6.10.1996

Fósturskóli Íslands 50 ára

Fósturskóli Íslands 50 ára
ávarp í Háskólabíói 6. október 1996.

Barnavinafélagið Sumargjöf sýndi mikla framsýni á árinu 1946, þegar það stofnaði fóstruskóla. Þá störfuðu hér 5 leikskólar í þremur kaupstöðum. Nú eru leikskólarnir 245 í 89 sveitarfélögum.

Þessi þróun endurspeglar mikla breytingu á íslensku þjóðfélagi á þessum 50 árum. Atvinnuhættir eru aðrir en áður og afstaðan til menntamála hefur breyst.

Menntamálaráðuneytið sendi á fimmtudag frá sér tölfræðihandbók um menntun og menningu á Íslandi. Þar kemur fram, að frá 1981 til 1994 fjölgaði leikskólabörnum um 85%. Tölurnar sýna jafnframt, að á sama tíma hefur svonefndum “heilsdagsbörnum" fækkað á hvert stöðugildi í leikskólum úr 5,9 árið 1981 í 4,4 árið 1994. Vakti þessi tala sérstaka athygli blaðamanna, þegar við kynntum bókina. Hún kveikir einnig áhuga þeirra útlendinga, sem kynna sér starfsemi leikskóla á Íslandi, því að óvíða ef nokkurs staðar er þetta hlutfall jafnlágt.

Þessi staðreynd kallar á mikinn fjölda vel menntaðs starfsfólks í leikskólum og einnig hitt, að sveitarfélög, sem annast rekstur leikskólanna, vinna markvisst að því að fjölga þessum skólum. Árið 1994 var samþykkt ný löggjöf um leikskóla. Framkvæmd hennar hvetur einnig til átaks í menntamálum leikskólakennara.

Í erindi Jóns Torfa Jónassonar prófessors á menntaþingi hér í Háskólabíói í gær, benti hann á, að starfsnám, sem stúlkur hafa einkum sótt flytjist smám saman á háskólastig. Þetta á meðal annars við um nám leikskólakennara. Í upphafi þessa árs heimilaði ég Háskólanum á Akureyri að stofna námsbraut í leikskólakennslu við kennaradeild skólans. Hófu fyrstu 28 nemendurnir nám þar 1. september síðastliðinn. Standa vonir til þess, að strax næsta haust fjölgi síðan nemendum.

Hugmyndir að lögum um uppeldisháskóla liggja fyrir og eru til úrvinnslu í menntamálaráðuneytinu. Við lokagerð þeirra eru það einkum almenn ákvæði um stjórnsýslu í háskólum, sem krefjast sérstakrar athugunar í tengslum við mótun heildarstefnu fyrir háskólastigið. Hef ég fullan hug á því, að á næstu vikum verði teknar stefnumótandi ákvarðanir um það mál.

Gert er ráð fyrir því, að Fósturskóli Íslands verði einn þeirra skóla mynda nýjan uppeldisháskóla ásamt með Kennaraháskólanum, Þroskaþjálfaskólanum og Íþróttakennaraskólanum.

Þannig er stefnt að því, að öll menntun leikskólakennara verði á háskólastigi. Fyrir liggja tillögur um skipulag og efni þessa háskólanáms. Byggjast þær á því, að um þriggja ára 90 eininga nám verði að ræða, og mun námið skiptast í uppeldisgreinar, kennarafræði og verklegt nám í leikskólum.

Með þessari breytingu verða gerðar sömu kröfur til allra, sem stunda kennaranám. Þá aukast samskipti og samvinna nemenda og kennara á öllum skólastigum við að starfa í sömu stofnun.

Nú liggja fyrir staðfestar tillögur að deiluskipulagi á lóðum Sjómannaskólans í Reykjavík og Kennaraháskóla Íslands, þar sem gert er ráð fyrir aðsetri uppeldisháskóla. Hef ég falið nefnd embættismanna og fulltrúa stjórnarflokkanna tveggja að gera tillögur að áætlun um það, hvernig staðið verði að því að fjármagna byggingar á háskólastigi utan Háskóla Íslands.

Þar til uppeldisháskólinn kemur til sögunnar þarf að auðvelda Fósturskóla Íslands að breyta námskröfum sínum og einnig að gera honum kleift að útskrifa nemendur með háskólagráðu í samvinnu við Kennaraháskólann.

Unnið hefur verið að því undanfarið að endurskoða löggjöf um lögvernduð réttindi kennara og undaþágur frá þeim. Hingað til hafa þessi lög einungis tekið til kennara í grunnskólum og framhaldsskólum. Hef ég gert tillögu um, að í endurskoðun laganna verði bætt við sérstökum kafla um leikskólakennara. Hefur tilmælum um samvinnu við þessa lagasmíð verið komið á framfæri við þá, sem hlut eiga að máli. Vænti ég þess, að góð samvinna takist um niðurstöðuna.

Góðir áheyrendur!

Það var gæfa Fóstruskóla Sumargjafar fyrir 50 árum, að frú Valborg Sigurðardóttir réðst til hans sem fyrsti skólastjóri. Verður afmælis Fósturskóla Íslands ekki minnst með verðugum hætti án þess að geta einstaks framlags frú Valborgar til íslenskra menntamála.

Nýkomin frá námi í Bandaríkjunum með masterspróf í uppeldis- og sálarfræði lagði hún grunn að skóla, sem átti sér enga hefðu í íslensku skólakerfi og stjórnaði honum síðan með mikilli reisn í tæp 40 ár. Árið 1982 tók frú Valborg að sér að vinna að gerð uppeldis- og starfsáætlana á dagvistarheimilum á vegum menntamálaráðuneytisins. Ritaði hún einnig fræðslurit um hinn fræðilega grunn leikskólastarfsins, sem hún hefur mótað hér á landi.

Var mikil gæfa fyrir leikskólabörn og þá, sem bera hag leikskóla fyrir brjósti, að frú Valborg tók að sér þessi vandasömu störf. Vil ég við þetta tækifæri þakka frú Valborgu þrotlausa og fórnfúsa vinnu hennar í þágu þessa góða málefnis. Brautryðjendastarf hennar verður seint fullmetið.

Til móts við nýja tíma, var kjörorð menntaþingsins, sem við héldum hér í gær. Vakti það sérstaka ánægju og athygli okkar, sem að þinginu stóðum, hve mikinn áhuga leikskólar sýndu á þátttöku í því með kynningu á starfi sínu. Tel ég það enn til marks um metnaðarfullt starf á þessu skólastigi.

Fósturskóli Íslands stendur á tímamótum í fleiri en einum skilningi. Hann byggir á traustum grunni og nemendum hans bíða mörg mikilvæg verkefni. Æ betur verður ljóst, hve fyrstu ár mannsævinnar skipta miklu fyrir lífshamingu og heillavænlegt ævistarf. Þörf okkar Íslendinga fyrir vel menntaða einstaklinga eykst jafnt og þétt. Framtíð þjóðarinnar ræðst af menntunarstigi hennar.

Ég óska Fósturskóla Íslands til hamingju á 50 ára afmæli hans.