30.9.1995

Ávarp á málþingi tungumálakennara

Ávarp Björns Bjarnasonar, menntamálaráðherra á málþingi STÍL og Stofnunar í erlendum tungumálum
í Kennaraháskóla Ísland, 30. september 1995.

Ég þakka boð ykkar og tækifærið, sem þið gefið mér hér í dag til að koma á framfæri hugleiðingum um tungumálakennslu í íslenska skólakerfinu.

Sjálfur gekk ég í gegnum þetta kerfi fyrir rúmum þrjátíu árum. Í Menntaskólanum í Reykjavík var latína þá í hávegum höfð og tengdi menntun okkar langt aftur í aldir, þegar enginn var talinn menntamaður nema hann gæti lesið latneskan texta. Auk þess lærði ég dönsku, ensku, frönsku og þýsku. Kennslan var einkum fólgin í því að lesa miserfiða texta og brjóta málfræðina til mergjar.

Að loknu háskólanámi í lögfræði fór ég ekki til framhaldnáms við erlenda háskóla og hef því aldrei haft tækifæri til að tileinka mér erlent tungumál með því að vera langdvölum í útlöndum. Þó get ég ekki látið undir höfuð leggjast að geta þess, að fimm árum eftir stúdentspróf og að loknu fyrri hluta prófi í lögfræði fór ég til Brussel og dvaldist þar í nokkra mánuði. Meðal þess sem ég gerði var að sækja 8 vikna námskeið í frönsku fyrir útlendinga við háskólann í Brussel. Til að komast inn á námskeiðið þurfti að fara í stöðupróf og kveið ég því nokkuð, enda ekki litið í neinar kennslubækur eða haft tækifæri til að nota frönsku frá því að náminu lauk í MR. Í þessu prófi og á námskeiðinu í Brussel sannfærðist ég um, hve trausta undirstöðu í franskri málfræði og skilningi á flóknum texta ég hafði fengið í tungumálanámi mínu. Á hinn bóginn blasti við mér við dagleg úrlausnarefni í Brussel, að ég hafði lært harla lítið, sem laut að því að fara í verslanir eða glíma við hversdagsleg viðfangsefni í mannlegum samskiptum.

Í ávarpi, sem ég flutti í upphafi nýlegrar ráðstefnu á Akureyri um gæðastjórnun í skólakerfinu, vitnaði ég í bók eftir breskan blaðamann, um þróun og stefnu fram til ársins 2020. Þar segir hann, að í skólum séu notuð sömu vinnubrögð við kennslu og fyrir 150 árum. Þar hljóti að verða breyting á tímum nýrrar upplýsingatækni.

Fyrr í þessari viku var ég á fundi vísinda- og tæknimálaráðherra OECD-ríkjanna í París. Þar var hollenskur prófessor meðal ræðumanna. Hann kvað svo fast að orði að segja, að í skólum væri að finna einu starfsaðferðirnar, sem ekki hefðu breyst frá miðöldum. Hann færi af skrifstofu sinni, þar sem hann væri tengdur við umheiminn í gegnum síma, tölvu og fjölmiðla, inn í skólastofu, sem væri friðhelgur staður fyrir öllu ytra áreiti og messaði yfir nemendum sínum á eigin forsendum og ótruflaður, þeir tækju við boðskapnum og ættu ekki kost á öðru.

Á ráðherrafundinum var meðal annars rætt um það, hvernig tengja ætti þróunar- og vísindastarf við þjóðlífið í heild; háskólar yrðu að vera hluti af umhverfi sínu, þótt ekki mætti koma í veg fyrir, að þeir sinntu verkefnum sem hefðu aðeins gildi innan veggja þeirra.

Hvaða erindi á þessi boðskapur á fund ykkar ágætu tungumálakennara? Fyrir mér vakir að draga fram þá staðreynd, að kennsla þarf í senn að leggja traustan grunn og einnig vera hagnýt. Í mínum huga er góð tungumálakennsla eitt mikilvægasta framlag íslenska skólakerfisins til að búa þjóðina undir framtíðina.

Við eigum erfitt með að setja okkur í sömu spor og sá, sem nú gengur sex ára í fyrsta sinni í íslenskan skóla, engu að síður berum við ábyrgð á því, að 15 árum síðar, eða árið 2010 geti hann nýtt þekkingu sína sjálfum sér og þjóðinni allri til góðs. Við sjáum í hendi okkar, að þetta getur hann alls ekki án þekkingar í erlendum tungumálum. Hún er að mínu mati lykillinn að því, að nemandinn lendi ekki á blindgötu, sama hvaða nám eða starf hann tekur sér fyrir hendur.

Á fyrrgreindum ráðherrafundi komu fram áhyggjur af því, að í mörgum löndum, sem við teljum standa okkur framar í tækni og vísindum, væri ekki nægilegur áhugi hjá námsmönnum á að fara í tækni- og vísindanám. Þeir, sem ekki tileinkuðu sér tæknina eða þekkingu á henni, stæðu höllum fæti. Að mínu mati á hið sama við hér á landi, þegar tungumálakunnátta er til umræðu.

Þörfin fyrir færni í beinum samskiptum manna er miklu ríkari nú en áður, þegar lestrarfærni í erlendum tungumálum var aðalatriðið. Breyttir tímar, minni heimur, aukin samskipti og ný tækni hlýtur að hafa áhrif á inntak kennslunnar. Góð menntun tungumálakennara er því mjög mikilvæg.

Í menntun grunnskólakennara í KHÍ, þar á meðal tungumálakennara, er sérhæfing í kennslugrein mjög lítill hluti heildarnámsins. Nauðsynlegt er að gerðar séu breytingar á þessu, ef vel á að takast til með kennslu erlendra mála í grunnskólum.

Samstarf Evrópuþjóða á sviði menntamála er í sífelldri þróun. Sókrates-áætlunin er nýjasta dæmið um það, hún opnar nýjar leiðir með undiráætlunum Lingua, Comeniusi og Erasmusi. Þær nýtast ekki nema með góðri tungumálakunnáttu.

Evrópuþjóðir leggja nú mikla áherslu á kennslu í erlendum tungumálum vegna aukins samstarf þessara þjóða og hugmynda annarra um Evrópuvíddina svonefndu. Víða er verið að endurskoða kennaramenntun í þessu sambandi. Einnig á þessu sviði verðum við Íslendingar að standast samanburð og aðeins taka mið af því besta.

Íslensk fyrirtæki eru að færa út kvíarnar með fjárfestingu erlendis, til dæmis í Chile og Mexíkó, svo að dæmi sé tekið af Granda hf. Sú ákvörðun krefst þess, að einhverjir íslenskir starfsmenn fyrirtækisins tileinki sér spænsku. Fleiri sambærileg dæmi má nefna. Í Háskóla Íslands hefur viðskiptadeild brugðist við auknum kröfum viðskiptalífsins um málakunnáttu með því að taka upp tungumálakennslu.

Nýlega kom út frönsk-íslensk orðabók með stuðningi stjórnvalda hér og í Frakklandi. Góðar og nútímalegar orðabækur eru ekki aðeins tæki til að læra tungumál eða flytja þekkingu frá einu máli yfir á annað heldur einnig til að þróa íslenska tungu. Við orðabókargerð glíma menn við vandamál, sem tengjast þróun málsins og menningarinnar. Hið sama á við um tungumálakennslu, þess vegna er nauðsynlegt að menningarleg markmið hennar séu háleit um leið og nemendum er afhent tæki, sem þeir geta nýtt sér í daglegu lífi.

Ég vona, að málþingið, sem nú er að hefjast eigi eftir að verða þátttakendum í því til gagns og ánægju og góðra áhrifa þess gæti um allt skólakerfið og þar með þjóðlífið.