21.8.2000

Velvildarvogin - mat á skólastarfi

Velvildarvogin,
morgunverðarfundur,
Skref fyrir skref,
Hótel Loftleiðum,
21. ágúst 2000.


Nýlega var ég að hlusta á viðtal við kunna athafnakonu í útvarpi. Lýsti hún ágæti eigin starfa og atvinnufyrirtækja og skýrði frá því, hvernig hún hefði náð góðum árangri hér heima og erlendis. Ég fylgdist að vísu ekki með hverju orði, sem sagt var, en lagði við hlustirnar, þegar kom að umtali um menntun á Íslandi og þá sagði konan eins og ekkert væri sjálfsagðara: Já, svo er það íslenska skólakerfið, það er í molum. Mátti skilja orð hennar á þann veg, að hér væri um alkunna, óumdeilda staðreynd að ræða, sem ekki þyrfti að rökstyðja nánar, en ef ég skildi rétt, var ástæðan að hennar mati sú, að kennarar væru of illa launaðir.

Ég nefni þetta hér í upphafi fundar um velvildarvogina til að minna á hve víða falla sleggjudómar um skóla og skólastarf og hve margir telja sig í stakk búna til að kveða upp slíka dóma auk þess að hafa það að sjálfsögðu á hreinu, hvers vegna ástandið er jafnslæmt og þeir telja.

Ef unnt væri að leysa allan vanda í skólastarfi með því einu að hækka laun kennara, værum við ekki hér á þessari stundu til að fræðast um velvildarvogina eða aðferðafræði höfunda hennar til að meta árangur stofnana og fyrirtækja. Ég segi þetta ekki af þeirri ástæðu, að laun og fjárhagslegur umbúnaður skólastarfs skipti ekki miklu máli, heldur til að árétta það sjónarmið, að við þurfum að huga að svo mörgum þáttum, þegar litið er til skólastarfs og árangurs undir merkjum þess.

Eftir að ég heyrði þau neikvæðu og ósanngjörnu ummæli um íslenska skólakerfið, sem ég nefndi í upphafi, var ég staðráðinn í því að nota fyrsta góða tækifærið sem mér gæfist á opinberum vettvangi til að andmæla þeim. Geri ég það hérmeð. Enginn, sem vill láta taka mark á sér, getur staðið við þá fullyrðingu og þau stóru orð, að íslenska skólakerfið sé í molum. Það er jafnvitlaust að halda slíku fram og berja sér á brjóst og segja, að ekkert megi betur fara eða að við höfum náð öllum markmiðum okkar.

Að sjálfsögðu má alltaf gera betur, jafnt í skólastarfi sem annars staðar, enda höfum við unnið að því undanfarin ár með margvíslegum hætti að gera góða skóla enn betri. Eftir mikinn undirbúning við stefnumörkun er nú verið að hrinda nýrri stefnu og námskrám fyrir öll skólastigin í framkvæmd. Markmiðin eru skýrari, ríkara tillit er tekið til sérhvers nemanda og svigrúm einstakra skóla til að fara eigin leiðir er meira en áður. Við höfum vissulega sett markið hátt með hinni nýju skólastefnu og frá því verður ekki hvikað.

Töluverður tvískinnungur setur svip sinn á opinberar umræður um íslensk menntamál. Annars vegar telur meirihluti manna það hafa ótvírætt gildi, að sem best sé hlúð að menntun og í raun sé aldrei nóg að gert í því efni. Hins vegar kemur í ljós, að nauðsyn þess að leggja stund á nám og búa sig sem best undir störf með góðri menntun, á ekki eins mikinn hljómgrunn hjá einstaklingum, þegar þeir ræða um eigið líf og forgangsröðun í því. Sveigjanleikinn í íslenska skólakerfinu er hins vegar svo mikill, að enginn getur í raun afsakað eigin menntunarleysi með því að skella skuldinni á kerfið, og alltaf erum við að opna nýjar leiðir fyrir alla til að auka menntun sína.

Rannsóknir sýna, að miklu skiptir, hvernig grunnur menntabrautarinnar er mótaður, og strax á fyrstu árum skólagöngunnar átti nemendur sig á því, að þeir eru að hefja vegferð, sem lýkur í raun aldrei, vilji þeir njóta sín sem best í samfélaginu. Í því efni er brýnt að skilgreina ábyrgðina rétt, það leiðir til dæmis til rangrar niðurstöðu, ef nemendur og foreldrar líta þannig á, að það sé alfarið á ábyrgð skólans að ná árangri innan veggja hans.

Af hálfu menntamálaráðuneytisins er í fyrsta sinn leitast við að skilgreina ábyrgðarhlutverk þeirra hópa, sem mynda skólasamfélagið, í nýrri aðalnámskrá grunnskóla, sem tók gildi 1. júní 1999. Þar segir í kaflanum um velferð nemenda í almenna hluta námskrárinnar, að mikilvægt sé, að allt skólasamfélagið, það er starfsfólk skóla, foreldrar og nemendur, taki þátt í umræðum og komi að stefnumótun í þeim fjölmörgu málefnum, sem snúa að því, sem fram fer í skólanum, hvort heldur um er að ræða námið sjálft eða andlega og félagslega vellíðan nemenda. Þá er lögð áhersla á að efla vitund nemenda um viðhorf sín, áhuga og hæfileika, þannig að þeir fái notið sín í námi og starfi. Nemendur átti sig á sterkum og veikum hliðum sínum og auki sjálfsþekkingu til að geta betur tekist á við kröfur samfélagsins.

Ráðuneytið hefur fylgst með hinu góða starfi, sem unnið hefur verið undir merkjum siðferðilegra reikningsskila í Kópavogsskóla og veitt til þess þróunarstyrk. Þetta frumkvæði stjórnenda og kennara Kópavogsskóla er mikilvægt framlag til umræðna um betra skólastarf og jafnframt fordæmi, vilji aðrir sigla í kjölfarið. Gefst tækfæri hér á þessum fundi til að fræðast nánar um verkefnið og hvaða árangri það hefur skilað skólanum, nemendum hans og foreldrum.

Lögum samkvæmt ber öllum skólum að sinna sjálfsmati en í því felst að vinna kerfisbundið að gæðum og umbótum í skólastarfi. Í nýju aðalnámskránni er að finna meginreglur um mat á skólastarfi, bæði sjálfsmat og mat annarra en í skólunum starfa. Hefur ráðuneytið unnið að því í samstarfi við Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands að fræða kennara um gildi og inntak sjálfsmats auk þess sem ráðuneytið hefur gefið út sérstakan bækling um sjálfsmatið.

Er ljóst, að vaxandi áhugi er á því í skólum að gangast undir sjálfsmat, því að þetta erfiða og tímafreka starf skilar sér fljótt í betra skipulagi og betra skólastarfi. Haustið 2001 mun ráðuneytið hefja skipulega úttekt á framkvæmd sjálfsmats í skólum, verður hún unnin á einu ári í framhaldsskólum en það mun taka þrjú ár að fá sýn yfir alla grunnskólana. Verður spennandi að sjá niðurstöður úttektanna en þær verða hluti þeirra almennu upplýsinga, sem menntamálaráðuneytið á að miðla um skólastarf í landinu.

Almennt er þróunin sú, að viðhorf skóla til úttekta af þessu tagi hefur breyst. Til þessa hafa samræmdu prófin svo að segja myndað einu almennu mælistikuna, sem unnt er að styðjast við í því skyni að meta árangur í skólastarfi. Umræður um niðurstöður þeirra hafa þróast á þann veg, að sveitarfélögum og skólum er orðið nokkuð kappsmál að úttektir séu gerðar á fleiri sviðum og þær birtar almenningi ekki síður en niðurstöður prófanna til að upplýsa sem flesta um það, sem í skólunum gerist. Tortryggni í garð þess að skýra frá innviðum skólastarfsins hefur vikið fyrir áhuga á að sýna sem bestan árangur eða vilja til þess að gera betur, ef þess er talin þörf. Er enginn vafi á því, að þetta nýja viðhorf er nemendum og öllu skólasamfélaginu til heilla.

Góðir áheyrendur!

Velvildarvogin er meðal annars skilgreind á þann veg, að hún gefi stjórnendum tækifæri til að fá stærri og raunsærri heildarmynd af árangri en aðeins er unnt að mæla með peningalegri mælistiku. Við þurfum að sýna stærri mynd af íslenska skólakerfinu en rúmast innan umræðna um fjármál, þótt þau skipti að sjálfsögðu miklu. Við þurfum að sýna fleirum en þeim, sem þekkja styrk íslenska skólakerfsins, hve mikið og gott starf er unnið innan vébanda þess. Við verðum að snúa vörn í sókn fyrir íslenska skólakerfið í almennum umræðum, svo að því sé ekki hallmælt á röngum forsendum eða með sleggjudómum. Með því að hefja slíka sókn er í raun ekki farið fram á annað en litið sé á staðreyndir af sanngirni og jafnvel dálítilli velvild í stað þess að draga sífellt þá mynd í huga nemenda, að skólinn þeirra sé misheppnaður eða í molum.

Leyfum velvildinni að njóta sín og það leiðir fljótt til betri árangurs!