19.4.1996

Sýning Barböru Árnason - ávarp

Ávarp í Listasafni Kópavogs við opnun sýningar á verkum Barböru Árnason
19. apríl 1996.

Segja má, að skammt sé stórra viðburða á milli hér í Gerðarsafni. Í hinni glæsilegu umgjörð Listasafns Kópavogs gefst okkur tækifæri til að sækja hverja stórsýninguna eftir aðra. Nú prýða hér sali verk úr hinni höfðinglegu gjöf, sem minningarsjóður Barböru og Magnúsar Á. Árnasonar færðu Kópavogsbæ árið 1983. Hér gefst að líta yfirlit yfir list Barböru Árnason.

Síður en svo var sjálfgefið, að ung ensk listakona settist að á Íslandi um það leyti, sem Barbara tók ástfóstri við ættjörð eiginmanns síns Magnúsar Á. Árnasonar. Um sömu mundir og þau stofnuðu heimili sitt að Lækjarbakka við Borgartún í Reykjavík 1937, var önnur erlend listakona, sem hafði gifst Gunnlaugi Scheving listmálara að yfirgefa Ísland, af því að henni þótti að eigin sögn óhugnanlegt að búa hér.

Hið sama verður ekki sagt um Barböru, þau Magnús bjuggu í 22 ár í Reykjavík og fluttu 1959 hingað í Kópavog og kölluðu hús sitt við Kársnesbraut Unnarbakka. Þar bjó Barbara þangað til hún andaðist 31. desember 1975.

Þegar litið er yfir viðfangsefni Barböru, hljóta menn fljótt að staðnæmast við, hve íslensk þau eru, ef ég má orða það svo. Á þetta jafnt við um myndefni hennar og þau efni, sem hún notaði til listsköpunar. Til dæmis vann hún myndir úr íslenskum lopa og sýndi í París 1964. Birtust tvær myndir af teppum hennar í franska tímaritinu Hús og garður og vildi Pierre Cardin tískukóngur framleiða flíkur, sem Barbata vann úr íslenskri ull undir eigin nafni, en hún hafnaði því.

Í vitund margra mun Barbara Árnason tengjast Passíusálmum Hallgríms Péturssonar um ókomin ár. Áhuginn á að myndskreyta sálmana kviknaði hjá henni sjálfri og í sjö ár vann hún að því. Hreifst hún eins og svo margir aðrir að einlægni séra Hallgríms. Dr. Sigurbjörn Einarsson biskup ritaði formála að hinni myndskreyttu útgáfu sálmanna, þegar Menningarsjóður sendi hana frá sér 1961, og þar segir hann að þetta sé "fyrsta passía í myndum, sem vér höfum eignast, en hitt er þó meira, að hún er gerð af frábærri list." Og biskupinn bætir við:"Myndir Barböru munu jafnan taldar meðal merkustu tíðinda á ferli Passíusálmanna."

Góðir áheyrendur!

Þeir listamenn, sem hljóta slíka einkunn, þurfa ekki að óttast, að nafn þeirra eða list gleymist. Þegar upp er staðið, er Barbara Árnason ekki aðeins að glíma við íslensk viðfangsefni heldur er hún orðin meðal merkisbera íslenskrar listar.

Við höfum því margar ástæður til að fagna þeirri sýningu, sem er að hefjast hér í kvöld. Ég óska Listasafni Kópavogs til hamingju með hana.

Ég lýsi þessa yfirlitssýningu á verkum Barböru Árnason opna.