10.11.1995

Aðalfundur HÍK

Ávarp menntamálaráðherra á aðalfundi HÍK
föstudaginn 10. nóvember 1995.

Góðir áheyrendur.

Ég þakka boðið um að koma til fundar við ykkur hér í upphafi aðalfundar HÍK og segja nokkur orð.

Nýlega las ég í dönsku blaði viðtal við Tage Kampmann, sem er kynntur á þann veg, að þar fer kunnur skólamaður í Danmörku. Hugtakið skólamaður gefur til kynna, að um sé að ræða einstakling, sem hefur helgað líf sitt kennslu- og skólamálum bæði af köllun og sem kennari eða skólastjóri. Viðtalið ber með sér, að þetta á við um Tage Kampmann. Hann hefur látið í ljós þá skoðun, að virðing skólans ráðist ekki af fjölda bóka á safni hans eða tölva í skólastofum heldur einkum af framgöngu og geðslagi kennaranna. Hann segir einnig, að kennarar, sem hafi trú á sjálfum sér og á að starf þeirra sé mikilvægt skapi virðingu fyrir skólanum.

Blaðamaðurinn segir, að ummæli Kampmanns séu skýr og einföld og þau séu fjarlæg erlendu orðunum og hinu faglega dulmáli, stofnanamálinu, sem setji svip sinn á útlistanir danska menntamálaráðuneytisins.

Fúslega viðurkenni ég, að kunnátta mín leyfir ekki, að ég ávarpi ykkur á faglegu máli kennara. Vil ég hins vegar minna á, að því hefur verið haldið fram, að menn tileinki sér stéttbundið málfar til að halda öðrum en innvígðum utan við umræðurnar. Raunar segir Kampmann, að í skólamálum eigi þetta langan sögulegan aðdraganda.

Á árum áður hafi kennarinn verið hinn næst best menntaði í byggðalaginu á eftir prestinum. Síðan verði þróunin á þann veg, að menntun kennara síbatni en hið sama eigi við um alla aðra. Á foreldrafundum nú á tímum sé staða kennarans þannig, að helmingur fundarmanna að minnsta kosti hafi meiri eða jafnmikla menntun að baki og kennarinn. Sé á heildina litið séu foreldrar betur að sér en kennarinn á næstum öllum sviðum. Til að treysta stöðu sína við þessar aðstæður grípi kennarinn til stofnana- eða fagmálsins, sem honum einum er tamt og verji sig með kennslufræðilegum útlistunum, sem aðrir skilji ekki og óttist því að ræða.

Stjórnmálamönnum er oft legið á hálsi fyrir að tala stofnanamál, ekki síst þegar efnahags- og kjaramál eru á döfinni. Ég kveinka mér ekki undan slíkri gagnrýni og tel, að síður en svo takist okkur stjórnmálamönnum að koma öllu því til skila, sem að okkur snýr. Stundum grípum við vafalaust til fagmáls okkar í því skyni að fæla aðra frá umræðum um viðfangsefnin, eigum við þó allt undir skilningi á verkum okkar, stefnu og ákvörðunum.

Með þetta viðhorf að leiðarljósi hef ég viljað starfa sem menntamálaráðherra, að ég geti rætt við kennara og forystumenn þeirra í trúnaði og opinberlega um málefni, sem að báðum snýr. Slík samtöl leiða ekki alltaf til sameiginlegrar niðurstöðu, en þau ættu að minnsta kosti að eyða tortryggni og koma í veg fyrir misskilning. Vil ég þakka forystumönnum kennara, hve fúsir þeir hafa verið til slíkra samtala.

Á undanförnum árum hefur verið unnið að mótun menntastefnu. Þess stefnumótandi starfs sjást víða merki. Ný grunnskólalög hafa verið samþykkt og markvisst er unnið að því að hrinda þeim í framkvæmd. Frumvarp að nýjum framhaldsskólalögum hefur verið lagt fram á Alþingi í þriðja sinn og vænti ég þess, að það verði samþykkt á þessu þingi.

Jafnframt hefur menntamálaráðuneytið sent frá sér tillögur til umræðu um "skipan náms á framhaldsskólastigi". Hér er um að ræða tillögur sem eiga að stuðla að hagræðingu og auka skilvirkni í starfi framhaldsskólanna. Forsendur árangursríks skólastarfs eru skýr markmið námsins, góð aðstaða og hæfir kennarar. Sérhæft nám gerir kröfur um sérhæfða og dýra aðstöðu sem ekki er kostur að byggja upp á mörgum stöðum á landinu. Í mörgum tilvikum er einnig skortur á kennurum með full réttindi og nemendafjöldi er lítill í mörgum greinum og þetta gerir það að verkum að ekki er hægt að starfrækja námið nema á fáum stöðum. Ákveðin verkaskipting og aukin sérhæfing skóla er því nauðsynleg til þess að vega upp á móti þessum þáttum og ná fram sem bestri nýtingu þeirrar aðstöðu sem völ er á.

Ég geri mér grein fyrir því að skiptar skoðanir eru um þessar tillögur og að hér er um mjög viðkvæm mál að ræða. Undan þeim verður þó ekki vikist og vona ég, að umræðan og breytingar í framhaldi af henni leiði til aukinnar hagræðingar og skilvirkni í skólastarfi.

Í skýrslu nefndar um mótun menntastefnu, sem birtist í júní 1994 segir meðal annars: "Kennarar þurfa að vera reiðubúnir að takast á við síbreytilegar kröfur samfélagsins til skóla og menntunar og gegna leiðandi hlutverki í að skilgreina kröfur til góðrar skólastofnunar og þar með til sjálfra sín sem fagmanna."

Ennfremur segir í skýrslunni: "Með kröfunni um aukin tengsl skóla og samfélags standa kennarar frammi fyrir því að veita upplýsingar um eigið starf, m.a. með samræðum við aðila utan skólans s.s. foreldra og aðila atvinnulífs. Á þeim vettvangi skapast tækifæri til að kynna almenningi fagleg sjónarmið í kennslu og afla kennarastarfinu aukinnar virðingar."

Loks vitna ég til þessara orða úr skýrslunni: "Fyrirsjáanlegt er að kröfur til kennarastarfsins munu aukast verulega á komandi árum samfara stóraukinni þekkingu á eðli náms og kennslu, víðtækri þróun á sviði fjarskipta og tæknimála ýmiss konar og auknum samskiptum þjóða í milli. Grunnmenntun kennara þarf að taka mið af breyttum tímum, m.a. hvað varðar hlutverk kennara, og endurmenntun þarf að vera fastur liður í starfi hvers kennara."

Af þessu má ráða, að kröfur til kennara minnka ekki heldur breytast og vaxa. Bráðlega verður gengið til þess verks að móta texta í lagafrumvarpi um uppeldisháskóla. Málið hefur verið til úrvinnslu um nokkurra missera skeið og er nú að komast á það stig, að frumvarpsdrög verða smíðuð. Ég hef viljað stuðla að markvissum framgangi málsins án þess þó að hafa enn tekið afstöðu til einstakra álitamála. Jafnframt liggur fyrir, að til lítils er að flytja eða réttara sagt samþykkja frumvarp um Uppeldisháskóla Íslands án þess að teknar séu ákvarðanir um nýja mannvirkjagerð á svæðinu frá Stýrimannaskólanum að Kennaraháskólanum, þar sem uppeldisháskólanum er ætlaður staður.

Í ráðuneytinu er hafin vinna við að endurskoða "lög um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra" frá 1986. Í bráðbirgðarákvæði þessara laga er ákvæði um að þau skuli endurskoðuð innan fjögurra ára frá gildistöku þeirra. Það var í sjálfu sér gert 1990 og var þá lagt fram frumvarp til nýrra laga sem ekki náði fram að ganga. Það er því fyrir löngu kominn tími til að þessi lög verði endurskoðuð ekki síst með tilliti til þess að fram hafa komið ýmsir vankantar við framkvæmd þeirra.

Að ósk fulltrúa kennarafélaganna og fjármálaráðuneytis í samstarfsnefnd þessara aðila um kjaramál hefur menntamálaráðuneytið samþykkt breytingar á námsmatsnefnd. Hún verður framvegis skipuð einum fulltrúa tilnefndum af kennarafélögunum, öðrum af fjármálaráðuneyti og formanni tilefndum af menntamálaráðuneyti. Þarf þá ekki tvær nefndir eins og nú er samkvæmt kjarasamningum. Með þessari breytingu er stefnt að því að auðvelda samræmt námsmat, sem er mikilvægt eftir að grunnskólinn flyst til sveitarfélaganna.

Í tengslum við svonefnda verkefnaáætlun ríkisstjórnarinnar, sem væntanlega verður kynnt á næstunni, hef ég látið taka saman sérstakan verkefnalista fyrir menntamálaráðuneytið. Þar er leitast við að skilgreina viðfangsefni ráðuneytisins og áherslur í starfi þess á þessu kjörtímabili. Er það markmið mitt, að þessi listi verði birtur, þegar verkefnaáætlun ríkisstjórnarinnar hefur verið kynnt.

Að mínu mati verður endurskoðun námskrár fyrir grunnskóla og framhaldsskóla stærsta nýja verkefnið á sviði menntamála á kjörtímabilinu. Verður stefnt að því að ljúka námskrárgerðinni. Í námskrá verði skýr markmið, þannig að öllum sé ljóst að hverju er stefnt með kennslunni og hvaða kröfur eru gerðar til nemenda. Þá verður stefnt að því að tryggja samfellu í námi nemenda milli grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla og samræma námssvið þar sem það á við. Námskrá miðlar mikilvægum upplýsingum um skólastarf, ekki aðeins til nemenda og kennara, heldur einnig til aðstandenda nemenda, atvinnulífs og alls samfélagsins.

Góðir áheyrendur!

Skólarnir eru fjölmennustu vinnustaðir þjóðarinnar. Þið haldið uppi virðingu þeirra, eruð þar verkstjórar og til ykkar er litið, þegar hugað er að framförum þeirra, sem þið kennið. Mikið er í húfi, þegar litið er til árangurs af starfi ykkar. Ekkert er neinni þjóð dýrmætara en æska hennar og að hún komist til nokkurs þroska.

Í þessum orðum mínum hef ég lagt áherslu á nauðsyn þess, að skólastarf fari fram fyrir opnum tjöldum og upplýsingar um það og stefnu stjórnvalda séu öllum skiljanlegar. Mikilvægt er að góð samstaða og samvinna sé milli ráðuneytis, skóla og ekki síst kennara. Aðeins með skilningi á störfum okkar og stefnu tekst að afla þess stuðnings meðal þjóðarinnar allrar, sem skólunum er nauðsynlegur til að eflast og styrkjast. Megi það vera sameiginlegt markmið okkar að auka þennan skilning.