Listahátíð 1996 - setningarávarp
Ávarp við upphaf Listahátíðar í Reykjavík 1996
Listasafn Íslands, 31. maí 1996
Öllum er bæði hollt og nauðsynlegt að setja sér háleit markmið. Stefna að því sem er mikils virði. Sumt tekst okkur, öðru verðum við fráhverf og loks þurfum við stundum að lúta í lægra haldi.
Með Listahátíð í Reykjavík setjum við okkur markmið. Við heitum því að bjóða á tveggja ára fresti hið besta í listum. Hátíðin hefur haft áhrif langt út fyrir þann tíma, sem hún sjálf stendur eða lesa má í ágætri dagskrá hennar hverju sinni. Hún hefur hvatt íslenska listamenn til dáða og vegna hennar hafa listaverk bæði verið sköpuð hér á landi eða frumflutt. Þessi áhrif verða aldrei metin til fulls.
Frá því að hátíðin var fyrst sett sumarið 1970, hefur leitin að hinu besta hverju sinni stöðugt haldið áfram. Eigum við ekki síst Vladimir Ashkenazy, heiðursforseta hátíðarinnar, að þakka, hve hátt markið var sett í upphafi. Ég vil ekki heldur láta hjá líða að minnast framlags frú Vigdísar Finnbogadóttur, forseta Íslands, til Listahátíðar. Hefur það haft ómetanlegt gildi að forseti hefur verið verndari hátíðarinnar og skal nú þakkað.
Þjóðir keppa ekki síður í listum en á öðrum vettvangi. Þessi samkeppni er raunar ekki aðeins milli þjóða heldur einnig landshluta og borga. Hvarvetna átta menn sig á því, að besta leiðin til að skara fram úr er að leggja rækt við menntun og menningu og til að laða til sín gesti að bjóða þeim að njóta lista.
Hvað kemur okkur fyrst í huga, þegar borgir eins og Vín og Salzburg eru nefndar? Er það ekki Mozart og óperusöngvarar eða Vínarvalsar og Strauss?
Nýlega kynnti samgönguráðherra stefnumörkun í ferðamálum. Að mínu mati er ekkert betra til að skapa nýja vídd í íslenskri ferðamennsku og festa hana enn betur í sessi sem öfluga atvinnugrein en aukin áhersla um allt land á listir og menningu. Ætti það ekki að vera erfitt, þegar litið er til hinnar miklu grósku, sem einkennir íslenskt listalíf um þessar mundir. Er gleðilegt að í hinni nýju ferðamálastefnu setja menn sér markmið að þessu leyti.
Við framkvæmd menningarlegrar ferðamálastefnu má læra margt af þeim, sem hafa unnið að undirbúningi Listahátíðar í Reykjavík. Hún er nú haldin í fjórtánda sinn og á þeirri vegferð hefur dýrmæt reynsla fengist, sem ætti að geta nýst öðrum. Dagskráin nú ber þess merki, að við hana hefur verið lögð mikil alúð. Vil ég þakka öllum, sem að því hafa unnið. Er þess að vænta, að sem flestir njóti hátíðarinnar til að auðga anda sinn.
Góðir áheyrendur!
Tilviljun réð því ekki, að nefndar voru tvær austurrískar borgir, þegar menningarlegra afreka var getið. Í augum heimsins alls er Austurríki einstakt menningarland. Góðan hug sinn til okkar Íslendinga sýna Austurríkismenn með því að senda hingað á listahátíð 1996 hina veglegu myndlistarsýningu með verkum eftir þá Egon Schiele og Arnulf Rainer, sem opnuð verður hér á eftir.
Það dregur ekki úr ánægju okkar yfir þessu framtaki Austurríkismanna, að hingað er komin frú Elisabeth Gehrer, menningarmálaráðherra Austurríkis, og heiðrar hún okkur með nærveru sinni hér í kvöld. Býð ég hana innilega velkomna og færi henni alúðar þakkir fyrir framlag hennar og áhuga á þessari hátíð.
Með þessum orðum lýsi ég því yfir, að Listahátíð í Reykjavík 1996 er hafin.