27.4.1996

Hugvísir - ávarpÁvarp Björns Bjarnasonar
við verðlaunaafhendingu og sýningu á verkum þátttakenda í Hugvísi 1996
í Hinu húsinu, laugardaginn 27. apríl kl. 15.00

Góðir áheyrendur og keppendur!

Samkeppni, árangur og alþjóðasamvinna eru lykilorð í verkefnaáætlun menntamálaráðuneytisins sem kom út í febrúar síðastliðnum. Meginmarkmið í menntamálum er að íslenska skólakerfið veiti menntun og þjónustu sem stenst samanburð við það besta sem þekkist á alþjóðlegum vettvangi.

Samkeppnin Hugvísir - hugmyndasamkeppni ungs fólks í vísindum og tækni endurspeglar að mörgu leyti áherslur í verkefnaáætlun ráðuneytisins. Með henni er verið að stuðla að samkeppni á milli einstaklinga og skóla, hún er mælikvarði á árangur og þeir keppendur sem bera sigur úr býtum hér á landi taka þátt í stærri samkeppni á alþjóðavettvangi, en keppnin er hluti af mannauðsáætlun Evrópusambandsins sem Ísland tekur þátt í með samningnum um EES. Auk þess er keppnin dæmi um mikilvæga samvinnu skóla og atvinnulífs. Mmenntamálaráðuneytið hefur styrkt keppnina en ÍSAGA hf. hefur séð um stærstan hluta fjármögnunarinnar. Þessir aðilar ásamt Fræðsluskrifstofu Reykjavíkur, í samvinnu við fagfélög á sviði vísinda og tækni gangast fyrir keppninni hérlendis en sjálf Evrópukeppnin er haldin á vegum Evrópusambandsins. Keppnin er opin öllum skólanemum á aldrinum 15-20 ára. Mörg athyglisverð verkefni hafa komið fram og á síðasta ári fengu nemendur úr framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum 3. verðlaun í Evrópukeppninni í Newcastle í Englandi. Það er glæsilegur árangur sem við Íslendingar eigum að vera stolt af.

Hugvísir er dæmi um aukið alþjóðasamstarf Íslendinga. Hún minnir íslenska nemendur á að þeir búa í alþjóðlegu mennta- og rannsóknaumhverfi og að þeir eigi ekki einungis að vera í samkeppni við jafnaldra sína hér á landi heldur einnig í öðrum löndum. Aukin alþjóðasamkeppni endurspeglast til dæmis í því að sífellt fleiri íslenskir nemendur hyggja á nám erlendis. Árangur þessara nemenda er misjafn. Þeir komast í misgóða skóla og standa sig misvel. Við höfum verið stolt af þeim sem hafa staðið sig vel og margir hafa fullyrt að íslenskir námsmenn standi sig afburðavel á erlendum vettvangi. Staðreyndin er þó sú að nemendunum sjálfum finnst þeir ekki alltaf vera nægilega vel undirbúnir. Ég hitti til dæmis unga konu fyrr í þessari viku sem er nýkomin úr 4 ára námi frá virtum erlendum háskóla. Hún hafði verið afburðanemandi í íslenskum grunnskóla og síðan framhaldsskóla en þegar hún hóf nám í erlenda háskólanum fannst henni bekkjarfélagar sínir standa mun betur að vígi ekki síst í tjáningu og sköpun þó að þeir væru 2 árum yngri. Á þessu sjáum við að gott íslenskt skólakerfi má bæta.

Við þá námskrárvinnu fyrir grunnskóla og framhaldsskóla sem nú er að hefjast hef ég lagt áherslu á að tekið verði mið af kröfum sem gerðar eru til nemenda í þeim löndum þar sem menntun er best á hverju sviði. Til dæmis á að gera samanburð við erlendar námskrár. Vaxandi aðstókn að erlendum háskólum eykur samkeppni milli nemenda um aðgang að bestu háskólunum. Til að auðvelda þátttöku í þeirri keppni, þarf undirbúningur íslenskra nemenda að vera góður og námskrá og kröfur sambærilegar og í öðrum löndum. Einnig er mikilvægt að íslenskir nemendur ljúki sambærilegum prófum á svipuðum tíma og erlendir jafnaldrar þeirra.

Góðir áheyrendur!

Ég er eindregið þeirrar skoðunar, að samkeppnisstaða íslensku þjóðarinnar ráðist af menntun okkar, rannsóknum og vísindum, sem nýtast í atvinnulífi þjóðarinnar. Staðreynd er að þær þjóðir, sem verja mestum fjármunum í menntun og rannsóknir, búa við betri lífskjör og meira efnahagslegt öryggi en aðrar.

Ég lít svo á að styrkur til keppni sem þessarar sé arðbær fjárfesting til lengri tíma litið. Keppnin er mikilvæg hvatning fyrir nemendur sem hafa áhuga á að hasla sér völl í vísinda- og rannsóknarstarfi og vekur þá jafnframt til umhugsunar um stöðu sína í alþjóðlegu umhverfi. Það unga fólk sem á eftir að taka á móti verðlaunum hér í dag má vera stolt af árangri sínum. Ég vil óska þeim velfarnaðar í framtíðinni og hvet þau til að vera sjálfum sér og þar með landi og þjóð til sóma í alþjóðlegu keppninni í Arizona í Bandaríkjunum og annars staðar þar sem þau koma fram fyrir Íslands hönd.