29.1.2000

Ljósmyndir Sigríðar Zoëga - Hafnarborg

Ljósmyndir
Sigríðar Zoëga,
Hafnarborg, Hafnarfirði,
29. janúar 2000.

Sigríður Zoëga var brautryðjandi í fleiri en einu tilliti. Hún var meðal fremstu íslenskra ljósmyndara á fyrri hluta 20. aldar. Þá var hún af fyrstu kynslóð íslenskra kvenna, sem leituðu sér starfsmenntunar erlendis. Loks var Sigríður í hópi hinna örfáu kvenna, sem lögðu hér út í sjálfstæðan atvinnurekstur á fyrstu áratugum aldarinnar.

Hvert einstakt þessara þriggja atriða, sem mótuðu líf Sigríðar, nægir í raun til að athygli sé vakin á verkum hennar. Er ánægjulegt, að Þjóðminjasafnið og Hafnarborg skuli taka höndum saman við upphaf menningarársins 2000 og gefa okkur kost á að kynnast ljósmyndum Sigríðar. Þær lýsa ekki aðeins handbragði hennar heldur eru einnig merkilegar þjóðlífslýsingar. Þá ber einnig að fagna því, að Æsa Sigurjónsdóttir listfræðingur skuli hafa ritað um ævi og störf Sigríðar í tilefni af sýningunni. Þegar ég skoðaði myndirnar, vakti það ekki síst athygli mína, hve allir eru hátíðlega alvörugefnir á þeim.

Kemur það kannski heim og saman við þá staðreynd, að Íslendingar sýndu ljósmyndun meiri áhuga en ýmsum öðrum nýjungum 19. aldar. Raunar er ljósmyndun tíunduð meðal fárra nýjunga aldarinnar, sem Íslendingar tileinkuðu sér. Það gerðu þeir hins vegar af alvöruþunga, því að fyrir um 100 árum voru átta ljósmyndastofur starfandi í landinu. Þótti iðngreinin eiga bjarta framtíð, sem sést meðal annars á því, að upp úr aldamótunum voru að minnsta kosti þrjú hús reist í Reykjavík með sérstakri aðstöðu fyrir ljósmyndun. Húsin þurftu að vera með stórum gluggum til að dagsbirtan nýttist ljósmyndaranum sem best. Gluggar skyldu snúa í norður til að jafna birtuna, en hún skipti sköpum við framköllun mynda.

Eitt hinna sérbyggðu glæsilegu húsa fyrir ljósmyndastofur stendur enn, það er húsið að Hverfisgötu 18, andspænis Þjóðleikhúsinu. Pétur Brynjólfsson, konunglegur hirðljósmyndari, var þar með stofu sína og þar lærði Sigríður Zoëga. Hún og Steinunn Thorsteinsson keyptu stofuna af Pétri 1915, og í húsinu var lagður grunnur að því farsæla starfi, sem við kynnumst hér á sýningunni. Sjálf valdi Sigríður sér stöðu á bakvið myndavélina og gerði lítið af því að vekja athygli á sér eða starfi sínu á opinberum vettvangi. Þeim mun meira virði er bókin, sem gefin er út í tilefni af þessari sýningu, og síðar í dag verður frumsýnd heimildarmyndin Í gegnum linsuna sem fjallar um Sigríði og gerð er af Grétu Ólafsdóttur og Susan Muska.

Í myndadeild Þjóðminjasafns íslands eru meira en 30.000 glerplötur úr safni Sigríðar. Þær minna okkur á nauðsyn þess, að gæta þessa þáttar í menningararfleifð okkar sem best.

Um þessi aldamót fara menn ekki í sérbyggð hús til að nýta dagsbirtuna við gerð góðra ljósmynda. Nú gerir starfræn tækni okkur kleift að senda myndir samstundis inn á veraldarvefinn eða til birtingar í blöðum og bókum án þess að þær festist nokkru sinni á ljósmyndapappír eða jafnvel filmu. Varðveislugildi mynda er ekki minna nú en fyrr á tímum en við verðum að fara nýjar leiðir til að gæta þessa hluta menningararfleifðarinnar.

Við upphaf nýrrar aldar þarf að huga að þessum leiðum samhliða því sem lögð er rækt við varðveislu gamalla mynda. Tel ég, að metnaðarfullu starfi myndadeildar Þjóðminjasafns hafi verið sköpuð nútímaleg og góð starfsaðstaða í Vesturvör í Kópavogi. Þegar Þjóðminjasafn fær ný og stórbætt tækifæri til sýninga á árinu 2002, verður auðveldara en til þessa að kynna hinn mikla fjársjóð, sem myndadeild þess hefur að geyma.

Sýningin á ljósmyndum Sigríðar Zoëga minnir okkur þannig á, að menning felst ekki aðeins í því að skapa, heldur einnig hinu að virða það, sem vel er gert. Verkefnin við að varðveita menningararfinn eru ótæmandi. Þeim fjölgar sífellt við vaxandi menningarlega grósku.

Megi menning á öllum sviðum halda áfram að dafna!

Ég óska Hafnarborg og Þjóðminjasafni til hamingju með þessa sýningu og lýsi hana opna.