10.8.1995

Ljós úr norðri - ávarp í Listasafni Íslands

Ávarp við opnun norrænu sýningarinnar Ljós úr norðri - Listasafni Íslands
10. ágúst 1995

Forseti Íslands,
forsætisráðherrar Íslands og Danmerkur og frúr,
sendiherrar,
aðrir virðulegir gestir.



Ljós úr norðri - Skyldi þetta vera þversögn fyrir alla aðra en þá, sem búa, þar sem sólin skín stundum úr þessari höfuðátt. Eða eru listaverkin, sem umkringja okkur norðlægir geislar, sem lýsa og verma? Víst er, að sýningin, Ljós úr norðri, sem forseti Íslands opnar hér í kvöld, hefur að dómi hæfustu manna aukið álit alþjóðlegra listfræðinga á norrænni myndlist.

Norræna ráðherranefndin hleypti svipaðri sýningu og þessari af stokkunum 1982 á norrænu menningarhátíðinni í Bandaríkjunum, Scandinavia Today. Síðan hefur hún farið víða, síðast á Spáni. Sýningar sem þessi hafa ekki aðeins gildi til að kynna Norðurlöndin út á við. Þær stuðla einnig að ómetanlegu samstarfi safna á Norðurlöndunum.

Ef eitt orð ætti að duga til að lýsa því, sem fyrir augu okkar áhorfenda ber, færi best á að segja: Fegurð.

Í eigulegri og fróðlegri sýningarskrá kemst einn höfunda svo að orði, að málverkin veki hugrenningar um kyrrð og vonir. Ýmsir telja að slíkar hugsanir eða jafnvel fegurðin sjálf eigi undir högg að sækja, þegar rætt er um myndlist samtímans. Þannig segir hinn virti, aldurhnigni, franski listmálari Balthus í nýlegu og einstæðu viðtali við Parísarblaðið le Figaro, að listin hafi tapað hlutverki sínu og gildi í iðnaðar samfélögum líðandi stundar, þar sem skortur sé á fegurð, andagift og frelsi. Nú telji listamenn sig þurfa að túlka einhvern boðskap og þess vegna snúist listin um stríð, fátækt, niðurlægingu, ofbeldi, kynþáttahatur, rétt til fóstureyðinga og alnæmi. Telur Balthus hins vegar óvíst, hvort hin listræna meðferð sé betri en meinsemdin sjálf.

Hér er á þetta minnt, því að varla lá það í augum uppi, hvaða tímabil myndlistar yrði valið, þegar norræn stjórnvöld tóku höndum saman um þessa sýningu. Mörg önnur tímabil hljóta að hafa komið til álita. Hafi listin þróast á þann veg frá aldamótum, að vandamál líðandi stundar ráði meiru en kyrrð og vonir, ættu sýningar eins og þessi að vera á undanhaldi. Undirtektir sýningargesta hafa þó alls ekki gefið til kynna, að þeim þyki lítið um listaverkin. Hér á landi kemur vonandi hið sama í ljós.

Frá því að aldamótverkin voru unnin hafa stjórnmálastefnur og stjórnmálamenn leikið listina grátt, ekki síst í okkar heimshluta. Dæmin úr einræðisríkjum nasisma og kommúnisma eru víti til að varast. Þúsund ára ríki hafa hrunið á nokkrum árum eða áratugum. Stjórnmálakerfi deyja en listin lifir. Þetta ættum við stjórnmálamenn að hafa í huga, um leið og við viðurkennum gildi listarinnar í verki. Sagnir um bókabrennur og tilraunir til að kúga listamenn eða útiloka listaverk loða lengur við stjórnmálamenn, en það annað, sem þeir sjálfir telja sér yfirleitt til framdráttar.

Listina má hvorki einangra frá straumum samtímans né á hún að þróast án áreitis. Menningarleg einangrun hefur reynst okkur Íslendingum hættulegri en áraun vegna alþjóðlegra strauma. Sýningar eins og þessi veita ekki aðeins tækifæri til að kynnast list annarra þjóða heldur einnig til að bera hana saman við hið besta hjá okkur sjálfum. Gagnvart öðrum þjóðum eykur það síðan slagkraftin, þegar Norðurlöndin öll bjóða þeim sameiginlega að kynnast því besta hjá sér.

Sýningin Ljós úr norðri endurspeglar ekki aðeins birtu aldamótaáranna síðustu. Boðskapur hennar á að vera okkur leiðarljós við þau aldamót, sem óðum nálgast. Við þurfum miklu frekar nú en þá áminningu um að stíga létt til jarðar í hinni fögru birtu og njóta þess af umhyggju, sem náttúran býður.

Það er okkur Íslendingum mikið fagnaðarefni að fá nú í fyrsta sinn tækifæri til að sjá úrval af norrænni málaralist aldamótaáranna, hér á landi. Ég óska Listasafni Íslands til hamingju með sýninguna.