10.12.1996

Raungreinanám - málþing

Menntun til framtíðar
Málþing Félags raungreinakennara og Verkfræðingafélags Íslands um stefnu og úrbætur í raungreinakennslu Norræna húsið
10. desember, 1996.

Góðir fundarmenn!

Fyrir tæpu ári sat ég alþjóðlegan fund menntamálaráðherra í Jerúsalem. Þar skiptust menn á skoðunum um markmið þjóðanna í menntamálum. Minnist ég þess sérstaklega, hve ráðherrar Singapore og Ísraels lögðu mikla áherslu á kennslu í vísindum og tækni. Í ríkjunum hefði verið gert sérstakt átak til þess að efla fræðslu á þessu sviði.

Nýlega var birt niðurstaða úr fjölþjóðlegri rannsókn á námsárangri nemenda í stærðfræði og náttúrufræðigreinum, TIMSS, sem er skammstöfun fyrir Third International Mathematics and Science Study. Er þetta viðamesta og sennilega vandaðasta samanburðarrannsókn á menntakerfum heimsins.

Í þessari könnun voru nemendur frá Singapore í fyrsta sæti og Ísraelar urðu ofar en við Íslendingar, þótt ekki sé unnt að segja, að þeir séu í fremstu röð. Þegar ég sá þennan árangur þessara tveggja þjóða, minntist ég þess, sem ráðherrar þeirra höfðu sagt á Jerúsalem-fundinum: Þótt við leggjum þessa áherslu á tækni og vísindi í almennu skólanámi, dregur ekki úr áhuga stúdenta á því að leggja stund á gamalgrónar greinar eins og lögfræði og læknisfræði, ef eitthvað er, hefur ásókn í þessar greinar frekar aukist heldur en hitt.

Töldu þeir, að sjónvarpsþættir eins og um lögfræðinginn Matlock eða spennandi myndir um áhrifamikla lækna, frægð þeirra , frama og góð kjör, hefðu meiri áhrif á námsmenn að lokum en áhersla í námskrá á grunnskólaárum. Til að auka áhuga á námi í verkfræði, væri því kannski best að gera góða sjónvarpsþætti um ævintýri við virkjana- eða gangagerð.

Góðir áheyrendur!

Ég rifja þetta ekki upp hér til að draga athygli frá þeirri staðreynd, að við Íslendingar fórum ekki vel út úr fyrrgreindri TIMSS-rannsókn. Hins vegar geri ég það til að minna á, að stefnumótun í skólakerfinu, ræður því ekki endilega að lokum, hvað nemendur ákveða. Jón Torfi Jónasson prófessor hefur bent á þetta í sambandi við verknám. Fjöldi nemenda í því ræðst af öðru en yfirlýsingum stjórnmálamanna, ákvæðum í lögum eða fjárveitingum.

Námsmenn setja traust sitt á annað en lög og reglugerðir, þegar þeir velja sér námsbrautir. Líklegt er, að atvinnuauglýsingar eða óskráðir straumar í þjóðfélaginu ráði meiru um gjörðir þeirra en það, sem segir í Stjórnartíðindum. Vísbendingar frá vinnuveitendum eru þyngri á metunum en holl ráð námsráðgjafa. Minnumst þess í því samhengi, að tæplega 70.000 manns eru hér á almennum vinnumarkaði án annars en grunnskólamenntunar. Hins vegar eru aðeins um 17.000 manns með háskólamenntun.

Þó að fleiri þættir en námskrá og skipulag skólastarfs hafi áhrif á menntun nemenda er það skylda menntamálayfirvalda hverju sinni að taka mið að þeim könnunum sem gerðar eru á árangri í skólastarfi. Á þessu stigi er of fljótt að slá því föstu til hvaða aðgerða þarf að grípa til að bæta stærðfræði- og raungreinaþekkingu íslenskra nemenda. Eftirtalin atriði eru meðal þeirra sem nefnd hafa verið:

Formaður Félags raungreinakennara er í hópi þeirra, sem hafa sagt að það þurfi að endurskoða kennaramenntun. Kennaranám er styttra hér en annars staðar. Fyrir 1998 þarf lögum samkvæmt að taka ákvörðun um, hvort það skuli lengt. Er þá ástæða til að leggja sérstaka áherslu á faggreinakennslu. Ætti til dæmis að gefa mönnum tækifæri til að velja frekara nám í uppeldis- og kennslufræðum, eftir að einstakar faggreinar hefðu fengið meira rými en nú á fyrstu þremur skylduárunum?
Öllum er okkur ljóst, að góð menntun, einnig sérmenntun, er lykill að mörgum störfum. Hitt er jafnljóst, að sum störf verða ekki unnin nema af þeim, sem hlotið hafa til þess sérstaka menntun. Með þetta í huga hefur verið talið, að kennarar þyrftu að læra uppeldis- og kennslufræði til að vera hæfir til sinna starfa. Lögverndun kennararstarfsins byggist á kröfu um, að slíku námi hafi verið lokið og búið hefur verið til kerfi til að knýja menn til að fullnægja þeim lagaskilyrðum.
Unnt er að færa fyrir því rök, að nauðsynlegt hafi verið að hafa ríka kröfu um kunnáttu í uppeldis- og kennslufræðum í lögum, á meðan verið var að festa þessi fræði í sessi og innræta tilvonandi kennurum gildi þeirra. Einnig hafi þröskuldurinn þurft að vera hár í fyrstu til að árétta hina sérstöku, lögvernduðu stöðu kennara. Ég tel, að þessi tími sé liðinn. Það sé tímabært að auka kunnáttu kennara í þeim fögum, sem þeir ætla að kenna, á kostnað uppeldisfræðinnar. Er til dæmis augljóst að auka verður áhuga kennara á þeim fögum, sem gera mönnum kleift að ganga í Félag raungreinakennara.
Í ljósi þessa þarf einnig að huga að því að gera lögverndun kennarastarfsins sveigjanlegri en nú er. Lækka má þröskuldinn fyrir þá, sem hafa mikla sérþekkingu í ákveðnum greinum.
Nefnt hefur verið að námsaðgreining þurfi að vera ríkari, t.d. með auknu vali nemenda þar sem tekið er tillit til getu.
Fyrirkomulag námsbókaútgáfu verði endurmetið. Sérstaklega þarf að kanna námsbækur og athuga hvort þær geri nemendum kleift að stunda sjálfstætt nám og hvort nemendum gefist kostur á að fara eins langt og þeir hafa forsendur til.
Fleiri úrbætur má nefna en ég tel ekki tímabært að tekin verði endanleg afstaða til þeirra nú þegar. TIMSS gögnin undirstrika að það eru engin einföld svör við því hvaða þættir geti bætti árangur íslenskra nemenda í raungreinum. Í gögnunum er að finna mun meira af upplýsingum en nú hafa verið gerðar opinberar. Að sögn forsvarsmanna hjá Rannsóknastofnun um uppeldis- og menntamál ætti slík greining að geta legið fyrir innan hálfs árs eða 9 mánaða ef vel gengur.

Þó er mikilvægt að við sitjum ekki auðum höndum á meðan beðið er eftir þeim niðurstöðum. Nú þegar er hafin vinna við verkefni í menntamálaráðuneytinu sem eiga að styrkja stöðu íslenskra nemenda.

Hafin er endurskoðun á aðalnámskrám grunnskóla og framhaldsskóla en gert er ráð fyrir að þeirri vinnu ljúki sumarið 1998. Er þetta í fyrsta sinn, sem þessi tvö skólastig eru felld saman við námskrárgerð. Það eitt gefur ný tækifæri til skynsamlegra úrræða. Hitt er þó ekki síður mikils virði, að við þetta starf nýtast niðurstöður í hinni nýlegu rannsókn á námsárangri í stærðfræði og náttúrufræðigreinum.

Þá hafa verið stigin fyrstu skrefin til aukins samræmds námsmats hér á landi. Ég vil hleypa fleiri slíkum verkefnum af stokkunum. Verður hugað að því að koma á laggirnar vinnuhópi, sem metur með hvaða hætti eigi að bregðast við niðurstöðum TIMSS rannsóknarinnar. Eitt af því sem í fljótu bragði blasir við er þörf á meiri endurmenntun kennara. Er ósk um aukningu endurmenntunar meðal þess, sem kennarar hafa kynnt í viðræðum um nýjan kjarasamning.

Í öllum þessum umræðum megum við aldrei gleyma hvert meginmarkmiðið er. Það er að styrkja stöðu íslenskra nemenda og bæta menntun þeirra. Hvort sem nemendur leggja fyrir sig raungreinastörf eða gerast lögfræðingar, er augljóst, að vísindamenntun er sérstaklega vel fallin til þess að efla gagnrýna hugsun, ályktunar- og greiningarhæfni, skipulagshæfileika og agaða meðferð upplýsinga. Í alþjóðlegri lestrarrannsókn, sem Íslendingar tóku þátt í fyrir nokkrum árum, kom í ljós, að þrátt fyrir góðan árangur á lestrarprófum miðað við aðrar þjóðir, áttu íslenskir unglingar erfitt með að nýta sér upplýsingar, sem settar voru fram í töflum og línuritum.

Án þekkingar í raungreinum eru menn einnig ófærir um að skilja umhverfi sitt, gang himintungla eða greina uppruna sinn og stöðu í alheiminum. Fari menn á mis við þetta kunna þeir ekki heldur réttar aðferðir til að njóta þess, sem náttúran hefur að bjóða, þeir fjarlægjast uppruna sinn og átta sig ekki á nauðsyn þess að sýna umhverfi sínu umhyggju.

Þeir, sem að þessum málum vinna, eiga ekki að fara í grafgötur um vilja minn til þess, að í starfinu verði brotið í blað. Fagna ég öllum raunhæfum tillögum til úrbóta. Einnig er mér kappsmál, að menntamálaráðuneytið skilgreini starfsemi sína í ríkari mæli á þann hátt, að þar sé veitt þjónusta við sjálfstæðar skólastofnanir, haft eftirlit með þeim og veittar upplýsingar um árangur, sem stefni að skilgreindum markmiðum.

Ég minni á kjarna máls míns á menntaþingi 5. október síðastliðinn, að almennt sé menntun ekki í hávegum höfð hér á landi. Hvað sem líður yfirlýsingum um hið gagnstæða, er enn mikið starf óunnið í því skyni að hefja menntun til þess vegs, sem henni ber. Af dagskrá þessa málþings má auðveldlega ráða, að fundarboðendur átti sig á gildi menntunar. Ég vona að árangurinn verði í samræmi við það.