1.7.2000

Dyggðirnar sjö, myndlistarsýning í Stekkjargjá á Þingvöllum

Dyggðirnar sjö
að fornu og nýju,
Stekkjargjá, Þingvöllum,
1. júlí 2000.


Kristnihátíð á Þingvöllum er hafin, viðamesta hátíð Íslandssögunnar, og undir merkjum hennar komum við saman hér í Stekkjargjá til að opna sérstæða myndlistarsýningu. Er einstakt, að listaverk séu sett upp á Þingvöllum, hinu höfum við frekar átt að venjast, að á þessum stórbrotna stað fái listamenn innblástur til að skapa mikilfengleg verk, mótuð af töfrum náttúrunnar.

Ævintýrið við þessa sýningu felst ekki aðeins í staðarvalinu heldur einnig hinu, að hún er haldin á tveimur stöðum samtímis, því að í gær var hún opnuð í Listasafninu á Akureyri.

Þá er ekki síður ævintýralegt, hvernig staðið hefur verið að undirbúningi sýningarinnar, því að það eitt að láta sér detta í hug að stofna til hennar á þeim forsendum, sem gert hefur verið, er listaverk. Er ástæða til að þakka hugmyndasmiðunum framtakið um leið og við samfögnum því, að draumurinn hefur ræst.

Byggt var á þeirri forsendu, að við þekktum, hverjar væru dyggðirnar sjö að fornu, en til að leita að hinum nýju, var efnt til Gallup-könnunar í lok síðasta árs, og dregin ályktun um sjö dyggðir samtímans af henni. Þá voru sjö konur og sjö karlar, allt góðkunnir íslenskir listamenn, fengnir til að túlka viðhorf þjóðarinnar til dyggðanna að fornu og nýju. Sjáum við afrakstur þeirrar listsköpunar hér og á Akureyri. Ekki er nóg með að viðhorfin séu túlkuð með aðferðum myndlistarinnar, því að fræðimenn tóku jafnframt að sér að fjalla um siðferðisgrundvöll þjóðarinnar að fornu og nýju í Tímariti Máls og menningar, sem kom út á dögunum. Þræðir listaverksins liggja þannig víða og byggjast á mismunandi tækni með þátttöku mörg hundruð manna, sem svöruðu spurningum Gallups.

Aðdragandinn, umgjörðin og efnistökin gera þessa sýningu þannig einstaka. Hún fær síðan nýja vídd með því að verða hluti af kristnihátíðinni hér á Þingvöllum, sem kallar á þúsundir gesta nú í dag og á morgun, en listaverkin munu standa hér í gjánni til 1. september.

Hver sem gefur sér tóm til að skoða margþætta dagskrá kristnihátíðarinnar, áttar sig fljótt á því, að þar hefur ekki minnst verið vandað til hinna listrænu og menningarlegu þátta. Er ánægjulegt og þakkarvert að sjá, hve margir og góðir listamenn koma fram hér á Völlunum á hátíðinni. Býr ekki lítill undirbúningur að baki þátttöku þeirra. Við höfum átt því að venjast, að bókmenntir og tónlist setji svip sinn á þjóðhátíðir af þessum toga, nú fær myndlistin ekki síður verðugan sess, eins og við sjáum hér allt í kringum okkur og jafnvel úti í Öxará.

Glíman við að móta dyggðirnar í myndlistarverk er í góðu samræmi við þann ásetning alþingis að samþykkja hér á morgun tillögu um Kristnihátíðarsjóð, sem á meðal annars að stuðla að umræðum um lífsgildi þjóðarinnar, siðferði og framtíðarsýn.

Er vel við hæfi að leiða hugann að þessum málefnum, þegar við komum saman til að minnast hinnar einstæðu sáttargjörðar, sem Þorgeir Ljósvetningagoði kynnti á Lögbergi fyrir 1000 árum. Styrkur íslensku þjóðarinnar hefur mótast af því síðan, að þá féllu tveir straumar í einn farveg hér á Þingvöllum, viturleg niðurstaða heiðinna forfeðra og boðskapur kristninnar, og af þessum straumi varð til íslensk menning. Hún fellur enn fram með sama hætti og Öxará hér í Stekkjargjá og tekur á sig mismunandi myndir eftir tíð og tíma eins og dyggðirnar.

Könnunin á dyggðaviðhorfi Íslendinga sýnir, að nú á tímum reiða þeir sig á eigin dugnað og frumkvæði, samheldni fjölskyldu og vina, skeyta litlu um starfsframa og menntun en virðast treysta sér án sérstaks undirbúnings til að takast á við hvaða verkefni sem er og hafa óbilandi trú á því, að þeir geti náð takmarki sínu. Spyrja má, hvort það hafi ekki einmitt verið á slíkum forsendum, að leystar voru landfestar í Noregi fyrir rúmum ellefu öldum og haldið út á Atlantshaf. Við getum velt því fyrir okkur, hvort viðhorf forfeðranna hefði reynst svipað, ef Gallup hefði getað framkvæmt könnun sína fyrir 1000 árum. Hvað sem því líður er okkur jafnbrýnt og þá að treysta samheldni og sátt þjóðarinnar um grundvallarþætti öllum til farsældar.

Viðhorfskönnunin, sem mótar listamönnunum rammann, leiðir í ljós, að enn álíta margir brjósvitið duga fyrir sig sjálfa til að þeir fái notið sín, þótt þeir á hinn bóginn viðurkenni, að aðeins með menntun og meiri menntun náist viðunandi árangur fyrir þjóðfélagið í heild. Það er einmitt þessi tvöfeldni, sem veldur því til dæmis, að of margir láta staðar numið í námi, áður en því er að fullu lokið.

Til að íslenska þjóðfélagið verði borgurum sínum enn betri bústaður, þarf að leita allra leiða til að auðvelda sem flestum að finna sína eigin rödd og leggja rækt við gildismat sitt og lífssýn með því að hlú að menningarlegum rótum sínum, leita þekkingar og menntunar og bregðast af skapandi víðsýni við nýjum hugmyndum og aðstæðum. Við þörfnumst ekki aðeins sáttargjarðar um góða framvindu þjóðlífsins heldur verðum við hvert og eitt að vera sátt við okkur sjálf.

Kristnihátíð er aflvaki í mörgu tilliti og hún dregur eins og þessi einstæða listsýning athygli okkar, að djúpstæðum viðfangsefnum. Nú á tímum hátækni og sýndarveruleika eru það andleg og siðferðileg gæði, listir, menning, menntun, rannsóknir og vísindi, sem skila þjóðum mestum árangri. Þegar við viðurkennum það með ótvíræðum hætti og sækjum jafnframt fram á grunni kristinnar trúar, erum við sannarlega á góðri framtíðarbraut.

Ég óska þeim, sem standa að listaverkinu um dyggðirnar sjö til hamingju með að ævintýrið er orðið að veruleika hér í Stekkjargjá og á Akureyri. Ég fagna því, hve Kristnihátíðarnefnd hefur lagt ríka áherslu á menningarlegan þátt þeirrar miklu hátíðar, sem nú er gengin í garð. Ég lýsi sýninguna opna og vona, að sem flestir njóti listaverkanna - og hátíðarinnar.