22.9.1996

Ávarp í Menntaskólanum á Akureyri

Ávarp í Menntaskólanum á Akureyri
22. september 1996.

Síðast kom ég hingað í Menntaskólann á Akureyri með Ole Vig Jensen, menntamálaráðherra Danmerkur. Þegar við hittum Tryggva Gíslason skólameistara í skrifstofu hans, sæmdi hann danska ráðherrann gullmerki skólans og greindi frá hefðum um meðferð þess. Fyrir nokkrum vikum hitti ég hinn danska starfsbróður minn í Kaupmannahöfn, þegar við rituðum undir norrænt samkomulag um aðgang að háskólamenntun. Tók ég eftir því, að hann bar í barmi sínum uglu Menntaskólans á Akureyri. Hafði hann á orði við mig, að af þessu skólamerki væri sér sannur heiður.

Mér er einnig heiður og ánægja að vera hér í dag, þegar hið nýja hús Menntaskólans á Akureyri er tekið í notkun. Er sannarlega tímabært að bæta húsakost þessa ágæta skóla, sem útskrifar framúrskarandi stúdenta eins og meðal annars má sjá í skýrslum Háskóla Íslands um árangur í einstökum deildum hans.

Menntaskólinn á Akureyri er hinn rétti arftaki latínuskólans á Hólum, sem formlega var lagður niður 1802, þegar hinir gömlu skólar biskupanna voru sameinaðir í Hólavallaskóla í Reykjavík. Var kennsla þá mjög á fallanda fæti á Hólum og skólastofan sögð svo lág, að piltar hefðu ekki getað staðið þar réttir og ekki hefði verið þar neinn ofn. Raunar tók ekki annað betra við í Reykjavík, því að þar var sami “viðurbúníngur handa báðum skólum eins og fyrr hafði verið handa einum;" segir Jón Sigurðsson forseti í ritgerð um skóla á Íslandi og bætir við um Hólavelli “skólahúsið var verra en hjallur, og 1804 var skrifað, að það væri “verra en svo því yrði lýst; þar væri ekki hestum líft, því síður mönnum"."

Þetta nýja hús er nefnt Hólar til að minna á hin sögulegu tengsl. Aðbúnaður hér á þó ekkert skylt við þessa lýsingu á því, sem var á sinni tíð, þegar niðurlæging skólastarfs í landinu var sem mest. Raunar er okkur hollt að minnast þess, að lengstan hluta þess tíma, sem Íslendingar hafa búið í landi sínu, hafa þeir orðið að brjótast til mennta fyrir eigin ramleik. Skólaganga var munaður örfárra.

Ritgerðir Jóns Sigurðssonar forseta um skólamál fyrir um 150 árum miða að því að efla skilning manna á nauðsyn skóla. Hann segir óhætt að fullyrða, að “allir þeir, sem nokkuð vit hafa á því, sem heitir þekking, eða virðíngu fyrir menntum og kunnáttu, hafi miklar mætur á skólunum..."

Nú þarf ekki að færa nein slík rök fyrir því, að skólar starfi eða greitt sé opinbert fé til þeirra. Á Norðurlandi eru fimm framhaldsskólar, bændaskóli á Hólum og auk þess háskóli hér á Akureyri. Hefur ríkisstjórnin þann ásetning að treysta undirstöður þessa skólastarfs eftir því sem efni leyfa. Mestu skiptir að sjálfsögðu, að skólarnir hafi burði til að veita nemendum menntun, sem stenst eðlilegar kröfur.

Menntaskólinn á Akureyri er í hópi þeirra, sem hafa áunnið sér traustan sess. Innan hans hefur tekist að sameina hæfilega íhaldssemi og skynsamleg viðbrögð við samtímakröfum. Skólinn veitir nemendum sínum góða, sígilda menntun. Yfirbragð hans er í samræmi við almennar kröfur um góðan skólaanda.

Á síðasta vetri samþykkti Alþingi ný lög um framhaldsskóla. Eftir að grunnskólinn hefur verið fluttur til sveitarfélaganna, ætti ríkið að leggja meiri alúð en áður við framhaldsskólastigið. Er áhyggjuefni, hve margir flosna upp úr námi á því stigi. Þótt fjármunir skipti að sjálfsögðu miklu, þegar hugað er að árangri í framhaldsskólunum, er hitt ekki minna virði að nýta takmarkaða fjármuni með markvissum hætti.

Ríkisstjórnin hefur sett sér það markmið að ná niður halla á ríkissjóði á næsta ári. Er það gert að ráði þeirra, sem besta þekkingu hafa á stjórn efnahagsmála. Óhæfileg opinber skuldasöfnun er í eðli sínu ekki annað en að kasta eyðslu umfram efni á herðar komandi kynslóða. Til að stemma stigu við slíkri eyðslu hafa öll ráðuneyti orðið að draga saman seglin við gerð fjárlaga fyrir næsta ár.

Í menntamálaráðuneytinu hafa menn leitast við að haga samdrætti í útgjöldum þannig, að sem minnstu tjóni valdi. Minni fjárráð hindra ekki að á næstu vikum verður markvisst ráðist í það verkefni að semja nýja námskrá fyrir grunn- og framhaldsskóla. Er stefnt að því að verkinu ljúki sumarið 1998.

Framkvæmd nýju framhaldsskólalaganna er hafin og verður unnið að henni stig af stigi. Hefur verið lagt á ráðin um, hvernig það verði gert í sem bestu samráði við þá, sem í skólunum starfa. Stjórnendur skóla bera meiri ábyrgð en áður og fá einnig aukið frelsi við mótun skólastarfs hver á sínum vettvangi og við meðferð fjármuna.

Góðir áheyrendur!

Við komum hér saman í dag til að fagna nýjum áfanga í byggingarsögu Menntaskólans á Akureyri. Glæsilegt hús er risið af grunni. Það verður búið tækjum, sem eiga að gera skólanum kleift að nýta sér nýjustu tölvu- og upplýsingatækni.

Með þessu mikla húsi er byggingarsögu skólans ekki lokið, því að áform eru uppi um að bæta við heimavist skólans. Víðar um land vilja skólastjórnendur ráðast í slíkar framkvæmdir. Í nýjum framhaldsskólalögum er mælt fyrir um skiptingu byggingarkostnaðar heimavista milli ríkis og sveitarfélaga. Ég tel, að skoða verði þetta mál í heild í samvinnu við þá, sem sinna ferðaþjónustu, og samtök framhaldsskólanemenda.

Við blasir, að ekki ríkir jafnræði meðal þessara nemenda að því er heimavistir varðar og fjármögnun þeirra úr opinberum byggingarsjóðum. Vil ég beita mér fyrir því, að menn nálgist þetta viðfangsefni úr nýrri átt til að skapa því sjálfbæran grundvöll, ef ég má orða það svo. Þar tel ég Félagsstofnun stúdenta við Háskóla Íslands æskilega fyrirmynd og kanna beri hvort unnt sé að koma á fót svipaðri stofnun á landsvísu fyrir alla framhaldsskólana.

Samningur Héraðsnefndar Eyjafjarðar annars vegar og ráðuneyta menntamála og fjármála hins vegar um byggingu þessa húss, sem hér er risið, var undirritaður í apríl 1994. Vil ég þakka héraðsnefndinni og fulltrúum hennar í byggingarnefnd samstarfið og þann góða hug í garð Menntaskólans á Akureyri, sem störf nefndarmanna hafa sýnt. Er ljóst að skólinn á góða að í sinni heimabyggð og er það ekki lítils virði. Gert er ráð fyrir að á næsta ári verði hlutur ríkisins að fullu greiddur og vona ég, að um það náist góð sátt. Síðan blasir við að halda byggingarframkvæmdum við framhaldsskóla hér á Akureyri áfram og verður ráðist í næsta áfanga húss Verkmenntaskólans.

Ég lýk máli mínu með því að óska þess, að hér í þessu nýja húsi, Hólum, megi skólastarf blómgast og góðir nemendur komast til meiri þroska.