2.1.1999

Tónlistarhús Kópavogs

Björn Bjarnason:
Tónlistarhús Kópavogs
2. janúar 1999

Gleðilegt og farsælt nýtt ár!

Áramót eru tími heitstrenginga. Hið sama á við um stórviðburði, sem marka þáttaskil. Á slíkum stundum er gott að staldra við og meta, hvað er heilladrýgst. Mestu skiptir að leyfa kærleika, bjartsýni og framtakssemi að njóta sín.

Við byggingu þessa glæsilega húss, Tónlistarhúss Kópavogs, hefur óbifanleg bjartsýni og framtakssemi sannarlega notið sín og skilað einstökum árangri á undraskömmum tíma.

Framkvæmdin hefur einkennst af kærleika, einlægri þörf fyrir að búa sem best að tónlistinni. Þeirri list, sem kallar á flesta flytjendur og áheyrendur allra listgreina í landinu.

Íslensk tónlistarsaga sýnir, að stórviðburðir setja sterkan svip á hana. Þeir skilja eftir sig skýr spor.

Á þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar 1874 var þjóðsöngur okkar við lag Sveinbjörns Sveinbjörnssonar tónskálds sunginn í fyrsta sinn. Þá léku lúðrasveitir einnig í fyrsta sinn á Íslandi, undir berum himni til heiðurs Kristjáni konungi níunda. Ári síðar kom fyrsta nótnaheftið út í landinu og tveimur árum síðar var fyrsta íslenska lúðrasveitin stofnuð.

Á alþingishátíðinni 1930 var frumflutt, undir berum himni á Þingvöllum, mesta tónverk, sem fram til þess tíma hafði heyrst eftir nokkurn Íslending, Alþingishátíðarkantata dr. Páls Ísólfssonar.

Í ár eru rétt sextíu ár liðin frá því að Tónlistarfélagið undir forystu eldhugans Ragnars í Smára efndi til merkasta tónlistarviðburðar í sögu þjóðarinnar til þess tíma. Þá stjórnaði Páll Ísólfsson flutningi á Sköpuninni eftir Joseph Haydn í Bílaskála Steindórs við Selsvör. Nefndu menn skálann Forum Steindorum í tilefni af því að tæplega 2000 manns komu þangað til að hlusta á 70 manna kór, einsöngvara og Hljómsveit Reykjavíkur.

Síðan hafa mörg stórvirki verið unnin, því að Íslandssaga síðustu áratuga geymir með öðrum orðum upphaf þess, að Íslendingar kynntust meistaraverkum tónlistarinnar, eignuðust velmenntaða tónlistarmenn, tónskáld, hljóðfæraleikara, einsöngvara, hljómsveitir og kóra. Fyrst var tónlistin flutt undir berum himni síðan í kirkjum, bílaskálum, kvikmyndahúsum og íþróttahöllum.

Við lok tuttugustu aldar eigum við tónlistarmenn, sem bera hróður íslensku þjóðarinnar um víða veröld. Til þessa dags, 2. janúar 1999, hefur okkur þó skort sérhannað hús fyrir tónlistina.

Mesta nautn tónlistarunnandans felst enn í því að komast í návígi við flytjendur, sjá og heyra lifandi túlkun, þegar tekist er á við verk meistaranna og þau flutt, hvert með sínum hætti. Það er ekki fyrr en í dag, sem komið er til móts við þessar óskir hins mikla fjölda tónleikagesta með sérsmíðuðum sal Tónlistarhúss Kópavogs.

Eru öllum, sem að verkinu hafa komið, fluttar innilegar hamingjuóskir. Sérstaklega vil ég nefna Jónas Ingimundarson, píanóleikara og tónlistarráðunaut Kópavogs. Honum hefur tekist að virkja hinn alkunna frumkvæðis- og framkvæmdavilja stjórnenda Kópavogsbæjar í þágu tónlistarinnar. Húsið, sem þeir hafa hér reist, mun bera hróður bæjarins víða og kalla á marga til að flytja tónlist og njóta hennar.

Góðir áheyrendur!

Öllum er okkur ljóst, að þetta ágæta hús verður ekki heimili Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Undanfarin misseri hefur menntamálaráðuneytið, í umboði ríkisstjórnarinnar, haft frumkvæði að skipulegum og vönduðum undirbúningi að smíði húss fyrir sinfóníuhljómsveitina. Þannig hefur ríkisvaldið í fyrsta sinn tekið virkan og skuldbindandi þátt í því að láta hinn gamla draum um stórt tónlistarhús rætast. Verður brátt skýrt frá næsta áfanga vegna þess mikla mannvirkis.

Með því að ráðast í smíði Tónlistarhúss Kópavogs hafa forráðamenn bæjarins slegið nýjan tón.

Á nýrri öld verðum við að láta hendur standa fram úr ermum við mannvirkjagerð og búa tónlist og öðru menningarstarfi viðunandi aðstæður í öllu tilliti. Allar athuganir sýna, að menntun og menning eru með blómlegu og fjölbreyttu atvinnulífi bestu forsendur byggðar og búsetu um landið allt. Íslenska þjóðfélagið sjálft stenst raunar ekki samkeppni við nágranna sína austan og vestan Atlantshafs nema við búum tónlistarmönnum og öðrum listamönnum viðunandi starfsaðstöðu. Við eigum að setja okkur skýr markmið um tónlistar- og menningarhús. Svo vel hefur tekist til við stjórn efnahags- og þjóðmála á síðasta áratug tuttugustu aldarinnar, að við höfum alla burði til að tryggja stöðu okkar með nýjum menningarmannvirkjum.

Við þessi áramót óskum við Kópavogsbúum til hamingju með glæsilegt tónlistarhús. Megi það verða til að efla bæ þeirra, tónlistarlíf hans og menningu. Megi það einnig leiða til vakningar á borð við það, sem varð á hátíðunum miklu 1874 og 1930 í þágu tónlistarinnar.