6.2.2000

Félag íslenskra leikskólakennara 50 ára

Félags íslenskra leikskólakennara, 50 ára,
Borgarleikhúsinu
6. febrúar, 2000

Ég færi Félagi íslenskra leikskólakennara innilegar hamingjuóskir á þessum tímamótum. Jafnframt flyt ég félagsmönnum og forystumönnum leikskólakennara þakkir fyrir gott og ánægjulegt samstarf þau ár, sem ég hef gegnt störfum menntamálaráðherra.

Sameiginlega höfum við unnið að mörgum verkefnum og beitt okkur fyrir miklum umbótum í þágu leikskólanna og þeirra, sem þar starfa. Fullyrði ég, að í ýmsum efnum hafi náðst meiri árangur en við þorðum að vona, þegar ýtt var úr vör.

Menntun leikskólakennara hefur tekið stakkaskiptum. Félag ykkar barðist lengi fyrir því, að kennaramenntun fyrir leikskóla nyti sömu stöðu og menntun kennara í grunnskóla. Árið 1996 heimilaði ég Háskólanum á Akureyri að bjóða nám fyrir leikskólakennara og með því var mikilvægum áfanga náð. Lokaskrefið var síðan stigið með nýjum lögum, sem tóku gildi 1. janúar 1998, þegar Fósturskóli Íslands rann inn í nýjan Kennaraháskóla Íslands. Nú gangast allir leikskólakennarar undir háskólapróf.

Sameiginlega höfum við unnið að því að skilgreina þörfina fyrir fjölgun leikskólakennara. Öll erum við sammála um að hún sé mjög mikil. Breytingar á skólastarfi verða ekki skipulagðar á annan hátt en þann, að sett séu ákveðin markmið og síðan leitast við að ná þeim. Leikskólalögin settu slík markmið og voru samþykkt, þótt vitað væri, að það tæki sinn tíma að fullnægja öllum kröfum þeirra. Framkvæmd laganna hvílir annars vegar á sveitarfélögum og hins vegar á ríkisvaldinu og verður hvor aðili að axla sína ábyrgð, en menntun og námskrárgerð er í höndum ríkisins.

Á þessum vetri er staðan sú, að það innritast færri í leikskólakennaranámið en háskólarnir vilja taka á móti. Það eru því aðrar ástæður en skortur á námsframboði, sem huga ber að, þegar stefnt er að fjölgun leikskólakennara. Er æskilegt, að sátt og samstaða náist um leiðir til að auka áhuga á náminu. Eitt úrræði er að gefa nemendum kost á að ljúka leikskólakennaranámi í áföngum, hafa bæði Kennaraháskólinn og Háskólinn á Akureyri verið að fikra sig inn á þær brautir og hefur Félag íslenskra leikskólakennara tekið virkan þátt í þessu þróunarstarfi.

Við þurfum einnig að ýta undir áhuga framhaldsskólanema á menntun og störfum leikskólakennara. Eðlilegt er, að skipuleggja starfsnám á framhaldsskólastigi, sem beinir nemendum í leikskólakennaranám. Þar þarf einkum að huga að tvennu.

Í fyrsta lagi verða nemendur að hljóta starfsréttindi í leikskólum að loknum skilgreindum námsáfanga. Í öðru lagi verður að skipuleggja námið þannig, að nemendum séu allar leiðir færar að því loknu og geti haldið áfram til stúdentsprófs, ef þeir kjósa.

Er mikilvægt, að Háskólinn á Akureyri og Kennaraháskólinn skilgreini kröfur til þessa stúdentsprófs og þær verði lagðar til grundvallar við skipulag náms til leikskólastarfa í framhaldsskólum.

Oft hef ég rætt við forystumenn leikskólakennara um nauðsyn þess, að sátt náist um eðlilega verkaskiptingu þeirra, sem starfa í leikskólum. Í því skyni beitti ég mér fyrir því, að skipuð var sérstök samstarfsnefnd um leikskólastigið undir forystu menntamálaráðuneytisins þar sem fulltrúar sveitarfélaga og starfsmanna hittast á hlutlausum vettvangi. Vil ég nota þetta hátíðlega tækifæri og hvetja til samkomulags um þessi mál og lýsa yfir vilja mínum til að beita mér fyrir lagabreytingum af þessu tilefni, ef þörf þykir.

Félag íslenskra leikskólakennara hefur ekki aðeins beitt sér fyrir því, að félagsmenn sínir, njóti sem bestra kjara, hljóti góða menntun og staða þeirra innan leikskólanna sé viðurkennd að verðleikum. Félagið hefur einnig lagt áherslu á, að leikskólinn sé viðurkenndur sem fyrsta skólastigið.

Leikskólinn hlaut þá viðurkenningu með ótvíræðum hætti, þegar aðalnámskrá hans var gefin út í fyrsta sinn á síðasta ári.. Færi ég öllum, sem komu að námskrárgerðinni og að kynningu á námskránni í einstökum skólum innilegar þakkir fyrir það mikla starf. Einnig er ástæða til að þakka, hve námskráin hefur hlotið góðar viðtökur, enda tekur hún mið af þeim metnaðarfullu markmiðum, sem leikskólakennarar setja sér í störfum sínum og stuðlar að enn frekari gæðum leikskólastarfs.

Góðir áheyrendur!

Þjóðfélagsgerð okkar er að taka meiri breytingum en við skynjum hvert og eitt. Ræðst mat okkar á breytingunum að sjálfsögðu af aldri okkar, starfsvettvangi og reynslu. Í samræðum mínum við kennara á öllum skólastigum verð ég sífellt meira var við, að þeir telja, að starf sitt verði ábyrgðarmeira með hverju árinu sem líður. Þetta felst ekki í því, að nemendur hafi tekið stakkaskiptum heldur hinu, að ætlast er til að skólinn sinni meira uppeldishlutverki en áður, taki við verkefnum, sem talið var sjálfsagt og eðlilegt að sinna innan veggja heimilanna.

Við breytum ekki þessari þróun heldur bregðumst við henni. Leikskólakennarar gegna hér viðkvæmu og mjög veigamiklu hlutverki. Á leikskólaaldri eiga börn auðvelt með að læra, þau eru opin, næm, móttækileg og fordómalaus. Á þessum mótunarárum barnsins er grunnurinn lagður fyrir allt síðara nám og þroska. Öll viljum við, að þessi grunnur sé traustur og börnin okkar njóti sín í góðu og örvandi umhverfi. Því er starfið í leikskólum svo mikilvægt, bæði inntak þess og framkvæmd. Starfsfólk leikskóla eru fyrirmyndir barnanna og ábyrgðin í samræmi við það.

Ég heiti áfram góðu samstarfi við Félag íslenskra leikskólakennara til að styrkja fyrsta skólastigið. Ég ítreka heillaóskir mínar til félagsins og óska ykkur, ágætu leikskólakennarar, farsældar í störfum.