30.8.2000

Sjálfstætt fólk í Hannover

Sjálfstætt fólk
í Hannover,
30. ágúst 2000.


Hnattvæðingin tekur á sig ýmsar myndir. Fyrir smáþjóðir eins og hina íslensku skiptir miklu að nýta sér þau tækifæri, sem hún býður. EXPO 2000 hér í Hannover er eitt þessara góðu tækifæra. Óska ég skipuleggjendum EXPO 2000 til hamingju með þann stórhug, sem þeir hafa sýnt við undirbúning hennar. Við Íslendingar væntum mikils af þátttöku okkar ekki síst í dag, þegar við kynnum íslenska menningu og list. Íslenska þjóðin sækir sjálfsmynd sína til hins forna menningararfs í einstæðum 800 ára gömlum bókmenntaverkum, sem rituð eru á sama tungu og við tölum enn þann dag í dag.

Aldrei fyrr höfum við ráðist í jafnmikið stórvirki við að kynna íslenska leiklist erlendis og með því að koma hingað með uppfærslu Þjóðleikhússins á Sjálfstæðu fólki eftir Nóbelsskáldið Halldór Laxness. Margir, sem þekkja þetta meistaraverk, hafa talið ófært að setja það fram með öðrum hætti en skáldið sjálft gerði í bók sinni. Ég leyfi mér þó að fullyrða, að höfundum leikgerðarinnar, leikstjóra og leikurum, hafi með einstökum hætti tekist að setja verkið í nýjan búning án þess að spilla anda þess og boðskap.

Okkur var nokkur vandi á höndum, að finna sýningunni hæfilega umgjörð á svæði heimssýningarinnar sjálfrar. Fyrir tilstuðlan forvígismanna EXPO 2000 náðist samkomulag við stjórnendur Niedersächsishe Staatstheater og er sérstakt fagnaðarefni, að fá tækifæri til að sýna leikverkið við þessar góðu aðstæður. Vil ég færa stjórnendum leikhússins sérstakar þakkir fyrir velvild þeirra.

Í leikhúsinu hefur einnig verið sett upp farandsýning um Nóbelskáldið Halldór Laxness.

Á sama tíma og gestir sitja hér og fylgjast með þessari leiksýningu síðdegis og í kvöld eru meira en eitt hundrað íslenskir listamenn á EXPO-svæðinu að kynna aðra þætti íslenskrar menningar, einkum tónlist, þar sem tungumálið er alþjóðlegt. Leikritið verður hins vegar flutt á íslensku en þýtt samtímis á þýsku.

Þeir, sem hafa ekki heimsótt Ísland, gera sér eigin hugmyndir um land og þjóð. Breskur bókmenntagagnrýnandi, sem fjallaði um Sjálfstætt fólk, komst meðal annars svo að orði: 6En þrátt fyrir að napurleikinn sé nístandi þá eru samtölin full af ljúfsárum húmor og persónurnar.... skopmyndir af Íslandi, þar sem menningin er frosin eins og stærsti hluti landsins sjálfs. &

Ég veit ekki, hvaða hughrif um Ísland leiksýningin, sem nú er að hefjast, skapar hjá áhorfendum hér. Hitt er rangt að mínu mati, að íslensk menning sé frosin, hvað þá heldur stærsti hluti Íslands. Hitt má fullyrða, að íslensk menning sé fjölbreytt og lifandi og sjaldan hefur gróskan verið meiri en einmitt um þessar mundir. Hefur mikil breyting orðið á viðhorfi þjóðarinnar til sjálfrar sín og annarra frá því að Halldór Laxness dró myndina af Bjarti í Sumarhúsum og fólki hans fyrir um það bil 70 árum, þótt viðfangsefni skáldsins um þrána eftir nýjum og betri tíma sé sígilt.

EXPO 2000 er haldin undir kjörorðinu: Maður, náttúra, tækni. Efni Sjálfstæðs fólks fellur vel að því, sem í þessum boðskap felst. Átökin í verkinu eru tímalaus, því að þau snúast um mannleg samskipti í greipum náttúruaflanna og vandann við að horfast í augu við nýjar kröfur tæknialdar. Þótt við búum í hnattvæddum heimi, stöndum við enn hvert og eitt andspænis sambærilegum viðfangsefnum og Bjartur. Þess vegna skírskotar þetta meistaraverk Halldórs Laxness enn til svo margra.

Ég óska Þjóðleikhúsinu til hamingju með að fá þetta einstaka tækifæri til að kynna listrænan metnað sinn. Ég vona, að það verði áhorfendum hér í Niedersächsishe Staatstheater til ánægju að kynnast þessu framlagi Íslands til Hannover og EXPO 2000.