10.5.1996

Vorfundur leikskólakennara - ræða

Ávarp á vorfundi fulltrúaráðs Félags íslenskra leikskólakennara
10. maí 1996, kl. 13:00

Menntun leikskólakennara hófst hér á landi árið 1946 og fram til ársins 1971 var hún samhliða menntun grunnskólakennara á framhaldsskólastigi. Sömu kröfur voru gerðar til undirbúnings og námið tók jafn langan tíma fyrir báðar stéttir. Menntun grunnskólakennara fluttist á háskólastig árið 1971 en til þessa hefur menntun leikskólakennara verið á framhaldsskólastigi. Nú hefur verið ákveðið, að eftir 25 ára aðskilnað á tveimur skólastigum verði menntun grunnskólakennara og leikskólakennara aftur á sama stigi, háskólastiginu.

Menntun leikskólakennara hefur um nokkurt skeið verið til umfjöllunar í menntamálaráðuneytinu og t.d. skipaði þáverandi ráðherra, Birgir Ísleifur Gunnarsson, nefnd árið 1988 til að fjalla um framtíðarskipan í námi stéttarinnar. Nefndin komst ekki að sameiginlegri niðurstöðu en meirihluti hennar lagði til að menntunin yrði flutt á háskólastig og Fósturskóli Íslands sameinaður Kennaraháskólanum innan fimm ára.

Einnig má rifja upp að félag ykkar hefur sent ráðuneytinu ályktanir þar sem óskað er eftir að nám stéttarinnar verði endurskoðað og sameinað kennaranámi við KHÍ. Skólanefnd Fósturskólans sendi einnig ráðuneytinu bréf í árslok 1989 með tilmælum um að námið yrði endurskoðað og sameinað kennaramenntuninni. Helstu rök fyrir þessu hafa verið að menntun leik- og grunnskólakennara byggi á sameiginlegum fræðilegum grunni og að ítrekaðar samþykktir Evrópuráðsins hvetji til að gerðar verði sambærilegar menntunarkröfur til kennara í leikskólum og grunnskólum. Lögð hefur verið áhersla á að nám þessara stétta verði í sömu stofnun til að tryggja samfellu í námi og starfi leikskóla og grunnskóla. Í aðalnámskrá grunnskóla og uppeldisáætlun fyrir leikskóla er lögð áhersla á þessa samfellu.

Með bréfi, dags. 5. mars sl.,var tilkynnt sú ákvörðun mín að heimila Háskólanum á Akureyri að stofna námsbraut í leikskólakennslu við kennaradeild skólans. Rökin fyrir þessari ákvörðun á þessum tíma voru annars vegar veruleg þörf fyrir vel menntaða leikskólakennara og hins vegar að á þessum tíma var undirbúningur frumvarps um uppeldisháskóla kominn á fullan skrið. Í menntamálaráðuneytinu er nú unnið að undirbúningi þess frumvarps. Að verkinu vinnur Ólafur H. Jóhannsson, endurmenntunarstjóri Kennaraháskóla Íslands, ásamt embættismönnum ráðuneytisins. Við frumvarpsgerðina er eftirfarandi haft til hliðsjónar:


Með lögunum verður sameinuð starfsemi fjögurra stofnana: Fósturskóla Íslands, Kennaraháskóla Íslands, Íþróttakennaraskóla Íslands og Þroskaþjálfaskóla Íslands. Þar með verða tekin af tvímæli um að menntun þessara stétta er á háskólastigi.
Lögin verða rammalög sem geri stofnuninni kleift að þróast og móta starfsemi sína og starfshætti án þess að til þurfi að koma lagabreytingar.
Skýrt verður afmarkað í lögum hverjir fara með formleg völd og ábyrgð í stofnuninni.
Gert er ráð fyrir að stofnuninni verði fengið sjálfdæmi um flest sín málefni nema fjármagn. Til greina kemur að menntamálaráðuneytið setji ekki reglugerð um skólann, heldur beri yfirstjórn hans ábyrgð á að setja reglur sem í einhverjum tilvikum þyrftu að hljóta staðfestingu menntamálaráðherra.
Ekki virðist nauðsynlegt í lögunum að kveða á um hvaða nám skuli vera í boði innan uppeldisháskólans heldur komi fram í greinargerð með frumvarpinu að þessi nýja stofnun tekur við lögboðnum skyldum þeirra skóla, sem lagðir verða niður.
Til álita kemur að tilgreina ekki í lögum hvernig deildarskipan skólans skuli vera, en taka fram á hvaða stigi nám skuli boðið fram, grunnnám til B.Ed. gráðu eða hluti þess, endur- og símenntun og framhaldsnám til æðri prófgráðu.
Mikilvægt er að unnt sé að marka stefnu um fjármál til lengri tíma en til eins árs eins og raun hefur verið. Það er hugsanlegt að gera með samningstjórnun þar sem felld er saman stefnumörkun skólans og fjárveitingar af hálfu ríkisvaldsins, t.d. til þriggja ára í senn.
Á vegum menntamálaráðuneytisins er að því stefnt að frumvarp um uppeldisháskóla liggi fyrir í meginatriðum samhliða frumvarpi um háskólastigið í heild en að því er nú unnið á vegum ráðuneytisins. Í frumvarpi um háskólastigið verða væntanlega gefnar ýmsar forsendur sem hafa munu áhrif á lög um einstakar háskólastofnanir.

Á uppeldismálaþingi sem haldið var 23. mars sl. gerði Ólafur H. Jóhannsson grein fyrir framangreindum áherslum. Jafnframt fjallaði hann um aðdraganda að þessari vinnu, m.a. nefndarálit um eflingu uppeldis- og kennaramenntunar sem fram kom í mars 1995. Í þessu nefndaráliti var lagt til að fyrrnefndir fjórir skólar yrðu sameinaðir í eina stofnun á háskólastigi. Fjölmargir aðilar fengu nefndarálitið til umsagnar og fram kom breið samstaða um þessa leið. Í umsögn komu m.a. fram ábendingar um að sértækir þættir í mennun leikskólakennara og þroskaþjálfa mættu ekki glatast við sameininguna. Ég tek undir þetta sjónarmið. Jafnhliða eðlilegri samræmingu sameiginlegra þátta í menntun uppeldisstétta í nýjum háskóla er mikilvægt að sérkenni í menntun hverrar stéttar fái að halda sér. Skýr skilgreining á kröfum er gera þarf til starfa leikskólakennara er forsenda þess að hægt sé að skipuleggja markvisst nám.

Um þessar mundir er unnið markvisst að því að flytja leikskólakennaramenntun á háskólastig. Í fyrsta lagi er starfandi nefnd á vegum ráðuneytisins til að gera tillögur um innihald og skipulag náms fyrir leikskólakennara á háskólastigi. Í nefndinni eiga sæti fulltrúar frá Félagi íslenskra leikskólakennara, Fósturskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri, Kennaraháskóla Íslands og ráðuneytinu. Nefndinni er ætlað að skila tillögum sínum nú í júní. Í öðru lagi er starfandi vinnuhópur á vegum Háskólans á Akureyri til að undirbúa menntun leikskólakennara sem hefst þar í haust og í þriðja lagi starfar vinnuhópur kennara í Fósturskólanum nú að endurskoðun námskrár með aðlögun að háskólastiginu sem markmið.

Þrátt fyrir umfangsmikla undirbúningsvinnu og að því er virðist breiða samstöðu um málið verður vart hjá því komist að svona róttækar breytingar valdi óvissu og öryggisleysi hjá starfsmönnum, og nemendum þeirra skóla sem breytingarnar snerta.

Ég tel eðlilegt að þeir nemendur sem þegar hafa innritast í Fósturskólann ljúki námi sínu og útskrifist frá skólanum samkvæmt því fyrirkomulagi sem þar gildir nú.

Nauðsynlegt er að áfram verði markvisst unnið að endurskoðun námskrár Fósturskóla Íslands með það fyrir augum að aðlaga kennsluna að háskólastigi.

Nái frumvarp um uppeldisháskóla fram að ganga og komi það til framkvæmda innan þriggja ára mun ég beita mér fyrir því að þeir nemendur sem innritast í Fósturskóla Íslands í haust útskrifist frá nýjum uppeldisháskóla með háskólagráðu, teljist lagalegur grundvöllur vera fyrir því. Jafnframt er ég reiðubúinn til að stuðla að formlegu samstarfi milli Fósturskóla Íslands og háskóla til að tryggja að menntun þeirra nemenda er innritast í skólann í haust standist kröfur sem gerðar eru til alþjóðlegrar háskólagráðu að þremur árum liðnum.

Að því er varðar lögverndun starfsréttinda leikskólakennara, vil ég geta þess, að þau mál verða tekin til athugunar við endurskoðun á lögum um vernd kennararéttinda.

Góðir áheyrendur.

Menntun leikskólakennara er nú á tímamótum. Flutningur hennar frá framhaldsskólastigi til háskólastigs er vandasamt verk sem krefst mikillar nákvæmni og umhyggju. Eins og ég hef rakið hér að framan er umfangsmikil undirbúningsvinna hafin og þrátt fyrir að verkið sé flókið er ég sannfærður um að það muni ganga vel.

Ég vil að lokum þakka Félagi íslenskra leikskólakennara sérstaklega fyrir aðild félagsins að þessu máli og vona að samstarf félagsins við ráðuneytið verði jafn gott í framtíðinni og hingað til.