í mörgu tilliti eru áratugirnir tveir frá 1971 til 1991 glataðir áratugir, þegar litið er til hinna mörgu góðu tækifæra, sem þá gáfust, án þess að þau nýttust til fulls í óðaverðbólgunni. Viðreisnarstjórnin undir forystu Sjálfstæðisflokksins frá 1959 til 1971 hafði leitt þjóðina út úr skömmtunarkerfinu og gert efnahagsstarfsemi hennar og stefnu gjaldgenga í alþjóðasamtökum á borð við Efta. Stjórnin náði einnig því marki að ráðast í stórvirkjanir og hefja stóriðju í samstarfi við erlenda fjárfesta. Þá stjórnaði hún þjóðinni með öruggum hætti í gegnum mikla efnahagserfiðleika. Allt tókst þetta vegna þess að forystan var traust og hvikaði ekki frá settu marki.

Sagan kennir að saman fari, að Sjálfstæðisflokkurinn sé öflugur og einhuga og að árangur náist í landstjórninni. Margflokka stjórnir vinstrisinna einkennast af yfirboðum og óráðsíu. Þegar þær komast til valda, er helsta áhyggjuefnið, hve mikill skaði verði af verkum þeirra, áður en kallað er á sjálfstæðismenn til að koma þjóðarskútunni aftur á réttan kjöl.

Í aðdraganda þingkosninganna 8. maí næstkomandi hafa ýmsir sjálfstæðismenn, jafnvel þeir, sem gegndu ráðherraembættum á áttunda og níunda áratugnum, vegið að gamla flokknum, sem sýndi þeim traust og virðingu. Segja þeir án þess að færa fyrir því haldbær rök, að flokkurinn hafi hrakist af braut og stjórnist af ójöfnuði ef ekki beinlínis mannvonsku. Fullyrt er í þessum áróðri, að hér búi borgarar við ólíkari kjör en víða annars staðar, bilið milli ríkra og fátækra sé óbærilega mikið. Hlúð sé að sérhagsmunaöflum í stað þess að taka mið af hagsmunum alls almennings.

Auðvelt er að hrekja öfundarpólitík af þessu tagi. Hún var á sínum tíma aðalsmerki kommúnista og sósíalista. Leggst lítið fyrir þá kappa, sem fara í smiðju þeirra til að ná sér í vopn til nýrra stjórnmálaátaka við fyrrverandi samherja sína.

Öfundarpólitík hrakin

Nokkra athygli vakti þegar Jim Rogers, bandarískur ævintýramaður, auðmaður og virtur ráðgjafi fyrir stórfjárfesta, ók á sérhönnuðum bíl sínum umhverfis landið við upphaf ökuferðar í kringum hnöttinn. Rogers lætur sér ekki nægja að kynnast vegakerfi landa heldur einnig efnahagslífi og ritar síðan um það og birtir á heimasíðu sinni á netinu.

Í pistli sínum um Ísland segir Rogers, að þjóðin fylgi skandinavísku módeli í efnahagsmálum, þar sem um sé að ræða kröfuharðan kapítalisma mildaðan með þungu opinberu regluverki og örlátri velferð. Atvinnuleysi sé næstum óþekkt og tekjuskiptingin ótrúlega jöfn. Varla sé unnt að finna fátækt fólk á Íslandi og þar séu mjög fáir ríkir. Verkalýðshreyfingin sé áhrifamikil og verkalýðsfélög fjölmenn, megi næstum draga þá ályktun, að efnahagslífið hafi verið hannað með þeim hætti, að enginn bróðir, systir, frænka eða frændi mætti græða of mikið fé eða fara of langt fram úr öðrum í þessari stóru fjölskyldu.

Launajöfnuðurinn sé þó ekki svo mikill, að læknir fái til dæmis sömu laun og hjúkrunarfræðingur. Launamunur sé hins vegar miklu minni en í Bandaríkjunum. Á Íslandi séu mjög fái viðskiptarisar eða frumkvöðlar. Landsframleiðsla á mann sé næstum jafnhá og í Bandaríkjunum, eða um tvær milljónir króna á hvern karl, hverja konu og hvert barn. Heilbrigðisþjónusta sé frábær og menntakerfi öflugt. Ólæsi þekkist ekki.

Þetta er gagnrýni efnahagsráðgjafa og fjármálamanns, sem ferðaðist um landið í upphafi þessa mánaðar og ritaði síðan dóm sinn um efnahagslífið. Mat hans gengur þvert á þann áróður andstæðinga okkar sjálfstæðismanna, að hér ríki óbærilegur ójöfnuður og mismunun. Staðreynd er, að í fáum ríkjum er jöfnuður milli borgaranna meiri en hér á landi.

Í síðustu viku birti breska vikuritið The Economist úttekt á stöðu Norðurlandanna, ekki síst með hliðsjón af árangri þeirra í efnahags- og atvinnumálum. Dómur blaðsins er, að með „frábærum” hætti hafi Íslendingum tekist að halda á eigin málum við núverandi aðstæður.

Gildi sjálfstæðisstefnunar í menntamálum

Allt sýnir þetta og staðfestir, að sjálfstæðisstefnan er besta leiðarljós þjóðarinnar. Þegar við lítum yfir glæsilegan árangur á þessum áratug eigum við ekki aðeins að líta á markmiðin, sem við settum okkur, heldur einnig meta, hvaða árangri við höfum náð sem sjálfstæðismenn. Hvernig hefur okkur til dæmis vegnað á sviði menntamála? Hvernig hefur okkur tekist að breyta orðum í athafnir? Við höfum mótað stefnu, sem nú er að komast að fullu í framkvæmd. Við höfðum sýn og kjark til að fylgja henni eftir. Nú er hún orðin að veruleika!

Árangurinn byggist á því, að sjálfstæðisstefnan hefur verið lögð til grundvallar. Við höfum náð árangri með því að hafa tvö meginatriði að leiðarljósi:

Í fyrsta lagi höfum við kosið valddreifingu og samkeppni í stað forsjárhyggju og miðstýringar.

Í öðru lagi höfum við krafist framfara og árangurs í stað þess að sætta okkur við metnaðarleysi og stöðnun.

Þegar ég hóf störf sem menntamálaráðherra hafði Alþingi samþykkt ný lög um grunnskóla. Lögin voru með þeim fyrirvara, að þau tækju ekki gildi nema samkomulag yrði um flutning grunnskólans til sveitarfélaganna. Þetta samkomulag tókst og í góðri sátta allra aðila var unnið að því að flytja stærsta einstaka verkefnið frá ríkinu til sveitarfélaganna. Aldrei fyrr hefur valdi verið dreift jafnvíða með sambærilegum hætti í sögu okkar.

Árangurinn hefur ekki heldur látið á sér standa, þegar litið er til skólastarfsins. Fullyrði ég, að aldrei hafi á jafnskömmum tíma verið gert jafnmikið átak til að bæta starfsaðstöðu nemenda og kennara í grunnskólum en á þeim rúmu tveimur árum, sem eru liðin frá því að sveitarfélögin tóku við skólunum.

Sveitarstjórnakosningarnar síðastliðið vor snerust að verulegu leyti um skólamál. Góður árangur okkar sjálfstæðismanna í þeim sýnir, að hvarvetna um landið treysta kjósendur okkur fyrir því að standa vel að skólunum.

Áhrifin á skólastarfið sjálft eru mikil. Foreldrar eru nú virkir þátttakendur í námi barna sinna. Tengslin milli leikskóla og grunnskóla hafa eflst og einnig milli tónlistarskóla og grunnskóla. Sveitarfélög hafa sameinast til að skapa sterkari bakhjarl við skóla. Samstarf skóla og íþróttafélaga er meira en áður.

Í öðru lagi hefur sjálfstæði skóla aukist mikið á síðustu árum. Sum sveitarfélög eru að fikra sig til aukins fjárhagslegs sjálfstæðis skólanna. Samskipti menntamálaráðuneytisins við framhaldsskólana hafa tekið stakkaskiptum með svonefndum skólasamningum. Þeir eiga að tryggja skólum fjármagn í samræmi við fjölda nemenda, sem gengur til prófs innan veggja þeirra, og með hliðsjón af inntaki námsins í hverri grein. Skólarnir eru þannig hvattir til þess að tryggja að nemendur stundi nám sitt og leggi sig fram í því skyni að fara í próf. Þetta er skynsamleg leið til að tryggja nemendum betri þjónustu og draga úr brottfalli, sem hefur verið meira vandamál hér en víða annars staðar. Þessi háttur á fjárveitingum til skóla er einnig í samræmi við aukna ábyrgð skólameistara á öllum þáttum skólastarfsins.

Í þriðja lagi er ánægjulegt að geta skýrt frá því, að einkareknum skólum fjölgar. Ný framhaldsskólalög heimila menntamálaráðherra að semja um það við einkaaðila, að þeir taki að sér rekstur skóla. Þá tóku ný háskólalög gildi 1. janúar 1998, sem heimila menntamálaráðherra að semja við einkaaðila um rekstur háskóla.

Á mörgum sviðum hefur leiðin legið frá ríkisrekstri til einkarekstrar. Viðskiptaháskólinn í Reykjavík, nýr einkarekinn háskóli, tók til starfa síðasliðið haust. Framhaldsskólinn á Skógum og hússtjórnarskólarnir í Reykjavík og á Hallormsstað eru ekki lengur ríkisskólar, þeir eru nú reknir af einkaaðilum á grundvelli samnings við menntamálaráðuneytið. Þrjár gamalgrónar skólastofnanir, sem áttu undir högg að sækja, hafa þannig verið treystar í sessi með einkavæðingu. Listaháskóli Íslands er stíga sín fyrstu spor sem einkaskóli, honum hefur verið skipuð skólanefnd og rektor hefur verið ráðinn.

Í fjórða lagi er samkeppni ekki lengur bannorð, þegar rætt er um skólastarf. Hvarvetna sjást þess merki, að nemendur eru teknir til við að keppa í einstökum námsgreinum. Fátt er betra til að efla þeim kappsemi og stuðla að áhuga þeirra á náminu. Samkeppni stuðlar að markvissara námi og meiri árangri.

Miðlun upplýsinga um innra starf í skólum er leið til þess að auka áhuga á árangri í skólastarfi. Í samvinnu við menntamálaráðuneytið hefur Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála birt niðurstöður samræmdra prófa flokkaðar eftir meðaleinkunnum skóla. Ýmsir töldu, að ég væri að leiða skólana inn á hættulegar brautir, þegar heimilað var að birta þessar upplýsingar. Hið gagnstæða hefur gerst. Samkeppnin hefur á þessu sviði eins og öðrum frekar orðið mönnum hvatning til að gera betur en leggja árar í bát. Foreldrar fagna því að fá þessa vitneskju um skólana, og stjórnendur skóla nota hana til umbóta.

Krafa um árangur

Ég sagði, að við hefðum krafist framfara og árangurs í stað þess að sætta okkur við metnaðarleysi og stöðnun.

Flutningur grunnskólans til sveitarfélaganna hefur eflt það skólastig meira en nokkurn gat órað fyrir.

Framhaldsskólastigið hefur tekið stakkaskiptum. Ég fullyrði, að aldrei hafi verið jafnvel búið að nemendum á því skólastigi, ekki síst í verknámi. Nægir þar að nefna Borgarholtsskóla í Reykjavík. Hann hefur risið frá grunni á þessu kjörtímabili. Við Menntaskólann í Kópavogi hefur skapast aðstaða til kennslu og náms í matvæla- og hótelgreinum, sem stenst alþjóðlegan samanburð. Nýtt hús hefur risið við Menntaskólann á Akureyri og unnið er að stækkun Verkmenntaskólans þar. Verkmenntaskóli Austurlands í Neskaupstað hefur verið stækkaður. Fjölbrautaskólinn í Garðabæ flutti árið 1997 í nýtt og glæsilegt húsnæði. Lagt hefur verið á ráðin um endurbætur á húsnæði framhaldsskólanna á Akranesi, Egilsstöðum og Höfn í Hornafirði. Lokið er nýbyggingu við Menntaskólann í Reykjavík. Ákveðið hefur verið að reisa nýtt hús yfir Iðnskólann í Hafnarfirði. Þar er framkvæmdum á vegum ríkisins beint inn á nýjar brautir, því að um svonefnda einkaframkvæmd er að ræða, einkaaðilar reisa húsið og selja auk þess mikla þjónustu til skólans. Er talið, að þessi leið muni spara ríkinu 250 til 300 milljónir króna.

Gróskan er ekki minni á háskólastigi. Ég hef þegar nefnt nýju skólana Viðskiptaháskólann í Reykjavík og Listaháskóla Íslands. Þrír framhaldsskólar voru færðir á háskólastig, þegar Fósturskóli Íslands, Íþróttakennaraskóli Íslands og Þroskaþjálfaskóli Íslands sameinuðust Kennaraháskóla Íslands í nýjum kennaraháskóla fyrir rúmu ári. Nú er unnið að því að undirbúa nýbygginu fyrir þennan nýja skóla á Rauðarárholti. Háskólinn á Akureyri hefur eflst og á liðnu hausti var tekin fyrsta skóflustunga að nýbyggingu fyrir hann á Sólborgu, hinu fagra háskólasvæði í hjarta Akureyrar.

Allir eru háskólarnir að laga starfsemi sína og skipulag að nýjum háskólalögum.

Þriðja dæmið um miklar framfarir innan skólakerfisins snertir nýtingu nýju upplýsingatækninnar í þágu skólastarfs. Þar hafa orðið þáttaskil á skömmum tíma og við sjáum alls ekki enn fyrir endann á þeim framförum, sem nýja tæknin veldur. Margar þjóðir líta til okkar öfundaraugum vegna þess, hvernig okkur hefur tekist að nýta tæknina í þágu skólastarfs. Er á döfinni að ráðast í markvisst átak við framleiðslu á íslenskum kennsluhugbúnaði.

Mikilvægur áfangi við skynsamlega nýtingu upplýsingartækninnar innan skólakerfisins náðist hinn 20. janúar síðastliðinn, þegar ritað við undir samning við risafyrirtækið Microsoft um íslenskun á hugbúnaði þess.

Raunar er sá samningur ekki aðeins mikilvægur vegna skólastarfs heldur felst í honum ómetanleg viðurkenning á íslenskri tungu. Hún verður nú 31. tungumálið, sem verður staðfært í hugbúnaðakerfi Microsoft, en eins og kunnugt er skipta tungumálin í heiminum þúsundunum og íslenskan er í hópi þeirra, sem fáir tala. Er eðlilegt að skoða samninginn við Microsoft í þessu ljósi.

Fjarkennsla eykst dag frá degi, ekki síst til hagsbóta fyrir nemendur í dreifbýli. Hvarvetna eru skólar og atvinnulíf að taka höndum saman í því skyni að nýta tæknina til að efla menntun og endurmenntun. Svonefnd byggðabrú Byggðastofnunar, sem tengir saman skóla með fjarkennslubúnaði, hefur við hlið tölvunnar gjörbreytt tækifærum til að bjóða öllum nám án tillits til búsetu. Við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1999 samþykkti alþingi auknar fjárveitingar til fjarkennslu, símenntunar og endurmenntar um landið allt. Er nú unnið að því á vettvangi menntamálaráðuneytisins að móta reglur um nýtingu á þessum fjármunum. Verður í því efni haft samstarf við samtök, sem hafa verið stofnuð víða um land til að sinna þessu verkefni.

Í fjórða lagi er ekki unnt að ræða um framfarir í stað stöðnunar án þess að minnast á rannsóknir og vísindi. Á síðasta kjörtímabili var gert átak á þessu sviði og Rannsóknarráð Íslands var stofnað með nýjum lögum. Á síðasta ári markaði ríkisstjórnin þá stefnu að tillögu minni, að forgangsraða á sviði rannsókna með því að fela Rannsóknarráði að gera áætlun um rannsóknir í upplýsingatækni og umhverfismálum. Þegar áætlunin lá fyrir ákvað ríkisstjórnin að verja sérstökum fjármunum til að vinna að framkvæmd hennar. Hafa þegar verið samþykktar tillögur um 115 milljón króna fjárveitingar til þessara verkefna, en áætlunin, sem er til fimm ára gerir alls ráð fyrir 580 milljónum króna í styrki til rannsókna á þessum sviðum. Ég árétta, að hér er um viðbót við aðrar fjárveitingar til rannsókna og þróunar að ræða. Þá hefur verið lögð meiri áhersla en áður á að styðja við rannsóknanám, sem eflir innra starf háskóla um leið og ungir vísindamenn eru hvattir til dáða. Loks hefur Íslendingum vegnað vel í evrópsku rannsóknasamstarfi og við erum að efla vísindasamvinnu við Bandaríkin með markvissum hætti.

Öllu þessu höfum við áorkað á síðustu árum. Í þessu efni eins og öðrum eru fjármunir mikilvægt afl þeirra hluta, sem að er unnið. Ríkisstjórnin hefur skipað menntamálum í forgang eins og samgöngumálum og heilbrigðismálum við gerð fjárlaga. Framlög til menntamála hafa aukist um marga milljarða króna.

Í stuttu máli hef ég lýst verkefnum síðustu ára. Þau sýna svo að ekki verður um villst, að við höfum náð árangri í menntamálum. Við höfum sett fram kröfur og fylgt þeim eftir á metnaðarfullan hátt.

Nýja skólastefnan

Enn hef ég þó ekki nefnt nýju skólastefnuna. Þann þátt menntastefnunnar, sem setja mun mestan svip á starf skólanna og ráða mestu um árangur komandi ára.

Nýja skólastefnan birtist í nýju aðalnámskránum fyrir grunnskóla og framhaldsskóla. Stefnuna kynnti ég rækilega á síðasta vetri bæði með riti, sem sent var á hvert heimili, og fundum um allt land. Fyrstu námskrárnar sjá dagsins ljós næstu daga. Vinnunni við að rita þær er lokið. Einnig er ný aðalnámskrá fyrir leikskóla á næsta leiti. Við erum með öðrum orðum að skapa samfellu í skólastarfi fyrir þá, sem fara í gegnum þessi þrjú skólastig.

Nýja skólastefnan skapar forsendur fyrir öflugu og markvissu skólastarfi á nýrri öld. Í þessu átaki, sem unnið hefur verið með mikilli þátttöku kennara og í góðri samvinnu við þá, felst viðleitni til að auka sveigjanleika innan skólakerfisins. Markmiðið er að koma betur til móts við þarfir sérhvers einstaklings, auka frelsi nemenda til að velja nám við sitt hæfi en rækta um leið með þeim námsaga og góð vinnubrögð, heilbrigðan metnað og ábyrgð á eigin námi, árangri og lífi.

Nýrri skólastefnu verður ekki hrundið í framkvæmd á viðunandi hátt án þess að tekið sé til hendi á mörgum sviðum. Í fjárlögum fyrir árið 1999 er gert ráð fyrir allt að 260 milljón króna fjárveitingu til að standa að verkefnum, sem tengjast framkvæmd stefnunnar. Gert verður átak í endurmenntun kennara, ráðist verður af þunga í útgáfu á nýju námsefni, leitað verður nýrra leiða til að efla námsráðgjöf, beitt verður nýjum úrræðum til að greina sérþarfir nemenda, svo að fátt eitt sé talið.

Gjörbreyting er að verða í skipulagi á öllu starfsnámi. Menntamálaráðuneytið hefur samið við fjórtán starfsgreinaráð um stuðning við mikilvæg verkefni þeirra. Á næstu mánuðum munum við sjá hverju þau fá áorkað hvert á sínu sviði. Þá er átak í símenntun og endurmenntun í mótun samkvæmt þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar síðastliðið sumar, að menntamálaráðuneytið færi með yfirstjórn þess málaflokks.

Framkvæmd nýju skólastefnunnar er stærsta verkefni þeirra, sem vinna að menntamálum um þessar mundir. Má fullyrða, að ekki hafi áður verið staðið með svo samræmdum og skipulegum hætti að því að skapa nýjar forsendur í íslensku skólakerfi. Er því fyrir öllu, að það takist að ná þeim háleitu markmiðum, sem við höfum sett. Framtíð íslenskrar æsku er í húfi og þar með framtíð þjóðarinnar og styrkur hennar í vaxandi samkeppni, þar sem menntun, þekking og miðlun upplýsinga ræður úrslitum.

Stuðningur við menningu

Menning þróast ekki án góðrar menntunar. Menningunni þarf að skapa viðunandi aðstæður. Er óhjákvæmilegt, að opinberir aðilar komi þar að málum.

Ríkisstjórnin ákvað í upphafi ársins að setja á laggirnar nefnd til að vinna að framgangi hugmyndar um ný menningarhús utan höfuðborgarsvæðisins. Voru fimm staðir nefndir til sögunnar. Hugmyndin hefur í senn vakið verðuga athygli og nokkrar umræður. Málið hefur alls ekki verið rætt til þrautar. Hafa mér borist margar ábendingar og óskir um samstarf við ríkisvaldið, eftir að hugmyndin var kynnt og verða öll erindin kynnt væntanlegri nefnd.

Ég hef skýrt hugmyndina þannig, að ríkisstjórnin hafi ekki tekið ákvörðun um hönnun og teikningu á húsum, heldur lýst vilja sínum til samstarfs við sveitarfélög um að skapa betri aðstæður til menningarstarfs. Vafalaust er unnt að fara fleiri leiðir í því efni en að reisa nýtt hús, þótt orðið menningarhús hafi verið notað til að lýsa þessum nýju áformum.

Þau einkennast í senn af viðleitni til að efla menningarstarf og vinna að skynsamlegri byggðastefnu. Allar athuganir um þróun búsetu í landinu benda til þess, að menntun og menning ráði ekki síður miklu um byggðaþróun en atvinnumál og samgöngur.

Jöfnun námskostnaðar

Alþingi samþykkti nýlega frumvarp mitt um breytingu á lögum um ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði. Þessi lög fjalla um svonefnda dreifbýlisstyrki til þeirra, sem stunda nám í framhaldsskóla fjarri heimabyggð sinni og fjölskyldu, enda sé ekki unnt að stunda sambærilegt nám frá lögheimili. Lagabreytingin fólst í því, að skapa samræmi milli þessara styrkveitinga og úthlutunarreglna Lánsjóðs íslenskra námsmanna (LÍN).

Fyrir lagabreytinguna nutu þeir ekki dreifbýlisstyrks, sem áttu rétt á láni úr LÍN, en þar er um nemendur í sérnámi til starfsréttinda að ræða. Eftir að breytingin hefur verið samþykkt geta nemendur í þessu námi á framhaldsskólastigi hins vegar valið á milli þess að sækja um lán frá LÍN eða um styrkinn. Hér er um brýnt mál að ræða, sem snertir allt að 400 nemendur. Var samþykkt að auka útgjöld á fjárlögum um 25 milljónir króna af þessu tilefni. Þar að auki samþykkti alþingi að hækka almenna fjárveitingu til að jafna námskostnað um 40 milljónir króna. Ber að skoða þá hækkun sem mikilvægan lið í viðleitni þingmanna til að styrkja forsendur búsetu um land allt.

Nýlegar ákvarðanir alþingis leiða til þess, að námsstyrkjanefnd, sem úthlutar dreifbýlisstyrkjum til framhaldsskólanema, hefur 67,9 milljónum króna meira fé til ráðstöfunar á árinu 1999 en 1998. Fjárveitingar til að jafna námskostnað og til skipulegs skólaaksturs á framhaldsskólastigi voru 191 milljón króna í fjárlögum 1998 en eru 258,9 milljónir á árinu 1999. Til samanburðar má geta þess að árið 1996 nam þessi fjárhæð 111,5 milljónum króna, nemur hækkunin því um 130% á þremur árum.

Tekist á um stefnu og aðferðir

Andstæðingar Sjálfstæðisflokksins geta ekki með neinum rökum haldið því fram, að hann standi illa að mennta- og menningarmálum. Árangur á þessu kjörtímabili sannar hið gagnstæða. Ég er þeirrar skoðunar, að það auki enn veg Sjálfstæðisflokksins að leggja meiri áherslu á gildi þessara málaflokka. Aðeins með því býr þjóðin sig undir afrek á nýrri öld og tryggir stöðu sína. Ekki síst er nauðsynlegt að fylgja fram stórhuga stefnu að því er varðar notkun tölvu- og upplýsingatækni. Á því kjörtímabili, sem nú er að líða, höfum við lagt mjög góðan grunn að markvissri sókn á þessu sviði, bæði almennt af hálfu ríkisstjórnarinnar á grundvelli álits nefndar, sem starfaði undir forystu Tómasar Inga Olrichs alþingismannas, og einnig innan einstakra ráðuneyta.

Þegar hugað er að komandi kosningum og ágreiningsefnum vegna þeirra staldra menn einkum við þrjá málaflokka: stjórn fiskveiða, svonefnd hálendismál og byggðamál.

Stjórnmálabaráttan snýst ekki um það, hvort sinna beri þessum málaflokkum, heldur hitt hvaða aðferðum er beitt til að takast á við þá. Fullyrði ég, að sjálfstæðisstefnan, vinnubrögð og viðhorf þeirra, sem henni fylgja, duga best til að tryggja góða úrlausn og farsæla niðurstöðu. Á þessari öld höfum við rækilega kynnst hörmulegum afleiðingum þess að beita aðferðum sósíalismans. Sjálfstæðismenn geta hins vegar vísað með stolti til þess, að stefna þeirra hefur sigrað hina hugmyndafræðilegu keppni.

Sjálfstæðisstefnan reynist ekki einungis best þegar glímt er við innri mál þjóðarinnar. Hið sama gildir, þegar rætt er um stöðu Íslands í alþjóðlegu samstarfi. Innan Sjálfstæðisflokksins ríkir sá metnaður fyrir hönd þjóðarinnar, sem reynist henni helst til heilla í samskiptum við aðra. Forystumenn flokksins hafa ekki heldur verið hræddir við að taka af skarið í utanríkismálum, telji þeir hagsmuni þjóðarinnar krefjast erfiðra ákvarðana. Þeir hafa hins vegar aldrei alið á óskhyggju eða látið stjórnast af henni, þegar þjóðarhagsmuna er gætt.

Finnst mér óskhyggjan setja nokkurn svip á málflutning þeirra, sem gera því núna skóna, að Íslendingar kynnu eða geta fengið varanlega undanþágu frá sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins, ef við sæktum um aðild að því. Þegar við ræðum um tengsl Íslands og Evrópusambandsins, ber einnig að hafa hugfast, að það mun ekki opna aðildardyr sínar á næsta kjörtímabili alþingis.

Samheldni á landsfundi

Það er komið að lokum máls míns. Skyldu okkar til að halda þannig á innri málum Sjálfstæðisflokksins, að við færum ekki andstæðingunum vopn. Við þurfum ekki að kvíða því að leggja verk okkar í dóm kjósenda. Við þurfum ekki heldur að óttast andstæðinga okkar miðað við stöðuna eins og hún er um þessar mundir.

Sagan kennir okkur hins vegar, að í stjórnmálum geta orðið snögg veðrabrigði og ekkert er þar í hendi, fyrr en atkvæði hafa verið talin úr kjörkössunum. Fyrir okkur sjálfstæðismenn felst mesta hættan í því, að við höldum ekki nægilega vel á eigin málum síðustu vikurnar fyrir kjördag. Við eigum til dæmis að ganga með því hugarfari til komandi landsfundar, að þar verði hvorki stofnað til stórátaka um menn né málefni.

Á landsfundinum skilgreinum við sameiginlega stöðu okkar og mótum kosningastefnu. Fundurinn er mikilvægasti flokkspólitíski vettvangur þjóðarinnar, niðurstaðan þar gefur til kynna, hvernig best er að sætta hin ólíku sjónarmið og hagsmuni, sem ætíð móta þjóðlífið.

Að þessu sinni liggur einnig fyrir landsfundarfulltrúum að kjósa flokknum nýjan varaformann.

Þegar frambjóðendur í það embætti eru nefndir í blöðum eða annars staðar er mitt nafn gjarnan tíundað í þeim hópi. Ég hef þó hvergi lýst yfir framboði mínu og hef ekki hug á að gera það. Þó er ekki á mínu færi að breyta þeim leikreglum, að alla, sem sækja landsfundinn, má kjósa til æðstu embætta í flokknum án formlegs framboðs þeirra.

Þegar ég bauð mig fram til alþingis og fór í prófkjör haustið 1990 gerði ég það til að styrkja Sjálfstæðisflokkinn með því að efla samheldni innan hans. Er að mínu mati skynsamlegt að fækka átakasvæðum innan flokksins sjálfs, ef ég má orða það svo. Mestu skiptir að standa saman og sigra andstæðinga í öðrum flokkum.

Hörð átök og blokkamyndanir vegna varaformannskjörs þjóna ekki hagsmunum sjálfstæðismanna hvorki um þessar mundir né endranær. Öðru máli gegnir við formannskjör. Þá er eðlilegt, að til átaka geti komið milli öflugra einstaklinga. Raunar sýnir sagan, að ekki er sjálfgefið að varaformaður nái kjöri sem formaður, enda veitir varaformennska ekki og á ekki að veita neina slíka tryggingu.

Næstu ár ber að leggja aukna rækt við skipulagsstarf innan Sjálfstæðisflokksins. Kjördæmaskipan er að taka miklum breytingum, sem kalla á ný vinnubrögð. Sömu sögu er að segja um flokkakerfið sjálft. Sú flokkaskipan, sem hefur haldist í stórum dráttum síðan 1916, er að riðlast. Ég er þeirrar skoðunar, að skipulag Sjálfstæðisflokksins þurfi að taka mið af þessu. Hitt er einnig staðreynd, að löng og öflug forysta í ríkisstjórn og á alþingi kallar á alla athygli leiðtoga flokksins . Hætta er á því, að flokksstarfið sitji á hakanum og tengslin við grasrótina minnki.

Á landsfundi leggjum við grunn að því að sigra í næstu kosningum. Við ætlum að leiða þjóðina inn í 21. öldina. Á landsfundi eigum við einnig að leggja grunn að nýskipan flokksins á nýrri öld. Það mætti til dæmis gera með því að kjósa fimm menn í framkvæmdastjórn, öfluga forystusveit, sem starfar við hlið formanns flokksins og formanns þingflokksins. Hlutverk þessara kvenna og karla úr þéttbýli og dreifbýli yrði að taka að sér einstök verkefni í flokksstarfinu. Framkvæmdastjórnin kæmi í stað varaformannsins.

Tillaga um kjörna framkvæmdastjórn Sjálfstæðisflokksins er ekki nýmæli. Fleira mælir með henni núna en áður. Nauðsynlegt er að ræða hana næstu vikur ekki síður en nöfn í varaformannskjöri. Um leið og ég ítreka, að mitt nafn á ekki heima í þeim hópi, vil ég hvetja menn til að gleyma ekki nöfnum kvenna í umræðunum.

Góðir fundarmenn!

Sjálfstæðisflokkurinn hefur alla burði til að ná glæsilegum árangri í næstu kosningum. Við eigum hvert og eitt að leggja okkar skerf af mörkum til að góður sigur vinnist. Það gerum við best með því að halda sjálfstæðisstefnunni hátt á loft og standa fast saman innan flokks okkar.