24.3.2000

Leonardó da Vinci II - kynning

Leonardó da Vinci II Kynningarfundur 24. mars 2000


Mér er ánægja, að bjóða ykkur velkomin til þessarar ráðstefnu þegar öðrum hluta samstarfsáætlunar Evrópusambandsins á sviði starfsmenntunar, Leonardó da Vinci II, er hleypt af stokkunum. Ég fagna því sérstaklega, að Marta Ferreira, fulltrúi framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, skuli vera hér meðal okkar í dag og býð hana velkomna til Íslands.

Í síðustu viku tók ég þátt í hátíðlegum fundi í Lissabon, höfuðborg Portúgals, sem nú er í forsæti innan Evrópusambandsins. Þar var einmitt verið að ýta Leonardó da Vinci II úr vör ásamt með Sókrates II og nýrri samvinnuáætlun um æskulýðsmál. Við erum að hefja sjö ára samstarf undir merkjum þessara áætlana með þátttöku 31 ríkis í hverri þeirra.

Umræður um menntamál snúast oft einkum um skóla og stofnanir af öllu tagi. Við gleymum því stundum í hita umræðunnar, að skóli er ekki annað en fólkið, sem þar starfar við nám og kennslu. Markmið skólastarfs er að gefa einstaklingum tækifæri til að afla sér þekkingar og þjálfa sig til að leysa verkefni. Skóli á að bjóða ný tækifæri og opna nýjar leiðir. Nú á tímum er mikilvægara en nokkru sinni að hafa þetta hugfast, því að við lifum í þjóðfélagi, þar sem við verðum öll sífellt að huga að leiðum til að mennta okkur meira til að njóta okkar betur.

Það dugar ekki heldur að einskorða menntun sína við einn skóla eða eitt land til að öðlast þá færni, sem nýtist best að hefðbundinni skólagöngu lokinni. Þekking á högum og viðhorfum annarra þjóða er ekki síður mikilvæg en vitneskja um eigið land.

Undanfarnar vikur hef ég efnt til funda í framhaldsskólum landsins og rætt við nemendur og kennara. Hefur verið ánægjulegt að heyra, hve margir hafa áhuga á Leonardó-áætluninni og markmiðum hennar. Umræður um alþjóðlegt starf nemenda og kennara eru mun meiri en þegar ég hóf bein afskipti af skólamálum fyrir tæpum fimm árum. Spurningar um stöðu alþjóðafulltrúa í skólum eða framkvæmd á einstökum þáttum í Leonardó-áætluninni hafa komið fram í mörgum skólum og ávallt með jákvæðum formerkjum. Til dæmis var spurt, hvort ég gæti stuðlað að því, að viðurkennt yrði með sérstöku framlagi, að innanlands þyrftu nemendur oft að standa undir töluverðum ferðakostnaði til að komast á alþjóðaflugvöll í heimalandi sínu. Vakti ég máls á þessu atriði sérstaklega, þegar ég ræddi við embættismenn í Brussel í síðustu viku á leið minni til Lissabon. Könnuðust þeir við þessar athugasemdir og eru þær til skoðunar hjá viðeigandi aðilum.

Þátttaka Íslendinga í Leonardó-áætluninni hefur verið mikil frá því að hún kom til sögunnar árið 1995. Alls hafa meira en 500 einstaklingar farið utan undir merkjum áætlunarinnar á síðustu fimm árum, famhaldsskólanemar, ungt fólk á vinnumarkaði, háskólanemar, kennarar og stjórnendur. Þá hefur þátttaka í tilraunaverkefnum skilað góðum árangri. Er ekki vafi á því, að allt þetta starf setur þegar svip sinn á þróun starfsnáms hér á landi. Fellur þátttaka í áætluninni vel að þeim markmiðum að efla veg þessa náms hér eins og annars staðar.

Fjárveitingar til annars hluta Leonardo-áætlunarinnar nema alls um 1150 milljónum evra og er það 30% aukning frá fyrsta hlutanum. Þátttökuríkjunum fjölgar, því að auk ríkjanna á evrópska efnahagssvæðinu bætast nú 13 ríki, sem æskja aðildar að Evrópusambandinu, í hópinn. Stefna Evrópusambandsins er, að við framkvæmd áætlunarinnar verði meiri ábyrgð en áður lögð á skrifstofur í einstökum löndum. Er þetta liður í nýjum starfsháttum innan sambandsins, sem miða að því að auka eftirlit með skynsamlegri ráðstöfun á opinberum fjármunum.

Menntamálaráðuneytið hefur lagt á það ríka áherslu að við framkvæmd annars hluta Leonardó-áætlunarinnar á Íslandi verði samstarf við aðila vinnumarkaðarins og starfsmenntaskóla sem mest og best. Samkomulag varð um að Rannsóknaþjónustu Háskóla Íslands yrði áfram falið að gegna hlutverki landsskrifstofu Leonardó-áætlunarinnar hér, enda hefur starfsemi skrifstofunnar til þessa verið með ágætum.

Reynslan hefur kennt okkur, að skynsamlegt sé, að fulltrúar vinnumarkaðarins og starfsmenntaskóla tengist betur stjórn landsskrifstofunnar. Einnig er ljóst, að tengsl hennar og menntamálaráðuneytisins þurfa að vera í fastari skorðum. Hefur verið tekið mið af þessu við breytingar á stjórn skrifstofunnar á þessum tímamótum. Jafnframt vænti ég mikils af því, að MENNT, samstarfsvettvangi atvinnulífs og skóla, er falið að kynna inntak áætlunarinnar og aðstoða umsækjendur. Má gera ráð fyrir því að þessi breyting hafi í för með sér að kynning verði víðtækari en áður og betur sniðin að þörfum ólíkra hópa þátttakenda. Ég mælist einnig eindregið til þess, að samtök aðila á vinnumarkaði vinni að því með landsskrifstofunni og MENNT að miðla upplýsingum um áætlunina til stjórnenda og starfsmanna fyrirtækja. Fellur það vel að þeirri auknu áherslu á hvers konar starfsmenntun, sem setur svip sinn á gerð kjarasamninga um þessar mundir.

Símenntun og notkun upplýsingatækni setja mikinn svip á annan hluta Leonardó-áætlunarinnar. Getum við Íslendingar sætt okkur mjög vel við þessar áherslur þar sem þær eru í fullu samræmi við þá stefnu á sviði starfsmenntamála, sem hér hefur verið mörkuð. Þegar efnt er til alþjóðlegs samstarfs er mikilvægt að það veiti nýjum straumum inn á samstarfsvettvanginn og einnig að það styðji og auðveldi framkvæmd þeirrar stefnu, sem mótuð hefur verið heima fyrir.

Góðir áheyrendur!

Á þessum tímamótum er rík ástæða til að þakka öllum, sem gert hafa þátttöku Íslands í fyrsta hluta Leonardó da Vinci áætlunarinnar jafn árangursríka og raun ber vitni. Það er til marks um mikinn áhuga, frumkvæði og skilning á framtíðinni, hve margir hafa lagt á sig mikla vinnu til að ná hinum góða árangri okkar Íslendinga í þessu samstarfi.

Sérstaklega þakka ég hið mikla starf sem skólar hafa unnið við að taka á móti nemendum og kennurum. Fyrirtæki og stofnanir þurfa að læra af skólunum í þessu tilliti og auka þekkingu sína og víðsýni með miklu virkari þátttöku í Leonardó-áætluninni. Þátttakan er traust leið til að styrkja innviði fyrirtækja og þar með styrk þeirra í alþjóðlegri samkeppni.

Ef rétt er á málum haldið getum við vænst mikils af þátttöku okkar í öðrum hluta Leonardó da Vinci áætlunarinnar. Megi þessi ráðstefna hér í dag verða sem flestum til gagns og hvatningar til að nýta sér ný og spennandi tækifæri.

Ég segi ráðstefnuna setta.